Örn Bárður Jónsson
Minningarorð

Saumakona frá Bæjum á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.
Útför frá Neskirkju í Reykjavík
föstudaginn 2. desember 2022 kl. 09:30
Texti og hljóðupptaka eru hér fyrir neðan. Innskot eru á hljóðupptökunni sem ekki eru í textanum.
Nú er saumakonan, Guðbjörg Septíma Halldórsdóttir, búin að bíta úr nálinni hvað líf sitt varðar. Er hún lést átti hún innan við hálft ár í að lifa heila öld. Hún var eins og systur hennar, saumakona alla tíð, afar flink í höndum, bæði í saumum og prjónaskap, en einnig myndlist og handverki af ýmsu tagi.
Við erum sköpuð til þess að skapa, til þess að hugsa og starfa, þjóna lífinu og samferðafólkinu með gáfum okkar og getu, náðargjöfum og nýsköpun af ýmsu tagi, hver sem vettvangur okkar er eða var á lífsleiðinni.
Betra er að iðja en biðja, segir sálin löt sem nennir ekki því sem miklu skiptir og kemur sér gjarnan undan að efla sál sína og anda með bæn, hirðir ekki um að hreinsa brjóstkirkju sína eins og sálin er nefnd í elstu bók sem til er á íslenskri tungu, Íslensku Hómilíubókinni, sem talin er rituð fyrir eða um aldamótin 1200 og geymir stólræður presta.
Við erum bókaþjóð og það er bókmenntaarfurinn sem reynst hefur sem sýruker til að varðveita andlega fæðu orðanna í okkar tungu. Orðtakið að bíta úr nálinni táknar lok saumaskapar, og út frá því að hafa lokið hverju sem var. Að vera ekki búinn að bíta úr nálinni fór hins vegar að merkja að eiga eftir að kenna á afleiðingum einhvers. Hún Guðbjörg var búin að bíta úr nálinni í jákvæðum skilningi orðtaksins, hún dó södd lífdaga eftir góða ævi sem hún naut í gleði og fögnuði daganna, kát og skemmtin, myndarleg og sæl í sál og sinni.
Guðbjörg fæddist í Bæjum á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp 10. apríl 1923. [Innskot á hljóðupptöku – útskýring á nafni hennar] Hún lést á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum 25. nóvember sl.
Foreldrar hennar voru Halldór Halldórsson bóndi í Bæjum, (fæddur 14.10.1884, dáinn 19.12.1947) og kona hans Þorbjörg Brynjólfsdóttir, (fædd 13.9.1884, dáin 21.10.1983).
Systkini hennar voru:
Rannveig Jensína (f. 5.03.1914, dáin 12.06.1993),
Brynfríður Ragnheiður (f.31.08.1915, dáin 31.03.2013),
Kjartan (f.17.06.1917, dáinn 7.03.1993),
Halldór Tryggvi (f. 24.08.1919, dáinn 16.07.2003) og
Sigríður Kristín (fædd 1928, dáin 1930).
Fljótlega eftir andlát föður síns fluttist Guðbjörg til Reykjavíkur ásamt móður sinni og stofnuðu þær, ásamt Brynfríði saman heimili að Flókagötu 12 í Reykjavík, síðar keyptu þær sér íbúð að Mánagötu 14 í Reykjavík.
Um 1960 keyptu þær systur íbúð við Skipholt 55 í Reykjavík og bjuggu þar saman til ársins 1973, en þá keypti Brynfríður hlut Guðbjargar í íbúðinni og bjó þar áfram, en Guðbjörg keypti sér íbúð við Birkimel í Reykjavík og síðar íbúð á Aflagranda 40, þar sem hún bjó þar til hún vistaðist á hjúkrunarheimilið Droplaugarstaði fyrir þremur árum. Hún var vel liðin þar sem hún dvaldi því lundin var ætíð ljúf. Marga vini eignaðist hún á Aflagranda.
Eiginmaður Guðbjargar var Guðmundur Guðmundsson f. 12.04.1916, dáinn 29.11.1990. Börn hans eru Árni Brynjólfur (f. 16.04.1942) og Stella (f. 23.09.1957). Þau áttu saman góða daga.
Ung að árum stundaði hún nám við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði, þá merku menntastofnun í heimilisfræðum. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur lærði hún fatasaum og starfaði við saumaskap um margra ára skeið. Hún vann líka m.a. á Hótel Sögu og Landakotssjúkrahúsinu, þar sem hún starfaði í eldhúsum þessara staða.
Allar systurnar voru saumakonur og hún og Brynfríður unnu árum saman við saumaskap hjá Andrési Andréssyni, klæðskera.
Guðmundur, maður Guggu, var kirkjuvörður í Bústaðakirkju, um nokkurra ára skeið og vann hún þann tíma með honum þar, m.a. við þrif á kirkjunni og safnaðarheimilinu.
Þau áttu saman góða daga. Guðbjörg var glettin og gamansöm að upplagi, lífsglöð og smá stríðin á jákvæðan hátt. Hún hafði yndi af að dansa og leit á það sem líkamsrækt.
[Innskot á hljóðupptöku um líkamsrækt]
Hún hafði mjög gaman af ferðalögum innanlands og þær Brynfríður fóru á tímabili árlega í Þórsmörk sem var þeirra paradís.
Guðbjörg ferðaðist einnig til útlanda, fór til Kanarí, Madeira og fleiri hlýrri staða. Hún prjónaði lopapeysur af kappi og fjármagnaði sólarlandaferðir sínar með blessaðri ullinni sem þjónaði vel til vöruskipta á íslenskri hlýju og varma sólar í suðri.
Sveitin heima togaði enn fremur og dásamlegir voru dagarnir í Tyrðilmýri hjá Kjartani þegar Djúpið skartaði fjallgarði sínum sólbökuðum andspænis Snæfjallaströndinni. Þessi stálbláa fjallaruna heillaði erlenda ferðamenn undir forystur Bretans Shepherds sem fóru um Djúpið um miðja 19. öld og ritað var eftir þeim er þeir horfðu frá Snæfjallaströnd yfir „fjörðinn“ eða Djúpið. Þar segir:
„Útsýnið var einstakt í sinni röð. Næst okkur fagurblár fjörðurinn, en fram undan þar sem fjörðurinn sveigir meira til vesturs risu sæbrött snæ- og undirfjöll Drangajökuls, en stórkostlegast var þó að líta yfir um fjörðinn, fjöllóttir skagar risu þar upp í langri fylkingu allt móts við Íshafið. Fjöllin voru hrikaleg, dökkblá á lit, en yst þeirra og miklu mest var Stigahlíð, lík toppskelltum pýramída í lögun. Fjallið var í meira en 20 mílna fjarlægð, en línur þess eins skýrar og það væri aðeins eina eða tvær mílur í burtu. Svo fagursköpuð fjallaröð er sjaldséð. Tíminn leið reyndar fljótt við svo glæsilegt útsýni. Fyrr en varði vorum við komnir að vatnsmikilli og straumharðri á og sáum hvar Ólafur og hestar hans stóðu í hlaðvarpanum á bænum Ármúla, hinum megin árinnar.“
(Ritað eftir hljóðritun af þættinum Frjálsar hendur, Illuga Jökulssonar: Ferðasaga Shepherds, þriðji hluti, RÚV 13. nóv. 2022.)
Eins og áheyrendur skynja átti þessi upplifun ferðalanga af fegurð Ísafjarðardjúps sér stað á bernskuslóðum Guðbjargar. Fegurð náttúrunnar vekur með okkur undrun og lyftir hug í hæðir. Við skynjum Guð í sköpunarverkinu en til að kynnast Guði er það bókin góða sem hér var lesið úr sem upplýsir okkur um vilja hans og elsku.
[Innskot á hljóðupptökunni um vota gröf vinar við Æðey rétt utan við Bæi]
Eins og fyrr var getið var Guðbjörg mjög listfeng kona og eftir hana liggur mikil handavinna, útsaumaðar myndir, málverk, postulín og fleira. Fyrr var minnst á saumaskap systranna. Um tíma starfaði systir hennar, Rannveig Jensína með Guðrúnu Vigfúsdóttur, sem rak vefstofu um árabil á Ísafirði og vann m.a. við frágang á messuklæðum, höklum, stólum og fleiru. Stóla er kvenkynsnafnorð notað um borðann sem prestur leggur yfir herðar sér við athafnir og merkir að hann axlar þá ábyrgð að boða fagnaðarerindi Krists. Stólurnar eru í ýmsum litum kirkjuársins og á aðventu og við útfarir skal hún vera lilla- eða dimmblá. Sú sem ég ber í dag var ofin úr íslenskri ull á Vefstofu Guðrúnar og ekki er ólíklegt að Rannveig hafi gengið frá fóðri og saumaskap þessarar lillabláu stólu sem Guðrún heitin Vigfúsdóttir gaf mér. Aðventuliturinn er fögur blanda af rauðu og bláu, litum hausts og himinhvolfs, litur skammdegisins sem vonar á komu Krists, sem er ljós heimsins og allra sólna sól. Sólin fer brátt að hækka á lofti og því fögnum við á jólum og megi skapari alls sem er, Kristur, lýsa okkur inn í nýárið og alla daga, þar til við sem hér kveðjum, bítum síðast úr okkar eigin nál og felum okkur honum sem öllu ræður, allt elskar og allt umvefur og vermir eins og hlýr og fagur vefnaður. Hann var leiddur upp á Golgata, klæddur heilofnum kyrtli, saumlausum og þess vegna rifu hermennirnir sem krossfestu Krist ekki kyrtilinn í búta til að skipa honum á milli sín heldur köstuðu þeir hlut um hann. Á Golgata opnaði Kristur leiðina, hina áður lokuðu leið, frá lífi til dauða og vígði veginn til himinsins heim.
Guðbjörg naut þess að klæðast góðum fötum og fínum, var dama í sér. Hún var ein heima árum saman og um árabil var hún lögblind en bjargaði sér ætíð. Hún pantaði matvörur í Hagkaupum í gegnum síma og þurfti að muna allt því hún gat ekki lesið á minnismiða og til að skrifa undir skjöl og greiðslur notaði hún stimpil. Hún kunni ætíð að bjarga sér og lagði aldrei árar í bát.
Kveðja er hér flutt frá Ragnari og fjölskyldu í Noregi. Ástvinir þakka starfsfólki á Droplaugarstöðum fyrir elskusemi og umönnun en þar var hún síðustu 3 ár ævi sinnar og fór seinast fram í mat viku fyrir andlátið. Mánuði fyrir andlátið orðaði hún það að sig vantaði nál og tvinna.
Þá er ástæða til að þakka systurdóttur Guðbjargar, Rannveigu, fyrir að hafa sinnt þeim systrum Brynfríði og Guðbjörgu og mágkonu þeirra, Kristínu, um árabil af einstökum kærleika og natni.
Hér skiljast leiðir. Guðbjörg fer leiðina til himinsins heim, en við þræðum áfram lífsveginn eins og nálin sem bindur saman með tvinna sínum það sem halda á og duga skal meðan dagur er.
Guð blessi minningu Guðbjargar Halldórsdóttur og megi hann blessa okkur sem enn fetum lífsveginn hér á jörð.
Amen.