
ÍSRAEL
Hörmungafréttir berast frá löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Hryðjuverk Hamas vekja hrylling í brjóstum flestra sem um þau heyra og viðbrögð Ísraelsmanna eru umdeild. Glæpir eru framdir á báða bóga og það ber að harma og fordæma. Hvenær getur fólk vænst þess að fá að lifa í friði á þessum slóðum? Rétturinn til að verjast hryðjuverkum og reyna að uppræta, svo svæsin samtök sem Hamas eru, hlýtur að vega þungt. Fréttaflutningur hér heima hefur að mínu mati verið frekar vilhallur öðrum aðilanum en hinum. Slíkt ber að varast í miðlun frétta og mati á aðstæðum.
RÚV
Ég verð að viðukenna að ég hef orðið þverrandi trú á RÚV og er löngu hættur að hlusta t.d. á morgunútvarpið og flest þar á bæ nema hádegisfréttir útvaps og kvöldfréttir sjónvarps. Reyndar sæki ég mér reglulega menningarefni í Sarpinum.
Sunnudagsmessurnar á RÚV eru nú flestar „niðursoðnar“, þ.e. teknar upp í miðri viku án safnaðar, en ekki sendar beint. Það er gert vegna sparnaðar, meðan danska sjónvarpið er með flotta kirkjudagskrá hvern sunnudag, þar sem söfnuður er heimsóttur og þáttarstjórnandi sjónvarps kynnir sögu kirkjubyggingar hverju sinni, ræðir við heimafólk og prest áður en útsending hefst. Textar sálma birtast á skjánum svo maður geti tekið undir safnaðarsönginn í ríki sjálfrar drottningar.

Nei, hér á landi eru það hin pólitísk-rétthugsandi á RÚV sem gengisfella allt trúarlegt efni m.a. með því að færa morgunbænir svo framarlega í dagskrána, með það væntanlega fyrir augum, að sem allra fæstir af þeim meirihluta landsmanna sem tilheyra kristinni kirkju, lútherskri, kaþólskri, hvítasunnu- eða rétttrúnaðarkirkjunni, fái þjónustu við sitt hæfi og á heppilegri tíma en kl. 06:45 að morgni! Fjöldi fólksins, sem tilheyrir kristnum kirkjum, er líklega enn langstærsta mengi lífsskoðunar í landinu en skv. vef Hagstofu, sem ég opnaði rétt í þessu, eru um 210 þúsund landsmanna skráð í kristin trúfélög. Þessi hópur nýtur skertrar þjónustu af hendi RÚV og er þá vægt til orða tekið, en miðillinn kemur hins vegar vel til skila öllu því sem miður fer innan Þjóðkirkjunnar hverju sinni.
Mér finnst stundum að sumt starfsfólkið hjá RÚV sé ekki vanda sínum nægilega vel vaxið, of ungt og allt of miklar gloppur í þekkingu þess, málfarslýti of algeng – og þá á ég ekki bara við orðaforða og beygingar máls – heldur skerta tilfinningu fyrir hrynjandi máls og merkingu.

Ætli þessi kennd mín fylgi ekki aldrinum og ég þar með auðvelt skotmark þeirra, sem telja alla sem komnir eru yfir sjötugt, elliær gamalmenni?
En svona er nú að komast á efri ár, sem minnir mig á það að ég hélt því fram í Stjórnlagaráði 2011, þegar sumir fulltrúar þar vildu lækka kjörgengisaldur forseta Íslands úr 35 árum í 18 ár, að lítið væri nú yfirleitt að marka fólk fyrr en upp úr fimmtugu og jafnvel ekki fyrr en eftir sextugt!
ÍSLENSK ÁBYRGÐ – AUGU OG HENDUR STJÓRNMÁLAMANNA
Í gær var Silfrið á skjánum og þar sá ég Bjarna Benediktsson sem sagði af sér, án þess að segja af sér, og taldi það „stórmál að stíga út úr ráðuneytinu“. Mörg eru þau afrekin, sagði kerling nokkur.
Ég var ekki með hljóðið á, bara mynd, og ég fylgdist grannt með svipbrigðum og látbragði Bjarna. Svo kom Lilja Alfreðsdóttir á skjáinn, með sínum fettum og ég hugsaði: Þau leika sitt hlutverk og kunna rulluna, depla augum og glenna upp skjái sína með tilþrifum á réttum augnablikum. Handahreyfingar eru þaulæfðar.
Látbragð kemur oft upp um meiningar fólks, t.d. uppglennt augu, sem oftar en ekki tala úr undirmeðvitund mælanda og segja í raun: Nú er ég að ljúga. En þessu taka sumir ekki eftir en smá þekking á sálfræði veitir innsýn í sálarlíf þess er tjáir sig.
Svo er það athyglisvert að fylgjast með sumum ungum konum í viðtölum. Þær tala gjarnan með miklum bægslagangi og vængjaslætti.

Við sem eldri erum og hverra augu hafa marga fjöruna sopið, sjáum í gegnum tjáningarbrögðin. Við þekkjum látbragð og svipgerðarbrellur og skynjum að þarna er fólk að leika hlutverk og í þeim leik er nánast allt leyfilegt.

„Varað er við öflugum vestan stormi með dimmum éljum á Suðvesturlandi í fyrramálið og fram eftir degi. Stormurinn teygir sig líklega norður í Borgarfjörð og vel austur eftir Suðurlandi, og enginn landshluti sleppur alveg við vonda veðrið.“
Í fréttum sama dag var sagt frá því að a.m.k. tveir stjórnmálamenn í Noregi hefðu þurft að taka pokann sinn vegna þess að þeir voru uppvísir af því að hagnast á vitneskju um peningamarkaðinn úr sínum pólitísku grenjum, upplýsingum sem aðrir höfðu ekki aðgang að. Og þar með blésu vindar samfélagsins þeim úr embættum. Hér á landi duga ekki óveður á hæsta viðvörunarstigi til að hreyfa við embættismönnum sem „græða á daginn og grilla á kvöldin“ eins og það heitir í þeirra eigin kenningum um hlutverkaleik, lífsgæði og afkomu.
Ísland er leikhús og á stundum líkt sjálfu leikhúsi fáránleikans.

MYRKUR OG LJÓS
Nú haustar og dimman sækir að með sínum sterku tökum og þá er best að finna sér ljós og yl í því sem glóir í menningu okkar og trú. Fátt gagnast fólki betur í andstreymi og mótlæti, en trú og von, sem byggir á eingyðistrú þeirri sem Gyðingar færðu heimsbyggðinni og er án efa eitt merkasta framlag til hugmyndasögu mannkyns.
Guð blessi Gyðinga heimsins, forði þeim og öðrum frá ofsóknum og frá illu og leiði þá og okkur öll á friðarveg.
Læt hér fylgja mynd sem ég tók í Róm nýlega af hluta lágmyndar þar sem rómverskir hermenn sjást koma með herfang sitt úr Jerúsalem sem þeir lögðu í rúst árið 70 e.Kr. Góssið dugði keisara Rómaveldis til að byggja gríðarlegar hallir og hús sem voru skraut fyrir hans eigið egó og vottur um brjálæði hans og firringu, gyðingahatur og gengisfellingu alþýðu fólks.

sjöarma ljósastikuna og örkina með steintöflunum með Boðorðunum 10.
Kristið fólk, fátækt og ofsótt, í Rómaveldi á 1. öld e.Kr. sem hittist í heimahúsum til að iðka trú sína, því engar kirkjubyggingar voru þá til, felldi að lokum með auðmýkt sinni og kærleika, sjálft ríki andskotans. Fyrir elsku Guðs flýr flest hið illa.
Séra Hallgrímur orti:
Blotadu ecki broder minn
ból þad eikur nauda
eingum hialpar Andsk(otinn)
og allra sijst i dauda.
(Ritháttur skv. gömlu handriti. Úr Ljóðmæli 5, sem Margrét Eggertsdóttir, Karl Óskar Ólafsson og Krisján Eiríksson, bjuggu til prentunar fyrir útgáfu Árnastofnunar 2023).
Og til umþenkingar, af því að óvinurinn er hér nefndur í kveðskap sálmaskálds, þá er eitt vinsælasta atviksorð samtímans, tilvitnum í óvin mannkyns, því nú er allt „ansi þetta og ansi hitt“. Á fólk virkilega engin önnur atviksorð til að nota í fjölmiðlum nema tengd anskotanum? Hvað með að segja t.d. oftar að eitthvað sé mjög gott, afar flott, firna fínt, dáyndis dásamlegt, dýrðar fagurt? Meira að segja mál eins og „sjúkt flott“ og „mega kúl“ finnst mér betra en ansi þetta og ansi hitt.
Er nokkur furða að á stundum finnist manni margt mætti betur fara í munni og höndum þeirra sem mest ber á í umræðu daganna?
TENDRUM LJÓSIN Í SKAMMDEGINU
„Dagur fagur prýðir veröld alla“, segir í gömlum vikivaka eftir séra Einar í Eydölum og er prentaður í Vísnabók Guðbrands 1612 en þekktastur sálma hans er væntanlega, jólasálmurinn: Nóttin var svo ágæt ein.
Læt fylgja slóð á kveðskapinn og birti hér fyrstu þrjú erindin af þrjátíuogfimm!
https://bragi.arnastofnun.is/ljod.php?ID=1910
1.
Nógu þykki mér nóttin löng,
nýjan vil eg því dikta söng;
myrkva stofan er meiðsla þröng,
mál er héðan að kalla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.
2.
Myrkur er nóg í heimi hér,
hætt við slysum hvar mann fer;
lifandi Jesús, lýstu mér
og láttu mig ekki falla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.
3.
Léntu mér þann lukkuslag
með láni og vænum ráðahag
að athuga megi eg þann efsta dag
og á þitt nafnið kalla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.

Lesum meira gamalt og gott í vetur. Það bætir og hressir lund og er á við ótal gervilausnir sem nú bjóðast á kjarapöllum samfélagsmiðlanna og kosta í sumum tilfellum stórfé þótt innihaldið sé oftar en ekki rýrt, þunnt og hornótt sem marhnútsroð.
Bókasöfnin eru opin og þar fást dýrir textar fyrir lítil sem engin útlát.
You must be logged in to post a comment.