Áhrifavaldar
Viltu lesa eða hlusta? Þú getur valið hvort tveggja
eða annað tveggja!
Margt er það sem hefur áhrif á okkur í samtímanum. Samfélagsmiðlar eru nýtt fyrirbrigði og þar hafa sprottið fram einstaklingar sem kalla sig áhrifavalda en segja má að séu fátt annað en venjulegir nobodies sem vilja verða somebodies. Oftast er um að ræða reynslurýrt fólk.
Áhrifavaldar geta snúizt í hreina skaðvalda ef þroska vantar og vizku sem kemur ekki fyrr en með aldrinum.
Rómverjinn Cicero, skrifaði fyrir rúmum tvöþúsund árum, að æskan hefði vissulega mikla líkamskrafta og vizku sem væri reyndar enn á þroskastigi, meðan öldungurinn sem hefur minni vöðvakraft, á vizkuna í hlöðum og meira af henni en nokkru sinni fyrr á ævinni. Stundum hef ég sagt í gamni og líka ögn í alvöru, að lítið sé nú oftast að marka fólk fyrr en uppúr fimmtugu og eiginlega ekki fyrr en um sextugt og helzt ekki fyrr en það er orðið sjötugt – en undantekningar eru vissulega til á þessu öllu.
Þau sem líta á sig sjálf sem áhrifavalda eru í mörgum tilfellum ungt og óreynt fólk sem þráir frægð og elskar glamúr, sækist eftir umbúðum en ekki innihaldi, enda margt af því sem þau segja afar rýrt.

Skaðvaldar
Margir svonefndir áhrifavaldar geta talizt vera skaðvaldar ef grannt er skoðað.
Samtíminn er blekktur alla daga með brimfossandi auglýsingum sem eru sumar framleiddar af áhrifavöldum sem hér eru til umræðu.
Viðskiptalífið skeytir oft hvorki um heiður né skömm, þegar það fer fram með sínu offorsi, til að græða á okkur, reita af okkur dúninn eins og af æðarkollum.
Gróðasæknir kaupmenn byrja að auglýsa jólin undir lok október og tónlistarþeytarar útvarpsstöðvanna vinna á vöktum við að senda allt jólagargið út á öldum ljósvakans. Lítið er um sálma í skálum þeytaranna.
Matsölumenn auglýsa jólahlaðborð og fá vinglaða sauðina oft til sín í jólamat, linnulaust í sex vikur fyrir jól og svo veit blessað fólkið ekki hvað eta skal á sjálfum jólunum, þegar búið að kyngja öllum uppskrifta- og bragðskalanum áður en hátíðin sjálf hefst. Bæta má því inn hér til áréttingar að aðventan ber einnig heitið jólafasta og felur í sér köllun, áskorun, ráð um að lifa fábreyttu lífi, en fagna svo rækilega þegar jólin ganga í garð.

Svo er það fastan, 40 daga fyrir páska, þegar við ættum að fara í sjálfskoðun, horfa inná við, skoða gildin, íhuga, leita kyrrðar.
Magir leiðbeinendur sem kunna ýmislegt fyrir sér í næringarfræði og andlegheitum, benda á föstu sem lífsstíl og það er vel. Að fasta er aðferð til sjálfskoðunar og breytinga á neyzluvenjum. Fasta getur gefið hugarró og gert líkamanum gott og hreinsað hann af allskyns óæskilegum efnum.
Páskaeggin eru komin í búðir löngu fyrir öll velsæmismörk. Já, græðum á fíflunum – hugsa heildsalar – og látum þau éta gat á sig af nammi eins lengi og við getum.
Áfengi er auglýst í fjölmiðlum undir fölsku flaggi. Í raun virðist enginn vera endirinn á þessum áróðri skaðvaldanna með færustu auglýsingastofur í samstarfi.
INNSKOT
Skaðvaldarnir græða á tá og fingri. Þeir hugsa á nákvæmlega sama hátt og dópsalar. Þar er enginn eðlismunur á háttseminni. Varan er önnur en aðferðin söm. Og svo má minna á það í leiðinni að kvótaþegarnir eru búnir að kaupa upp heildsölur og smásölur matvælamarkaðarins. Allt komið í hendur fárra einstaklinga sem aldrei verða saddir af gróða.
Og við villuráfandi sauðir af orsökum syndafallsins, látum blekkjast og höfum ekki döngun í okkur til að standast brimöldur tómhyggju og taumleysis, neyzluhyggju og nautna.
Og til að gleyma hvað lífið er oft skítt þá er best að koma sér í sólina á Alkakantinum á Spáni eða láta grilla sig á Teininum úti fyrir Afríkuströnd og reyna að gleyma nepjunni. Það er svo miklu auðveldara að vera neyzludýr í sól og hita, að ekki sé nú talað um ef glundur er í glasi. Á flestum myndum frá þessum vinsælu ferðamannastöðum situr fólk með glas af víni eða bjórflösku í hönd.
Matvörumarkaðir og hollusta
Sjáðu allar hillurnar troðnar matvælum sem geyma má í marga mánuði! Er það eðlilegt að eta bara rotvarnarvarið fæði? Rotvarið! Varið fyrir rotnun! Geymist í marga mánuði eða janfvel ár!!! Hvernig meltum við öll þessi rotvarnarefni?
Ég hef verið að lesa bækur um næringu eftir bandaríska lækna, sem komust að því þegar alvaran blasti við þeim í starfi, að í náminu lærðu þeir nánast ekkert um næringarfræði. Þegar sjúklingarnir komu svo með sín vandamál fór læknana að gruna að óæskilegt mataræði gæti verið skaðvaldur í vissum tilfellum.
Næst þegar þú ferð í matvörubúð skaltu skoða vel umhverfið. Við erum neyzludýr og erum að mestu leyti á sama fæði og Ameríkanar.

Í búðunum blasa við nær óendanlegir hillumetrar með morgunkorni og rekkarnir eru svo háir og breiðir að minna á skýjakljúfana á Manhattan. Í þessum pökkum eru sykraðar kornvörur, sem við ættum alls ekki að borða. Kornið er í fyrsta lagi þrútið af efnasamböndum úr eitruðum áburði og í flestum tilfellum menguðum amerískum jarðvegi og svo er það fullt af glúteni, en orðið glúten er latneskt og er stofninn í orðinu lím. Og svo er flest kornið sykurhúðað, en sykur er eitt algengasta fíkniefni samtímans. Kornið í pakkanum er dulið heilalím sem stíflar hugsunina. Sykurinn eykur svo fíknina í meira nammi.
Við eigum að borða kjöt og fisk og sem allra minnst af kornvörum, brauði, kökum og öðru heilakítti, sem eykur bara hættuna á minnisglöpum. Í minni bernsku borðuðum við fisk fimm daga vikunnar og kjöt á miðvikudögum og sunnudögum. Ýsan var þverskorin og soðin eða flökuð og steikt með raspi og lauk. Steinbíturinn þakinn hveiti og steiktur í smjörlíki ásamt miklum lauk og svo gerð brún sósa úr öllu góðgætinu. Soðnar kartöflur með og stundum eitthvað súrmeti af grænu tagi. Gleymum ekki kola og lúðu sem var til í ýmsum stærðum. Smálúða var kölluð lúðulok eða bara lok og stórlúðan spraka. Svo var það saltfiskurinn, nætursaltaður eða sólþurrkaður, sem reyndar var að mestu sendur til kaþólsku landanna sem kunna að fasta og hafa stutt íslenzkan efnahag í 400 ár. Og skatan, maður lifandi og hákarlinn! Nammi, namm!

Veiðimenn – kjöt og fiskur
Við erum komin af veiðimönnum og söfnurum sem fóru um veiðilönd í milljónir ára. Akuryrkja hófst ekki fyrr en fyrir um tólf þúsund árum og er því algjör nýbylgja í hinu stóra samhengi tímans.
Korn á borðum alla daga, allt árið um kring, var ekki fæða veiðimanna og safnara. Þar var kjöt og fiskur og svo ávextir aðeins að hausti til og ögn af korni, sem þau tíndu villt og í litlu magni á safnferðum sínum.

Hefurðu heyrt að þegar tóbaksframleiðendur í henni Ameríku, því taumlausa landi markaðshyggju og gróðavonar, sáu að þeir gætu ekki lengur grætt milljarða á því að selja sígarettur, þá keyptu þeir sig inn í matvælaiðnaðinn og réðu nýja verkfræðinga til að þróa nýjar tegundir af kornfleksum og sykruðu pöffi til að fylla maga svangra barna – og stífla jafnvel heila fólks í leiðinni.

Ætla má að stóran hluta vörutegunda matvöruverslana megi skilgreina sem óæti. Þetta er geymsluvara með allskonar rotvarnarefnum.
Heilsuhornið
Í sumum stórmörkuðum er svonefnt „heilsuhorn“ og þar eiga víst að vera hollar vörur – já, þarna í heilsuhorninu! – en er það ekki einmitt staðfesting og yfirlýsing kaupmannsins um, að allt annað í búðinni sé ekki svo ýkja hollt. Hvar þarf að vera sérstakt heilsuhorn nema á markaði heilsusleysisins?
Njótum föstunnar í kyrrð og gerum hátíð úr páskunum! Og munum! Páskarnir hefjast ekki fyrr en eftir kyrruviku. Páskavikan hefst með páskadegi, ekki pálmasunnudegi, heldur eftir föstudaginn langa og laugardaginn, sem minnir á að Jesús lá í gröf sinni fram á sunnudag og með upprisu hans varð hvíldar- og hátíðisdagur kristinna manna fyrir tvö þúsund árum eða svo.
Páskarnir hefjast með upprisudeginum, páskadegi
NOTA BENE! MUNUM ÞAÐ!
Og ÞÁ FYRST segjum við: Gleðilega páska!
Og smá athugasemd til Sjónvarpsins: Engar páskaliljur á borði fréttamanna fyrr en á páskadag!
Litur föstunnar, fram að páskum, er fjólublár, undurfagur litur.
– og svo kemu hvítt og gult!!!
Kæru landsmenn:
Guð gefi ykkur góðar, litríkar og hollar stundir
– alla daga ársins!

You must be logged in to post a comment.