Grein sem birtist í Morgunblaðinu 3. október 2024
er hér tiltæk sem texti og einnig hljóðupptaka.

Í gegnum framrúðuna
Stundum fæ ég þessa spurningu við undirbúning útfarar: Verðum við að hafa sálma?
Hin síðari ár, hefur það færst í aukana, að fólk vilji sjálft ákveða nánast allt innihald athafna. Prestur fær þó oftast að ráða ræðunni.
Sjálfur sendi ég ætíð ræðu mína til fólks fyrirfram og spyr um viðbrögð og leiðréttingar t.d. á atriðum sem varða fjölskyldu og ættir.
Guðfræðilegum texta um vonina í Kristi, sem þarf að heyrast í hverri einustu líkræðu, ræð ég hins vegar einn, en þau fá hann líka til yfirlestrar.
Dægurtónlist sækir á og allt sem vekur upp minningar. Að gefnu tilefni, velti ég því fyrir mér á dögunum, hvort hið ljúfa lag og texti Magnúsar Eiríkssonar, „Einhversstaðar einhverntímann aftur“, hafi ratað í útför. Lagið er fallegt og í textanum er tregi og rómantík yfir því sem var og er ekki lengur. Þar segir m.a.:
En ég nenni ekki að hanga hér
Þó hugur dvelji oft hjá þér
Mundi þessi texti sunginn við útför, tjá hug syrgjenda eða fólk kannski sjá í honum meinta stríðni hins látna, sem nennir engu lengur og er því bara farinn?
Kirkjan sem gestgjafi
Kirkjan er gjarnan í hlutverki gestgjafans og þau sem þangað leita vegna athafna hafa e.t.v. stundað hana af fremur hóflegu kappi.
Sem dæmi má nefna, að þegar fólk býður gestum í mat, þá eru það oftast gestgjafarnir, sem setja saman matseðilinn. Gestir geta auðvitað gefið vertum sínum upplýsingar t.d. um ofnæmi, sjúkdóma eða aðrar ástæður fyrir sérfæði. En oftast ráða þau matseðlinum sem elda og reyna um leið að gera gestum sínum til hæfis.
Hvert þurfum við að horfa?
Tónlist, ljóð og söngvar, sem hafa djúp áhrif vegna minninga, er sjálfsagt að flétta inn í útför. En svo kemur oft upp þessi spurning frá aðstandendum: Verðum við að hafa sálma?
Því er til að svara, að í kirkjulegri útför, er eðlilegt og reyndar nauðsynlegt, að hafa a.m.k. þrjá sálma af fimm söngatriðum. Til viðbótar eru svo forspil og eftirspil. Í sumum tilfellum er jafnframt leikin syrpa af lögum, einkum dægurtónlist, áður en sjálf athöfnin hefst með líkhringingu og forspili.
Syrgjendur hafa prestinn sinn sér til ráðgjafar í tónlistarvali við útfarir og einnig organistann, sem yfirleitt er sérmenntaður á sviði kirkjutónlistar.
Horft til baka
Dægurlög og fagrar laglínur, sem tengjast persónunni, sem kvödd er, skipta marga miklu máli. Við horfum gjarnan til baka og rifjum upp minningar.
En á tímamótum og ekki síst í sorg, er jafnframt mikilvægt að horfa fram á veginn.
Sjáðu fyrir þér fjölskyldu, sem ferðast saman í bíl. Þar eru líklega ekki allir með augun í baksýnisspeglinum – og alls ekki bílstjórinn, nema andartak í senn.
Í baksýnisspeglinum eru minningarnar, en þar grillir hvergi í framtíðina.
Horft fram á veginn
Kristnir sálmar eru sérstök tegund tónlistar og kveðskapar, sem eiga sér tvö þúsund ára sögu og byggja á enn eldri hefð, t.d. Davíðsálmum Gamla testamentisins, en þar er hollur boðskapur af ýmsum toga, sem spannar allt litróf mannlegs lífs.
Sorgin er undarlegt fyrirbrigði. Hún er ekki sjúkdómur, heldur náttúruleg viðbrögð við missi. Sorgin er systir elskunnar. Við syrgjum það sem við elskum og góðar minningar eru auðvitað með í myndvefnaði sálarlífsins.
Svo er það eilífðarvonin. Boðskapur Kristinnar trúar snýst um lífið hér og nú, en líka – og ekki síður – um eilífðina, því lífinu lýkur ekki við dauðann. Dauðinn er vissulega endalok, en hann er ekki endirinn skv. von kristinnar trúar, sem byggir á vitnisburði sjónarvotta, sem mættu hinum upprisna Kristi, átu og drukkku með honum, þar til hann hvarf til himinsins heim á uppstigningardag.
Auðvitað er mikilvægt að líta um öxl og horfa í baksýnisspegilinn. En við þurfum einnig og ætíð að beina sjónum fram á veginn og horfa í gegnum framrúðuna.
Við sem sjáum á eftir látnum, þurfum að halda áfram, horfa fram á veginn og upp til himinsins, í von um eilíft líf og endurfundi með þeim, sem við elskum og söknum.
„Öllu er afmörkuð stund“, segir í einu af spekiritum Gamla testamentisins, Prédikaranum. Í þau orð sótti hljómsveitin, The Byrds, texta lagsins, sem meðlimir hennar, gerðu vinsælt á hippatímanum og enn er leikið á rásum og rafmiðlum: „To everything, there is a season“. Í Prédikaranum er margt vel mælt og mikið á dýptina.
Að líta um öxl „hefur sinn tíma“, að horfa fram á veginn „hefur sinn tíma“ – og framtíðarsýnin kemur í veg fyrir að við sitjum föst í fortíðinni.
Halda má því fram með gildum rökum að prestar, sem taka að sér útför án þess að nokkur sálmur sé sunginn, bregðist hlutverki sínu, kirkjunni og Drottni hennar. Þá er vert að geta þess, að útfararstofur hafa ekkert að gera með tónlist eða inntak útfarar.
Hafi fólk valið prestinn sem „athafnatækni“ til að annast útför, án þess boðskapar, sem hann á að standa fyrir, þá ætti hann og þau, að íhuga alvarlega að fara með athöfnina í aðra byggingu en vígða kirkju.
Drög að slíkri athöfn, væru best geymd í skottinu, undir varadekkinu, því sálma verður að syngja í kirkju!
Já, við þurfum sálmana, sem benda til framtíðar og himinsins
– og þeir sjást í gegnum framrúðuna!


You must be logged in to post a comment.