Grein rituð og lesin upp af Erni Bárði Jónssyni.
Af mauraþúfum og marxisma
Rétt handan lóðarmarka þar sem heimili mitt í Noregi stóð í skógarjaðri, var risastór mauraþúfa. Hún var á stærð við þá sem er á myndinni, yfir metri á hæð og þvermál grunns líklega á þriðja metra.

Eitt vorið meðan snjór þakti þúfuna hafði dýr krafsað sig í gegnum snjóþekjuna og grafið holu í vegginn á heimili mauranna. Um vorið þegar maurakommúnan vaknaði af dvala sínum varð það fyrsta verk vinnumauranna að gera við skemmdirnar.
Svo fóru þrælarnir á stjá. Þeir marseruðu í herfylkjum niður veginn meðfram heimili mínu, beggja vegna hússins, niður brekkuna og aftur til baka. Minnti ögn á Hitlers-tímann eða hersýningu við Kremlarmúra.
Umferðin var stöðug frá morgni til kvölds. Þeir báru björg í bú og roguðust sumir með eina barrnál hver og bættu í ytra byrði þúfunnar á sólbjörtum og þurrum dögum. Þegar rigndi héldu þeir sig að mestu heima.
Ég var þeim þakklátur, fyrir að hafa aldrei komið í heimsókn á heimili mitt. Forvitnileg og allsendis óvísindaleg könnun á högum þeirra leiddi í ljós að samfélag þeirra er þaulskipulagt og lýtur harðri stjórn drottningar.
Maurar eru sagðir vera meðal árangursríkustu dýra veraldar og eru taldir samanstanda af þrettán þúsund tegundum.
Edward O. Wilson heitir sérfræðingur í félagshegðun skordýra. Wilson hefur m.a. uppgötvað nýjar tegundir og ritað vísindagreinar um lífræðilega fjölbreytni í dýraríkinu. Bókin hans, sem hér er vitnað til, ber heitið The Social Conquest of Earth sem þýða mætti Félagsleg yfirtaka jarðar. Geta má þess að Wilson er handhafi Pulitzer verðlaunanna í bókmenntum.
Wilson setti fram fræga fullyrðingu:
„Karl Marx hafði rétt fyrir sér. Sósíalismi virkar en hann hafði ranga tegund í huga.“
Líffræði maura hefur ýtt undir félagslega hegðun þeirra. Geldir vinnumaurar og karlkyns friðlar dragast að frjósömu kvendýrinu og lúta fyrirmælum þess – líkt og sum mannleg samfélög lúta sósíalískum einræðisherrum.“
{https://en.wikipedia.org/wiki/The_Social_Conquest_of_Earth}
Grein nokkur á ensku ber yfirskriftina: Áhrif marxisma og krítískra kenninga á nútímamenningu og stjórnmál. Þar segir meðal annarra orða í þýðingu minni:
Samtími okkar er gegnsýrður af marxískri hugmyndafræði. Fullyrða má að hún hafi a.m.k. mengað nær flest félagsvísindi í háskólum Vesturlanda, ef ekki hreinlega yfirtekið fræðasamfélagið. Þetta hefur gerst á sviðum innan hagfræði, menntunar, innan LGBTQ-isma, við túlkun á stríðsátökum og umhverfismálum, valdið stefnubreytingum í dómsmálum í átt til umburðarlyndis dómstóla t.d. gagnvart andfélagslegri hegðun mótmælenda. Þessi hugmyndafræði mótar skoðanir margra á málefnum Palestínu og stuðning við Rússland. Þá ræðst þessi hugmyndarfræði gegn viðteknum gildum kristinnar trúar og virðist stefna að útrýmingu hennar.
Líkja má þessum áhrifum við mengun náttúrunnar, eyðingu skóga, súrnunar hafs, loftmengun sem á endanum eyðir lífi ef ekkert er aðhafst gegn því sem ógnar.
Kjarnafjölskyldur
Vesturlönd eru byggð upp með kjarnafjölskyldum en ekki ættarveldum en hin síðarnefndu leyfðu giftingar náskyldra, en í kjarnafjölskyldum mega hjón ekki vera skyldari en fjórmenningar. Kirkjan sá um það halda þessu í lagi í gegnum aldirnar.
Ættarveldið, innræktaða klanið, sér fólkið í hinum klönunum sem óvini. „Við erum bezt“ er viðkvæðið.
Marxisminn getur virkað í kjarnafjölskyldunni, litlu einingunni, en þegar hann er útfærður á heilt þjóðfélag eða veröldina alla, verður hann að óskapnaði, djöfullegu afli, mannskemmandi meini.
Vesturlandamódelið gerir kjarnafjölskylduna að myndugri og ábyrgri einingu og því farnast Vesturlöndum á annan hátt en öðrum menningarheimum. Þar með er ekki sagt að allt sé bezt í Vestrinu.
Hvert er vandamál marxismans? Í greininni ber margt á góma:
Þó að sagan sé full af dæmum um kúgara og kúgaða, er það of einfalt og hugsanlega villandi að beita þessum ramma almennt á siðferðileg og pólitísk álitamál samtímans, eins og marxísk hugsun hefur oft gefið í skyn. Þessari tvöföldu sýn á samfélagið, hættir til að einfalda hinn flókna vef félags-pólitísks veruleika um of. Slíkt sjónarhorn getur skyggt á blæbrigðaríka eiginleika fólks, sögulegt samhengi og einstaka reynslu, sem mótar athafnir manna og samfélagsþróun. Hún virðir líka algjörlega að vettugi hvatir einstaklinga, dæmir þá eingöngu út frá „hópnum“ þeirra. Með því að halda fast við þessa tvískiptingu er hætt við að horft sé framhjá margbreytileika sem nauðsyn er að taka tillit til svo að unnt sé að öðlast ítarlegan skilning á félagslegum fyrirbærum. Getum við til dæmis á sannfærandi hátt fordæmt annaðhvort Rússland eða Úkraínu afdráttarlaust þegar kemur að núverandi átökum þeirra? Getum við fordæmt Ísrael afdráttarlaust fyrir það sem er að gerast á Gaza núna, eingöngu byggt á marxískri greiningu, eins og sumir kalla nú eftir víða um heim?
Tengill:
{https://www.apologeticscentral.org/post/the-impact-of-marxism-and-critical-theories-on-modern-culture-and-politics}
Nú er ég ekki stjórnmálafræðingur og þaðan af síður sérfræðingur í marxisma og ekki heldur skordýrafræðingur, þrátt fyrir að hafa verið nágranni milljóna maura í Noregi; en ég er guðfræðingur og lifi í hugarheimi kristinnar lífssýnar, sem ég tel hafa mikið fram að færa til framþróunar mannlífs, og meira en allar aðrar túlkanir á veruleikanum, öll guðfræði annarra trúarbragða eða trúarskoðana, þar með talið guðleysi, sem er trú út af fyrir sig, þrátt fyrir að sú trú byggi ekki á handanveru, heldur manninum sjálfum, sem er eins og sagan sannar, meingallaður „guð“.
Kristin trú hefur verið Vesturlöndum traustur grundvöllur í elju fólks við að móta og byggja upp þau samfélög, sem veröldin telur hafa reynzt bezt.
Viljum við kasta þessum grundvelli? Hvert förum við þá?
Þau flúðu harðstjórn
Ég enda þessar hugleiðingar mínar með því að segja ykkur frá fólki sem lifði síðustu æviár sín og dó á eyju í Noregi þar sem ég þjónaði sem prestur í 4 ár. Ég hitti þetta fólk aldrei, það var löngu látið. En ég tók þátt í ritúali árlega ásamt tveim norskum prestum Rétttrúnaðarkirkjunnar (orþódox) til að votta hinum látnu flóttamönnum virðingu. Kollegar mínir komu árlega einn laugardag að sumri. Dagskráin hófst í kirkju minni þar sem ég stýrði stuttri helgistund og bauð orþódoxana velkomna. Að því loknu var gengið til messu úti í kirkjugarði yfir gröfum flóttamannanna. Prestarnir tónuðu fagurlega, fóru með bænir og sveifluðu reykelsiskerjum.

Í horni Helgøya-kirkjugarðs eru grafir 25 flóttamanna frá Rússlandi.
– Þetta er fólk sem varð fyrir miklu álagi. Þau voru elt á milli staða. Þau lifðu ævi sem fól í sér miklar fórnir, skort, sorg og hungur, sagði faðir Johannes, prestur og yfirmaður í St. Nikolai rétttrúnaðarsöfnuðinum.
Rússnesku flóttamennirnir sem eru grafnir á Helgueyju flúðu fyrst frá Rússlandi til Kína vegna rússnesku byltingarinnar. Þeir flúðu síðan frá Kína til Helgøya undan kínversku byltingunni.
25 rússneskir flóttamenn fengu heimili á gistiheimilinu Granlien árið 1954.
Fólkið sem kom til Helgueyjar var skilgreint sem „neikvæðir flóttamenn“; þau voru gömul og sum veik, bæði karlar og konur.
Þau komu á gistiheimilið Granlien. Þar áttu þau sitt hinsta heimili.
Hin 100 ára gamla Elena Jacobsen flúði sjálf byltinguna í Rússlandi. Hún starfaði sem túlkur á gistiheimilinu Granlien þar sem flóttamennirnir bjuggu.

– Ég vann þar sem túlkur og var þar að jafnaði einu sinni í viku. Þeim fannst þau smám saman vera örugg hér og komust af. Þau söknuðu samt fjölskyldu sinnar og föðurlands. Það kom fyrir að við sungum saman rússnesk þjóðlög og grétum saman, rifjar Jacobsen upp.
Rétttrúnaðarkirkjan og Nessöfnuður hafa átt samstarf um þessa minningarathöfn um árabil.
-Fyrirbænir eru mikilvægur þáttur í skilningi orþódoxa á dauðanum. Líklega er það eindregin ósk látinna að kirkjan haldi áfram að fara með þessar hefðbundnu bænir hér á Helgueyju, er haft eftir föður Johannesi.
Fólkið lifði tímana tvenna og varð að flýja hina grimmu, pólitísku “drápsmaura”.
Þau þoldu ekki við í samfélagi, sem reynt var að breyta með valdi og þvingunun í eftirlíkingu af mauraþúfu.
Þau flýðu grimmdina, einræðið og brengluðu hugmyndafræðina og fóru til Noregs þar sem kærleiksrík og þroskuð þjóð með kristin grunngildi tók þeim opnum örmum, tók á móti flóttamönnum sem gátu fátt lagt til samfélagsins nema bænir sínar.
Og þar er minningu þeirra enn haldið við með fögrum hætti.
Guð gefi að mennskan og elskan lifi af í þessum viðsjárverða heimi.
—
Pennateikning höfundar lituð með vatnslitum sumarið 2018, sem birtist í dagatali Nessafnaðar.
Á myndinni eru þeir tveir: faðir Jóhannes og faðir Seraphim sem sáu um helgihaldið í garðinu, við „Austur-Evrópsku grafirnar.“ Safnaðarfólk fylgdist forvitið með og naut söngs og atferlis.

You must be logged in to post a comment.