+Albert Guðmundsson 1952-2022

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Albert Guðmundsson

verkfræðingur

frá Grænagarði, Ísafirði

Útför (bálför) frá Neskirkju mánudaginn 5. desember kl. 13, jarðsett verður í Sóllandi. Texti ræðunnar og hljóðupptaka eru hér fyrir neðan.

Búið var að leggja skíðabrautina fyrir stórsvig og hún náði frá Hrossaskál í Breiðafelli og alla leið að Seljalandi. Stærsta skíðamót ársins á Ísafirði var við það að hefjast. Fyrstur til að fara brautina var svonefndur undanfari og hann markaði fyrstu sporin, mjóar rákir eftir svigskíðin, frá rásmarki og allt til enda brautar. Albert var þá unglingur og einn af bestu skíðamönnum heima. Og hann sveif niður fjallið í mjúkum sveigjum, stíllinn fagur, skíðin samsíða en ekki gleið, og hraðinn mikill. Tími hans var ekki skráður opinberlega en heimildir herma að hann hafi í raun verið með einn af bestu tímum mótsins án þess að keppa því hann var í hlutverki undanfarans.

Og nú kveðjum við þennan glæsilega og fjölhæfa mann, Albert Guðmundsson, sem er horfinn frá okkur allt of fljótt. Við syrgjum góðan dreng og sorgin bifar brjóst og tárin væta vanga. Þannig er eðli okkar manna, við syrgjum og söknum en mannkynið hefur þó ætíð lifað af dauðann og þær sterku tilfinningar sem honum fylgja.

Útför er eðli sínu samkvæmt sorgarathöfn en hún er jafnframt þakkarhátíð. Í dag höldum við hátíð í minningu Alberts og fögnum því að hann var til og þökkum það sem hann stóð fyrir og skilur eftir sig af góðum minningum. Sorgin er verkefni og stærst er það fyrir Önnu, Þór og Barböru og svo eiga litlu prinsessurnar, Elísabet Rúri og Anna Viktoría, eftir að heyra um afa og söknuðinn sem hann skildi eftir hjá ástvinum sínum, um glettni hans og einstaka góðvild, þolinmæði og rósemi, svipinn hans hreina og milda, augun blíðu og fögru. Eitt af einkennum hans sem talið er komið frá Kristjáni afa hans er að Albert réri gjarnan fram í gráðið. Já, hann Albert var fallegur maður, yst sem innst, vil ég segja.

Hann fæddist á Ísafirði 9. maí 1952, sonur Helgu Kristjánsdóttur og Guðmundar Ingvars Guðmundssonar. Helga var eðal húsmóðir en hún vann einnig við netagerð eins og maður hennar, bæði Ísfirðingar og stolt af uppruna sínum. Þau bjuggu lengst af í Grænagarði og ég man þau vel og ekki síst Helgu þegar hún kom í verslun föður míns og valdi varning sem við sendum svo heim til hennar. Ég man er ég hljóp með vörurnar upp tröppurnar hjá henni og inn í eldhús. Þau hjónin eru eftirminnileg. Muggur með sinn glettna og grallaralega svip og hún með sína blíðu ásjónu og yfirbragð rósemdar. Þau voru vænar manneskjur og þeirra er enn saknað.

Þau eignuðust fjögur börn.

Elstur er Kristján Rafn, fv. ökukennari á Ísafirði, f. 1944,

Jónína Elísa, stuðningsfulltrúi og fyrrum bóndi á Víðivöllum f. 1949,

Albert, verkfræðingur f. 1952

og stúlkubarn f. 1958 sem dó 2ja vikna.

Til þess var tekið hvað þessi systkini voru dugleg og sterk. Þau áttu lengstan veg allra Ísfirðinga að fara í skóla á veturna og ég man að skólasystir mín, Jónína Elísa, kom stundum klakabrynjuð mót kafaldsbyl í sterku norðanbáli í skólann, meðan við sem bjuggun á Eyrinni fórum sum aðeins nokkur hundruð metra leið, eða bara tugi, meðan hún fór rúma 3 kílómetra og svo aftur heim að skóladegi loknum. Þá var engum börnum ekið til og frá skóla og enginn gemsinn til að góna í skjálút á leiðinni. Ég veit að jafnaldrar Kitta Muggs upplifðu það sama. Jafnaldrar Alberts á Seljalandsveginum þurftu enga klukku til að vita hvenær þau ættu að halda af stað í skólann. Þau fylgdust bara með hvenær Albert gekk á móti vindinum, ögn álútur, en föstum og öruggum skrefum, ef hann var þá ekki á hjólinu í betri færð. Hann var klukkan þeirra. Til er saga frá Ísafirði frá tíð séra Sigurgeirs Sigurðssonar, sóknarprests Ísfirðinga fyrir miðja síðustu öld og síðar biskups Íslands, sem bjó á Sjónarhæð við Seljalandsveginn og lagði hjólinu sínum gjarnan við stakketið heima að loknum vinnudegi. Maður sem bjó innar í firðinum er sagður hafa notað hjól prestsins reglulega og skilaði því svo á sama stað að morgni.

Sem drengur fór Albert með foreldrum sínum til Siglufjarðar til vinnu. Albert hjálpaði mömmu að salta og ekki laust við að hinar söltunarstúlkurnar litu Helgu öfundaraugum að hafa þennan knáa strák sér til aðstoðar sem jók afköst hennar til muna.

Albert var góður námsmaður. Hann lauk skólaskyldu á Ísafirði og tók undirbúningsár fyrir MA heima og hélt svo norður og lauk stúdentsprófi 3 árum síðar. Þaðan lá leiðin suður í HÍ og verkfræðin tók hug hans allan. Stærðfræðin var honum hugleikin og gátur hennar leysti hann með gleði eins og skákmeistari tafl sitt.

Hann var góður íþróttamaður, hann var oftar en ekki stærstur og sterkastur í liði sínu. Hann var skíðakappi, lék fótbolta af yfirburða fimi og í körfubolta voru varnir hans og sóknir kröftugar og vel útfærðar. Hann var fyrirmynd annarra, aldrei reiður og aldrei hlaut hann áminningu í leik svo vitað sé. Þegar fótboltanum lauk á haustin tók körfuboltinn við og svo skíðin þegar fannir breyttu firðinum fagra í vetrarparadís. Rifjað var upp í mín eyru þegar Albert og fjórir aðrir, hávaxnir strákar, tróðu sér inn í eina Volkswagen Bjöllu með allan búnað sinn og óku á Patró til að keppa í körfubolta. Sögunnni fylgir að þeir hafi jafnvel þurft að bera Bjölluna yfir sumar torfærur. Þeir voru eins og síld í tunnu en leikgleðin og áhuginn setti engin óþægindi fyrir sig. Hann lék með sínum heimamönnum og svo með Þór á Akureyri í efstu deild körfuboltans og seinna með Íþróttafélagi stúdenta og með sínum félögum þar tók hann þátt í Evrópubikarmótinu í Barcelona.

Á námsárunum við HÍ kom Anna inn í líf hans árið 1975 með Þór, fædd 1971, sem Albert gekk í föðurstað af djúpri elsku og ábyrgð. Svo fæddist þeim Barbara Inga 1982 sem er einstök móðir tvíburanna. Þór er verkja- og þreytusérfræðingur á sálfræðilegum grunni og Barbara lögfræðingur með sérþekkingu á alþjóðalögum í heimi fjármála. Þau búa í Englandi og þangað fór Albert í haust með Önnu til að upplifa eitt stærsta ævintýri lífs þeirra til að sjá nýfæddar tvíburasysturnar á fæðingardeild Sjúkrahúss heilags Tómasar í Lundúnum, sem er handan við Thames-ána þar sem þinghúsið stóra og mikla með Elísabetarturninn háa og Big Ben klukkuna voldugu sem nú hringir aftur eftir langt hlé. Sá þekkti maður, Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands á liðinni öld, státaði af breska þinginu, og vitnaði í landa sinn John Bright, sem hafði sagt „England is the Mother of Parliaments“ en hann gleymdi þá víst að nefna ömmuna, Ísland, þar sem Alþingi Íslendinga var stofnað árið 930 og telst því elst allra lýðræðislegra þinga sem enn er við lýði.

Myndirnar frá London af fjölskyldunni í sálmaskránni segja meir en mörg orð. Albert orðaði það að nú væri kominn tími til að selja húsið og kaupa nýtt með 5 svefnherbergjum: einu fyrir þau hjónin, tvö handa Þór og Barböru Ingu og tvö fyrir prinsessurnar!

Albert hafði yndi af laxveiði, fór oft í Hítará og svo var hann virkur í Lions-hreyfingunni um árabil. Þá naut hann sín í matarklúbbi vina og á mannamótum almennt tók hann gjarnan virkan þátt í samræðum og gerði að gamni sínu og svo lék hann sér oft að því að vera á annarri skoðun en viðmælandinn. Svo hafði hann dálæti á svonefndum fimmaurabröndurum, var ögn stríðinn. Hann kunni marga texta og hafði góða söngrödd en söng þó aldrei í kór. Hann var skáti frá barnsaldri, hafði yndi af dansi og hreyfingu og var gleðipinni, segir fjölskyldan. Þegar hann vann við þrif heima hlustaði hann oft á John Denver, sem dó ungur en skildi eftir sig margar fagrar laglínur og söngtexta.

Hér ætla ég að gera hlé því ræðan er ögn lengri en gengur og gerist og leyfa ykkur að heyra stef úr lagi sem þið þekkið.

Steingrímur Þórhallsson leikur lagið Take Me Home eftir John Denver.

Hér þarf að hafa örfá orð um hana Önnu sem hefur nýtt hæfileika sína á ýmsum stöðum. Hún hefur alla tíð unnið við hin ýmsu skrifstofustörf en ákvað svo að skipta um kúrs og fara í háskóla á fimmtugsaldri, en hún lagði stund á markaðs- og útflutningsfræði í viðskiptafræðideild. Eftir starfslok lá leiðin aftur í Háskólann og hefur hún lagt stund á hinar ýmsu greinar, eins og listfræði, Mið-Austurlandafræði og íslamskar bókmenntir. Ærin eru verkefni hennar og nú bætast ömmubörnin við og ofan á allt, úrvinnsla sorgar og missis.

Lífið heldur áfram.

Albert fór oft á skíði um ævina og eitt sinn eftir nokkurt hlé hélt hann upp í Hveradali. Gamli búnaðurinn stóð enn fyrir sínu, margra ára gömul skíði með þreyttum leðurólum og margnotuðum skóm sem pössuðu þó enn. Hann fór bara í gallabuxum og gömlu Álafoss-úlpunni og þegar fólk sá hann í lyftunni pískraði það og velti því fyrir sér hvað þessi maður væri nú að gera í fjallinu sem var ekki einu sinni í almennilegum skíðafatnaði og vantaði öll fínu tískumerkin. Þegar lyftunni sleppti steig hann fram af öryggi og renndi sér niður brekkurnar. Fólkið stóð gapandi og varð að gleypa fordóma sína og kyngja því með fersku fjallaloftinu.

Albert kenndi sér fyrst meins sl. vor er hann ók heim úr Bláfjöllum þar sem hann hafði verið á skíðum. Hann fékk flog og hringdi í Neyðarlínuna. Hann var kominn með mein í höfuð sem dró hann til dauða á hálfu ári. Hann fór þjáður til London í lok september og kom heim í farþegaflugi um miðjan október enn þjáðari en áður og sýndi ótrúlega seiglu og dugnað eins og honum var í blóð borin. Og nú er hann horfinn þessi ljúflingur, sem hafði ætíð sitt rólega yfirbragð. Honum voru þrjár setningar tamar:

Ekkert mál.

Flýttu þér hægt.

Gakk hægt um gleðinnar dyr með með bros á vör.

Hann stóð ætíð eins og klettur með sínu fólki, gegnheill og bóngóður alla tíð. Eftir að faðir hans dó meðan Albert var enn í námi í HÍ, bar hann mikla umhyggju fyrir móður sinni eins og endra nær og lagði upp úr því seinna að hún kæmi í heimsókn til Þýskalands og svo fóru þau eitt sinn saman til Bandaríkjanna að vitja frændfólks. Þá fór Helga í stóra hjartaaðgerð í London 1980 í fylgd Alberts og Önnu.

Hann var vandvirkur verkfræðingur. Sérnámi lauk hann í Aachen í Þýskalandi og hafði ætíð sterkar taugar þangað, iðkaði tungumálið og hélt sambandi við vini frá námsárunum.

Albert vann um árabil hjá RARIK og svo hjá Landsvirkjun. Þar var hann réttur maður á réttum stað, teiknaði línur um landið, sem er vandaverk, bæði verkfræði- og fagurfræðilega talað. Rólegt yfirbragð hans nýttist oft vel þegar sannfæra þurfti landeigendur um legu línunnar í landslaginu. Albert hafði einhverja töfranærveru í þeim efnum.

Hann gerði ekki mikið úr sjálfum sér, var ætíð hógvær en næmur á líðan annarra. Á mannamótum spurði hann viðmælendur gjarnan um líðan þeirra og hvað væri að gerast. Hann hafði áhuga á fólki og unni góðum samverum vina. Í veislum var hann gjarnan nálægt píanói ef það var til staðar, hlustaði á tónlistina. Öllum leið vel í návist hans.

Albert var góður stærðfræðingur og vinir barna hans og margir fleiri fengu tilsögn hans í gegnum tíðina.

Og við mannfólkið reiknum og reiknum og gerum okkar áætlanir um morgundaginn en vitum þó aldrei hvort hann rennur upp.

Stærðfræðin er merkileg grein og mikilvæg fyrir okkur mannkyn. Kurt Friedrich Gödel, hét maður, sem fékkst við rökfræði, stærðfræði og heimspeki á liðinni öld og vann ma. með Albert Einstein. Hann setti fram það sem kallað er „ófullkomleikasetning Gödels“ þar sem hann sýnir fram á að ekki verður allt sannað í heimi talnafræði. Á það ekki líka við í vísindum almennt og hugvísindum líka, að mótsagnir finnast víðar en margur heldur?

Trú og vísindi eru ekki andstæður heldur órjúfanlegur hluti af því að vera manneskja í flóknum heimi. Að trúa og vona er iðja okkar allra. Enginn getur lifað án trúar og vonar. Lífið byggir á þeirri afstöðu til allra hluta. Morgundagsins bíðum við hvert kvöld í von og trú.

Albert horfði fram á veginn. Hann stefndi á starfslok í maí en um það leyti dó tengdamóðir hans, hann missti af 50 ára stúdentsafmælinu og útskriftarafmæli verkfræðinganna og kveðjuhófi hjá Landsvirkjun vegna starfsloka. Hann ætlað einnig í veiði, hitta Lions-félaga og svo voru það prinsessurnar sem biðu umönnunar afa. Segja má að hann hafi dáið í fullu fjöri eða eins og Norðmenn segja: „Han døde med skone på!“ Hann dó með skóna á fótum.

Þessi svipbjarti, stóri og stæðilegi maður, tryggur með afbrigðum, frændrækinn, traustur og velviljaður, er nú fallinn frá. Svo bregðast krosstré sem önnur, segir í máltækinu, sem geymir þá visku að jafnvel hið traustasta og sterka verður að láta undan.

Enginn ræður sínum næturstað. Trúin og vonin eru eins og skáldin sem horfa bæði inn á við og svo einnig út fyrir veruleikann. Við lifum ekki án skáldskapar og trúar. Ég man þegar ég las sögu Jules Verne sem drengur um ferðina til tunglsins og fékk svo að hlusta á tungllendinguna í beinni útsendingu á RÚV 1969. Skáldið sá þetta fyrir. Við erum flest með farsíma í vasa okkar sem talast við í gegnum gervihnetti. Það var vísindaskáldið Arthur C. Clarke, sem kom með hugmyndina í einni af sögum sínum um spegla úti í geimnum til að varpa fjarskiptum fram og aftur um hnöttinn. Sú skáldlega sýn rættist í gervihnöttum og farsímum í vasa almennings.

Að hugsa út fyrir kassann er hlutverk vísindanna og skáldskapurinn er líklega æðstur allra vísinda. Að trúa og vona, að sjá fyrir sér hið óorðna, að hugsa hið óhugsanlega, sjá hið ósýnilega, er heillandi verkefni. Í hinni helgu bók, Biblíunni, er aðeins eitt vers sem skilgreinir trúna: „Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Hebr. 11.1)

Við skulum horfa í þá áttina núna þegar við kveðjum Albert Guðmundsson sem nú er farinn í fylgd þess undanfara allra undanfara, sem opnaði brautina milli heimanna, milli himins og jarðar, milli jarðlífs og eilífðar, með dauða sínum á krossinum á Golgata. Krosstré hans brotnaði aldrei og stendur enn, hærðilegt tól sem varð að sigurtákni sem minnt er á hér á kórvegg Neskirkju.

Nú er aðventan, en orðið merkir koma. Okkur er boðið að íhuga komu hans sem breytti veröldinni, heiminum öllum og sjálfri tilverunni. Hann kom á jólum og dó í vikunni dimmu fyrir páska. Hann reis upp og birtist fylgjendum sínum og fór svo leiðina til himinsins, sem undanfari okkar allra sem erum þátttakendur í þessu lífi og send á sömu braut, með áritun himinsins á enni og bjósti eins og utanáskrift sem skilar sendingunni heim í loka hliði lífsbrautarinnar. Færðu mig heim. „Take Me Home!“

Guð blessi minningu Alberts Guðmundssonar og megi blessun Guðs fylgja fjölskyldu hans og ástvinum og okkur öllum sem enn erum á svigbraut lífsins sem mörkuð er af sporum undanfarans besta.

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.