Í Morgunblaðinu, 16. apríl 2025 birtist útdráttur úr þessari grein sem ég set inn hér í fullri lengd og les hana um leið inn fyrir þau sem vilja hlusta fremur en lesa. Svo ég taki samlíkingu af þorski þá var greinin í blaðinu bara annað flakið af fiskinum en hér kemur þorskurinn allur.

Nú kaupir SFS – Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi – auglýsingar í fjölmiðlum fyrir stórfé og flytur hræðsluáróður sinn. Réttlæti verður ekki komið á með auðvaldi, en hins vegar er unnt að vinna gegn órétti með samstöðu almennings.
Heimur í upplausn
Heimurinn er í upplausn og hann þjáist ekki hvað sízt vegna framferðis auðmanna nú hinar síðustu vikurnar, auðmanna sem skeyta hvorki um heiður né skömm. Þeim virðist vera sama um allt nema eigin pyngju. Skjálftana þeirra finnum við hér á landi sem blandast saman við skjálftana í Washington sem koma fram á mælum um allan heim. Við lifum nú tíma þar sem auðmenn hafa komist til mikilla valda og svífast einskis. Þróun þessi ógnar lýðræði og stjórnarskrám réttarríkja, þar sem hið klassíska módel er við lýði og valdinu þrískipt.
Hvað er réttlæti?
Þannig hefur löngum verið spurt. Til að skoða það er best að leita ullar í réttu húsi. Í þeim fornu ritum, sem lagt hafa grunn að réttarríkjum veraldar og urðu til í hrjóstrugum sveitum Mið-Austurlanda fyrir um 3500 árum, er að finna fyrstu vísa að skilgreiningu á hugmyndinni um réttlæti. Þessir textar eigar rætur í hugsun hirðingja og hugmyndum sem af henni spruttu næstu aldir.
„Á sínum tíma var það nokkuð róttæk hugmynd: að hópur manna gæti gengið í sáttmálasamband við skapara alheimsins. Hluti af því sambandi hafði að gera með helgisiðaskyldur … : helgar hátíðir, dýrafórnkerfi, stofnun prestsdæmis.
En jafn mikilvægt var að sáttmálinn fól í sér sérstök ákvæði um mannleg samskipti, þar á meðal að koma á réttlátum dómstólum, vernda viðkvæma (útlendinginn, ekkjuna, munaðarlausa og fátæka), lána bágstöddum án vaxta, koma fram við launaverkamenn á sanngjarnan hátt og margt fleira.“:
Hér er tengill á greinina sem vitnað er í:tengill á enska textann.
Hugtökin á hebresku sem hér skipta mestu eru: tzedek, mishpat, din og þau tjá m.a. réttlæti, dóm og löghlýðni.
Gaumgæfið síðari hluta framangreindrar tilvitnunar. Þar er vísað til verndar til handa þeim, sem ekki hafa valdið í höndum sér, en verða að treysta á hjartalag þeirra sem valdið hafa.
Ég veit að sumum þykir ekki við hæfi að vitna í hebreska tungu á þessum síðustu tímum þegar einhliða réttlæti ríkir í hugum margra Íslendinga eða það sem ég kalla „Gazalegt-hlutleysi“ sem er sett í allan bakstur RÚV þessi misserin. En það er nú einu sinni Gyðingum að þakka að við þekkjum bestu hygmyndir veraldar um réttlæti. Það er svo þeirra vandi og okkar allra að lifa eftir því.
En svo eru þau mörg, bæði erlendis og hér á landi, sem virðast styðja afgerandi refsingar gegn Gyðingum. Það er þyngra en tárum taki. Þeir hafa þurft að verjast útrýmingu um aldir.
Við skulum leyfa okkur að gagnrýna gjörðir og skoðanir fólks, trúar- og lífsskoðanir, en ekki fara í manninn sjálfan, einstaklinginn, gyðinginn eða múslimann. Gagnrýnum framferði Ísraels og líka þau skelfilegu ríki Islams, sem hafa haldið linnulausum áróðri að sálum Palestínumanna, heilaþvegið fólkið og æst það upp í taumlausu hatri á Gyðingum. Islam ætlar sér að útrýma Ísrael, öllum Gyðingum og taka yfir allan hinn Vestræna heim.
Vaknið!!!
Góð áminning um árvekni er í bréfi Páls til Efesusmanna:
13 En allt það sem ljósið afhjúpar verður augljóst. 14 Því að allt sem er augljóst er í ljósi.
Því segir svo:Vakna þú sem sefur
og rís upp frá dauðum
og þá mun Kristur lýsa þér.
15 Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. 16 Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. 17 Verið því ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins. (Ef.5.13-17)
Vogarskálar réttlætisins
Réttlæti og sanngirni eru skyld hugtök og undir þeim báðum liggur öxull þar sem vogarskálar vaga.
Vogarskálar fiskveiðistjórnunar hvíla einnig á öxli.
Stutt saga kvótakerfisins sýnir að nú hallar verulega á aðra hliðina og hefur gert frá upphafi. Setning laga um málið var keyrð í gegnum Alþingi á sínum tíma, af mönnum sem í sumum tilfellum áttu beinna hagsmuna að gæta.
Afsaka má suma þingmenn þess tíma að þeir hafi ekki getað séð allt fyrir eins og t.d. óréttinn sem af lagasetningunni hlaust, samþjöppunina, sem gekk lengra en þeir héldu og hvernig lögin breyttu okkur Íslendingum í æðarkollur sem skaffa þeim ríku dún og dollara. Krónan er kvótaþegum lítils virði. Þeir sniðganga hana og búa um leið við það að geta lifað í öðru samhengi en kollurnar og blikarnir.
Kvótinn hefur safnast á fárra hendur og það hefur valdið vissri hagræðingu í greininni. Hversu langt á að ganga í fákeppni?
Svo eru það þau sem eiga minni kvóta og eru að reka sínar litlu útgerðir vítt og breytt um landið. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim, en þau eins og aðrir kvótaþegar mega aldrei gleyma að þjóðin á kvótann.
Ég vil ekki láta hjá líða að nefna það að forstjóri Brims, sem ræður yfir miklum kvóta hefur sagt það opinberlega að greinin geti greitt meira til samfélagsins. Aðrir í greininni hafa líklega allir þagað þunnu hljóði.
Þó ég tali almennt um kvótaþega vil ég ekki alhæfa neitt um þá alla, en leyfi mér þó að benda á þá, sem fara um með mestu þjósti í vörn eigin sérhagsmuna, sem í raun eru eign þjóðarinnar, okkar allra.
Þjóðareign
Þegar ég sat í Stjórnlagaráði og vann að ritun nýrrar stjórnarskrár árið 2011, fór fram umræða um þjóðareign í nefndinni sem ég átti aðild að. Við fengum til okkar lærða lögfræðinga úr æðri menntastofnunum til þess að ræða ýmsar hliðar málsins. Þá kom fram úr þeim lærðu börkum að þjóðareign væri bara ekki til í lögfræði. Þá varð mér á orði við fræðimanninn:
„Ef við færum saman niður á Lækjartorg og tækjum fólk tali og spyrðum það um hvað þjóðareign væri, þá mundi hver og einn einasti viðmælandi geta skilgreint hvað í því fælist. Allir nema þið í lagadeildinni. Þið, háskólafólkið, þurfið að fara að koma hugtakinu inn í fræðin, skilgreina og leggja til lagabreytingar svo að þjóðareign hafi lagalegar rætur.“
Forréttindafólkið, sem þáði kvótann og fór að braska með hann og safna veiðiheimildum, barðist gegn nýrri stjórnarskrá og mörgum öðrum framfaramálum. Þau hafa varið milljörðum í að spilla þróun í átt til réttlætis og viðhalda óréttinum sem þeirra forréttindi eru byggð á.
Við, sem þráum réttlæti og sanngirni, erum mörg, en þyngd okkar dugar ekki gegn þeim örfáu, sem eru á þungu skálinni, sem hallar alveg niður að stalli vogar. Hin fáu sliga skálina vegna gullsins sem er þar í vösum.
Hvernig væri að mæla okkur öll allsnakin og án gullstanga í vösum og finna þannig jafnvægið sem felst í réttlæti og sanngirni?
Fólk í fjötrum
Í kór SFS hafa bæzt raddir sveitarstjórnarmanna vítt um land, fólk sem verður að hlýða og er sumt vafið veðböndum, áþreifanlegum eða sálarlegum, fjötrum þeirra sem auðinn hafa í höndum.
Þá eru flokkarnir, sem fólkið gengisfelldi í sl. kosningum, farnir að blása í áróðurslúðrana og sjálfur Kvótamiðillinn fer hamförum í sínum harmi eftir síðustu kosningar. Og það er nú svo með sum mannanna sár, að engin smyrsl duga, engin lyf, bara tími og kærleikur – og sanngjarn hugur.
Ég nota orðið kvótaþegar um útgerðaraðalinn. Þau hefa þegið kvótann til láns en ekki eignar, eru þegnar, sem við almenningur eigum veð í. Kvótinn var þeginn í upphafi, svo var farið að braska með hann í þeirri von að stjórnmálamenn og þingmenn hreyfðu sig á hraða skjaldbökunnar og yrðu seinir til vandræða. Flækjusamningar út um allt gera rakningu erfiða og það vita þau vel sem auðinn fengu.
En nú finnst okkur mörgum komið nóg og í þessum greinarstúfi er kallað eftir réttlæti og sanngirni.
Frelsi og ábyrgð
Kristin trú hefur tvo vængi ef svo má að orði komast. Annar ber heitið fagnaðarerindi en hinn lögmál, en þá má líka kalla frelsi og ábyrgð. Lífið er eins og fugl eða flugvél. Ef flugvél er flogið á einum væng þá endar ferðin í hringflugi með brotlendingu. Prestur verður ætíð að boða fagnaðarerindi og lögmál í senn, frelsi og ábyrgð, annars brotlendir boðun hans. Ef lögmálið gleymist, ábyrgðin fellur niður, þá verður boðunin fátt annað en kjass og blíðulæti við syndugan heim. Slíkt fúsk má einnig kalla meðvirkni með sjúkum heimi.
Á föstunni eru Passíusálmarnir mörgum hjarta nærri. Skáldið segir m.a. í 44. sálmi:
10. Láttu Guðs hönd þig leiða hér,
lífsreglu halt þá bestu.
Blessuð hans orð sem boðast þér
í brjósti og hjarta festu.
11. Hrittu ei frá þér herrans hönd,
hún þó þig tyfta vildi,
legg heldur bæði líf og önd
ljúflega á drottins mildi.
Lögmálið hirtir eins og fram kemur í síðara versinu. Lærum að beygja okkur undir það.
Þau sem vilja ekkert hafa að gera með réttlæti og sanngirni, eiga ekki að hafa nein völd, engin ítök, engin sérréttindi, engar auðlindir til að umgangast sem einkagóss, ekkert nema atkvæði sitt í kosningum – eins og við hin.
Auðlindirnar eiga aðeins heima í höndum sanngjarnra og réttlátra einstaklinga og einungis til leigu og aldrei til eignar.
—
Til umhugsunar
Fyrir þau sem vilja kynnast dæmi um magnaðan texta úr Gamla testamentinu um mannlegt líf, réttlæti, sanngirni og rétt samhengi, þar sem maður og Guð eiga samfélag, þá er hér texti spámannsins úr 59. kafla Jesajaritsins sem ber yfirskriftina Iðrun og endurlausn.
1Sjá, hönd Drottins er eigi svo stutt að hann geti ekki hjálpað
og eyra hans ekki svo dauft að hann heyri ekki.
2Nei, sekt yðar skilur yður frá Guði yðar,
syndir yðar hylja auglit hans
svo að hann hlustar ekki á yður.
3Lófar yðar eru ataðir blóði
og fingur yðar misgjörðum,
varir yðar tala lygi,
tunga yðar hvíslar rógi.
4Enginn kærir vegna rétts málstaðar
og enginn fer í mál af heilindum,
menn treysta fánýti og fara með þvaður,
ganga með fals og fæða illgjörðir.
5Þeir klekja út nöðrueggjum
og vefa köngulóarvef,
hver sem etur egg þeirra deyr,
sé á þeim troðið klekjast eiturnöðrur.
6Spuni þeirra verður aldrei klæði
og enginn klæðist vefnaði þeirra.
Verk þeirra eru ódæði
og ofbeldi er í lófum þeirra.
7Fætur þeirra eru skjótir til ills,
fljótir til að úthella saklausu blóði.
Hugsanir þeirra eru illar,
eyðing og tortíming er á vegum þeirra.
8Veg friðarins þekkja þeir ekki
og réttlæti er ekki í sporum þeirra.
Þeir gerðu vegi sína hlykkjótta,
enginn, sem á þeim gengur, þekkir frið.
9Því er rétturinn oss fjarlægur
og réttlætið nær ekki til vor.
Vér væntum ljóss en það er myrkur,
væntum dagsbirtu en göngum í niðdimmu.
10Vér þreifum oss fram með vegg eins og blindir,
fálmum líkt og menn án augna.
Vér hrösum um hábjartan dag eins og í rökkri,
erum sem dauðir meðal þeirra sem eru í blóma lífsins.
11Vér rymjum allir sem birnir,
kurrum eins og dúfur,
vér væntum réttar en hann er ekki hér,
væntum hjálpar en hún er oss fjarri.
12Vér höfum oft brotið gegn þér
og syndir vorar vitna gegn oss.
Þar sem afbrot vor eru stöðugt hjá oss
þekkjum vér syndir vorar.
13Vér höfum risið gegn Drottni og afneitað honum,
snúið frá fylgd við Guð vorn,
hvatt til ofbeldis og svika,
alið á lygum í hjarta og boðað þær.
14Þannig er rétturinn hrakinn burt
og réttlæti stendur víðs fjarri
því að sannleikurinn hrasaði á torginu,
hreinskilnin komst ekki að.
15Sannleikann er hvergi að finna,
sá sem forðast illt verður rændur.
Drottinn sá það
og honum mislíkaði réttleysið.
16Hann sá að þar var enginn,
undraðist að enginn skarst í leikinn
en armur hans sjálfs hjálpaði honum
og réttlæti hans studdi hann.
17Hann íklæddist réttlæti sem brynju
og hjálmur hjálpræðis var á höfði hans,
hann klæddist klæðum hefndarinnar,
sveipaði sig skikkju afbrýðinnar.
18Hann geldur eftir verkum:
eins og menn hafa unnið til, svo mun hann gjalda,
geldur heift andstæðingum sínum,
refsingu fjandmönnum,
út til eyjanna endurgeldur hann.
19Þá munu menn óttast nafn Drottins í vestri
og dýrð hans í austri
því að hann brýst fram eins og á í vexti
sem stormur frá Drottni knýr fram.
20En lausnarinn mun koma til Síonar,
til þeirra af niðjum Jakobs sem hverfa frá synd,
segir Drottinn.
21Þetta er sáttmáli minn við þá, segir Drottinn:
Andi minn, sem er yfir þér,
orð mín, sem ég lagði þér í munn,
skulu hvorki víkja úr þínum munni
né munni niðja þinna,
né frá munni niðja niðja þinna, segir Drottinn,
héðan í frá og að eilífu.
—-
DV vitnar í Morgunblaðsgrein mína:
Og hér er styttri útgáfan af greininni sem birtist í Morgunblaðinu:

You must be logged in to post a comment.