Þankar um hollustufæði og heilbrigt líf
8 kíló á 8 vikum!
Grein eftir Örn Bárð Jónsson
Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á upplestur -10 mín:
Gleðilegt nýtt ár!
Nú verða sagðar steinaldarfréttir
Steinaldarmenn lifðu víða á jörðinni fyrir þúsundum ára og stunduðu veiðar og söfnun jurta. Þeir veiddu dýr og söfnuðu fræjum, korni og ávöxtum.
Næringarfræðingar nútímans segja að við séum sköpuð til að lifa að miklu leyti á kjöti og fiski. Til viðbótar koma svo jurtir af ýmsu tagi.
Steinaldarfólkið hafði ekki ávexti árið um kring, aðeins á haustin, enda langt í tilvist kæliskápsins. Korn og fræ gátu þau aðeins tínt af villtum plöntum og í litlu magni.
Ég man þá tíð þegar ávextir, epli og appelsínur, fengust bara um jól!

Við lifum ekki án fitu
Dýrafita var mjög mikilvægur hluti fæðunnar og ekki síst fyrir heilann, sem er að mestu úr fitu og því er dýrafita mikilvæg fæða fyrir heila, vöðva og bein.
Ég ólst upp á Vestfjörðum við að borða mestmegnis feitt kindakjöt og fisk. Fitan var næg og mörinn af kindinni var látinn hanga og gerjast og svo handunninn í hnoðmör með sérstöku bragði sem bræddur var á fiskinn og kallað mörflot. Ummmm!
Reyndar var smjörlíki komið til sögunnar, sem telst nú varla til hollmetis lengur. Smjörlíki var fundið upp í Frakklandi af Hippolyte Mège-Mourie’s sem svar við kalli Napóleons III um ódýra fitu í stað smjörs handa verkamönnum og hermönnum í Fransk-prússneska stríðinu (1870–1871). Fyrsta eftirlíkingin, smjör-líki, samanstóð af fitu af nautgripum og sauðfé, sem þeytt var saman við mjólk og uppfinningarmaðurinn fékk einkaleyfi fyrir árið 1869.
En aftur að mataræði æsku minnar.
Nautgripakjöt var sjaldan á borðum og kjúkling smakkaði ég ekki fyrr en á unglingsárum.
Lambið var og er lostætið besta! Og svo ýsa, lúða og þorskurinn – nýr, saltaður, sólþurrkaður eða siginn. Þvílíkt lostæti og svo kom steinbíturinn þegar leið á veturinn.
Gömlu sjómennirnir á Ísafirði, nágrannar mínir, sem sumir voru sestir í helgan stein, sóttu rauðmaga á grunnsævi á skektum sínum á vorin, út á Prestabugtina. Þegar þeir lögðu frá landi eða komu til baka, skottuðumst við púkarnir gjarnan með hlunna undir kjölinn.

Akuryrkja
Þróun akuryrkju fyrir um 12.000 árum, breytti lífsháttum fólks úr veiðiferðum og söfnun matvæla, í staðbundna lifnaðarhætti og búsetu með jarðyrkju.
Með akuryrkjunni söfnuðust kornbirgðir sem entust lungann úr árinu. Fólk fór að neyta meiri kolvetna árið um kring og þar kemur glúten inn í myndina í meira magni en áður.
„Segðu mér hvað þú etur og ég skal segja þér hver þú ert“ sagði Anthelme Brilliat-Savarin (1755-1826).
Og nú er það glútenið sem veldur fjölda fólks vandræðum eins og t.d. bólgum í heila sem skapa allskonar óþægindi.
Gluten er prótein-sameind sem virkar sem lím (latneska orðið glue merkir lím) og skapar t.d. samloðun hveitis í brauði, kexi, bökunarvörum og pítsudeigi.
Dr. Perlmutter, er læknir og höfundur bókarinnar Grain Brain (Kornheili). Hann hefur mikla reynslu og hefur hjálpað fjölda fólks að ná betri heilsu með því t.d. að draga úr neyslu glútenríkra matvæla.
Brauð og kökur, pítsur og pasta, ofurunnið korn, smígur fljótt um meltingarveginn, snarhækkar blóðsykurinn og svo fellur hann eftir skamma stund. Syfja og heilaþoka setjast að.
Aðeins þrír til fimm af hundraði, sem fá Alzheimer’s-sjúkdóminn, eru sagðir fá hann í arf. Þetta segja vísindin. Restin hefur fengið sín minnisglöp vegna lífsstíls og þar eru kornvörur og sykur stórir áhrifaþættir og svo gervisykur sem aldrei hefði átt að fæðast í rannsóknarstofum Jökuls og Hávarðar – lesist Mr. Jekyll og Mr. Hyde.
Er glútenneysla áhrifaþáttur? Algengt vestrænt mataræði er talið geta ýtt undir elliglöp og Alzheimer’s. Í því sambandi má nefna rautt kjöt og einkum mikið unnar kjöt- og kornvörur, sætindi og eftirrétti. Rautt kjöt af grasætum er samt talið gott fyrir okkur.
Þegar kemur að alifuiglakjöti, svo sem kjúklingum, vakna spurningar um, á hverju þeir séu aldir á búum landsins? Eru það mestmegnis kornvörur, glútenríkt fóður?

og hófu akuryrkju fyrir um 12 þúsund árum
Seríós!
Farðu í stórmarkaðinn og sjáðu heilu veggina með úrvali af morgunkorni! Þar eru kókópöffsin og séríósin (cheerios – gleðihringir), kornfleksin og einnig lukkutöfrarnir (Lucky Charms) eða litríku kúlurnar af ökrum Ameríku á kjarapöllum. Foreldrar halda margir að þeir séu alltaf að græða þegar innantómt og sykrað drasl í skrautlegum umbúðum er keypt til neyzlu og börnin fóðruð á og þar með gerð friðlaus og óróleg vegna sykurs og um leið syfjuð af glútenlími.
Tóbaksrisarnir í Ameríku komu sér fyrir í matvælaiðnaðinum þegar milljónir manna hættu að reykja og þar greiða þeir nú verkfræðingum há laun fyrir að finna upp nýtt heilapöffs sem kíttar upp heilann og gerir hann þéttan svo að vizkan nái ekki inn fyrir börkinn.
Ég þekki mann sem fékk það hlutverk sem ungur verkfræðingur að taka út kornflögu-verksmiðju í útlöndum fyrir nokkrum áratugum. Hann hefur víst aldrei sett kornflögur inn fyrir sínar varir eftir það!

Léttir og birta
Fyrir skömmu tólk ég uppá því að borða ekki brauð, kökur og sykraðar matvörur í átta vikur, en borðaði mikið af AB-mjólk og eplum, kjöti og fiski og dýrafitu, drakk vatn og kaffi í lítravís og borðaði hnetur og þurrkaða ávexti í stað sælgætis. Áfengi hefur ekki verið á matseðlinum um árabil.
Engrar jurtafitu neytti ég nema ólífuolíu og kókosfeiti – kaupi enga maís- eða repjuolíu – en ég nota svo íslenska smjörið eins og mig langar með réttum olíum.
Á átta vikum hurfu jafnmörg kíló!
Og yfir höfði mínu og heila er heiðríkja og birta. Starfsorkan ótrúlega mikil þótt ég sé fyrir löngu kominn á eftirlaun.
VÁ! Þetta er ótrúlegt!

Steinaldarfólk í ættinni
Við erum af steinaldarfólki komin og eigum helzt að borða kjöt af grasætum. Fáar skepnur í heiminum eru betri uppspretta slíkra gæða afurða en íslenska sauðkindin, sem vafrað hefur um hreina náttúru okkar fagra lands í þúsund ár, bitið gras og breytt því í heilnæmt kjöt og fitu fyrir líkama okkar, gert okkur heil – og heilað heilann um leið, heilann sem glútenið kíttar upp ef við lifum áfram á kökum og heilapöffsi.
Geta þau ekki bara borðað kökur? spurði María Antoinette af hjartans umhyggju – eða þannig – fyrir sveltandi almenningi í Frakklandi í miðri byltingunni.
Ég er síðalda steinaldarmaður sem nýt þess að vera til í nútímanum á þessari dásamlegu jörð!
Og íslenskir steinaldar–menn borða auðvitað stein-bít. Ég var að rífa í mig hertan steinbít áðan, sem vinir í Tálknafirði gáfu mér á dögunum.
Svo ætla ég svo sannarlega að fá mér feitan steinbít í soðið þegar líður á veturinn og hann gengur á Vestfjarðarmið, fiskurinn sem gerði það að verkum að sveitungar mínir fyrr á öldum sultu eiginlega aldrei!

Róum á hollustumið og borðum eins og steinaldarfólk. Fáum okkur „væna flís af feitum sauð“ og nóg af fiskmeti og heilnæmri feiti!
Steinaldarfæði innihélt magurt kjöt, hnetur, ólífuolíu, ferskt grænmeti og ávexti.

Myndirnar eru allar fengnar að láni á Alnetinu en hvergi var getið um höfunda. Bestu þakkir til þeirra Alnetshjóna, Alla og Öllu!
—
Grein sem birtist 25. janúar 2025, skömmu eftir að þessi grein mín var rituð. Hana má lesa hér:
Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu
https://www.visir.is/g/20252676418d/upplysingaoreida-og-rannsoknir-a-mettadri-fituhttps://www.visir.is/g/20252676418d/upplysingaoreida-og-rannsoknir-a-mettadri-fitu
You must be logged in to post a comment.