Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

bók Auðar Styrkársdóttur

Bókaútgáfan Sæmundur 2024

Ritdómur eftir Örn Bárð Jónsson

Í gær lauk ég við að lesa bók Auðar Styrkársdóttur, Kona á buxum, nokkrar furður úr ævi Þuríðar formanns.

Seinustu kaflana las ég í sjávarbyggð á Vestfjörðum í vondu veðri, sem var táknrænt, því bókin er um einstaka konu sem varð formaður á sjó í kjölfar Móðuharðindanna miklu í lok 18. aldar og sigldi oft krappan sjó í glímu við náttúruöflin. Sagan teygir sig yfir á nýja öld, þá nítjándu.

Auður er aldeilis frábær penni.

Listfengi hennar kemur skýrt fram í textanum og mér fannst henni takast það með listrænum hætti að draga mig inn á sögusviðið, inn í aldarháttinn og andrúm fólksins, sem lifði við svo ótrúlega ólíkar aðstæður og allt aðrar en við þekkjum, sem nú höfum lífsandann enn í nösum.

Hún hefur einstakt lag á að tjá málfar fólks og hvernig það talaði með beinum orðum og líka með muldri og seisineium og þess háttar málblómum, sem merkja lítið sem ekkert, en eru samt þrungin meiningu og tjá sálarástand mælenda í ýmsum aðstæðum vonar og vonleysis og afstöðu til málefna líðandi stundar. Lýsingarnar eru svo næmar að maður finnur lykt af söltum sjó og slori, þvagi og saur, svitalykt og sætleika kossa og kynlífs.

Mér er ofarlega í huga þegar hún lýsir því þegar bátar farast í lendingu í stórsjó og brimi og margir skipverjar hlutu vota gröf. Hún persónugerir sjóinn og ölduna á svo listrænan hátt að ég minnist þess vart að hafa lesið annað eins. Já, seiseinei, sjaldan lesið nokkuð þessu líkt, nema þá kannski hjá Nóbelsskáldinu, Gunnari Gunnarssyni eða þá í Biflíunni sjálfri, þeirri blessuðu bók bókanna og allra alda.

Kona á buxum er engin önnur en Þuríður formaður sem flestir hafa heyrt um, en fáir vita hvílík persóna og atgervismaður hún var. Já, hún var maður og sem slíkur var hún kona, kona krafta og þreks, áræðni og atorku, kona sem lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna, en dreymdi líklega um að vera eða verða karlmaður.

Mér finnst efnistök Auðar og hæfileiki til að færa andrúm löngu liðins tíma í orð á bók, svo góður, að hún hljóti að fá fyrir mikla athygli, góða sölu og að sjálfsögðu stór verðlaun. Ég nefni Íslensku bókmenntaverðlaunin og svo ætti hann Oskar Vistdal vinur minn í Noregi auðvitað að þýða þessa bók á norsku og einhver á ensku og svo annar á þýsku og enn einn á frönsku og japönsku og kínversku og auðvitað ennfremur á öll önnur tungumál sem urðu til eftir fall Babelsturnsins forðum þegar Guð ruglaði tungumál manna vegna hroka þeirra.

Kona á buxum er sko ekki á neinu babli heldur dásamlegu máli og dýsætri tungu.

Þessi bók er gersemi – og það eru hún Auður sjálf reyndar líka.

Nánar úr Bókatíðindum:

https://www.bokatidindi.is/bok/kona-a-buxum-7048

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons