
Nú standa yfir breytingar á sorphirðu í höfuðborginni, tunnum er dreift í ýmsum stærðum og nú skal flokka og auglýsingarnar dynja á okkur borgarbúum í öllum fjölmiðlum.
Og ég spyr: Hvers vegna á plast að fara í græna tunnu en pappír í bláa?
Allir sem ég hef spurt um málið finnst þetta eigi að vera öfugt.

Plast er í hugum flestra bláleitt, alla vega glært plast, það hefur á sér bláan lit og ef ég ætlaði t.d. að vatnslita manneskju með glæran plastpoka í höndum mundi ég velja fölbláan lit á plastið. Þess vegna finnst mér að plast ætti að fara í bláa tunnu enda þótt plast fyrirfinnist í öllum regnbogans litum. Regnboginn hefur himininn að bakgrunni og hann er blár. Sástu þáttinn Endurvinnslumýtan á RÚV 7. júní sl? Hann er algjör hrollvekja um það brjálæði sem plastframleiðslan í heiminum er.

Svo kemur allur pappírinn. Pappír er í flestum tilfellum framleiddur úr jurtatrefjum, venjulega úr trjáviði og flest tré bera grænt lauf.
Pappír er umhverfisvænni en plast og á sínar rætur í grænum lit. Þess vegna ætti pappír að fara í græna tunnu að mínu mati og plastið í bláa.
Og því spyr ég:
Hvaðan kemur þessi litblinda í sorpmálum?
Sjá nánar hér: https://reykjavik.is/sorphirda
You must be logged in to post a comment.