+Kolbeinn Sæmundsson 1938-2023

Minningarorð eftir Örn Bárð Jónsson, byggð á samtali við son hans og systur.

+Kolbeinn Sæmundsson

1938-2023

Útför/bálför í kyrrþey frá Neskirkju,

mánudaginn 17. apríl 2023 kl. 13.

Duftkerið verður jarðsett

í Fossvogskirkjugarði í gröf foreldra hans.

1. Ritningarlestur: 1. Mós. 11:1-9 – Babelsturninn

2. Ritningarlestur:

Sálmur 139:1-12 – Hvaðan komum við?

Guðspjall: Jóhannes 1:1-14 – ORÐIÐ – LOGOS

Minningarorðin er hægt að lesa og hlusta á hér fyrir neðan. Vegna smá mistaka varð upptakan í tvennu lagi og því þarf að opna fyrst: Kolbeinn – inngangur og síðan kolbeinn-saemundsson-1938-2023

„Í upphafi var Orðið . . . „

Mögnuð upphafsorð Jóhannesarguðspjalls eru vel þekkt víða um heim og hafa verið í tæp tvö þúsund ár, en Jóhannes, lærisveinn Jesú og postuli, var sá eini úr þeim hópi sem ekki dó píslarvættisdauða. Hann er talinn hafa búið til æviloka á tíræðisaldri í Efesus sem nú tilheyrir Tyrklandi. Hann skrifaði guðspjall sitt nokkrum árum síðar en hinir guðspjallamennirnir, líklega fyrir eða rétt uppúr árinu 100 e.Kr. þegar fólk mundi alla merkisviðburði og heilu ræðurnar, hvað þá orð Jesú, sem mótað hafa þennan heim meir en nokkurs annars. Jóhannes byrjar guðspjall sitt og segir:

„Í upphafi var Orðið“.

Orðið er logos á grísku og það merkir meira en bara orð. Logos felur í sér merkingu á borð við samtal, skynsemi og vísar þar með til visku og máttar.

Aristóteles fjallaði um orðræðuna í riti sínu, Stjórnspeki, og segir að samtalið sé veruháttur okkar manna sem tegundar. Hann sagði m.a.:

„Manneskjan er eina lífveran sem náttúran hefur gætt málhæfileika. Það einkennir líka manninn að hann einn ber skynbragð á gott og illt, réttlæti og ranglæti. Lífverur sem hafa slíkt skyn mynda fjölskyldu og ríki.“

(Vilhjálmur Árnason, prófessor emeritus: Samtalið sem siðferðilegt hugtak, flutt í Hugvarpi, Hugvísindaþingi 2023).

Í upphafsorðum Jóhannesarguðspjalls er það Jesús Kristur sem er Orðið, sem varð hold á jörðu. Hann er því holdgervingur guðdómsins.

Orð eru máttug. Tungan er máttugt líffæri sem ber orðin með útöndun okkar út í heiminn þar sem eindir bera hljóð og eyru eru til staðar sem numið geta orð.

Enginn annar staður er kunnur í öllum alheiminum þar sem hljóð heyrast. Alheimurinn er gjörsamlega hljóður því eindirnar í lofthjúpi jarðar fyrirfinnast ekki annars staðar en hér.

Lífið er undur. Lífið er merkileg gjöf sem rennur okkur úr greipum í fyllingu tímans. Við ákvörðum hvorki tíma né tíðir en fáum þó að fljóta með í straumi tímans.

Og það gerði Kolbeinn Sæmundsson á sinn persónulega hátt. Hann lifði á sínum forsendum, setti sér dagskrá og varði tíma sínum eftir eigin höfði. Og nú hefur hann lokið sínu hlutverki í heimi tíma og tungumála.

Hann var mikill málamaður. Lærði fjölmörg tungumál, einkum klassísk mál eins og latínu og grísku.

Stafrófið okkar sem við skráum íslensku með kom hingað með kristninni ásamt sagnahefðinni og tengingu við evrópska háskóla m.a. franska skóla eins og við þekkjum af sögunni um Sæmund fróða, sem kom til landsins á baki Kölska, í líki sels og með sjálfan Saltarann yfir höfuðsvörðum Kölska, en Davíðssálmarnir voru og eru tákn þekkingar og visku.

Sögur og skáldskapur eru tæki til að skilja veruleikann. Sögur og ævintýri segja sannleikann á sinn hátt. Skáldskapurinn er forsenda allra vísinda, hæfileikinn til að ímynda sér eitthvað, sjá út fyrir rammann.

Biblían talar í sögum og ljóðum, sagnfræðilegum textum, frásögnum og sendibréfum og segir þannig sannleikann um lífið, eins og reyndar allir textar manna gera á einhvern hátt.

Sagan um Babelsturninn er 3-4.000 ára gömul goðsögn þar sem reynt er að skilja og túlka fjölbreytileika tungumála á jörðinni. Hún er auðvitað skáldskapur sem tjáir veruleikann eftir þekkingu og skilningi síns tíma og segir sannleikann um að í heiminum voru töluð mörg, ólík tungumál og svo er enn.

Og hér held ég áfram að mæla, á enn einni tungu heimsins, íslensku, sem á margt skylt við latínu og grísku, þegar kemur að málfræði og byggingu, enda þótt orðin séu rituð á annan hátt því þessi þrjú tungumál eru klassísk, en íslenskan ein lifir enn sem töluð tunga. En hversu lengi mun hún lifa sem slík?

– – –

Kolbeinn fæddist á Hólmavík, 12. mars 1938. Foreldrar hans voru (Steindór) Sæmundur Einarsson, kennari frá Litla-Hálsi í Grafningshreppi, nú Grímsnes- og Grafningshreppur, (f. 3.9. 1889, d. 25.5. 1948), og Guðborg Sturlaugsdóttir, frá Snartartungu í Bitrufirði, Strandabyggð, (f. 11.10. 1906, d. 11.9. 1974).

Kolbeinn ólst upp til 8 ára aldurs hjá móðurforeldrum sínum þeim Guðbjörgu Jónsdóttur og Sturlaugi Einarssyni, bændum í Snartartungu í Bitru. Hann fluttist síðan með þeim til Patreksfjarðar þegar þau brugðu búi, þar sem móðurbróðir hans, séra Einar Sturlaugsson, var prestur og síðar prófastur. Þangað flutti einnig móðir hans Guðborg og hélt hún heimili fyrir fjölskyldu séra Einars til haustsins 1955 er hann féll frá.

Án efa sá hann í bókasafni klerks, bækur á grísku og jafnvel hebresku og dvölin á heimili lærdómsmannsins hefur án efa mótað hann sem barn og ungling.

Alsystkini Kolbeins eru:

Kristján, (f. 9.3. 1936) og

Arnþrúður, (f. 17.1. 1944).

Systkini Kolbeins samfeðra eru:

Einar, (f. 29.10. 1919, d. 3.7. 2006) og

Elísabet, (f. 13.7. 1921, d. 18.1. 1923), sem eru látin og

Magnús, f. 28.3. 1934.

Grunnmenntun hlaut Kolbeinn heima og í skólum á Patreksfirði en stúdentsprófi lauk hann frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1959. Í beinu framhaldi hóf hann nám við heimspekideild Háskóla Íslands. ‘

Árið 1961 hélt hann til frekara háskólanáms, tengdu erlendum tungumálum og siðmenningu, í Frakklandi, í Grenoble 1961 – 1963 og við Sorbonne háskólann í París, til ársins 1971. Þaðan lauk hann Maîtrise prófi árið 1968 og framhaldsnámi í frönsku árið 1970. Einnig kláraði hann leiðsögumannapróf árið 1989.

Eftir heimkomuna frá Frakklandi hóf Kolbeinn kennslustörf á Íslandi og bjó alla sína tíð í Reykjavík.

Kolbeinn kvæntist Theodosiu Georgopoulou, (f. 19.6. 1949). Þau skildu. Dóttir þeirra er Melkorka, (f. 1.9. 1971), maki Rodolphe Christiansen, (f. 27.4. 1970). Börn þeirra eru Hermès, (f. 13.6. 2008), Phidias, (f. 13.6. 2008), og Thaïs, (f. 4.5. 2012). Fyrri maki Melkorku, Bernard Strasunski, er látinn (f. 22.4. 1940, d. 19.1. 2023), barn þeirra er Alexandre Snorri, (f. 4.3. 1991).

Kolbeinn kvæntist Danièle Fernandez, (f. 5.4. 1950). Þau skildu. Sonur þeirra er Yann, (f. 4.9. 1979), maki Charla Jean Basran, (f. 23.9. 1988). Fyrri maki Yanns, Erica Consuelo Nystrom Santacruz, (f. 16.8. 1986). Dóttir þeirra er Sylvía Bíbí, (f. 5.3. 2010).

Kolbeinn var stundakennari við heimspekideild Háskóla Íslands, skor rómverskra og slavneskra mála, frá haustönn 1973 til vorannar 1999, þar sem hann kenndi frönsku, grísku og latínu.

Auk þess kenndi hann latínu

í Menntaskólanum við Sund (á vorönn 1973 og frá 1977 til 1997),

latínu í Fjölbrautaskóla Suðurnesja (á vorönn 1978),

frönsku í Hótel- og veitingaskóla Íslands (frá vorönn 1977 til vorannar 1978),

latínu í Fjölbrautaskóla Garðabæjar (frá haustönn 1983 til vorannar 1987)

og loks latínu í Menntaskólanum í Reykjavík frá hausti 1997 til ársins 2013, er hann fór á eftirlaun.

Samhliða kennslu leiðsagði hann m.a. gönguhópum um landið, sér í lagi hópum franskra ferðamanna.

Latína og gríska voru hans ær og kýr alla tíð. Hann sankaði að sér miklum fjölda bóka er tengdist þessum tungumálum sem og öðrum sem hann lagði stund á að læra, hvort sem var sjálflærður eða í námi, þ.á.m. rússnesku, portúgölsku, ítölsku og kínversku. Honum voru stundum send handrit frá erlendum höfundum, er tengdust latínufræðum, til yfirlesturs.

Þetta var staðreyndakaflinn um Kolbein.

En hver var hann í augum sinna nánustu?

Ég átti fund með Arnþrúði systur Kolbeins og Yann syni hans. Í samtalinu kom fram margt skemmtilegt og fróðlegt. Enda þótt Kolbeinn hafi staðið fyrir framan fjölda fólks í áratugi og kennt, var hann í raun hlédrægur, einskonar hellisbúi, sem lifði sínu lífi og hagaði hlutum sínum eftir eigin höfði. Og hlutirnir voru af ýmsu tagi. Hann safnaði til að mynda símaskrám og þegar staflinn var kominn í hæfilega hæð eftir hans höfði, hentaði hann prýðilega sem símaborð fyrir línusímann við hlið hægindastólsins.

Hann var umhverfisvænn maður í hugsun og háttum og naut þess að fara um landið sem ferðamaður og leiðsögumaður. Hann var frár á fæti og átti það til að stinga göngufólk af og verða fyrstur á toppinn. Kona nokkur sagði að í honum væri „rollugenið úr Bitrunni“. Kolbeinn nýtti sér oft vit skepnanna og fylgdi gjarnan fjárgötum á fjallatinda.

Fjölskyldan þekkti hann ekki sem mjög félagslyndan en í hópi túrista gat hann verið hrókur alls fagnaðar.

Hann átti aldrei sjónvarp en heimsótti vin sinn stundum rétt fyrir fréttir og fékk að horfa og fékk svo að borða í leiðinni.

Hann var ekki mikill kokkur sjálfur og sauð gjarnan fisk og kartöflur saman í einum potti.

Seinustu misserin áður en hann flutti á Grund fór hann gjarnan í Múlakaffi, þ.e. fyrir Covid-19, en staðurinn er eins og við þekkjum, vinsæll meðal einhleypra karla. Hann gat tekið strætó við heimili sitt, sem stoppaði fyrir utan Múlakaffi og ef hann var fljótur að borða gat hann notað skiptimiðann til baka.

Hagkvæmnin var í fyrirrúmi og því til staðfestingar þá safnaði hann ýmsu m.a. plastflipum sem halda brauðpokum lokuðum og fór svo með þá í bakaríið og skilaði þeim með þeim orðum að þau mætti nota aftur! Svona ættu nú fleiri að gera með allt þetta plastdrasl í veröldinni. Plastflipinn sem ég fékk hjá Yann og Arnþrúði er merktur 16. júlí 2018 og ég komst að því á Netinu að þann dag úðaði lögreglan í Frakklandi táragasi yfir æstan mannfjölda sem fagnaði heimsmeistaratitli Frakka í knattspyrnu á Champs-Élysées, þann dag, en úrslitaleikurinn hafði farið fram daginn áður en brauðið var smurt og snætt af bestu lyst við Ægisíðuna, upp úr umræddum poka sem lokað var eftir máltíð, með þessari dagsettu plastklemmu.

Mörg jólin hélt hann hjá Guðbjörgu Kolbeinsdóttur, frænku sinni og oft hringdi hann í hana fyrir svefninn og símtölin voru líka mörg við Örlyg Karlsson á Selfossi, en þeir voru báðir í Ættfræðifélaginu. Þá var Kolbeinn Rósakrossriddari um tíma.

Þá má ekki gleyma henni Gunnu, Lödunni, ljósbrúnu, sem hann ók að mestu þangað til hún gafst upp. Hann eignaðist líka einn franskan gæðing, Peugeot 504, sem enn er í skúrnum.

Yann hætti að sitja í bíl með honum eftir að hann ók utan í dráttarkrók á lögreglubíl, fyrir utan Múlakaffi, reyndar án þess að Kolbeinn tæki eftir því. Skráma kom á Gunnu, en löggan slapp við beyglur og Kolbeinn slapp við afskipti yfirvalda sem tóku ekki eftir neinu.

Bílar eru ólíkindatól og hjá sumum verða þeir að stöðutákni og jafnvel skurðgoði. Fátt kostar landann meir en afskriftir af blikkbeljum.

Kolbeinn leit á bíla sem farartæki en ekki stöðutákn og lagfærði sjálfur það sem hann gat en ef þeir biluðu kallaði á Pétur Óskarsson í þau verk sem hann réð ekki við sjálfur og það var því Pétur sem í raun hélt Gunnu gangandi. Eitt sinn er Kolbeinn rogaðist með gírkassa í fanginu, fór bakið og eftir það bognaði hann undir vald þeirrar erfiðu kellingar sem kennd er við elli.

Þau sögðu mér söguna af fermingarúrinu hans sem hann bar á sér alla tíð og þurfti ekki á öðru að halda til að mæla tíma og tíðir, en á göngu á milli Snartartungu og Gilsfjarðar, sumar eitt, týndi hann úrinu. Kolbeinn þræddi síðar nákvæmlega sömu leið og í anda orða Jesú úr Fjallræðunni: „leitið og þér munuð finna“ – fann hann úrið – og auðvitað á fjalli, í stíl ræðunnar góðu!

Kolbeinn lést á hjúkrunarheimilinu Grund, mánudaginn 10. apríl s.l., 85 ára gamall og tæpum mánuði betur.

Kolbeinn er kvaddur hér af fjölskyldu, frændfólki og vinum. Hann er ykkur öllum ógleymanlegur fyrir þær sakir hver hann var og hvernig hann batt bagga sína eigin hnútum. Hann var sjálfum sér samkvæmur og fór eigin leiðir í lífinu í stað þess að fljóta í sinnuleysi með fjöldanum.

Hann átti gott líf, hélt sér við með lestri og átti mikið og gott bókasafn sem hann gaf lungann úr til Háskólabókasafnsins, en hafði áfram heima við, mikilvægar bækur, einkum um tungumálin.

Bækur eru fullar af orðum, þar sem hugsunum er komið fyrir með því að raða saman bókstöfum eftir kerfum til að mynda orð og hugtök. Orð eru til alls fyrst. Orð eru máttug. Og Orðið sem skóp heiminn var máttugt, en orðin okkar eru líka skapandi orð. Þau sanna að við erum manneskjur, sem eru hluti af fjölskyldu, fjölskyldum og einni alheimsfjölskyldu, mannkyni, með málhæfileika og vitund um gott og illt, rétt og rangt. Við erum fólk með siðvit og ábyrgð. Og það vit á sér uppsprettu, því allt sem er gott og fagurt, á sér fyrirmynd í handanverunni, eins og Platón reyndi að tjá með frummyndakenningu sinni. Eitt sinn kynnti Jón Múli, hinn landskunni útvarpsþulur, verk á sifóníutónleikum í útvarpi og sagði í anda Platóns að næst yrði leikið verk sem skapað hafi verið á himnum, en fangað af tónskáldi – sem hann nefndi – og fært til jarðar og yrði nú flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands. Múlinn bar skyn á hið stóra samhengi alls sem er, hvað sem leið skoðunum um önnur málefni.

Já, hvaðan kemur fegurðin, sannleikurinn og réttlætið, Orðið sjálft og orðin öll, hvaðan kemur þetta allt?

Okkar er að leita svara við grundvallarspurningum lífsins, áður en við kveðjum þetta líf. Það er kannski eini tilgangur lífsins, að skapa og skilja með orðum og athöfnum?

Í einu af spekiritum Gamla testamentisins, er ber heitið Prédikarinn, segir m.a.:

“ . . . og moldin hverfur aftur til jarðarinnar

þar sem hún áður var og andinn til Guðs sem gaf hann.“ (Préd. 12.7).

Guð blessi minningu Kolbeins Sæmundssonar og Guð blessi þig sem enn dregur lífsandann og ert á vegi lífsins. Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.