Var að lesa fróðleik um þennan „frænda minn“ í bókinni VESTFIRZKAR SAGNIR og hafði ánægju af v.þ.a. margt hef ég heyrt um hann og prestana honum tengdum.
Setti saman þessa grein með upplýsingum um ætt mína og svo eru hljóðskrár neðst með upplestri mínum úr
Vestfirzkum sögnum, safnað hefir Helgi Guðmundsson, 1. Bindi, Reykjavík, Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar 1933-1937

Eitt sinn er ég átti samtal við séra Sigurbjörn Einarsson, biskup og velgjörðarmann minn, nefndi ég að ég hefði ekki fundið marga presta í föðurætt minni, en í móðurættinni væru einir þrír ættliðir presta sem hefðu þjónað í Holti í Önundarfirði. Þá glotti biskup og sagði:
„Jæja, blessaður minn, þeir voru víst dálítið drykkfelldir!“
Nota Bene:
Til að lesa alla greinina þarf að smella á fyrstu fyrirsögn og þá kemur framhaldið og svo hjóðupptökurnar!!!
Síðar fann ég séra Hjalta Þorbergsson Thorberg, forföður minn í föðurætt:

Örlítill fróðleikur um móðurætt mína
Þessir þankar mínir og upplestur spruttu af forvitni um séra Jón Ásgeirsson, prest á Rafnseyri/Hrafnseyri við Arnarfjörð, en hann var albróðir formóður minnar, Matthildar Ásgeirsdóttur, en hún og Jón Sigurðsson, forseti voru systkinabörn. Móðir Jóns forseta var Þórdís systir Ásgeirs föður séra Jóns og Matthildar.
Séra Jón er einn af þeim „drykkfeldu“ sem Sigurbjörn biskup gaf þá einkunn og kemur það fram í fyrrnefndri bók.
Þegar ég hitti Bárð G. Halldórsson, fv. menntaskólakennara, frænda minn og tvímenning nýlega, sagði ég honum af þessu samtali mínu og biskups og hann hló við og sagði að þessir prestar sem allir þjónuðu um hríð að Holti í Önundarfirði, hefðu verið annálaðir ræðumenn og prédikarar, hraustmenni mikil og afar skemmtilegir karakterar og gáfumenn. Nóg um það í bili.
Upplestur minn birtir í það minnsta fróðlega mynd af séra Jóni Ásgeirssyni úr fyrrnefndri bók.

og foreldrar hennar, Rannveig og séra Ásgeir prófastur.
Eins og vitað er var Jón forseti Hins íslenzka bókmenntafélags og af því hlutverki hafði hann sitt viðurnefni.
Hér má sjá skyldleika minn og ættmenna minna af sömu kynslóð við Jón Sigurðsson:

Maður Matthildar var séra Magnús Þórðarson, seinast prestur á Hrafnseyri við Arnarfjörð en eyrin fær nafn sitt af Hrafni Sveinbjarnarsyni. Af þeim er m.a. kominn Magnús Hjaltason Magnússon sem kallaður var Skáldið á Þröm en Gunnar M. Magnúss, rithöfundur, skrifaði ævisögu hans. Halldór Laxness notaði harmræna ævi Magnúsar sem fyrirmynd persónu Ólafs ljósvíkings í Sjálfstæðu fólki.
Afi minn, Guðmundur Halldórsson, sagði við mig þegar ég spurði hvort hann hefði lesið bækur Laxness:
„Nei, ég les ekki bækur eftir menn sem gera grín að fátæku fólki.“
Þar átti hann án efa við náfrænda konu sinnar, Magnús Hj. Magnússon, Skáldið á Þröm sem boðinn var upp til fósturs og fór til þess fólks er bauð lægst og var þar með ódýrastur fyrir fæðingarhrepp barnsins. Svona var nú farið með fátæklinga þá.

Sjá nánar um Hrafnseyri á meðf. tengli:
[https://hrafnseyri.is/hrafnseyri/hrafn_sveinbjarnarson/]https
Lokaorð greinar:

Öll erum við komin af allskonar fólki og getum engu breytt um það hverjum við erum skyld.
Breyskleikinn fylgir mannkyni en hann er þó engin afsökun til að komast undan góðverkum, því köllun okkar er að reyna að lifa fögru lífi og merkingabæru, að elska Guð og náungann eins og okkur sjálf.
Góðar stundir!
Hljóðskrá:
Tekur um 1 tíma og 7 mínútur í hlustun.
You must be logged in to post a comment.