Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Laufey Eysteinsdóttir
1935-2023
Texti ræðunnar og hljóðupptaka eru fyrir neðan myndirnar af sálmaskránni.

Hólmgarði 50, Reykjavík
húsmóðir, saumakona og
fv. starfsmaður í eldhúsi Grensásdeildar
Útför frá Bústaðakirkju
föstudaginn 21. april 2023 kl. 13
Jarðsett í Görðum á Álftanesi
Ritningarlestrar – textarnir eru birtir neðanmáls.
Davíðssálmur 8 – Lofsöngur um lífið.
Guðspjall:
Jóh 21.1-14 – Fiskidráttur og Jesús birtist lærisveinum sínum upprisinn.


Gleðilegt sumar!
Í gær fögnuðum við nýju sumri og kvöldið áður voru veðurkortin með brosandi sól yfir öllu landinu. Sumum kann að þykja óviðeigandi að byrja minningarorð með ávarpi um gleðina en er ekki gleðin allsstaðar í bland við sorgir lífsins?
Útför Laufeyjar Eysteinsdóttur er eðli máls samkvæmt sorgarathöfn því við kveðjum líf sem saknað verður og hér mun fólk tárast, en um leið er útförin þakkarhátíð, gleðistund, því við fögnum lífi hennar og þökkum fyrir það sem einkenndi hana í harðri lífsbaráttu frá vöggu til grafar.
Og nú er sumardagur með sól í heiði.
Hún fæddist á Bræðrabrekku í Bitrufirði á Ströndum þar sem lífið snerist um það að komast af og lifa á því sem land og sjór gáfu. Lífið snerist um sauðfé, fugl og fisk – og veður.
Í dag fáum við veðrið sent í vasann. Það kemur í farsímann í appinu eða á vefsíðum. Hér áður fyrr þurfti fólk að lesa í loft og land, sjó, lykt og liti. Malbikskynslóðirnar skilja ekki líf fólks sem fæddist í fjörðum og sveitum lands fyrir miðja síðustu öld.
Ef Rússar klippa á sæstrengina hverfur veðrið úr vösum okkar og við fáum fátt að vita um morgundaginn, hvort sólin muni skína, hvort hann rigni eða rjúki, dúri í logni með þoku.
Hvað segir liturinn á sjónum og skýjarfari, hvað segir vindurinn? Á Ströndum rýndi fólk í rúnir lands, lofts og sjávar.
Laufey ólst upp með tömdum skepnum, sauðfé í haga og svo líka villtum tegundum í sjó og í lofti. Ein besta lykt sem hún fann var ilmur af töðu. Er ekki algjörlega búið að rækta slíkan ilm úr nösum malbiksmennum þessa heims?
Segja má að í landi okkar búi tvær þjóðir, sú sem enn býr í dreifbýli og lifir á landi og sjó og svo hin sem býr í þéttbýli þar sem steypan og malbikið eru eins og vakúmpakkningar sem forða okkur frá því að finna lykt og skynja náttúruna?
Í þúsund ár bjuggu allir landsmenn við það sama en s.l. 100 ár breyttumst við í tvær þjóðir hvað þetta varðar. Og sumir telja sig skynja að við séum að skiptast æ skýrar í tvo hópa, lítinn hóp þeirra sem eiga nánast allt og svo hóp þeirra sem mynda meirihlutann og verða að láta sér nægja það sem minni hópurinn leyfir og leifir, leyfir með ypsiloni og leifir með einföldu i-i, en merkingin er gjörólík og heyrist ekki í talmáli.
Nóg um það.
Laufey Eysteinsdóttir fæddist 1. mars árið 1935 á Bræðrabrekku í Bitrufirði.
Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi miðvikudaginn 29. mars 2023.
Foreldrar hennar voru Kristín L. Jóhannesdóttir og Eysteinn Einarsson, bændur á Bræðrabrekku í Bitrufirði.
Þar ólst Laufey upp í stórum systkinahópi.
Alsystkini Laufeyjar eru:
Margrét, f. 1925, látin.
Bjarni, f. 1926, látinn.
Jón, f. 1928, látinn.
Kristjana, f. 1929, látin.
Sveinn, f. 1931, látinn.
Steinunn f. 1933, látin.
Einar, f. 1936.
Fanney, f. 1939.
Trausti, f. 1943, látinn.
Hálfsystkini samfeðra eru:
Jens, f. 1945.
Dofri, f. 1947.
Gísli, f. 1949.
Hrafnhildur, f. 1949, látin.
Hilmar, f. 1951.
Barnsfaðir Laufeyjar var Samúel Haraldsson.
Dóttir þeirra er
1) Kristín Björk Samúelsdóttir f. 26. febrúar 1955. Barn hennar er Kristófer Ívan Guðlaugsson og ber ég ykkur kveðju í hans nafni, en hann gat ekki fylgt ömmu sinni sökum veikinda. Dóttir hans og langömmubarn Laufeyjar er Sara Kristín Kristófersdóttir.
Sambýlismaður Laufeyjar var Sigurður Guðbrandsson, þau slitu samvistir.
Börn þeirra eru
2) Ingunn Alda Sigurðardóttir f. 29. maí 1962. Gift Hans Vihtori Henttinen. Barn þeirra Viktor Hugi Henttinen.
3) Kolbrún Elfa Sigurðardóttir f. 28. apríl 1965. Barn hennar Sigurður Baldur Kolbrúnarson.
4) Jón Brynjar Sigurðsson f. 29. janúar 1968. Barn hans Elísabet Alexía Jónsdóttir.
Laufey ólst upp á stóru sveitaheimili við öll almenn sveitastörf þess tíma. Fyrir tíma vélvæðingar í landbúnaði voru bústörf erfiðisvinna og það sama má segja um þau störf sem unnin voru innan húss. Og þar dró Laufey ekki af sér. Hún var hörkudugleg til allra verka, alla tíð.
Ung stúlka fór hún að heiman til vinnu á Sólheimum í Grímsnesi. Einnig var hún í vist í Reykjavík og síðar vann hún í Heyrnleysingjaskólanum og Kexverksmiðjunni Esju.
Ung stúlka söng hún á böllum í sveitinni með systrum sínum Jönu og Steinu og vinkonunum frá Enni þeim Lóu, Lilju og Gunnu.
Hún ólst upp í stórum systkinahópi þar sem leikið var á hljóðfæri og sungið af hjartans list og því var í sjálfu sér auðvelt að slá upp balli á Brekku.
Í dreifbýlinu blómstrar menningin og hún er borin uppi af fólkinu sjálfu, í anda máltækisins þar sem segir, maður er manns gaman – og hér nota ég orðið maður um tegundina og nær það bæði yfir konur og karla.
Á efri árum drifu þær sig í hljóðver og endurnýjuðu þannig tilveru Systrasextettsins.
Laufey hóf búskap í Broddanesi 1961 en fluttu ári síðar að Óspakseyri í Bitrufirði. Myndin í sálmaskránni er einmitt þaðan. Þar bjuggu þau við mikið annríki í 8 ár eða til ársins 1970 þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. Þau sáu um póstafgreiðslu og símstöðina á staðnum ásamt því að á jörðinni var kirkja, kaupfélag og sláturhús og því margt fólk sem átti þangað erindi sem þurfti að sinna. Þau voru allt í öllu og gestrisnin annáluð.
Laufey var heimavinnandi fyrstu árin í Borginni utan þess að vinna utan heimilis yfir sumartímann.
Hún vann m.a. á saumastofunni hjá Hagkaup, við ræstingar og síðar þegar hún fór í fulla vinnu utan heimilis, í eldhúsinu á Grensásdeildinni.
Hún saumaði föt á börnin þegar þau voru ung og prjónaði vettlinga og sokka, trefla og fleira og flest fór það í gjafir. Hún saumaði út púða og myndir, bjó til jólaskraut og lagði upp úr því að eiga fallegt heimili.
Eftir að Laufey og Sigurður slitu samvistir framfleytti hún heimilinu og studdi börn sín með ráðum og dáð. Barnabörnin voru henni hugleikin og áttu alltaf öruggt skjól og óskipta athygli sama hvort þörfin var stór eða smá.
Þá verður að geta Kórs Átthagafélags Strandamanna. Um árabil var hún formaður kórsins og var það ekki síst hennar eldmóði að þakka að kórinn söng inn á fyrstu plöturnar. Fyrsta platan „ Kveðja heim“ var gefin út af Átthagafélagi Strandamanna í Reykjavík árið 1979. Í kórnum var hún virkur félagi til ársins 2018 en eftir þann tíma ákafur aðdáandi. Hún fylgdist vel með hvaða lög var verið að æfa hverju sinni og spurði frétta af kórfélögunum.
Hún var líka virkur félagi í Átthagafélaginu og vildi styrkja það með ráðum og dáð, mæta á fundi og skemmtanir. Sumarhús Átthagafélagsins, Strandasel, var henni kært og voru ófáar vinnuferðirnar sem hún tók þátt í þangað.
Ræturnar voru alla tíð sterkar og hugurinn leitaði heim á Strandir. Þar var líka fólkið hennar, systkini og þeirra fjölskyldur og gömlu vinirnir. Margar voru ferðirnar sem farnar voru í lengri eða skemmri tíma á æskuslóðirnar. Þá var flakkað milli bæja og mikið spjallað og jafnvel tekið lagið ef þannig bar við.
Hún hélt sambandi við margt frændfólk sitt og hringdi oft í börn systkina sinna, einkum eftir að systkinin týndu tölunni.
Hún var sannkölluð ungamanna gagnvart börnum sínum og barnabörnum. Ömmubörnin sóttust eftir því að vera hjá henni og fá að gista. Þau vissu að þar var boðið uppá topp þjónustu með sérréttum fyrir hvert og eitt þeirra. Margir umferðir af Olsen Olsen voru spilaðar og svo var lagst til svefns á gólfinu.
Jón sonur hennar var og er kannski enn mikill áhugamaður um mótorhjól. Hann sagði mér að pabbi hans hefið reynt að temja delluna úr honum með því að fara með hann í fótbolta, en án árangurs. Þegar mótorhjólið hafði eitt sinn verið tekið af Jóni, ég veit ekki fyrir hvað, arkaði Laufey á löggustöðina og leysti það út. Já, hvað gerir móðir ekki fyrir einkason sinn? Hún stóð með syni sínum eins og dætrunum alla tíð.
En þegar þau voru úti að skemmta sér þá vakti hún eftir þeim í bláa sloppnum og með bláu klukkuna, sögðu börnin mér og brostu.
Hún var ákafakona með það sem hún vildi sjálf. Söngurinn var hennar líf og yndi og tónlistin í athöfninni er valin með hennar tónlistaráhuga í huga. Hún sagði gjarnan: „Allt verður betra ef menn syngja.“
Hún var árrisul og dreif sig á fætur og ef kötturinn var syfjulegur sagði hún við hann í hneykslunartón: „Þú sefur!“
Tengslin við náttúruna voru mikilvæg, hún vissi fátt betra en að fá smá norðanvind í fangið, sérstaklega ef hún var í fjöru á Ströndum.
Fuglasöngur og ilmur af jörðinni, lambsjarm og hross á beit voru gleðigjafar. Henni fannst gaman að ferðast í bíl og ef það var nú nesti og heitt á brúsa til að hressa sig á undir berum himni eða í litlu sæluhúsi var dagurinn fullkomnaður.
Þá ber þess að geta að Laufey og Sigurður báru gæfu til þess að eiga gott samband og vináttu á síðari árum. Laufey hvatti börnin til að hafa samband við hann eftir að hann flutti í Mývatnssveitina og hálf rak systurnar af stað í fyrstu heimsóknina þangað. Já, ræturnar þarf að næra og það að vera í sambandi við fólkið sitt er mikilvægt. Segja má að hún hafi stjórnað afkomendum sínum til hinstu stundar eða í það minnsta sagt meiningu sína um það sem máli skipti.
Hún hélt að þeim góðum lífsgildum og hvatti þau til að vinna fyrir sér, vera almennlegar manneskjur, ekki ljúga eða svíkja, en vera trú yfir litlu og svo voru hennar ráð handa mörgum um að vera í sveit og vinna.
Við erum öll fjölskyldufólk. Fjölskyldur mynda þjóðfélag og skapa þar með stærra samhengi og þjóðfélagið er svo hluti einnar alheimsfjölskyldu sem mannkynið er.
Nýlega kom ég til Afríku í fyrsta sinn og heimsótti stórkostlegar sléttur Masai Mara þjóðgarðsins í Kenýu. Við ókum í bílum með opnu þaki og gátum staðið og horft yfir slétturnar. Þar voru fílahjarðir og flóðhestar möruðu í hálfu kafi í fljótinu innan um krókódíla, blettatígurinn stóð grafkyrr og horfði á okkur eins og steinrunninn sphinx, gíraffarnir spígsporuðu tignarlegir um og ljónin gengu á milli bílanna, enda áttu þau sviðið. Og ég varð fyrir þessari einkennilegu tilvistarupplifun og hugsaði:
Já, héðan er mannkynið komið, héðan erum við öll ættuð. Við erum öll ættuð frá Afríku, Reykvíkingar og Strandamenn, Asíubúar og Ameríkanar – öll – enda erum við eitt mannkyn.
Já, ein jörð og ein stór fjölskylda, litrík og fjölbreytt fólk með ólík tungumál og siði en allt hefur það lært frá örófi alda að lifa af í náttúrunni, horfa til veðurs, nema lyktina í blænum, hlusta eftir skrjáfi og lesa land og lífríki næmum augum. Þannig hefur mannkynið komist af en ætíð með miklum afföllum og fórnum.
Og hér erum við, flest okkar malbiksbörn, en sum með tengsl við sveit og óbyggðir, öll sprottin úr mold þessa lands, alin upp á því sem sjór og afréttir gáfu um aldir. En tímarnir hefa breyst. Nú finnast fjölbreyttar og árstíðabundnar vörutegundir í verslunum árið um kring, í fyrsta sinn í sögunni. Við getum keypt banana allt árið, vínber og grænmeti frá fjarlægum löndum. Heimurinn hefur skroppið saman og þess vegna getur Bitrufjörður verið nafli heimsins á sama hátt og Reykjavík, New York, Tókyó eða Nairobi.
Og hér erum við í Bústaðakirkju til að kveðja Laufeyju Eysteinsdóttur og þakka fyrir líf hennar og störf, þakka það sem í henni bjó, þakka kraft og dugnað, elskusemi og gleði, söng og tónlist, seiglu í lífsbaráttunni, vináttu og félagstengsl, þakka það allt sem hún lifði fyrir og varði í kröftum sínum og andagift.
Ég flyt ykkur kveðju Siggu frá Heiðarbæ og Ragnari en Sigga og Laufey unnu saman á Grensásdeildinni og héldu ætíð sambandi.
Við erum öll sprottin úr sömu mold sem þekur þessa jörð og hverfum þangað aftur.
En við sem hér kveðjum, eigum lífið og enginn veit hversu lengi það varir. Njótum þess, fögnum nýju sumri og leitumst við að lifa í gleði og friði og í tengslum við náttúruna, við ilminn af landi og sjó og við hvert annað í vináttu og kærleika.
Guð blessi minningu Laufeyjar Eysteinsdóttur og Guð blessi þig sem enn ert á vegi lífsins.
Amen.
Davíðssálmur 8
1 Til söngstjórans. Á gittít.[ Davíðssálmur.
2Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.
Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn. [
3Af munni barna og brjóstmylkinga hefur þú gert þér vígi
til varnar gegn andstæðingum þínum,
til að stöðva fjandmenn og hefnigjarna.
4Þegar ég horfi á himininn, verk handa [ þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
5hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
6Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri,
7lést hann ríkja yfir handaverkum þínum,
lagðir allt að fótum hans:
8sauðfénað allan og uxa
og auk þess dýr merkurinnar,
9fugla himins og fiska hafsins,
allt sem fer hafsins vegu.
10Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.
Jóhannse 21.1-14
Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. Símon Pétur segir við þá: „Ég fer að fiska.“
Þeir segja við hann: „Við komum líka með þér.“ Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert.
Þegar dagur rann stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki að það var Jesús. Jesús segir við þá: „Drengir, hafið þið nokkurn fisk?“
Þeir svöruðu: „Nei.“
Hann sagði: „Kastið netinu hægra megin við bátinn og þið munuð verða varir.“ Þeir köstuðu og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: „Þetta er Drottinn.“ Þegar Símon Pétur heyrði að það væri Drottinn brá hann yfir sig flík – hann var fáklæddur – og stökk út í vatnið. En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum.
Þegar þeir stigu á land sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð.
Jesús segir við þá: „Komið með nokkuð af fiskinum sem þið voruð að veiða.“
Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki þótt þeir væru svo margir.
Jesús segir við þá: „Komið og matist.“ En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: „Hver ert þú?“ Enda vissu þeir að það var Drottinn. Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. Þetta var í þriðja sinn sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.