Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

Fjarðarstræti og Sólgata mætast á Ísafirði þar sem ég fæddist, en nú er ég orðinn Kollfirðingur

Húsið sem ég fæddist og ólst upp í stendur við Sólgötu númer 8 á Ísafirði og á horninu við Fjarðarstræti sem liggur meðfram sjónum á norðanverðri Eyrinni eins og hinn forna prestssetursjörð heitir.

Ég ólst því upp við sjóinn þar sem heitir Prestabugt.

Hornið á húsinu er sneytt til að auðvelda umferðu inn og út úr Sólgötunni.

Ég bjó á efri hæðinni og þegar ég var farinn að sofa í einn, svaf ég í Sneyðinni sem var borðstofa fjölskyldunnar.

Flutti svo í minna herbergi, miðgluggann á efri hæð Fjarðarstrætismegin, þegar stóri bróðir flutti að heiman.


Myndatexti:
Fjarðarstræti og fjallið Ernirinn í baksýn.
Vinstra megin er Aldan en hægra megin sést aðseins í Glámu, frystihúsið gamla, en svo er gráa húsið með bláa þakinu, Sólgata 8 sem móðurafi minn og amma byggðu með börnum sínum, en áður bjuggu þau í lágreista húsinu með rauða þakinu sem hét Glasgow en þar hafði áður verið rekin verslun með því nafni.

Á Eyri í Skutulsfirði byggðist svo bærinn Ísafjörður sem ber nafn sitt af innsta firðinum í Djúpinu og reyndar líka af Ísafjarðardjúpinu sjálfu. Í fornum textum t.d. í Sturlungu fóru menn ríðandi á aðventunni, ef ég man rétt, og norður í Ísafjörð sem þá merkti Djúpið allt og innfirði þess.

Um Fjarðarstrætið gekk ég í skólann og í verstu veðrum hljóp ég að Öldunni, húsinu stóra t.v. á myndinni, og beið þar undir vegg meðan aldan reið yfir götuna, hljóp svo að næsta húsi meðan aldan sogaðist til baka, beið aftur þar meðan næsta gusa gekk yfir og svo koll af kolli þar til ég náði í skjól neðar á Eyrinni.

Í slíkum veðtum fylltist gatan af þara, spýtnadrasli, grjóti, netadræsum. Þarastönglar köstuðust upp á land með botnsökku sinni, steininum sem þeir uxu á og festu líf sitt við.

Þegar veðri slotaði komu bæjarstarfsmenn og hreinsuðu Fjarðarstrætið og aftur varð þar logn og ljúfleikur mannlífs og náttúru.

Að alast upp við sjávarhljóð og lykt er eftirminnilegt. Á kvöldin þegar logn var gjálfraði aldan við bólverkið meðfram götunni og rúnnaðir hnullungar sem aldan hafði slípað um aldir og árþúsund, veltust með dimmu og stuttum klunk ómum, sem svæfðu mann svo vel með dempuðu hljóðum sínum. Svo var það lyktin af sjónum og fuglalífið, krummi með sínu krunki og kollan sem úaði svo unaðslega.

Ég uni mér best við sjóinn og er nú orðinn Kollfirðingur.

Reykjavík, þessi agnarsmáa vík, er innúr Kollafirði, en hann nær frá Kjalarnesi við mynni Hvalfjarðar og að Gróttu.

Vestan við vitann tekur Skerjafjörður við og af því leiðir að Reykvíkingar eru annað hvort Skerfirðingar eða Kollfirðingar.

Sá fyrrnefndi ber nafnið af skerjunum sem sökkva á háflæði en Kollafjörður af eyjunum sem eru eins og kollar sem sökkva ekki þegar hæst flæðir.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons