Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

Óskin um að Oscar komi heim

Pistill um mannúð

Akandi um dali og yfir fjöll á NA-landi í hálku og þæfingi skírdags, á ferðum mínum til messuhalds, hlustaði ég á sögu drengsins Oscars frá Kólumbíu, á Rás1. Hún snerti streng í hjarta mínu.

Oscar var sendur úr landi af yfirvöldum í umsjá ofbeldisfulls föður, sem virðist vera heillum horfinn, enda yfirgaf hann drenginn um leið og þeir komu til áfangastaðar í S-Ameríku. Hann hafði víst beitt drenginn ofbeldi og einskærri mannvonsku.

Sagan er nöturleg og af henni má ráða að meðferð kerfisins hafi líklega ekki verið nógu yfirveguð og heldur kaldranaleg.

Saga Oscars minnir um margt á sögupersónur í þeirri helgu bók sem ætlað er að vera okkur spegill til skilnings á lífinu og okkur sjálfum og lagt hefur grunn að mannskilningi Vesturlanda.

Kyrravika og páskar geyma stef af sama tagi, sögu um svik og órétt, aftöku sem var dómsmorð, harðneskjulegt stjórnvald og svo hryggð vina og örvæntingu yfir örlögum einstaklings sem skiptir þá öllu máli.

Segja má að saga hins krossfesta Krists sé spegill sem birtir okkur hvað veraldlegt vald getur verið ómanneskjulegt og við mannfólkið breyzkt. Upprisa Krists er hins vegar vitnisburður um að hið illa sigrar í raun aldrei þegar allt er skoðað í hinu stóra samhengi, speglað í trú, von og kærleika.

Nú kann það að orka tvímælis að lyfta fram sögu eins innflytjanda af mörgum og gera úr henni sértækt mál. Auðvitað hefur hver einstaklingur, sem hingað leitar sem flóttamaður, sína sögu, sína samvisku og sál. Við erum öll ólík en þó söm þegar betur er gáð. Eitt er víst að drengurinn fær góða umsögn þeirra er hann þekkja og önnuðust hann meðan hann fékk að dvelja hér á landi.

Sérhver manneskja er dýrmæt. Því hef ég kynnst í starfi mínu. Allir eiga sér merka sögu um lífsbaráttu og glímu við lífið og aðstæður þess.

Flóttamenn sem hingað leita eiga að njóta þeirra mannréttinda sem við viljum státa okkur af og valdhafar hampa á hátíðarstundum.

Í okkur öllum býr miskunn, en einnig harðneskja ef svo ber undir. Vandinn er að láta hörkuna ekki ná yfirhöndinni í lífinu. Miskunnin er mild og jafnvel þótt við í kærleika okkar tökum stundum rangar og óraunhæfar ákvarðanir, þá eru þær nú betri en harka og miskunnarleysi í óðagoti.

Skoðið þetta, stjórnvöld kær, og snúið þessu máli til góðs. Virðið vilja þess góða fólks sem tók hann að sér hér og greiddi götu hans og á þá ósk heitasta að Oscar fái að snúa til baka.

Látum von páskanna snúa örlögum Oscars til upprisu og nýrrar framtíðar, hér í okkar góða landi.

Þannig getum við sem þjóð sagt:

Gleðilega páska!

Kristur er upprisinn!

Kristur er sannarlega upprisinn!

Ritað á Hofi í Vopnafirði föstudaginn langa 2025.

Kristur
Vatnslitamynd (25×34 cm)
máluð á Hofi á föstunni 2025 – ÖBJ

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons