Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

Svart eða hvítt – eða svart og hvítt

Um slaufun og útilokun, þröngsýni og heimsku

Daglega er fólki slaufað, sett í skammarkrók, vinskap eytt, útilokað – og oft vegna ummæla.

Svart/hvítur hugsunarháttur er merki um þröngsýni og það að vinstra heilahveli sé meira beitt en hinu hægra.

Vinstra heilahvelið stýrir hægri hönd, þeirri sem hrifsar bráðina (veiðieðlið), þar er hugsunin annað hvort eða – og þar býr reiðin. Allt er annaðhvort svart eða hvítt.

Hér vitna ég í örstuttu máli í skýringar fræðimannsins Iain McGilchrist, sem ég hef lesið síðustu misserin og hlustað á í fjölda viðtala og fyrirlestrum. Hann er menntaður geðlæknir en að auki með nám í líffræði, bókmenntum og heimspeki. Framsetning mín er til einföldunar en fróðlegt er að lesa þessar bækur hans, The Master and His Emmisary og The Matter With Things. Tengillinn er í tómarúminu á milli sviganna! (https://channelmcgilchrist.com/about/)

Hægra heilahvelið sér samhengi, litbrigði, tengingar og margt fleira. Það er víðsýnt og viturt.

Hið vinstra heldur sig vita allt, en veit fremur fátt, meðan hið hægra veit nánast allt sem vitað verður. Við notum auðvitað bæði hvelin en þau hafa ólík hlutverk og einkenni.

Vinstra hvels fólkinu líkar ekki að þér líki við eitthvað í fari einhvers sem það hefur illan bifur á. Trump er í augum sumra alvondur, óalandi og óferjandi. Þorgerður Katrín, utanríkisráðherra, sagði eitthvað jákvætt um kallinn og það eitt og sér er að áliti sumra ótækt, viðbjóður, anathema. Svart eða hvítt – ekki snefill af neinu öðru. Og henni er af sumu fólki slaufað fyrir það eitt að sjá einhverja jákvæða þætti í fari hans.

Þetta er varhugaverður hugsunarháttur því allir menn, karla og konur, hafa í sér bæði svart og hvítt.

Jesús var með þetta á hreinu. Hann elskaði alla og sá gott í öllum. Hann kenndi heiminum að elska náungann og það merkir allar manneskjur. Honum var ljóst að allir menn eru syndugir, sem merkir að í þeim er geigun, tilhneiging til að missa marks, fara út af hinum rétta vegi.

Persóna og verk eru ekki það sama, persóna og skoðanir ekki heldur. Maður þarf ekki að láta sér vel líka allar skoðanir annarra. Okkur ber að elska náungann en ekki skoðanir hans eða gjörðir, hvað þá ill verk hans. Við megum sem sagt fara í botann en ekki manninn.

Mér ber að virða fólk af öllum trúarbrögðum enda þótt í kenningum sumra trúarbragða sé að finna atriði sem beinlínis stríða gegn allri skynsemi og elsku.

Þá er það Woke-ið eða Veknin. Vökustaurarnir eru flestir með svo mikið óþol og kláða að þeir verða að benda sínum dæmandi vísifingri á nánast allt sem andar. Breski leikarinn, John Gleese, sagði um Woke-hreyfinguna:

„Það er fólk sem bara situr þarna, og bíður vísvitandi eftir kikkinu sem kemur af því að vera móðgað.“

Enginn manneskja er bara svört eða hvít. Við erum öll bæði svört og hvít og hér vísa litirnir til eiginleika, gjörða okkar, útlits, persónu – alls!

Ég gæti líka notað orðin plús eða mínus til að fjalla um þetta – og sagt að við höfum öll í okkur í senn plús og mínus.

Slaufum ekki fólki en leyfum okkur að vera ósammála og setjum þá okkar eigin mótrök fram með skynsemi og virkni beggja heilahvela.

Á meðfylgjandi mynd, sem ég fann á vef Harvard Health Publishing, er reynt að túlka hlutverk og verklag heilahvelanna beggja:

Vinstra og hægra heilahvel
Segja má að verkfræðileg hugsun einkenni vinstra hvelið
en samhengi og víðsýni hið hægra

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons