Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

Að skilja ekki útundan

Um málfar helgihalds – Gengisfelling og atlaga að föðurímyndinni

Eftir Örn Bárð Jónsson sem les. Hlustun tekur 10:43 mín.

Shutterstock/Wondermind

Mánudaginn 16. júní 2025.

Greinarkorn þetta hefur legið í salti hjá mér í eina 10 daga og nú gef ég því vængi og sendi út fyrir þjóðhátíðardaginn í þeirri von að einhverjar hefðir lifi áfram í þessu landi. Svo er það efni í aðra grein að fjalla um kynuslann. Tek það fyrir síðar.

Í ónefndum bæ lá útlent skip við akkeri meðan áhöfnin fór í land að skemmta sér. Enginn vakt var um borð. Óprúttnir heimamenn réru út að skipinu um nótt með það fyrir augum að ræna og rupla. Þeir klifruðu upp kaðalstiga og komust um borð en einn var skilinn eftir til að gæta skektunnar við skipshlið. Honum var annt um sinn hag og hrópaði til þeirra: „Strákar, steliði líka fyrir mig!“ Það telst víst til kristinna dyggða að skilja ekki útundan og um það verður m.a. fjallað í niðurlagsorðum þessa greinarkorns.

Málhreinsun

Nú er mikil málhreinsun í gangi innan Þjóðkirkjunnar og eins og alþjóð þekkir þá sópa nýir vendir best. Nú skal taka til hendi og breyta málfari messunnar. Eigi verður lengur leyft að segja: „Drottinn sé með yður.“ Málfreyjurnar miklu halda víst að fólk skilji ekki lengur mál af þessu tagi og vilja segja: „Drottinn sé með ykkur.“

Orðin okkur og ykkur hljóma hörð og köld. Það flæðir bókstaflega allt í káum og því legg ég til að Þjóðkirkjan verði framvegis rituð með sex káum: Þjóðkkkirkkkjan til að nafnið kallist á við bænasöng ká-væðingarinnar.

Og blessaður sértu nú, Faðir minn

Svo á líka að kynbreyta signingunni og trúarjátningunni og strika Guð föður út og setja móður í staðinn.

Múrbrot feministanna gagnvart meintu feðraveldi aldanna hefur staðið í áratugi og virðist ganga vel með nýjum loftpressum og stórvirkum vinnuvélum og höggin berast líka úr háskólum heimsins og kannski kemur trúvillan einmitt þaðan.

Körlum er kennt um allt sem miður hefur farið í heimi kvenna í gegnum tíðina. Geta má þess þó að það voru tveir karlar sem „frelsuðu“ þær undan karlaveldinu með því að finna upp pilluna. Árangur réttindabaráttu kvenna hefði aldrei orðið barn í brók nema fyrir pilluna.

Veldi karla og kvenna stóðu hlið við hlið á hverjum bæ hér áður fyrr. Húsfreyjan réð öllu innanstokks en karlinn hinu ytra. Ég veit að ég verð vændur um einföldun, en þetta er ekki fræðileg ritgerð til prófs og þ.a.l. læt nægja að tæpa á flestum málum í þessum stutta pistli. En þessi grein er þó ekki rituð með hjálp vitlíkis eða gervigreindar eins og margir gera í mastersprófum sem mega ekki lengur heita meistarapróf uppá íslensku og gengisskráningu prófskírteina því vart treystandi.

Með því að taka föðurinn út úr grundvallartextum kirkjunnar og setja móður í staðinn er framkvæmt skemmdarverk og gerð atlaga að föðurímyndinni í sögu og samtíð. Hvers eigum við karlar að gjalda að vera ekki taldir til neins brúklegir? Hvaða skilaboð eru send til drengja og ungra karla? Í raun er verið að segja: „Bless, pabbi! Hér eftir tölum við bara um mömmu í fjölskyldu okkar!“ Verður það til bóta að snúa bara dæminu við? Svona bylting minnir á æði sem áður hefur gripið öfgafólk í sögunni. Þið þekkið slík dæmi. Og nú er vekni-liðið á ferð með sinn kláða, vökustaurarnir með uppglennt augu. Ykkur væri hollast að leggja ykkur um stund og fá ykkur blund til að hvíla heilann og leyfa honum að vinna sitt hreinsunarstarf.

Hlutverk beggja kynja eru mikilvæg

Feður eru ekki fullkomnir frekar en mæður. Kirkjan hefur frá fyrstu tíð gert konum hátt undir höfði. Konur voru margar meðal fylgjenda Krists og fyrstu vottar að upprisu hans. Viska og írónía Guðs kom m.a. fram í því að láta konur vera fyrstu votta upprisunnar því þær töldust ekki vitnisbærar á þeim tíma. Skemmtilegur mátleikur Himnaföðurins.

Kirkjan gaf konum ríkulegt tækifæri utan heimilis með því að ganga í klaustur til jafns við karla og láta um sig muna þar. Sum klaustrin urðu vísindastofnanir t.d. á sviði ræktunar og þar áttu nunnur ríkan hlut að máli og lögðu mikilvæg lóð á vogarskálar jurtafræðinnar eins og munkar gerðu líka. Á blómatíma klaustranna varð klausturlíf mörgum konum ígildi pillunnar sem leysti þær undan barneignum. Orðið Abbadís er sagt vera kvenkyns afbrigði af heitinu ábóti. Hugsanlega er sögnin að abbast komin af því. Nú abbast þær uppá karlkynið, sagði karlinn.

María móðir Jesú hefur verið hyllt sem mætust meðal kvenna. Þá mætti nefna skara margra merkra kvenna sem gengt hafa lykilhlutverkum í sögunni.

Faðir vor

Um brenglun bænar Drottins hef ég þegar fjallað í grein sem lesa má og hlusta á hér: https://ornbardur.com/2025/06/03/ad-brengla-heilaga-threnningu/

En hér ræði ég hvort ávarpið Faðir vor eigi að breyta í flatneskju.

„Faðir vor, þú sem ert á himnum“, segir í bæn Jesú. Algengur misskilningur er að hér sé um þérun að ræða en svo er ekki því um leið og orðinu vor sleppir er sagt, „þú sem ert á himnum“. Persónufornafnið vor í þessu tilfelli er hátignarfleirtala og í fornu máli var fornafnið við, notað um tvo (tvítala) en orðið vor (fleirtala) um þrjá og fleiri. Ef sagt verður „Drottinn sé með ykkur“ vísar það skv. fornri málhefð aðeins til tveggja. Það mun auðvitað vera viðeigandi ef svo fækkar í kirkjum að víða verði aðeins tveir, tvær eða tvö sem mæta til messu.

Ég hrökk í kút er ég mætti í messu sem haldin var á Austurlandi þar sem ég hef leyst af í vetur og vissi ekki af þessu málhreinsunaræði – sem fór framhjá okkur mörgum sem komir eru á eftirlaun – og fannst eins og ísnálar skyllu á mér með öllum ká-unum í ávörpum og svörum: Drottin sé með YKKUR – og ef ég man rétt þá var hitt svona: Drottinn, miskunna þú OKKUR. Og af því að notuð var hin forna tvítala þá leit ég í kringum mig til að finna þessa tvo, þessar tvær, þessi tvö sem presturinn var að ávarpa því ég tók þetta alls ekki til mín

Mér brá og fannst eins og messan væri komin niður á eitthvert hvunndagsplan og bjóst við kirkjukaffi á eftir með beinakexi og lapþunnu kaffi, sem reyndar varð ekki raunin. En málfarið! Guð minn góður! Þvílík flatneskja!

Haldið þið virkilega að allt í einu eftir 2000 ár, geti fólk ekki samsamað sig hinu aldagamla málfari? Er ekki til önnur lausn, einhver áburður sem svíar á þetta ofnæmi ykkar?

Meðhjálparabænin og syndajátningin

Upphafsbæn messunnar er forn og venjan er að meðhjálpari flytji hana fyrir hönd safnaðarins eða með honum: „Drottinn, ég er kominn í þitt heilaga hús…“ (leturbr. mín). Ég er kominn. Við segjum þetta saman og tölum í fyrstu persónu og sama á við um syndajátninguna: „Ég játa fyrir þér, almáttugi Guð . . . “ Enginn getur játað syndir annarra og enginn beðið Guð að hjálpa sér nema sá sem biður, einstaklingurinn, guðsbarnið sjálft. Hvorug yrðingin er kollektíf, hún er persónuleg og ekkert annað!

Ekki skilja útundan!

Málfarsfasismi er e.t.v. orð í sterkara lagi til að nota um þessa áætlun femínistanna innan kirkjunnar. En fyrst þær ætla að hreinsa út karlkynsorð úr máli messunnar og okkur/ykkur-væða messusvörin og breyta svo líka Biblíunni, þá er vert að minna á yfirskrift þessa greinarkorns um að skilja ekki neinn útundan.

Í því sambandi er vert að gleyma ekki einni persónu sem margir þekkja að minnsta kosti af afspurn ef ekki persónulega. Sumir virðast vera beinlínis í vinfengi við hann. Já, hann er karlkyn og heitir Satan. Nauðsyn ber nú til að kvengera hann sem einnig er kallaður djöfull. Hann getur þar með kallast Satanía og Djöfla sem beygist eins og Krafla og fellur vel að málinu og Andskotinn verðu án efa feginn að fá loksins frí og afhenda sinni Andskotu lyklavöldin.

Ég segi nú eins og kerlingin og slæ mér á lær:

„Guð sé oss næstur!“

Og til viðbótar ein spurning:

Guð er karlkynsorð og hvað ætla þær að setja í staðinn fyrir hann?

Minni á vísdómsorð Sigurbjarnar Einarssonar, biskups, sem hann viðhafði í útvarpi um kirkjuna og samtíð sína:

„Ef kirkjan giftist tíðarandanum verður hún ekkja á morgun.“

Og svo minni ég á að kirkjan giftist en kvænist ekki, skv. málhefðinni, því hún er kvenkyns!

Á að skilja kirkjuna útundan? Hvað ætla þær að kalla hana?

Þessu brölti kirkjustjórnarinnar má alveg líkja við glæp.

Steliði líka fyrir mig, sagði kallinn.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons