Að segja eitt en óvart annað
eftir Örn Bárð Jónsson
Tjáning er oft eins og glerhált svell. Maður segir eitthvað, heldur fram einhverju ákveðnu, en segir um leið eitthvað allt annað, ómeðvitað eða jafnvel meðvitað.
Tökum dæmi. Maður nokkur tekur afgerandi afstöðu með Palestínumönnum á ímynduðum forsendum mannúðar og kærleika. En þá tekur svellið við og afstaða hans snýst í andhverfu sína og verður óvart stuðningur við Hamas og útrýmingu Gyðinga.
Annar styður málstað Gyðinga, en er þá um leið stimplaður sem mannvoskan sjálf í margfeldi, vegna þess að það bitnar á Palestínumönnum.
Hamas notar svo blessað fólkið í Palestínu sem skjöld og teflir því fram í skák sinni sem peðum, vitandi vits að þau verði stráfelld. Fórnarkostnaður, heitir það á hagfræðimáli og í þessu tilfelli hagfræði helvítis.
Og hver er þá skúrkurinn í skákinni?
Ísraelsmenn?
Palestínumenn?
Hamas?
Íran – bakhjarlinn stóri?
Að segja eitt en óvart annað.
Eða, að segja eitt og meina annað.
Er það stundum svo að menn nota viljandi Albaníu-aðferðina og meina öfugt við það sem sett er fram?
Fyrir ykkur sem eruð of ung til að þekkja Albaníu-aðferðina þá var hún notuð á valdatíma kommúnista í Sovétríkjunum. Þegar Sovétmenn vildu gagnrýna Kínverja þá beindu þeir skömmum sínum að Albaníumönnum.
Heimurinn er hálagler
hugsun margra í hvelli
umhverfist í skaðans sker
í skautadans á svelli.
Dettu varlega!

You must be logged in to post a comment.