Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Jón Snævarr Guðnason 1947-2023

Minningarorðin geturðu lesið og hlustað á hér fyrir neðan:

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Jón Snævarr Guðnason

1947-2023

Útför frá Háteigskirkju

Fimmtudaginn 3. ágúst kl. 13

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði

Friður Guðs sé með okkur.

Vinirnir, Charlie Brown og hundurinn Snoopy, teiknimyndapersónur, sitja á bryggjusporði og horfa á sólarlagið. Charlie Brown er hrærður yfir fegurð lífsins og segir: “Við lifum bara einu sinni, Snoopy.” Þá svarar voffi: “Nei, við deyjum bara einu sinni, en lifum hvern dag.”

Viskan í þessu svari vísar til lífsins og þess að hafa augun opin fyrir dásemdum þess. Jón Snævarr skynjaði fegurðina og naut lífsins alla daga þrátt fyrir mótlæti af ýmsu tagi. Hann bar veikindi sín með æðruleysi og lifði hvern dag með opnum huga, lifði marga daga, lifði lífinu í margfeldi eins og spekin í samtali fyrrnefndra félaga birtir. Við deyjum einu sinni, en lifum hvern dag, marga daga, alla daga, þar til ný tilvera tekur við, með nýjum himni og nýrri jörð, eins og segir í hinni tormeltu og stórbrotnu bók, Opinberun Jóhannesar, sem fyrr var vitnað til.

Í fornu, írsku ljóði, er slegið á strengi samkenndar með öllu sem lifir. Ljóðið er talið elsta ljóð írskrar menningar. Írska skáldið Amairgen setur fram í ljóðinu þessa staðhæfingu:

“Ég er vegna þess að allt annað er.”

Við erum öll hluti af heild, hluti af fjölskyldu, komin af forfeðrum og formæðrum, áum og eddum.

Guðni Þórðarson, faðir Jóns, fæddist og ólst upp í Hvítanesi í Skilmannahreppi og Sigrún Jónsdóttir, móðir hans, var frá Breiðabólsstað í Reykholtsdal. Rætur Jóns liggja á þessum slóðum. Í ár eru liðin 100 ár frá fæðingu foreldra hans. Þau voru fædd 1923. Sigrún lést árið 2011 en Guðni 2013.

Jón Snævarr, var mikið náttúrubarn, ræturnar átti hann í sveitinni eins og foreldrar hans. Borgarfjörðurinn og ekki síst Arnarvatnsheiðin, með öllum sínum töfrum, voru hans yndisstaðir. Náttúrufræðingurinn og skáldið, Jónas Hallgrímsson, orti:

Efst á Arnarvatnshæðum

oft hef eg klári beitt;

þar er allt þakið í vötnum,

þar heitir Réttarvatn eitt.

Og undir Norðurásnum

er ofurlítil tó,

og lækur líður þar niður

um lágan Hvannamó.

Á öngum stað eg uni

eins vel og þessum mér;

ískaldur Eiríksjökull

veit allt sem talað er hér.

Jónas fann landið í brjósti sér, fegurð þess í máttugum fjöllum og einnig í fíngerðum blómum, sem eru agnarsmá og viðkvæm, en um leið gríðarlega máttug í fegurð sinni og seiglu.

Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.

Að geta talað við landið og blómin smá, beint bæn sinni til Guðs í gegnum sköpun hans, ber vott um samhljóm með öllu sem lifir.

Sálmaskáldið í Biblíunni horfði í kringum sig í lotningu og orti:

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,

tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,

hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,

og mannsins barn að þú vitjir þess?

Þú gerðir hann litlu minni en Guð,

krýndir hann hátign og heiðri,

lést hann ríkja yfir handaverkum þínum,

lagðir allt að fótum hans:

sauðfénað allan og uxa

og auk þess dýr merkurinnar,

fugla himins og fiska hafsins,

allt sem fer hafsins vegu.

Drottinn, Guð vor,

hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.

(Sl. 8.4-10)

Lífið er magnað. Fólk fæðist og deyr, deyr einu sinni, en lifir alla daga.

Jón Snævarr, var elstur systkina sinna, f. 31. janúar 1947, andartökum eldri en tvíburasystir hans, Valgerður Margrét, sem lést árið 2008. Svo komu Sigrún Halla f. 1949 og yngstur, Guðni Ingólfur f. 1951, d. 2001.

Hann fæddist í Reykjavík og bjó í Barmahlíð til 15 ára aldurs en þá flutti hann með foreldrum sínum í Safamýri 93. Heimilið var í nýju hverfi þar sem mikil uppbygging átti sér stað á 7. áratugi liðinnar aldar.

Á unglingsárum vaknar fólk til nýs lífs og fer að líta í kringum sig. Nonni sá sæta stelpu. Hann var kominn með bílpróf og sótti hana heim og bauð henni á rúntinn. Hann var sautján og hún fimmtán. Hann kom kvöld eftir kvöld en aldrei á sama bílnum. “Hver er þessi strákur sem er að eltast við hana Dísu? Hvar fær hann alla þessa bíla?” Skýringin var að pabbi Nonna rak bílaleigu á þessum árum. Hann vann hug og hjörtu foreldra Dísu og fjölskyldunnar. Hann átti alltaf auðvelt með að ná til fólks, var sanngjarn og heiðarlegur og með ríka réttlætiskennd, sem er svo mikilvæg í samfélaginu okkar. Í því sambandi hef ég skrifað í fjölmiðla og lagt til að nafnið dómsmálaráðherra, verði breytt í réttlætisráðherra. Heyrið þið ekki hinn jákvæða tón í orðinu réttlætisráðherra, réttlætisráðuneytið? Við þurfum meira réttlæti í landinu, sanngirni og jöfnuð.

Samband unglinganna, Dísu og Nonna, dafnaði og blómstraði og þau gengu í hjónaband.

Og svo komu börnin:

1) Sigrún, f. 1967, eiginmaður hennar er, Sigurður Jón Björnsson, f. 1966. Börn þeirra eru a) Marteinn Snævarr, f. 1989, dóttir hans er, Hólmfríður Björt, f. 2018. b) Daníel Arnar, f. 1993.

2) Unndór, f. 1970,  eiginkona hans er, Alda Hlín Karlsdóttir, f. 1976. Börn: a) Ægir Karl, f. 2009, b) Unndór Karl,  f. 2010.

3) Gunnar Snævarr, f. 1972, eiginkona hans er, Unnur Erla Jónsdóttir, f. 1979. Börn: a) Hlynur, f. 2000, b) Thelma, f. 2006, c) Þórunn Erla, f. 2010, d) Þórdís, f. 2014.

Þórdís Unndórs vann hjá Björgun í 32 ár og síðar hjá Hornsteini sem er eignarhaldsfélag og á m.a. BM Vallá. Hún var traustur og vel metinn starfskraftur. Meira að segja sanddæluskip Björgunar er nefnt í höfuðið á Dísu.

Jón Snævarr vann um árabil, með föður sínum í ferðaskrifstofunni Sunnu, sem var stór á sínum tíma. Guðni stofnaði einnig Air Viking og var Nonni líka með honum í þeim rekstri. Seinna vann hann um tíma hjá DHL.

Hann var 16 sumur í sveit á Breiðabólsstað hjá Gunnari, móðurbróður sínum og fjölskyldu hans. Sveitalífið heillaði hann alla tíð.

Nonni tók alltaf vel á móti vinum sínum og fólki. Hann bar virðingu fyrir fólki og dýrum, hafði áhuga á ættfræði og mannlífi. Sagnfræði heillaði hann og allt um sveitina. Og fólkið í sveitinni elskaði Nonna.

Hér verður að nefna Vallarnes, en sá staður var ofarlega í hjarta hans. Þar bjó hann sér griðastað og var þar mikið sl. 15 ár. Hann byggði sér fallegt hús undir Meyjarhólnum og þar leið honum best. Hann lagði rækt við að börnin eignuðust sterka tengingu við sveitina. Hann og Ingólfur byrjuðu sína hestamennsku í Vallarnesi og fyrir tveimur vikum fóru strákarnir hans með guttana sína á Arnarvatnsheiði til að upplifa fegurð og víðáttur landsins.

Nonni ólst upp í Barmahlíð 17 sem var barnmargt hverfi. Hann var auðvitað Valsari, enda stutt að fara á Valsvöllinn, en séra Friðrik Friðriksson var stofnandi Vals. Guðni faðir Jóns og séra Friðrik voru góðir vinir og fáir höfðu meiri áhrif á unga menn en þessi góðlegi prestur sem beindi sjónum manna til himneskra gilda og sagði að í knattspyrnuleiknum mætti kappið aldrei bera fegurðina ofurliði.

Hér verða ekki rakin störf hans í smáatriðum og verkefni á lífsveginum. Meira máli skiptir að gera grein fyrir áhugamálum hans og skapgerð og því sem prýddi sál hans og líf.

Hann var fróðleiksfús og fylgdist alla tíð vel með fréttum, hafði skoðanir á mönnum og málefnum og var góðum gáfum gæddur. Hann las bækur spjaldanna á milli og á Kindlinum líka og mundi margt af því sem fyrir augu bar. Fólkið hans fletti gjarnan upp í honum. Hann var mannvinur og jafnaðarmaður í hugsun, sem lagði í vana sinn að rökstyðja skoðanir sínar og álit hverju sinni.

Jón hafði ætíð sterkan lífsvilja og hafði alltaf eitthvað til að lifa fyrir og hlakka til. Hann las mikið, allskonar fræðibækur og margt um hesta, sem heilluðu hann alla tíð. Hann fór víða um á gæðingum sínum.

Hann tók kynstrin öll af myndum um ævina og hafði næmt auga fyrir fegurð og formi.

Lífið var ekki bara dans á rósum því hann átti löngum við veikindi að stríða, lungun voru veil og þurfti hann í aðgerðir af þeim sökum. Hann fékk krabbamein og hjartað þurfti svo sína viðgerð með stórri aðgerð, en í öllu þessu sýndi hann æðruleysi og var ætíð hress í anda og án barlóms. Þegar hann fékk heimsóknir í veikindum sínum beindi hann umræðunni að þeim er sóttu hann heim og spurði: “Hvað er að frétta af þér? Hvernig hafa börnin það?”

Jón Snævarr snerti við mörgum á lífsleiðinni með persónu sinni og elskusemi. Hann átti marga góða vini sem kveðja hann hér í dag og votta ástvinum samúð.

Hann naut þess að vera með börnum. Ungur varð hann afi og hann kom gjarnan í hádeginu til að leika við afastrákana sína. Þegar strákarnir hittu mömmu sína eftir samvistir með afa, fann hún oft lykt af pípureyk og segja má til gamans að það hafi verið Marteini að þakka að hann hætti að totta pípuna.

Margir minnast Jóns hér í dag.

Kveðjur hafa borist:

frá Sveinbirni Ágústi Sigurðssyni, systursyni Dísu og fjölskyldu hans í Danmörku,

frá Höllu Sigrúnu Ingvarsdóttur og fjölskyldu í Bandaríkjunum,

og frá Einar og Hjálmari Vilhjálmssonum og þeirra konum sem eru stödd í útlöndum.

Þau senda sínar samúðarkveðjur og þakka fyrir allt.

Fyrr var vitnað í blómin fögru í ljóði Jónasar, Smávinir fagrir. Skáldið hafði meira að segja og orti:

Faðir og vinur alls sem er,
annastu þennan græna reit.
Blessaðu, faðir, blómin hér,
blessaðu þau í hverri sveit.

Vesalings sóley, sérðu mig?

Sofðu nú vært og byrgðu þig.
Hægur er dúr á daggarnótt.
Dreymi þig ljósið, sofðu rótt!

Listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson, orti um blómin og það gerði Jesaja spámaður líka, öldum fyrir Krist og sagði:

Grasið visnar, blómin fölna

en orð Guðs vors varir að eilífu.

(Jesaja 40.8)

Írska skáldið sagði: “Ég er vegna þess að allt annað er.” Við erum hluti af heild, hlutmengi í stærsta mengi veraldar, sköpun Guðs. Þar lifum við og deyjum, lifum alla daga, en deyjum einu sinni. Og þá tekur eilífðin við.

Trúin og vonin hjálpa okkur til að sjá hið stóra samhengi alls sem er. Trúin sér lengra. Hún hefur augu og huga skáldsins sem getur tjáð vonina og það sem tekur við, huga sem sér hið stóra samhengi og veit í hjarta sér, að lífið er meira en við augum blasir í amstri og striti daganna.

Guð blessi minningu Jóns Snævarrs Guðnasonar og Guð blessi þig sem enn ert á lífsveginum. Þú og ég munum líka deyja í fyllingu tímans. Við deyjum bara einu sinni, en lifum alla daga. Megi dagarnir fram undan færa þér huggun og gleði, frið og hamingju og megir þú finna návist Guðs sem elskar þig og allt sem lifir.

Amen.

– – –

Ritningarlestur:

Nýr himinn, ný jörð

1 Og ég sá nýjan himin og nýja jörð því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið var ekki framar til. 2 Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði er skartar fyrir manni sínum. 3 Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu er sagði: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. 4 Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“
5 Sá sem í hásætinu sat sagði: „Sjá, ég geri alla hluti nýja,“ (Opinberun Jóhannesar 21.1-5a)

Guðspjall:

Vegurinn, sannleikurinn, lífið

1 „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2 Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3 Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4 Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5 Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6 Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons