Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

Að mála skegg á Mónu Lísu

þankar á sunnudegi 22. júní 2025

eftir Örn Bárð Jónsson

Höfundur greinar játar hér með ofangreint myndbrot – íkonóklastík!

Kaþólska kirkjan og sú Orthodoxa halda fast í gamlar hefðir. Þar eru messurnar dramatískar leiksýningar, helgileikir á hæsta stigi fagurfræði og listar.

Við, lútheranar, erum eins og léleg eftirlíking í samanburði við fyrrnefndar kirkjudeildir. Við erum búnir að missa Gregors-sönginn og Tíðargjörðin er ekki lengur við lýði með töfrum endurtekninga og takföstum bænasöng. Hún finnst að vísu eins og safngripur á tveimur eða þremur stöðum og þá eins og sjaldgæf stjarna á himinfestingunni.

Svo virðist mér Þjóðkirkjan vera að færast í einhvers konar uppákomu-stofnun í anda viðburða á Netinu. Hún er að verða að happening-stað þar sem sprell og sjálfum á Netinu er ætlað að sýna hvað við séum hipp og kúl.

Þetta er dæmt til að mistakast. Hin vitræna, cerebral nálgun með lærðum ræðum og dispútasjónum er góð og gild sem slík og víst er að prestar kaþólsku kirkjunnar hér á landi með erlendan bakgrunn ná fæstir að tala sem innfæddir. Góður og genginn kaþólikki úr leikarastétt sagði oftar en einu sinni við mig: „Örn minn, við þyrftum að hafa mann sem þig í kaþólsku kirkjunni því prestarnir okkar ráða ekki við að prédika á íslensku.“

Og ég sagði: En þeir kunna að messa og það kunna fáir innan Þjóðkirkjunnar.

Losaragangur okkar hvað varðar messuna, t.d. reglur Handbókarinnar frá 1981 um athafnir og orðfæri er orðið að smekksatriði fólks sem kann ekki að lúta neinu nema sjálfu sér. Dæmi eru um að börn hafi verið skírð með röngu orðfæri og þar með svikin um gjöf skírnarinnar. Skírn þeirra er ógild og þarf því að endurtaka!

Og nú á að breyta málfari og reyna að nálgast nútímann. Það verður ekki gert með einfaldari mat heldur alvöru fæðu, ekki með sjoppufæði heldur þríréttaðri máltíð eins og mamma eldaði alla daga ársins meðan hún var og hét.

Hefðir eru hollar og þær eru hagfræðileg stærð í andlegum skilningi. Þær halda gengi sínu og gildi.

Messan á að vera sem allra mest með fornu sniði, eins og mantra, andleg æfing, fagurlega flutt með virðingu fyrir hefðum og í andans auðmýkt.

Messan með sínum ávörpum, orðunum yður, oss og vér, er eins og helgimynd, sem ekki má breyta. Við breytum ekki verki Nínu í Skálholti, tökum ekki eina einustu mósaíkflís úr því verki og bætum engu við, né klæðum við Ufsakrist í regnbogapeysu.

Messan er listaverk kynslóðanna sem gengnar eru og í henni finnur fókið nið aldanna. Ekkert nýtt getur kallað fram þennan nið, þennan hljóm hinna helgu klukkna og bænasöngs Íslands og Rómar, Konstantinópels og Jerúsalem, nem heilög messa.

Það að forsmá arf aldanna má líkja við að mála skegg á hina fögru Monu Lísu eftir Leonardo da Vinci og brengla þannig brosið hennar óræða.

„Karlakirkjan“ – innan gæsalappa – mundi ekki einu sinni láta sér til hugar koma slíkt myndbrot eða íkonoklastík.

Og að lokum þessi orð vinar og kollega:

„Kristin menning hefur í eðli sínu jákvætt viðhorf til hins föðurlega – vill rækta það og efla til ábyrgðar. Ábyrg karlmennska og það að duga sér og sínum í anda hennar er ekkert til að skammast sín fyrir – þvert á móti.“ (ÞJ)

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons