Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Magnús Vignir Pétursson
1932-2022
fv. verzlunarmaður, heildsali og knattspyrnudómari

Þú getur lesið og hlustað á ræðuna á næstu smellu. Sálmaskráin er allra neðst.
RRRRRRR
Hvellur hljómur flautunnar sem heyrðist rétt í þessu getur falið í sér ýmsar tilvísanir. Hann getur vísað til upphafs eða loka leiks, hann getur merkt að taka eigi aukaspyrnu eða víti. Flauta dómarans er máttugt tæki og vandmeðfarið.
Magnús Vignir Pétursson var án efa þekktasti knattspyrnudómari liðinnar aldar. Hann lifði fyrir leikina á vellinum og svo var hann þekktur fyrir að vera hress í lund, málgefinn og gamansamur. Hann unni líka lífsleiknum og það er mikilvægt að leggja sig fram um að njóta lífsins, bæði í leik og starfi.
Og svo var það skákin, að tefla við andstæðinga, að fylkja liði sínu á taflborðinu þar sem strangar reglur gilda eins og á öðrum sviðum lífsins. Lífið leysist nefnilega upp í fáránleika ef engar reglur eru viðhafðar og allir fara sínu fram með olnbogaskotum og frekju.
Og við dæmum í okkar lífsleik og þurfum að gæta þess að verða ekki vilhöll sjálfum okkur og dæma ætíð víti á andstæðinginn en aldrei á okkur sjálf. Á okkur hefur og mun ætíð sannast að enginn er dómari í eigin sök.
Á Bretlandeyjum, þar sem fótboltinn á upphaf sitt, en þar tók hann á sig nútímamynd með reglum og stöðlum og var einkum stundaður í upphafi að vetrarlagi í skólum landsins. Þar ytra er enn til félag, sem kennir sig við borgina Korintu á Grikklandi eins og tvö bréfa Páls postula gera einnig, og það félag, Corinthian Football Club, hefur svo strangar reglur að það tekur ekki víti, því leikmenn telja að herramenn eigi ekki að hafa rangt við og því hafna þeir vítaspyrnum. Ef víti er dæmt á þá, víkur markmaðurinn úr markinu og leyfir anstæðingunum að skora í galopið markið, en ef þeir sjálfir fá víti spyrna þeir viljandi yfir markið til að skora ekki og taka sér þar með stöðu með heiðarleikanum.
Lífið er á margan hátt eins og knattspyrnuleikur. Þar leika þátttakendur mismunandi stöður og gegna ólíkum hlutverkum en samt með sama markmiði, að vinna leikinn og spila innan ramma þess sem má.
Í lífinu upplifum við öll sigra en líka ósigra, við föllum og rísum upp aftur, rekumst á aðra og þeir rekast á okkur, við verjumst vel, sækjum fram, skorum og fögnum. En svo getum við líka fengið á okkur víti eða öfugt og þá skiptir öllu máli að brenna ekki af. Að geiga í vítaspyrnu er eitt það versta sem leikmenn lenda í. Við sáum þetta í úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í Qatar fyrr í mánuðinum, milli Frakklands og Argentínu, hvernig leikmenn Frakklands, brenndu af í tvígang í vítaspyrnukeppninni og töpuðu þar með úrslitaleiknum. Það er synd að brenna af og þegar ég nota þessi hugtök saman, synd og að brenna af, þá geri ég það einmitt í trúarlegum tilgangi því í Nýja testamentinu er mikilvægt orð sem þýtt er með orðinu synd á íslensku, en merkir í raun að geiga, að brenna af, að skjóta framhjá. Gríska orðið er hamartia. Syndin í lífi okkar felst í því að okkur mistekst svo margt og þess vegna eru orð Jesú meira og minna um það að uppörva fólk sem hefur mistekist og brennt af í lífinu og rétta það við aftur svo það geti haldið áfram að lifa og dæmi sjálft sig ekki úr leik. Þetta þekkjum við öll og eigum þar af leiðandi brýnt erindi við Hann sem kom á jólum og við fögnum um þessar mundir, hann sem talar í okkur styrk og hvetur okkur til að halda leiknum áfram með sigur að markmiði.
RRRRRRR
Og lífið heldur áfram, leiknum okkar er ekki lokið og ekki heldur hjá Magga Pé enda þótt hann sé farinn af sameiginlegum lífsvelli okkar, því lífið hans heldur áfram samkvæmt hinni kristnu von og í vissum skilningi er dauðinn upphaf en ekki endalok eins og þýski presturinn, Dietrich Bonhoeffer, sagði þegar nazistar leiddu hann til aftöku, skömmu fyrir stríðslok. Samfangar hans grétu þegar hann kvaddi þá og var leiddur í gálgann. Þá sagði hann við samfanga sína og vini: „Fyrir mig eru þetta endalokin en jafnframt upphafið.“
Snúum okkur nú að því að fjalla um manninn sem við kveðjum hér í dag.
Magnús Vignir Pétursson, fæddist í Reykjavík 31. desember 1932, sonur hjónanna Péturs Jóhannesar Guðmundssonar, trillukarls í Skerjafirði, og konu hans, Sigurbjargar Jónu Magnúsdóttur, húsfreyju. Hann ólst upp í Skerjafirði sem þá tilheyrði Dómkirkjusókn en hefur tilheyrt Nesprestakalli frá stofnun þess árið 1940. Neskirkja var vígð á pálmasunnudag 1957 og einmitt hér fór hjónavígsla hans og Eyþóru fram. [Innskot sem er á hljóðupptöku um Neskirkju]. Og héðan er hann kvaddur af fjölmenni, daginn fyrir níræðisafmælið.
Minningargreinar barna hans og vina, í blaði dagsins, bera honum fagurt vitni.
Hann átti góða og langa ævi, viðburðaríka og skemmtilega að mestu, enda var hann afar hress maður og átti ætíð erfitt með að leynast í hópi svo ekki sé nú meira sagt um hressileika hans og málgleði.
Lífið á æskuárunum í Skerjó einkenndist af gáska og gleði – og svo af grásleppuveiðum.
Bróðir Magnúsar var Gunnar, 2 árum eldri, fæddur 2. febrúar 1930 og lést 4. febrúar 2020, níræður og tveim dögum betur. Faðir þeirra dó á sama aldri. Gunnar lék lengi knattspyrnu með Fram og þjálfaði m.a. yngra landsliðið árum saman. Eiginkona Gunnars, Þórey Hannesdóttir, fæddist árið 1934 en lést 1994.
Maggi Pé fór ungur að vinna og fyrsta fasta starfið, fyrir utan það að hjálpa pabba við fiskiríið, var sendilstarfið. Hann byrjaði snemma sem sendisveinn hjá Kaffi Höll átta ára gamall og varð síðan sendisveinn hjá Búnaðarbankanum. Hann var verslunarstjóri hjá KRON við Fálkagötu og síðar sölumaður hjá verksmiðju Magnúsar Víglundssonar. Árið 1965 stofnaði hann heildverslunina Hoffell ásamt Jóni Tómassyni og rak alla tíð og stofnaði svo með Valdimari syni sínum knattspyrnuverslunina Jóa Útherja í Ármúla árið 1999. Verslunin keypti síðar Hoffell og Magnús hætti kaupmennsku fyrir um átta árum.
Sjálfur hóf ég minn starfsferil sem sendill og búðarmaður og sú reynsla hefur dugað mér betur en margt annað í prestsþjónustunni.
Knattspyrnan var einn af sterkustu þáttum í félagslífi þjóðarinnar alla síðustu öld. Nútíma knattspyrna er sögð eiga upphaf sitt á Bretlandseyjum á 19. öld en þó vitað er að mannfólkið hefur leikið sér með bolta um aldir. Sagan sýnir að fólk, sem var uppi fyrir 3.000 árum í Mið-Ameríku, lék sér með bolta úr gúmmíi, efni sem engar aðrar þjóðir þekktu fyrr en öldum seinna. Boltinn var tákn sólarinnar og fyrirliða þeirra sem töpuðu leiknum var fórnað að leik loknum. Slíkar fórnir í knattspyrnu nútímans mundu fljótlega ganga að íþróttinni dauðri, bókstaflega talað.
Í Kína á 2. og 3. öld. e.Kr., varð til leikurinn cuju með leðurbolta, fylltum fiðri, sem var sparkað á ferhyrndum velli. Afbrigði af þeim leik barst til Japan og kallaðist kemari. Fótboltinn er því alls ekki nýr af nálinni.
Magnús hóf ungur þátttöku í handknattleik og knattspyrnu með Fram og var síðar einn af stofnfélögum Þróttar 1949. Hann var meðal forvígismanna skákæfinga hjá félaginu og um tíma formaður bridsdeildar. Hann var fljótlega farinn að þjálfa yngri flokka. Þá var hann formaður handknattleiksdeildar Þróttar í fjögur ár. Árið 1950 tók hann dómarapróf í knattspyrnu, varð landsdómari 1956 og alþjóðlegur FIFA-dómari 1965. Ég man hann frá þessum árum því skólabróðir minn og kær vinur, frændi Eyþóru, bjó í sama stigagangi og þau hjónin, í Álftamýri 6. Þangað kom ég oft og sá Magga Pé á planinu að þvo bílinn eða tala við fólk. Já, hann talaði gjarnan mikið og átti oft hreinlega erfitt með að leynast í margmenni.
Magnús var reglumaður og hann átti það til þegar hann hélt boð að blanda áfengan drykk handa gestum og sjálfum sér en helti oftast úr sínu glasi í vaskinn að boði loknu.
Hann starfaði sem dómari í 30 ár og dæmdi víða um lönd. Magnús dæmdi einnig í handknattleik og var með alþjóðleg réttindi í þeirri grein. Hann fór margar ferður út um allt land til að dæma og sagði skemmtilega frá því í viðtali í sjónvarpi fyrr á þessu ári m.a. er hann fór ferð til Ísafjarðar með Catalínu-flugbáti sem lenti með miklu frussi á Pollinum og svo var fólk selflutt upp að bryggju á gömlum og opnum nótabáti. Eiginkonan var með í þeirri ferð og mörgum öðrum.
Magnús hefur hlotið margskonar viðurkenningar á lífsleiðinni. Hann var sæmdur gullmerki Þróttar, KSÍ, HSÍ, ÍBR og KRR fyrir störf sín, útnefndur heiðursfélagi Þróttar á síðasta ári og var einnig heiðursfélagi númer 1 í Liverpool-klúbbnum og lagið þeirra, You’ll Never Walk Alone, verður sungið áður en rekum verður kastað. Textinn er í raun trúarlegur, því hann blæs fólki í brjóst von í illviðrum lífsins og vísar til þess að senn birti upp og söngfuglar muni hefja raust sína á ný. Við erum aldrei ein á ferð.
Þau orð eiga vel við um Magnús sem var aldrei einn á ferð. Hann átti sér við hlið, Eyþóru Valdimarsdóttur, íþróttakennara, allt til hinstu stundar. Börn þeirra eru Kristín, Jóhanna Björg og Valdimar Pétur og svo komu barnabörnin og barnabarnabörnin dýrmætu.
Fjölskyldan segir hann hafa verið opinn og hressan alla tíð. Hann gaf mikið af sér og átti auðvelt með að tala við alla. Hann fylgdist vel með afkomendum sínum og naut afahlutverksins til hins ítrasta.
Hann bjó yfir jafnarðargeði og Eyþóra sagði við mig að „ekki hefði verið nokkur leið til að fá hann til að rífast við sig.“ En auðvitað blossar á milli allra hjóna, eins og gengur.
Eftir að Magnús og Valdimar gengu frá viðskiptum sín á milli vegna reksturs fyrirtækjanna þá hætti Magnús ekki að koma heldur mætti svo að segja hvern dag og lék skák við vini sína, hafði sitt skrif- og skákborð og hringdi oft í vini sína og bauð þeim í skák. En svo fækkaði heimsóknum með árunum.
Þau eru mörg sem þótti gaman að hitta Magga Pé og að fá hann í afmæli var vinningur, en meðan börnin voru ung fannst þeim nú oft allt of mikill sláttur á pabba og hálf skömmuðust sín fyrir kallinn, einkum á unglingsárunum þegar félagsleg samskipti eru ætíð á afar viðkvæmu stigi. En barnabörnin höfðu aðra mynd af afa sem þekkti alla og ef ekki þá bara kynntist hann þeim, segja þau!
Magnús var ör í lund og ætíð að flýta sér og tók þátt í mörgum svigkeppnum á Miklubrautinni og öðrum leiðum í tímans rás enda spölur að komast úr Fremmristekknum þar sem þau bjuggu i 51 ár og vestur í bæ eða önnur hverfi.
Eyþóra er íþróttakennari að mennt og því áttu þau einkar vel saman en hún starfaði um tíma hjá Jóni Þorsteinssyni á sínum yngri árum og kenndi svo stelpum leikfimi í Lindargötuskóla. „Þá fór ég í barneiginir“ sagði hún, „og kenndi svo sund í Sundhöll Reykjavíkur“ eftir það, en sú mikilvæga bygging var vígð rétt fyrir eins árs afmæli Eyþóru og hún fór þangað oft sem barn enda stutt að fara.
Vinur Magga Pé og sveitungi minn, Einar S. Einarsson, sendi mér texta um vin sinn sem ritaður var meðan hann lifði eins og sést og heyrist á tíðum sagna í textanum:
„Maggi Pé er sem kunnugt er víðfrægur og virtur milliríkjadómari í knattspyrnu og handbolta og hefur dæmt fjölda félagsliða og landsleikja erlendis og fleiri leiki í efstu deild hér á landi en nokkur annar. Hann varð fyrstur til að gefa gult spjald á Melavellinum 1951 – sem Helgi Daníelsson, markvörður fékk fyrir að brúka kjaft – og einnig fyrstur til að gefa mönnum rauða spjaldið hér á landi og senda menn af velli – þegar hann rak Ellert Schram og Baldur Árnason ÍA af velli árið 1955 fyrir áflog.
Magnús er Þróttari og var einn af stofnendum Skákdeildar Þróttar á sínum tíma og starfaði þá náið með Halldóri Sigurðssyni fisksala stofnanda félagsins.
[. . . ]
Magnús hefur unnið sér margt til frægðar á skáksviðinu m.a. að gera jafntefli við Mikhail Tal, fyrrv. heimsmeistara í skák árið 1957 í Moskvu, sem líkti skákstíl Magnúsar við Paul Morphy, eins mesta skáksnillings sem uppi hefur verið. Þess má og minnast að M. Pétursson tefldi víðfræga tapskák við Bent Larsen í klukkufjöltefli árið 1989, á loftinu hjá Gunna Gunn í Ísafold, sem vikið var að nýlega í pistli um Larsen, sem endaði með tvöföldu biskupsmáti.“
Þekktastur er hann þó fyrir knattspyrnuna sem hefur löngum haft mikil tengsl við kirkjuna í upprunalandi sínu. Bretinn, Williams, knattspyrnudómari og fv. þjálfari, segir um boltann: „Hann snýst um að allir landsmenn finni sig velkomna í fótbolta, hver sem trú þeirra er eða trúfélagsaðild.“ Hann segir ennfremur að á sínum tíma hafi um fjórðungur allra félaga í enskum fótbolta haft sérstök tengsl við sóknarkirkjuna.
Séra Friðrik sá mikilvægi fótboltans fyrir drengi á þeim tíma og nú er kvennaboltinn heldur betur orðinn öflugur. Séra Friðrik leit á boltann sem leið til að þjálfa líkama, hug og sál. Hann stofnaði tvö íþróttafélög, Val og Hauka.
Annar prestur, séra Bjarni Jónsson, ritaði bréf til móður sinnar í aðdraganda jóla, er hann var starfandi sem skólastjóri á Ísafirði árið 1909, áður en hann varð Dómkirkjuprestur í Reykjavík. En móðir Eyþóru fæddist einmitt í þeim merka bæ. Ræðan hans séra Bjarna var aldrei flutt en hún átti að innihalda það sem hann skrifaði mömmu sinni:
„Ég vona, elsku mamma mín, að þú verðir frísk og glöð á jólunum, og hvernig sem þér annars líður, að það verði birta og gleði í sálu þinni. Er það ekki erindi jólanna til okkar, að benda á, að hægt sé að eiga frið og gleði, sem ekkert eða enginn tekur frá okkur. Það getur verið, að ég stígi í stólinn einhvern tíma á jólunum, en þó svo verði ekki, þá hef ég verið að búa til jólaræðu í huganum, svo að það er best þú verðir í kirkju hjá mér í huganum. Textinn er Jesaja 9, 6-7. Þá mundi ég tala um friðarins hátíð. Í heiminum hefur frá öndverðu verið stríð og deilur, veikindi og dauði. En í öllu harki heimsins heyrist rödd friðarhöfðingjans, og með sinni blíðu rödd getur hann breytt tárum og böli í bros og gefið oss heilagan frið. – Margir búa við ófrið í hjartanu; syndin vekur þann ófrið, freistingarnar bera menn ofurliði; en á jólunum fæddist barnið, sem síðar varð guðshetja og getur breytt hinum lítilmótlegasta í sanna guðshetju. Og ef allt vort ráð er á reiki, þá birtist hann sem undraráðgjafi, og hans ráð svíkja engan. Og ef farið er að ráðum hans, þá eigum við vísan frið hjá Guði. Þegar Jesús kom, var himininn opinn, og nú geta allir komist til himins, því að því vinnur hann, sem er eilífðarfaðir, að þeir verði margir, sem keppa að því marki að lifa á himnum í eilífri jólagleði. – Svona mundi ræðan verða“.
Og þetta er í raun kjarninn í boðskap jólanna. Lífið er keppni og við keppum að því að lifa áfram, lifa um eilífð alla, lifa í himninum.
Í lífsleiknum gellur oft við kall flautunnar. Dæmdar eru aukaspyrnur á okkur vegna brota og við fáum öll á okkur víti fyrir að hafa rangt við. En sú flauta, hljómar ekki yfir bæi og borg, heldur heyrst hún aðeins í hjartanu mínu og þínu, í samviskunni, og segir með orðunum úr Fjallræðu Jesú: „Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn meðan þú ert enn á vegi með honum…“ (Mt 5.25)
Gerðu það í tæka tíð.
Já, meðan leikurinn er enn í gangi, er hægt að taka aukaspyrnu eða víti og gera upp við fólk á ærlegan og sanngjarnan hátt.
Lífið hefur sínar leikreglur eins og boltaleikurinn. Á vellinum leika íþróttamenn meðan fylgdarfólk liðanna hrópar á pöllunum. Stundum mislíkar öðru liðinu hvernig dómarinn dæmir leikinn og hrópar hástöfum: „Útaf með dómarann, útaf með dómarann!“ En slíku gaspri er aldrei hlýtt. Dómarinn ræður og í lífsleiknum er bara einn dómari sem aldrei verður settur af enda dæmir hann ætíð hárrétta og sanngjarna dóma og það er hann sem kallar leikmenn lífsins af velli og tekur þá útaf en rekur þá aldrei út af, því hann er í eðli sínu opinn faðmur, sem við þekkjum öll af eigin raun frá ástríku foreldri, faðmur skilnings og elsku. Jólin eru faðmur Guðs, sem breiðir út arma sína mót sekum heimi.
Við erum lukkunnar pamfílar sem fáum að spila í lífsleiknum hans í öruggri vissu um réttláta dóma, dóma elsku, náðar og fyrirgefningar. Eflum slíka dóma með okkur sjálfum og vita skulum við að slíkt mun hafa líknandi áhrif á samferðafólk okkar og samfélag og gera lífsleikinn mun skemmtilegri en ella ef við komum vel fram við aðra.
Við fögnum hér í dag og höldum minningarhátíð um Magnús Vigni Pétursson og þökkum fyrir líf hans og störf.
Guð geymi þig, Eyþóra, börnin þín og afkomendur alla, ættingja, vini og samferðafólk.
Góður Guð blessi minningu Magnúsar Vignis Péturssonar og megi hann blessa þig sem enn tekur þátt í lífsleiknum – og blessa þig sérstaklega þegar hann flautar í fyllingu tímans og bíður þín að leik loknum með opinn faðm í himni sínum.
Amen
RRRRRRR

