Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

Um kirkju og pólitík

Viltu lesa og/eða hlusta? Þá er hnappur hér:

Var að lesa velmeinta grein, sem Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og vinur á FB, ritaði í Morgunblaðið 27. sept. s.l.

Hún spyr „Er þjóðkirkjan stjórnmálavettvangur?” og þeirri spurningu svara ég reyndar neitandi, en um leið játandi, því kirkjan hefur þá köllun, að fjalla um samfélag manna og þar eru á dagskrá hugtök eins og t.d. réttlæti og sannleikur, náungakærleikur og sanngirni, skipting gæða og almenn kjör.

Sérta Martin Luther King Jr. flytur sína frægu ræðu í Washington 28. ágúst 1963 en þar sagðis hann eiga sér draum um betri kjör fólks, meira réttlæti, sanngjarnara samfélag, bjartari framtíð

En kirkjan er ekki „stjórnmálavettvangur“ í merkingunni flokkur eða framboð. Hún er öllum opin og spyr hvorki um góðverk eða flokkspólitískar meiningar við kirkjudyr.

Í greininni finnst mér hún halda því fram, að kirkjan hafi ekkert erindi inn í pólitíska umræðu. Leyfi mér hér með að útskýra mitt sjónarhorn þar um.

Pólitík er grískt orð að uppruna og merkir málefni borgaranna eða polites/πολίτες.

Í því sambandi minni ég á, að Boðorðin tíu, eru pólitísk í eðli sínu. Nóg er að nefna hvíldardagsboðorðið, sem tryggði fólki einn frídag í viku og komst á meðal Gyðinga fyrir um þrjú þúsund árum. Vinnuvika og hvíld varða réttindamál almennings og eru því pólitísk í eðli sínu.

Boðskapur Jesú um að elska náungann, er pólitískur boðskapur, einnig saga hans um Miskunnsama Samverjann. Báðar vísanirnar eru í velferð og kærleika manna á meðal – og það er pólitík – en NotaBene – ekki flokkspólitík!

Gamla testamentið er meira að vöxtum en hið Nýja og er stór hluti trúararfs kristinna manna.

Jesús byggði líf sitt á boðskap GT og bætti nýrri og róttækri túlkun við það.

GT er stútfullt af félagslegum boðskap, t.d. spámannanna, sem voru í raun uppljóstrarar síns tíma.

Spámaðurinn var rödd hrópandans, sem kom auga á spillingu og órétt á undan öðrum, sagði frá og áminnti stjórnmálamenn síns tíma.

Þá var „dýrt“ að trúa á réttlætið, því nær allir spámenn GT voru drepnir fyrir gagnrýni sína í aldanna rás, fyrir daga Jesú. Frændi hans, Jóhannes skírari, hefur verið talinn seinastur spámanna hins Gamla sáttmála. Hann var hálshöggvinn á jarðvistardögum Jesú.

Og enn eru spámenn ofsóttir í heiminum!

Kirkjan er í því hlutverki að ræða mannlífið í öllum sínum blæbrigðum og ef hún hættir því, þá deyr hún eða nær kannski bara að tóra sem einhverskonar væminn og sjálfhverfur jaðarhópur.

Að kjósa með boðskap Krists að leiðarljósi

Svo er það áhersla Diljár Mistar, að „hvetja þjóðkirkjuna til að galopna aftur dyr sínar fyrir jólaheimsóknum barna á skólatíma.“

Kirkjan hefur ætíð staðið opin, en það er hins vegar vegvilltu skólafólki að kenna og örfáum kverúlöntum úr hópi foreldra, sem eyðilagt hafa umrædda heimsóknarhefð barna til kirkju, í aðdraganda jóla.

Ég fagna því, að hún vilji að þessar heimsóknir komist aftur á og þar erum við sammála, vegna þess að öll gildi vestrænna þjóða, sem við teljum dýrmæt, eiga rætur sínar í kenningum Jesú Krists og því er það ekkert minna en grafalvarleg vanræksla skólastjórnenda, að hafa skorið á tengsl kirkju og skóla. Slíkt hefði í raun átt að kalla á áminningu ef ekki brottrekstur!

Ég var þjónandi prestur, þegar þessi óheillaþróun hófst, og nú sjáum við skemmdan ávöxtinn af bjálf-ræðinu og pólitískum villukenningum, sem læðst hafa inn í menntun kennara og sumar félagsgreinar háskólanna, á liðnum áratugum.

Þetta gerðist, meðal annars vegna þess, að kirkjan var ekki nógu vel vakandi og róttæk gegn villunni. Hún stóð sig ekki nógu vel í hinni pólitísku umræðu, um réttindi borgaranna, að fá að halda í gamlar hefðir sínar.

Í dag, 30. september 2024, þegar þetta er ritað, eru liðin nákvæmlega 40 ár frá því ég vígðist prestur og hét því að fræða um kenningar Krists og stuðla þannig að réttlátu samfélagi.

Það mun ég gera meðan ég lífsandann dreg og halda áfram að benda á tilvik, þar sem mér finnst stjórnmálamenn og aðrir fara villir vega.

Sú er ábyrgð mín sem kristins manns og hún er pólitísk, því hún varðar mannfólkið, mennskuna, og þau sem á frummáli Nýja testamentisins heita borgarar eða polites/πολίτες.

Og að lokum orð Jesú til samtíðar sinnar er hann áminnir leiðtoga fólksins.

27 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum sem sýnast fagrar utan en innan eru þær fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra. 28 Þannig eruð þér. Þér sýnist góðir fyrir sjónum manna en eruð að innan fullir hræsni og ranglætis. (Matteus 23.27-28)

Hvað er þetta annað en pólitík, að taka ráðamenn á beinið?

Jesús áminnir ráðamenn – úr kvikmynd
– fengið að láni af Veraldarvefnum

Jesús talaði ekki neina tæpitungu. Hann talaði með hressilegum hætti og svo eftirminnilegum að heimurinn mun aldrei gleyma honum.

—-

Grein Diljár Mistar og tengill á hana hjá Morgunblaðinu.

https://www.mbl.is/mogginn/bladid/grein/1871697/?t=328291275&_t=1727436433.2454226

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons