Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Judy Ásthildur Wesley 1949-2023

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Judy Ásthildur Wesley1949-2023

Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan og líka hlusta á hljóðupptöku:

Þegar ég tala hér yfir skólasystur minni og jafnöldru leitar hugurinn vestur til Ísafjarðar þar sem við Judy gengum í skóla saman. Ég man ekki hversu mörg ár hún var hjá, Hrefnu Ragnheiði Magnúsdóttur, móðursystur sinni, húsmóður og saumakonu (17. ágúst 1908 – 21. sept. 1999), og manni hennar, Guðmundi Benedikti Albertssyni, skipasmiði (4. júní 1901 – 20. mars 1972). Judy gekk í skóla fyrir vestan en einnig í Keflavík þar sem móðir hennar bjó.

Hún var alla tíð fjörmikil, eftirminnileg, hrein og bein. Þá duldist hún ekki í hópi, lét í sér heyra og var jafnan í fremstu röð.

Móðir Judyar var Svava Ingibjörg Magnúsdóttir (18. júlí 1916 – 14. des. 1993), fædd í Hesteyrarsókn, N-Ísafjarðarsýslu og var þar 1930, síðast búsett í Keflavík.

Faðir Judyar var Ivan Wesley Sponeman, frá Bandaríkjunum.

Á Ísafirði var gott að alast upp. Við börnin nutum náttúrufegurðar og frelsis, umkringd háum fjöllum og búsett við sjóinn. Þar voru engir leikskólar á bernskudögum okkar Judyar. Malargöturnar voru okkar leikvöllur, fjaran og fjallið, bryggjurnar og slippurinn, skíðabrekkan á Jóns Andrésar túni og í Stórurðinni og fleiri og fleiri staðir. Skutulsfjörðurinn, þar sem Ísafjarðarbær stendur á Eyrinni, skartar oft logni, sem er svo stillt að ljósmyndum af bænum má snúa hvort sem er upp eða niður, svo tær er speglunin á Pollinum, að himinn og jörð renna saman sem eitt. En lognið getur þvælst fyrir þegar gosmökkur leggst yfir landið, eins og í gær, og vindinn vantar til að blása því burt og mengun mælist í Faðmi fjalla blárra.

Gott var að alast upp í bæ sem var einskonar smækkuð mynd af heiminum eða það sem á ensku er kallað microcosmos. Í bænum var mannlífsflóran margbreytileg, fólk á öllum aldri, sem starfaði við þetta eða hitt. Börnin bjuggu flest hjá mömmu og pabba, en svo voru alltaf nokkur sem bjuggu hjá ömmu og afa, frænda eða frænku og jafnvel börn með framandi nafn eins og Judy Wesley. Aldrei man ég eftir því að við hefðum haft eitthvað út á það að setja að hún hét ekki Sigríður, Margrét, Guðrún eða Steinunn. Hún var bara ein af okkur. Auðvitað var bærinn ekki laus við einelti og þess háttar kvilla meðal barna og fullorðinna, hegðunar sem við þekkjum í samtímanum, því við vorum og erum af sama sauðahúsi og allir aðrir í þessari veröld, syndugar manneskjur eins og Biblían kallar það, sem merkir breyskar og mistækar persónur. En það var gott að alast upp í fjölþættu samfélagi, þar sem betur settir efnahagslega og þau sem minna höfðu milli handa, voru í einu og sama félagi og allir gengu í sama skóla, meðan pólitíkin tókst á um skiptingu gæðanna bæði á Alþingi og í sveitastjórnum landsins, með misjöfnum árangri. Og enn er þörf á að berjast fyrir réttlæti í heimi hér og þeirri baráttu lýkur víst aldrei.

Judy eignaðist þrjú börn. Þau eru:

Svava Björk Jóns f. 1968,

Benedikt Þór Bárðarson, f. 1976 og

Steingrímur Örn Bárðarson f. 1978.

Judy giftist Bárði, föður strákanna, en þau skildu 1984. Bárður er látinn en Judy bjó um árabil með Sveini Jónssyni.

Hún vann ýmis störf um ævina. Hún var fjölhæf, handlagin og félagslynd. Hún vann í rúman áratug í mötuneyti Landsbanka Íslands. Þá vann hún og dró hvergi af sér í fyrirtækinu sem þau Bárður ráku saman og verkuðu fisk. Hún fór síðar og tók sjúkraliðanám og menntaði sig til þjónsstarfa.

Hún var kröftug og hæfileikarík og stundaði íþróttir af kappi, lék handbolta í Keflavík og var m.a. í marki kvennalandsliðsins um tíma.

Judy hafði yndi af að ferðast bæði innan lands og utan. Börnin segjast hafa verið að hluta til alin upp í tjaldi. Hún var vinur þeirra og þau vissu að mamma stóð ætíð með þeim. Hún eignaðist marga afkomendur, því barnabörnin eru 12 talsins og langömmubörnin 3. Hún fylgdist ætíð með þeim enda þótt hún hafi ekki hitt þau oft nema helst þau sem voru í nágrenninu og spurði frétta af þeim og vissi alltaf hvað þau voru öll að fást við.

Hún var handlagin og naut þess að prjóna, vinna við keramik og gler, sem allt krefst listfengis og sköpunargáfu. Hún lagði upp úr því við börnin að vera heiðarleg, hrein og bein.

Og nú hefur Judy kvatt þetta líf á 75. aldursári, sem er í raun of stutt miðað við meðalævilíkur íslenskra kvenna sem sagðar eru vera rúmlega 84 ár. Við ráðum ekki nema hluta lífs okkar. Sumt er skráð í erfðavísana, annað fer eftir ákvörðunum og svo eru allar tilviljanirnar sem mæta okkur dag hvern.

En lífið er gjöf sem þegið er úr hendi þess er setti allt af stað. Líf mitt og þitt varð til eftir ótrúlegt ferli þar sem ein fruma og eitt egg hittust, einn samruni af ótrúlegum möguleikum, einum á móti 400 trilljónum, segja vísindin, og úr varð ég og í öðru tilfelli þú. Ef þessi samruni hefði ekki orðið, hefðum við sem hér erum, aldrei orðið til – aldrei – og sama á við um alla aðra einstaklinga í himninum, fyrr og síðar.

Lífið er ótrúlegt ævintýri. Lífið er undursamleg gjöf, sem lýkur fyrr en varir. Enginn veit morgundaginn.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

Svo segir Bragi Valdimar Skúlason í ljóði sem oft er sungið við útfarir.

Við eigum andartakið, andrána, sem er þetta tímaleysi á milli hins liðna og þess sem verður.

Ég hlustaði á heimspeking tala um það nýlega að andráin vær í raun ekki til. Hún mælist ekki. Um leið og ég sleppi einu orði er það horfið til fortíðar og framtíðin streymir að mér. Mannkynið skilur margt, en tíminn er okkur í raun eins og eilíf, tímalaus gáta.

Hvers vegna er tíminn umdeildur, svo raunverulegur sem hann annars er? Hann er alltaf til staðar og heldur ætíð áfram. Tíminn streymir, rennur eins og fljót. Tíminn heldur sinni stefnu, fer alltaf áfram. Tíminn setur allt í sína röð, eitt kemur á eftir öðru. Tíminn hefur lengd, mælanleg tímabil eru á milli atburða, en núið, sé það til, er í það minnsta raunverulegt í huga okkar. Við teljum okkur lifa í núinu.

Og hér erum við nú. Hvað tekur við? Trúin sér út fyrir hinn þekkta heim. Hún sér handanveruna. Trúin er eins og skáld sem sér óorðna hluti, aðrar víddir, út fyrir rammann. Sumt í lífinu verður bara útskýrt með skáldskap og skáldskapurinn er forsenda allra vísinda, hæfileikinn til að sjá lengra, ofar, hærra. Trúin nýtir sér skáldskapargáfuna og hefur ætíð gert til þess að beina von sinni fram á við.

Ég líkti Ísafirði við smækkaða mynd af alheiminum, míkrókosmos. Orðið er notað um hinn skapaða heim, alheiminn með öllum sínum sólum og tunglum, hnöttum og plánetum. Í gær sá ég magnaðan sjónvarpsþátt um ferð könnunargeimfarsins Júnó til plánetunnar Júpiters. Ótrúlegt, vísindalegt afrek, framkvæmt af frábærum vísindamönnum, til að fá skilið betur veröldina sem við búum í.

Og svo er utan alls þess sem við þekkjum, veruleiki trúarinnar, skaparinn sjálfur, sem ekki er af þessum heimi, heldur handan hans. En hann sem tilheyrir handanverunni birtist meðal manna í hérverunni – á jörðinni okkar!

Kristur kom úr handanverunni og boðaði okkur nýja tilvist. Hann talaði úr handanverunni, hann talaði “himnesku” til hinna jarðnesku og sagði:

“Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.” Hann sagði líka: “ég er upprisan og lífið” . . . “ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið”.

Hann sagði hins vegar ekki svo vitað sé: Ég er tíminn. En hann talaði um tímaleysið og þar með eilífðina er hann sagði:

“Mínir sauðir heyra raust mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér. 28 Ég gef þeim eilíft líf og þeir skulu aldrei að eilífu glatast og enginn skal slíta þá úr hendi minni. 29 Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins. 30 Ég og faðirinn erum eitt.“ (Jóh. 10.27-30)

Mögnuð fyrirheit, loforð sem við eigum kost á að trúa og taka til okkar og láta raungerast hið innra með okkur, á þessu ferðalagi, sem enn stendur og stefnir okkur til himinsins heim.

Lífið er undur og það er þakkarvert að hafa þegið það úr hendi skaparans. Og lífið er stutt, örstutt, í samanburði við sögu lífsins í hinum skapaða heimi. Njótum lífsins meðan dagur er og leitumst við að lifa því í gleði og kærleika.

Judy reyndist mörgum vel. Hildur, kærasta Steina, fékk að reyna mannkosti hennar í erfiðum aðstæðum, fann fordómaleysi hennar, kærleika og alúð, er hún var unglingur og þurfti á leiðsögn að halda. Aldarfjórðungi síðar kom hún inn í fjölskylduna og mætti Judy þá sem móður kærasta síns og reyndist hún þá vera, með orðum Hildar, “sama dásamlega konan.”

Þá má geta þess að Hulda sambýliskona og barnsmóðir Benna til margra ára, sá ætíð til þess að Judy liði vel og því sambandi fékk hún eðal fótsnyrtingu og dekur hjá Huldu.

Vegna nábýlis þeirra mæðgna, Judyar og Svövu Bjarkar á Suðurnesjum, voru samskipti þeirra mikil í gegnum árin. Sigurjón maður Svövu reyndist tengdamóður sinni vel og sinnti ýmsum erindum fyrir hana í gegnum tíðina. Þau fengu sér kaffi saman nánast daglega eða töluðu í það minnsta saman í síma. Þau voru ekki alltaf sammála en tóku bæði sínar rispur og töluðu út um málin.

Og nú eru orðin skil í lífi fjölskyldunnar. Judy er horfin frá okkur.

Við felum Judy Ásthildi Wesley Guði og eilífðinni með þökk fyrir allt það góða sem í henni bjó.

Megi Guð geyma hana í himni sínum, í hinni tímalausu eilífð, og leiða okkur, sem enn erum hér í heimi tímans.

Guð blessi minningu Judyar og Guð blessi þig og allt þitt fólk.

Amen.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons