+Jón Guðlaugur Þórðarson 1931-2022

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Jón Guðlaugur Borgfjörð Þórðarson

múrarameistari frá Ísafirði

Brákarhlíð, Borgarnesi

Útför frá Lindakirkju, Kópavogi

þriðjudaginn 6. desember 2022 kl. 13

Jarðsett í Kópavogskirkjugarði

Fyrr í athöfninni voru lesnir þessir textar:

Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis. (Sálmarnir 127.1)

Úr Fjallræðu Jesú: Mattheus 7:

24 Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. 25 Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi.

Ræðan

Hverjar voru persónur þær sem þú sást fyrst á ævinni? Ég skal segja ykkur hvaða fólk ég sá! Ég sá auðvitað móður mína, mágkonu hennar sem var viðstödd fæðinguna og svo hana Elínu ljósmóður, móður Jóns sem við kveðjum hér í dag. En auðvitað man ég ekki þessa fyrstu sýn, ég veit hana bara vegna þess að mér hefur oft verið sagt hverjir voru viðstaddir fæðingu mína.

Hvað manstu, hverja manstu – og hver man þig?

Í hinni helgu bók segir á einum stað:

Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni,
ævidagar mínir voru ákveðnir
og allir skráðir í bók þína
áður en nokkur þeirra var til orðinn.

(Sálmarnir 139:16)

Í orðunum kemur fram trú á tiltekna fyrirhyggju eða forsjá, að allt sé vitað og ákveðið áður en það varð. Sú er nú ekki raunin, að ég tel, að allt í lífi okkar sé fyrirfram ákveðið, en sumt sem gerist getur þó litið þannig út, en einungis þegar litið er í baksýnisspegilinn. En Guð hlýtur samt að geta séð fyrir alla möguleika í vali okkar eins og risatölvur geta reiknað út val okkar af mikilli nákvæmni með algrími sínu og innsæi en Guð er samt stærri en allar tölvur heims og stærri en allar þær sem kunna að verða til í framtíðinni.

En þessi texti: „Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni …“ er tjáning um sköpun almennt. Fyrst sjáum við og svo framkvæmum við það sem hugmyndin sýnir, meðan hún er ómyndað efni og svo myndum við efnið, gerum það að efnislegum veruleika.

Jón og faðir hans voru múrarar. Þeir sáu fyrir sér heilu byggingarnar sem hugmynd og svo varð steypan í höndum þeirra að húsi eða höll. Það er sköpunarferli frá hugsun til veruleika. Það byrjar allt með hugsun, með orði og þess vegna sagði Guð: „Verði ljós! og það varð ljós!“

Lítum nú yfir farinn veg Jóns Guðlaugs Borgfjörð Þórðarsonar sem lést 26. nóvember síðastliðinn.

Hann fæddist á Ísafirði 19. mars 1931.

Fæðingarár Jóns kveikir hugrenningatengsl við ástandið í landinu. Kreppan í Bandaríkjunum árið 1929 setti í gang heimskreppu. Hér á landi hríðféll verð á síld haustið 1930. Atvinnulíf dróst saman og fólk missti vinnuna. Kreppan var verst á útgerðarstöðum eins og í Hafnarfirði, á Vestfjörðum og Austfjörðum. Reykvíkingar fundu einnig fyrir áhrifum kreppunnar.

Foreldrar hans voru, Þórður Guðjón Jónsson, múrarameistari, og Elín Sigríður Jónsdóttir, ljósmóðir. Elín og Þórður bjuggu í Pólgötu 5 og þar bjó Jón með sinni fjölskyldu fyrst um sinn. Þau Elín og Þórður komu frá sitt hvoru landshorninu, Elín var fædd og uppalin austur á Héraði en Þórður var úr Arnarfirði.

Inn í þessar aðstæður á árum kreppunnar í heiminum og á Íslandi fæddist Jón og hann hefur án efa alist upp við að heyra um ástandið og það mótað hann að mörgu leyti. Ég held að það sé gott fyrir okkur sem yngri erum að árum að heyra um þessa tíma meðan við búum flest við allsnægtir og allt önnur tækifæri en fyrri kynslóðir.

Kreppan hafði sín áhrif fyrir vestan en Ísafjörður var öflugur bær á fyrri hluta liðinnar aldar og þar risu opinberar byggingar sem enn standa og prýða bæinn en svo kom doði sem varði allt frá stríðsárunum og fram á 8. áratuginn þegar skuttogaravæðingin breytti mestu og tekjurnar úr hafinu skiluðu framkvæmdum í landi.

Jón gekk í góða skóla á Ísafirði, Barnaskólann, Gagnfræðaskólann og Iðnskólann og lærði síðan múrverk hjá föður sínum og varð meistari í því fagi.

Stærsti atburðurinn í lífi hans var auðvitað sá að hann og Ingibjörg Þórunn Jóhannsdóttir urðu ástfangin. Þau gengu í hjónaband mjög ung sem var algengara með þeirra kynslóð en ungs fólks í dag. Hann var tvítugur og hún rúmlega átján ára. Þau eignuðust sjö börn:

Sigríði (1951),

Þórð Guðjón (1953),

Árna Guðlaug (1955),

Sigurð Albert (1958, dáinn 1960),

Sverri Atla (1961),

Einar Þór (1963, dáinn 2019) og

Jóhann Sigurgeir (1965, dáinn 2015).

Barnabörn Ingu Tótu og Jóns eru 15.

2 létust á árinu og barnabarnabörnin þegar orðin 20.

Jón var mikill framkvæmdamaður og strax 16 ára gerðist hann verktaki þegar hann tók að sér að múrhúða hús á Suðureyri við Súgandafjörð. Eftir það var ekki aftur snúið og hann rak verktakafyrirtæki á Ísafirði allt þar til hann flutti suður 1981 og það var ekki bara á Ísafirði sem hann byggði hús heldur voru allir Vestfirðir hans starfsvettvangur. Auk verktakastarfseminnar rak hann einnig Steiniðjuna sem var bæði steypustöð og byggingavöruverslun. Fyrstu áratugirnir voru ekki auðveldir því lítið var byggt á krepputímum á Ísafirði, aðeins eitt og eitt hús á ári, en hann vildi ekki gefast upp því starfsmenn hans settu sitt traust á hann til að hafa í sig og á.

Þau hjónin bjuggu fyrstu árin á Ísafirði, fyrst í Pólgötu og síðan á Urðarvegi. Árið 1981 fluttu þau suður og settust að í Kópavogi. Í tæp tuttugu ár bjuggu þau við Álfhólsveg, en um aldamótin söðluðu þau um og fluttu í útsýnisíbúð í Ársölum þar sem Esjan og Snæfellsjökull blöstu við. Þegar aldurinn færðist yfir fluttu þau í góðra vina hóp í DAS-íbúð við Boðaþing.

Eftir að Inga féll frá árið 2012 bjó Jón áfram í Boðaþingi en í árslok 2019 flutti hann á dvalarheimilið Brákarhlíð í Borgarnesi. Þar var einstaklega vel hugsað um hann og fékk hann allan þann stuðning sem hægt var að veita.

Í Boðaþingi eignaðist Jón góða vinkonu, Önnu Kristjánsdóttur, sem kveður vin sinn hér í dag.

Á Jóni sannaðist að sá sem er eitt sinn skáti verður ávallt skáti. Hann gekk í skátahreyfinguna ungur að árum og fylgdi hugmyndafræði skátanna allt fram á síðasta dag. Meira að segja á Brákarhlíð var hann að skipuleggja samverustundir, allt í skátaanda. Hann skipulagði alla fundina nákvæmlega með hjálp tölvu, bjó til nafnalista, skorblöð, leiðbeiningar og spilareglur. Þetta gerði hann allt þó hann væri væri orðinn lögblindur. Sambýlisfólk og starfsfólk Brákarhíðar á örugglega eftir að sakna hans.

Skátastarf hefur mótað marga hér á landi með sínum góðu gildum sem byggja á kristinni trú og mannkærleika. Skátastarfið var öflugt á Ísafirði um árabil. Ég var ylfingur og Einherji og fór með skátum í útilegur og útivist. Á 13. ári fór ég á landsmót skáta á Þingvöllum 1962 og sá þar konu stofnandans, Lady Baden Powell sem var heiðursgestur mótsins.

Jón var vinnusamur og ætíð fylginn sér, og gat verið þrjóskur og þver. Líf hans og yndi var að framkvæma og sjá hlutina gerast.

Við erum sköpuð til að skapa, til að vinna og framkvæma, láta um okkur muna og þá í þeim anda, að við vinnum öðrum vel og leggjum samfélagi okkar og heimi eitthvað gott til. Þá mettast sálin og verður sæl.

Þau Inga Tóta áttu sumarbústaðinn Arnarhól í Arnardal, yst í Skutulsfirði. Þar reyndu þau að rækta garðinn sinn og nutu samverustunda þar með börnunum. Eftir að þau komu suður eignuðust þau annan bústað sem fékk ísfirskt nafn, Dokkan, en svo hét austurhluti eyrarinnar þar sem Inga ólst upp, sem líklega hlaut nafn sitt af útlendum sjómönnum sem sigldu í höfn eða fundu sína dock.

Jón byggði mörg hús og mannvirki en stundum leið langt á milli verka, einkum á því tímabili þegar lítið var um framkvæmdir vestra. Þá þurfti hann að þrauka með sína stóru fjölskyldu. Hann sagði mér þegar ég jarðsöng Ingu Tótu að þá hefði faðir minn, Jón Ö. Bárðarson, bjargað þeim því þau fengu allt skrifað í búðinni hans og borguðu eftir getu og minni. Þannig var þetta með margar fjölskyldur sem allar fengu sinn mat og borguðu seinna þegar hagur þeirra vænkaðist. Jón og Inga voru meðal margra kúnna hjá pabba og ég fór oft sem sendill með vörur til þeirra og til foreldra hans, Þórðar og Elínar í Pólgötunni, en aldrei minntist faðir minn á eða stærði sig af biðlund sinni hvað varðaði þau eða aðra kúnna. En gott var að heyra um góðmennsku hans. Hana þekkti ég af eigin raun meðan hans naut við.

Jón var mikill tækjakall, hans líf og yndi voru takkar. Á einu tækja hans voru 116 takkar og á þá var gaman að spila. Hann vildi ætíð hafa nýjustu græjur enda eru synir hans a.m.k. tveir miklir tölvumenn. Svo útbjó hann af mikilli elju 7 bækur með myndum og skýringartextum um líf sitt, m.a. um verktakastarfsemi sína, um skátastarfið og um mannlífið á Ísafirði. Ótrúlegt afrek fyrir fullorðinn mann með skerta sjón. En eljan og þrjóskan kom honum langt.

Hann tók myndir alla tíð og framkallaði þær sjálfur á árum áður og talað var í mín eyru um 22 þúsund myndir!

Fyrsta einkatölvan á Ísafirði kom þangað 1977 og var ein sú fyrsta á landinu. Sverrir og Árni skrifuðu forritin og urðu sjálfir heillaðir af þessari nýju vídd í tilverunni sem tölvur eru. Hugsið ykkur tæknina. Stóru tölvurnar í árdaga fylltu heilu herbergin en nú er farsíminn okkar með meiri reiknigetu en margar slíkar tölvur sem fylltu heilu herbergin.

Framfarir í tækni og vísindum eru skyldar skáldskap. Hugmyndin um fjarskipti um tæki á jörðu sem tengd eru gervitunglum í geimnum voru upphaflega hugmynd vísindaskáldsagnahöfundarins Arthur C. Clark sem sá fyrir sér speglakerfi í geimnum til að varpa samskiptum milli tækja um alla jörðina.

Og heimurinn er gjörbreyttur nú í samanburði við æskuár Jóns.

Hann lagði aldrei árar í bát. Hugurinn var sístarfandi og svo fór hann í gymmið í Brákarhlíð allt fram í október í haust.

Hann var alla tíð skapandi og virkur, alltaf að búa eitthvað til. Hann dundaði sér m.a. við það að gera glerverk í glugga og fékkst við margskonar handverk.

Tveim vikum fyrir dauða sinn hafði hann samband og sagðist vanta blek í prentarann sinn og þegar Sigga kom til hans og var á leiðinni út og ætlaði til Svíþjóðar fór hann í hjólastólinn til að geta fylgt henni til dyra og kvatt hana. Þá sáust þau hinsta sinn.

Einkunnarorðin hans voru: Veldu vel! Og það rifjast upp þegar Jón sat úti við bústaðinn, Dokkuna. Vignir vann við að hlaða grjótvegg. Jón sat með staf og benti með honum á næsta stein sem hann taldi að passaði í vegginn einmitt þar sem Viggi ætlaði að setja næsta stein. „Snúðu honum við. Hafðu hann svona. Láttu hann sitja vel.“

Að byggja hús er vandaverk. Að hlaða vegg er það líka. Iðnaðarmenn þurfa að hafa gott formskyn og búa yfir nákvæmni og fegurðarskyni. Augun sjá fyrst það sem verða skal.

„Augu þín sáu mig …“

Við erum séð af Guði og við sjáum flest sem betur fer og skynjum ýmislegt. Ég man ekki fyrstu manneskjurnar sem ég sá en ég veit hverjar þær voru. Við getum líka séð í hugskoti okkar það sem okkur hefur verið sagt. Framtíðina er ekki auðvelt að sjá fyrir en hún er í hendi Guðs.

Við sjáum og Guð sér. Hann horfir á okkur með sínum kærleiksaugum og velvild. Innsta eðli hans er elska, miskunn og náð. Hann er ímynd alls þess sem mannkyn telur best. Við fæddumst honum og munum deyja honum.

Í dag kveðjum við Jón með virðingu og þökk. Hann hefur hlotið hvíld að loknu góðu dagsverki.

Sjónin hans hafði daprast en aldrei daprast augu Guðs sem yfir okkur vaka í tærri elsku.

Guð blessi minningu Jóns Guðlaugs Borgfjörð Þórðarsonar og megi Guð blessa þig og leiða sem enn ert á lífsveginum.

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.