Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

Harris eða Trump – og Kristrún kannski hér ásamt öðrum?

Viltu hlusta? Kveiktu þá á upptökunni sem tekur tæpar 8 mínútur.

Þankar um Bandaríkin og Ísland í ljósi kosninganna vestra – og svo í lokin, mergjaður texti úr Bók bókanna um Babýlon.

Norska ríkisútvarpið NRK, birtir línurit sem sýna ýmis brennandi mál í BNA í samanburði milli stjórnartíðar Bidens og Trumps. Sjá nánar að baki tengli neðamáls.

Heldur virðist halla á Demókratana og að Trump hafi reynst betur á mörgum sviðum. Og nú er Kamala Harris kominn í framboð í stað Bidens. Trump er mér þó síður að skapi en Harris, en árangur hans á sviði efnahagsmála virðist betri en Demókratanna. Og er hún ekki líka alltof mikið á Woke-vængnum? Valið er ekki auðvelt fyrir þau sem mega kjósa.

Hvort þeirra sigrar?

Hér á landi eru hægri og vinstri saman í stjórn. Efnahagsmálin ekki sem best verður á kosið, vaxtastig í himinhæðum, verðbólga einnig og lífskjör lök, nema hjá þeim sem ríkið hefur í allt of mörgum tilfellum fært milljarða á silfurfati, meðan við hin fáum krónur með gati.

Thomas Möller, varaþingmaður Viðreisnar, ritar snarpa grein í DV í dag um efnahagsmálin. Sjá tengil neðanmáls.

Varla verður til hrein hægri stjórn næst, ef fylgi Sjálfstæðisflokksins verður eins og í skoðanakönnunum á þessum tímapunkti.

Verður þá næst demókratísk (S) stjórn í brúnni á þjóðarskútunni með ívafi frá flokki/flokkum hægra megin við miðju? Eða hrein vinstristjórn?

Alla vega virðist blandan, sem nú er við völd, í vandræðum með stjórnartökin og hefur verið, enda þótt ýmislegt hafi þó áunnist í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar, því engum er víst alls varnað.

Svo er stór spurning hvort hinn flokkspólitíski vettvangur sé orðinn ónýtur uppeldisgrunnur fyrir stjórnendur/þingmenn landsins.

Jesús sagði forðum daga: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“

Flöskur sem áður geymdu klóróform sem notað var til svæfinga.
Skissa frá liðnu sumri úr læknishúsinu á Hesteyri,
þar sem Vilmundur Jónsson, síðar landlæknir,
bjó um skeið í byrjun liðinnar aldar.

Er unnt að velja fólk með Gervigreind, út frá góðu forriti með breiðum og réttlátum forsendum, velja syndugt fólk – því annað er víst ekki í boði – sem speglar mannlífið og öll blæbrigði þjóðfélagsis, sem komi svo saman á Alþingi, ÓHÁÐ flokkum??????????

Tíu spurningarmerki eru við lok síðustu málsgreinar, enda engar auðveldar lausnir til á vanda stjórnmála heimsins.

Hér á landi og víð um heim sitja kjörnir fulltúar við kjötkatlana, í sumum tilfellum, að því er virðist, til þess einkum að hjálpa arðyrkjumönnum heimsins að tengja arðslöngur sínar við auðlindir, bæði náttúrulegar og aðrar, eins og fjósamenn með mjaltavélar, sjúgandi auðinn til eigin nota og eyðslu í sjálfhverfan lúxus og takmarkalaust óhóf.

Við höfum nýlega upplifað hrun í Íslensku efnahgslífi vegna misvitra valdhafa. Hrun getur aftur gerst.

Ungt fólk á í vandræðum með að kaupa sér þak yfir höfuðið. Verð á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu er í hæstu hæðum vegna gráðugra braskara og milliliða.

Mér dettur helst í hug á þessum óvissutímum, mergjaðir textar Opinberunarbókar Jóhannesar í Nýja testamentinu, sem sumir lýsa taumleysi og spillingu, líklega á 1. öld, með kröftugu orðfæri, í líkingu við spámenn Gamla testamentisins. Þar sér Jóhannes fyrir sér fall Babýlon, sem er táknmynd Rómaveldis.

Í 18. kafla Opinbrerunar Jóhannesar stendur viðskiptalíf þess tíma í forundran frammi yfir dóminum og spyr hvers vegna öll tækifærin séu úr greipum runnin:

Fall Babýlon, táknmyndar Rómaveldis
– mynd af Veraldarvefnum

11 Og kaupmenn jarðarinnar gráta og harma yfir henni því að enginn kaupir nú framar vörur þeirra, 12 farma af gulli og silfri, gimsteinum og perlum, dýru líni og purpura, silki og skarlati, og alls konar ilmvið og alls konar muni af fílabeini og eðalviði, af eiri, járni og marmara, 13 og kanelbörk og balsam, ilmjurtir og smyrsl, reykelsi, vín og olíu og fínt mjöl og hveiti og uxa og sauði og hesta og vagna og þræla og mannslíf. 

14 Ágóðinn, sem þú þráðir svo heitt, hefur brugðist þér, öll sæld og glys þér horfið og enginn mun neitt af því finna framar. 

15 Kaupmennirnir, sem seldu þessa hluti og auðguðust á henni, munu standa álengdar af ótta yfir kvöl hennar, grátandi og harmandi 16 og segja:

„Vei, vei, borgin mikla, sem klæddist dýru líni, purpura og skarlati og var prýdd gulli og gimsteinum og perlum. 17 Á einni stundu eyddist allur þessi auður.“

Og allir skipstjórar, allir sjófarendur og hásetar og allir þeir sem atvinnu reka á sjónum stóðu álengdar. 18 Þegar þeir sáu reykinn af brennandi borginni hrópuðu þeir: „Hvaða borg jafnast á við borgina miklu?“ 19 Og þeir jusu mold yfir höfuð sér og hrópuðu grátandi og harmandi:

„Vei, vei, borgin mikla, sem allir þeir er skip eiga á sjónum auðguðust á vegna auðæfa hennar. Á einni stundu var hún í eyði lögð“ 

20 Fagna yfir henni, þú himinn og þér heilögu, postular og spámenn, því að Guð hefur hefnt yðar á henni.

Já, Jóhannes var mergjaður höfundur sem las samtíð sína skörpum huga.

Hvar endar þessi þjóð, sem virðist oft ekki kunna fótum sínum forráð?

Við bíðum mörg betri tíðar.

Í Hinni helgu bók kemur víða fram andvarp kynslóða fyrri alda:

Hversu lengi – hversu lengi

– hversu lengi skal bíða?

—-

Hér eru svo tegnlar á fyrrnefndar fréttir úr NRK og DV:

https://www.nrk.no/urix/atte-grafer-som-hjelper-til-a-forsta-usa-valget-1.17034756

https://www.dv.is/eyjan/2024/9/25/thomas-moller-skrifar-falleinkunn-fjorum-svidum/

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons