Hvernig getum við hjálpað sorgmæddum?
Hvað hjálpar?
Grein eftir
Örn Bárð Jónsson sem les.
Upptakan 12:42 mínútur í hlustun.
Ef texti greinar birtist ekki, smelltu þá á fyrirsögnina efst.

Dag hvern verður einhver fyrir áfalli vegna missis. Harmur og sorg taka yfir daglegt líf. Framtíðin blasir við á allt annan hátt en áður. Við verðum öll fyrir áföllum í lífinu, en sum okkar fá yfir sig harm sem líkja má við brotsjó sem breytir öllu.
Í Gamla testamentinu eru margir merkir textar sem lagt hafa grunn að skilningi Vesturlanda á lífinu og tilverunni. Þar eru til að mynda margir textar um réttláta og sanngjarna framkomu gagnvart náunganum. Allar grunnhugmyndir okkar í þeim efnum eru sprottnar úr lífi hirðingja í Mið-Austurlöndum sem rötuðu inn í hið mikla ritsafn sem við köllum Gamla testamentið. Í þeirri bók eru margar sögur, sumar fagrar, aðrar ljótar, enda er GT um fólk með margskonar kosti og bresti. Segja má að Íslendingasögurnar séu á sama hátt sannar sögur úr mannlífinu, sögur af breyzku fólki.
Ein af perlum GT ber heitið Jobsbók og er talin til merkra rita heimsbókmenntanna. Job var réttlátur maður sem átti allt, en hann missti bæði afkomendur, fjármuni sína og heilsu. En hann komst þó aftur á fætur og fann hamingjuna á ný, en það auðnast reynar ekki öllum en von margra er himinn Guðs.
Jobsbók er í raun varnarsaga um Guð. Kenningar um slíkt kallast teodice eða guðsréttlæting og snúast um að sanna að Guð standi ekki að baki því sem ógnar okkur í tilverunni. Hann er sýknaður af slíku því illskan á annað heimilisfang en himinninn.
Þessi afstaða, að sýkna Guð, var kristnum mönnum kunn, sem stóðu á Þingvelli árið 1000 þegar kristnitakan var rædd. Eldgos var hafið á Hellisheiði og heiðnir menn töldu goðin vera reið yfir þróun mála. Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Eldgos þá eða nú eru ekki sending Guðs eða goðmagna. Náttúran lýtur sínum lögmálum og fer sínu fram.
Í Jobsbók er leitast við að svara spurningunni: Hvers vegna verður gott fólk fyrir harmi og þjáningu? Af hverju deyja sumir lagt fyrir aldur fram?
Enginn kemst lifandi úr þessu lífi
Í starfi mínu sem prestur stend ég oft frammi fyrir spurningum af því tagi sem glímt er við í Jobsbók. Dauðinn mætir fólki í margskonar gervi og aðstæðum. Ég sagði í páskaprédikun 2025: Enginn kemst lifandi úr þessu lífi.
Eitt sinn skal hver deyja og um þá staðreynd orti séra Hallgrímur Pétursson ódauðlegan sálm: Um dauðans óvissan tíma. Í 7. versi mælir skáldið:
Afl dauðans eins nam krenkja
alla í veröld hér
Skal ég þá þurfa´ að þenkja
hann þyrmi einum mér?
Adams er eðli runnið
í mitt náttúrlegt hold,
ég hef þar og til unnið
aftur að verða mold.
Eitt það mikilvægasta í lífinu er vinátta og samfélag við annað fólk og þegar sorgin vitjar manns þá er ekkert betra en nærvera vina.
Oftast er óþarfi að vinir hafi mörg orð um sorgina. Syrgjandinn þarf hins vegar oft að tjá sig, að fá rými til að segja frá harmi sínum og missi, orða tilfinningar sínar
– og hlustendur að taka lýsingarnar alvarlega og mæta þeim af skilningi og kærleika. Og þá skiptir nærvera mestu, því kærleikurinn virkar oft best í þögulli nærveru og hlýju viðmóti. Rökræður gagnvart syrgjanda, um að hann eða hún þurfi nú að taka sig á og hætta sínu voli, eru algjörlega tilgangslausar. Þær geta jafnvel virkað sem ofbeldi, hrein mannvonska og heimska.
[Innskot á hljóðupptöku með þátt deyfilyjfa í sorgarferli]
Einveran er oft erfiðust fyrir syrgjendur og því er mikilvægt að vera til taks t.d. eftir útför og styðja syrgjendur að fylgjast með þeim nánustu og vera tilbúin til að veita stuðning. En um leið þarf að gefa fólki rými til að vera út af fyrir sig ef svo ber undir.
Sorgin er ekki sjúkdómur
Sorgin er náttúrulegt viðbragð við missi, höggi, sem lætur um sig muna. Áhrifin vara um ókomna tíð. Erfið sorg hverfur aldrei úr minni fólks meðan minnið er óskert. En hins vegar erum við þannig gerð, að við getum tekist á við sársauka og missi og náð okkur að vissu marki.
Tré sem rifið er upp með rótum og fært á annan stað, getur laufgast á ný og borið ávöxt. En það kann að bera merki áfallsins þar til það visnar sjálft og deyr.
„Öllu er afmörkuð stund“ segir í bók Prédikarans í Gamla testamentinu.
Sagt er að gleðin og sorgin séu systur – og þá eru kærleikurinn og missirinn bræður. Við syrgjum þau sem við höfum elskað og þótt vænt um.
Allt eru þetta staðreyndir sem syrgjendur þekkja, en gott er að rifja þetta upp og muna að enginn er eyland. Við erum samfélagsverur og þrífumst ekki vel í einveru, nema stuttan tíma í senn. Maður er manns gaman og hlý orð og nærvera geta verið sem ferskt vatn er þyrstum manni.
Upphaf siðmennningarinnar
Stöndum ætíð með þeim sem þjást og finna til, með sjúkum og sorgmæddum.
Eitt sinn las ég tilvísun í orð og vizku mannfræðingsins, Margareth Mead (1901-1978). Kjarninn í þeirri færslu var að hún hafi sagt, að upphaf siðmenningar væri ekki að fólk lærði að smíða sér verkfæri og vopn. Nei! Hún vísaði til mjaðmarbeins sem fundist hafði, bein sem hafði brotnað og gróið. Hún sagði þetta bein, vitna um upphaf siðmenningar, nefnilega það að sá eða sú, sem brotnaði, hafi hlotið hjúkrun og umhyggju til að komast aftur á fætur í stað þess að lenda í gini villidýra.
Þar með hófst siðmenningin!
Fyrstu vísar að hjúkrunarheimilum á Íslandi voru klaustrin í kaþólskri tíð og þar settist fólk „í helgan stein“ eins og það er orðað, flutti í steinhúsið og borgaði fyrir heilbrigðisþjónustuna eins og við gerum enn.
Prestar sáu um að kenna öllum börnum lestur og skrift eftir siðbreytingu.
Menningin er fólgin í umhyggju og upplýsingu og þar hefur kirkjan leikið lykilhlutverk um aldir.
Þrjár víddir sem skipta öllu
Höfundur nokkur, Iain McGilchrist, hvers bækur ég hef verið að lesa á liðnum misserum, og er menntaður geðlæknir, en einnig í bókmenntafræði, heimspeki og lífeindafræði, segir að við þurfum að rækta með okkur tengsl við:
fólk,
náttúruna og
Guð, hið stóra samhengi alls sem er.
Kristin trú hefur verið fólki huggun um aldir. Sálmi séra Hallgríms Péturssonar, Um dauðans óvissan tíma má líkja við námskeið í dauðanum. Í fyrstu níu versunum leiðir hann fram staðreyndir um dauðann á máli sem allir geta tekið undir, hverrar trúar sem þeir eru. Lokaversin fjögur tjá þá von og trú, huggun og styrk, sem skáldið fann í Kristi í eigin harmkvælum og sorg.
Sálmar og dægurlög
Sálmarnir í sálmabók Þjóðkirkjunnar eru einstakur kveðskapur sem greinir sig frá öllum öðrum kveðskap, því sálmarnir boða ætíð von og trú. Ef ég líki lífinu við akstur í bifreið, þá eru minningartengd ljóð og lög í baksýnisspeglinum. Sálmarnir eru hins vegar í framrúðinni. Þeir horfa fram og uppá við, til himinsins heim og benda á trú og von.
Dægurlög, sem sá eða sú sem við kveðjum, hafði ánægju af að heyra, vekja upp minningar okkar sem kveðjum, næra og fóðra sorgina, meðan sálmarnir milda hana og beina sjónum okkar ætíð áfram og hærra, til bjartari framtíðar í von og trú. Við megum ekki frestast í fortíðinni. Leyfum okkur að líta um öxl og rifja upp það sem gaf gleði og við erum þakklát fyrir, en við skulum þó um leið beina sjónum okkar sem allra mest fram á veginn.
Elsti sálmur sem til er á Norrænni tungu er sálmur Kolbeins Tumasonar frá 1208, sem hann er sagður hafa ort á sinni banastund. Hann á enga hjálp nema í Kristi.
Heyr, himna smiður,
hvers skáldið biður,
komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Því heit eg á þig,
þú hefur skaptan mig,
ég er þrællinn þinn,
þú ert Drottinn minn.
Guð, heit eg á þig,
að græðir mig,
minnst, mildingur, mín,
mest þurfum þín.
Ryð þú, röðla gramur,
ríklyndur og framur,
hölds hverri sorg
úr hjartaborg.
Gæt, mildingur, mín,
mest þurfum þín
helzt hverja stund
á hölda grund.
Set, meyjar mögur,
máls efni fögur,
öll er hjálp af þér,
í hjarta mér.
Hvað merkja orðin í sálminum?
Þræll – þjónn eða sá sem Guð á.
Röðla gramur – röðull merkir sól og gramur er konungskenning, röðla gramur er þá konungur sólnanna.
Mildingur – sá sem er góður og mildur.
Meyjar mögur – sá sem meyjan/móðirin María elskar sbr. ástmögur þjóðar er sá sem þjóðin elskar.
Guð blessi þig sem hefur gefið þér tíma til að íhuga sorgina með mér.
Góðar stundir!
You must be logged in to post a comment.