Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

Viltu græða stórt?

Smelltu á tengilinn og þá geturðu hlustað á greinina sem tekur 4:37 mínútur!

Nýr samgöngusáttmáli hefur verið kynntur og kostar tugi milljarða. Bílum fjölgar í hverri viku og gatnakerfi Höfuðborgarsvæðisins ber ekki alla þessa umferð.

Þúsundir hjóla til og frá vinnu á nýjum hjólastígum á svæðinu sem hafa gjörbreytt ferðamöguleikum. Þetta fólk væri annars flest á bílum og þar með væri vandinn enn stærri.

2.400 kílómetrar á rúmu ári

Ég fer flestra minna ferða, vetur, sumar, vor og haust, á reiðhjóli. Það er oft fljótlegra, bílastæðavandinn hverfur, leiðindin, sem umferðin skapar, gufa upp og hreyfingin gleður hug og hjarta.

Danskir fjölmiðlar segja að hjólreiðafólk spari þjóðfélaginu 25 danskar krónur á kílómetra sem gera rúmar 500 íslenskar krónur – já, fyrir hvern kílómetra.

Ég á þar með inni hjá ríkinu fyrir hjólreiðarnar á liðnum tólf til fjórtán mánuðum um eina komma tvær milljónir króna en hef ekki hugmynd um hvert senda á reikninginn! Enda yrði hann aldrei greiddur hvort sem er, en ég fæ ábatann hins vegar í betri heilsu og lengri ævi eftir að hafa hjólað 2.400 km frá því í fyrra.

Hjólastígar

Borg og ríki hafa gjörbreytt Höfuðborgarsvæðinu með nýjum hjólastígum sem lagðir hafa verið s.l. tvo áratugi eða svo.

Stígarnir eru frábær samgöngubót.

Myndin fengin að láni af Vefnum

Hjólreiðar efla heilsu fólks, fyrir utan innleggin öll sem fylgja og bætast við á reikningum Gleðibankans.

500 kall á hvern kílómetra!

Á dögunum hjólaði ég úr Miðborginni og suður í Hafnarfjarðarkirkju til að annast útför. Ég hafði vindinn í fangið suður og í dagslok hafði hann snúið sér og ég varð að taka hann í fangið aftur alla leið heim! Þessir 30 kílómetrar bættust í heilsubankann og lögðust þar ofan á 4 ferðir í Garðabæ nýlega og aðra í Hafnarfjörð á s.l. tveim vikum sem gera samtals 140 kílómetra.

Skissa sem sýnir klerkinn á hjóli á Vestfjörðum fyrr í sumar

Nýlega þurfti ég að sækja bílinn minn á verkstæði í Hafnarfirði og stökk á bak í Miðborginni kl. 16:17 og var kominn í Fjörðinn eftir 24 mínútur meðan fólkið sem var á leið í bílum sínum heim úr vinnunni var án efa um klukkutíma með því að bíða á ljósum og í röð bíla sem fóru bara fetið meðan ég brunaði framúr öllum á nýju hjólastígunum!

Rafmagnshjól

Já, en ertu ekki á rafmagnshjóli? spyr fólk.

Jú, ég er á rafmagnshjóli. Ég las grein í norsku blaði þar sem staðhæft var að rafhjólafólk fái jafn mikið út úr hjólreiðum og aðrir sem eru á gírahjólum. Hvernig má það vera? Jú, þau sem nota rafmagnið hjóla oftar og lengra og standa sjaldnar heima í dyragættinni og spyrja sig: Á ég, á ég ekki? Þau bara leggja ótrauð í’ann!

Hjólið mitt heitir QWIC Mira
og er frá honum
Ragga í Rafmagnshjólum á Grandanum

Danir og Hollendingar eru líklega duglegustu hjólreiðaþjóðir Evrópu. Við getum vissuelga tekið okkur á og hjólað meir.

Betri heilsa, fleiri ár

Hjólreiðar gefa manni líka tóm til íhugunar. Þú finnur ilminn af náttúrunni, sérð litina án þess að horfa í gegnum bílrúður, hljóðmengun er minni og svo fá lungu og heili súrefni til að vinna úr og vellíðanin streymir um æðar og vöðva.

Fáðu þér hjól. Það þjálfar líka jafnvægið, eykur þrek, viðheldur hæfni vöðva og heila.

Svo gefur það þjóðfélaginu 500 kall á kílómetra í sparnað!

Veistu um betri díl?

Arðinn af hjólreiðum má reikna í krónum
en hann kemur í betri heilsu og lengri ævi.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons