Grindvíkingar eru mér ofarlega í huga, nú á þessum erfiðu tímum.
Hvað skal gera?

Viltu hlusta? Smelltu þá á afskpilun!
Mér finnst mikilvægast að Grindvíkingar ákveði sjálfir framtíð sína.
Þeir eru með réttkjörna bæjarstjórn, sem ætlað er að stýra málum þeirra og koma þeim í farsæla höfn. Íbúarnir sjálfir eiga að ráða mestu um eigin framtíð. Allir stjórnmálaflokkar sem bæjarbúar tilheyra ættu að leggjast saman á árarnar og leysa málin.
Vill fólk flytja aftur í sinn gamla bæ? Verður það hægt? Verður það leyft? Er það skynsamlegt?
Eða á að byggja nýjan bæ á nýjum stað, með eigin bæjarfélagi og bæjarstjórn?
Eða, eiga Grindvíkingar að dreifast um allt og hverfa inn í önnur sveitarfélög?
Án efa vilja sumir þeirra velja þann kost. En ég hygg að margir vilji búa áfram saman í grindvísku samfélagi og bæjarfélagi.
Ég hef nefnt Ölfusið sem framtíðarstað fyrir vaxandi byggð. Líklega rís þar á komandi árum stærsta þéttbýli utan Höfuðborgarsvæðisins.
Í Þorlákshöfn gætu Grindvíkingar nýtt höfnina og siglt á sín gömlu mið sem fyrr ef höfnin þeirra í Grindavík verður ekki nýtt.
Ef þeir fara í Sandgerði, eins og nefnt hefur verið, þá verða þeir norðan við Reykjanesröstina, ef ég skil straumana rétt. Skiptir það máli?
Hér vakna ýmsar spurningar, en mín trú er sú, að þeir dugnaðarforkar sem Grindvíkingar eru, muni finna svör við þessum spurningum og fleirum sem upp kunna að koma.
Hvorki valdafólk né sálfskipaðir vitringar eiga að ráðskast með örlög Grindvíkinga.
Þeir eiga að ráða sínum málum sjálfir og Guð forði mér frá því að vera spyrtur við vald eða vitringa, þó ég setji þessa hógværu þanka mína á blað.
Hver er sinnar gæfu smiður, segir í máltækinu.
Og Kristur sagði: Í heiminum hafið þér þrenging, en verið hughraust, ég hef sigrað heiminn!
Guð blessi Grindvíkinga og allt þeirra fólk og allt í þeirra lífi sem elskuvert er.
You must be logged in to post a comment.