Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

Yfir 130 þúsund heimsóknir!

Þankar um s.l. 11 ár og svo þegar ég sjálfur var 11 ára.

Ég var búinn að gleyma því hvenær ég stofnaði þessa heimasíðu en í gær fékk ég kveðju frá fyrirtækinu WordPress um að fyrir 11 árum hefði hún litið dagsins ljós.

Á þessum 11 árum hafa 130.180 – segi og skrifa: „eitthundrað-og-þrjátíu þúsund-eitthundrað-og-áttatíu“ gestir heimsótt síðuna.

Ég birti reyndar lítið þau 5 ár sem ég þjónaði í Noregi frá 1. nóv. 2014- 30. nóv. 2019. Hefði ég verið á Íslandi má ætla að heildartalan hefði orðið enn hærri, e.t.v. 200 þúsund!

En bestu árin reyndust vera þessi:

Árið 2014 – 21.429 heimsóknir,

Árið 2022 – 21.786,

Árið 2023 – 20.119.

Að mestu leyti er um að ræða prédikanir og minningarorð, blaðagreinar og pistla og loks myndlist sem ég föndra við í tómstundum.

11 ár!

Þessa ljósmynd fékk ég senda fyrir margt löngu frá æskufélaga mínum, Árna Sörensen. Hún er tekin við „stakketið“ (já, við töluðum stundum dönskuskotið á Ísó) við Hrannargötu 9 á Ísafirði. Þakið í baksýn er á Gúttó, sem stendur við Sólgötu, götuna mína. Í bakgrunni er Eyrarfjallið, en því tengt er Eyrin sjálf, sem kaupstaðurinn stendur á og er eins og allir vita í Skutulsfirði við Djúp.

Myndin er af okkur æskufélögunum sem áttum marga ævintýralega daga saman.

Myndin gæti verið tekin um það leyti sem ég var 11 ára, jafngamall heimasíðu minni!

Aftari röð frá vinstri: Þórarinn Sigurðsson, tannlæknir (f. 1948), Sigurður Hrólfsson, farmaður (f. 1947) og Árni Sörensen, prentari (f. 1947),

Fremri röð: Kristinn Hrólfsson, múraremeistari (f. 1951) og yðar einlægur t.h. (f. 1949).

Frábærir félagar og drengir góðir.

Svo eignaðist ég annað sett af vinum í Verzlunarskólanum á árunum 1965-69 og þá hitti ég reglulega, en æskuvinina því miður sjaldnar. Sú er víst reynsla margra að eiga tvö sett af vinum, bernskuvini og svo vini úr framhaldsskóla. Þá má og geta vinkonu minnar frá fyrstu árum ævinnar, Sigrúnar Halldórsdóttur f. 1950, sem var mér sem systir á fyrstu 5 árum ævi minnar. Segi kannski einhvern tímann sögur af henni og strákunum úr Verzló?

Blessun er það að hafa eignast góða vini á lífsleiðinni og skipta þeir meira máli en öll „lækin“ á vefsíðum lífsins og meira máli en 130.180 rafrænar heimsóknir!

—-

[Grafísku myndina fremst í greininni sótti ég á þessa slóð: https://conceptualminds.com/website-traffic/%5D

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons