Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Jón Helgason
1934-2022

Bálför frá Bænhúsinu Fossvogi
föstudaginn 18. nóv. 2022 kl. 10
Ræðuna geturðu lesið og ennfremur hlustað á hana á tenglinum hér fyrir neðan.
Oft hefur verið sagt að Jesús Kristur hafi fæðst á réttum tíma og þannig leit Páll postuli á málin er hann ritaði bréf sitt til Galatamanna í Grikklandi og sagði:
„En þegar fylling tímans kom sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli – til þess að hann keypti lausa þá sem voru undir lögmáli og við yrðum börn Guðs.“ (Galatabréfið 4.4-5)
Þá má segja um postulann Pál að hann hafi einnig verið réttur maður á réttum tíma sem öflugasti boðberi kristinnar trúar á 1. öld. Hann sem ofsótt hafði kristna menn snerist til trúar og stofnaði söfnuði vítt og breitt um hið víðfeðma Rómaveldi.
Hinn rétti tími fyrir Krist og Pál var ekki hvað síst fólginn í því að í Rómaveldi var eitt stjórnsýslumál notað, gríska, enda þótt margar tungur hafi verið við lýði á ólíkum svæðum. Páll sem var hebrei eða gyðingur hafði hebresku að móðurmáli en talaði og skrifaði einnig grísku því faðir hans var opinber starfsmaður. Annar þáttur sem skipti sköpum hvað varðar útbreiðslu kristninnar var að í Rómaveldi var öflug póstþjónusta. Páll gat sent bréf sín fram og aftur á milli landanna við Miðjarðarhafið og í Litlu-Asíu.
Mér komu í hug þessar sögulegu staðreyndir vegna þess að við kveðjum mann hér í dag sem vann lengst af sinnar starfsævi hjá Pósti og síma.
Jón Helgason fæddist að Laugavegi 43 í Reykjavík 8. apríl 1934 og lést 13. nóvember 2022. Foreldrar hans voru hjónin Helgi Bogason, verkamaður og Sigríður Jónsdóttir, húsmóðir sem einnig vann heima við saumaskap fyrir fólk.
Eldri hálfsystkini hans voru Guðbjörg, Steinunn og Bogi Helgabörn en Helgi missti konu sína Jónasínu Elísabetu Þorsteinsdóttur.
Seinni kona hans var Sigríður Jónsdóttir og þau eignuðust Jón, Valgeir og Ingibjörgu sem ein lifir af systkinahópnum og kveður bróður sinn hér í dag.
Jón ólst upp að Barónsstíg 27 og gekk í Austurbæjarskóla og vann um tíma hjá Ríkisútvarpinu en fór svo til starfa hjá Pósti og síma og varð síðar póstfulltrúi og loks deildarstjóri.
Hann kvæntist Guðrúnu Öglu Gunnlaugsdóttur 8. mars 1958, en hún var fædd á Akureyri f. 13. ágúst 1930 en uppalin í Reykjavík. Guðrún Agla lést 16. ágúst 2005.
Börn þeirra eru: Gunnlaugur, Sigríður Helga og Ingibjörg Guðrún.
Fjölskyldan var ætíð í fyrirrúmi hjá þeim hjónum og var Jóni afar mikilvæg eftir að hann varð ekkill. Barnabörnin eru 4, langafabörnin 3.
Jón var fremur hlédrægur en undi jafnan glaður við sitt. Hann var víðlesinn og fróður um marga hluti, sjálfmenntaður í mörgum greinum m.a. í tungumálum.
Hann var hagleiksmaður á marga lund, hafði fagra rithönd sem taldist til mannkosta hér áður fyrr, stundaði myndlist og var m.a. góður teiknari og málari og svo smíðaði hann ýmislegt fagurt og skar út. Hann fékkst einnig við leirmunagerð og gerði m.a. styttur.
Hann var ætíð vinnusamur og féll sjaldan verk úr hendi. Ég fékk að sjá nokkur verka hans á heimili Sigríðar er ég hitti ástvini til undirbúnings þessari athöfn og sá að hann hafði haft góða, listræna hæfileika.
Hann ferðaðist til Bandaríkjanna, Danmerkur og London og til að fagna áttræðisafmælinu fór hann til Spánar og heimsótti höfuðborgina Madrid og þá einkum til að skoða hið heimsfræga myndlistasafn, Prada.
Hann talaði gott mál og lagði upp úr því að fólk beitti málinu af kunnáttu og hefði fagurt málfar og hann þjáðist eins og margir sem komnir eru af ungdóms aldri og þroskað hafa málkennd sína, einkum með bóklestri, er hann heyrði ambögur í tali fólks almennt og einkum ef starfsfólk RÚV skriplaði á skötu.
Svo kemur að því hjá öllum mönnum, konum og körlum, að tungan hljóðnar, augun bresta, heyrnin hverfur, lífið slokknar. Og þá tekur við það sem trúin lofar, eilífðin í allt annarri vídd.
Fylling tímans kom ekki bara hjá Jesú og Páli postula. Margt hefur gerst í lífi okkar allra í fyllingu tímans og svo kveðjum við þetta líf í fyllingu tímans.
Jón Helgason hefur kvatt þetta líf sem hann leitaðist við að lifa af heilindum og í traustri þjónustu við þau fyrirtæki sem hann vann fyrir. Hann hefur kvatt gott líf og er hér kvaddur af þakklátum ástvinum.
Ég talaði í upphafi ræðunnar um póstþónustu í Rómaveldi. Póstþjónusta er mikilvæg og þar skiptir máli að hver sending sé stíluð á rétt heimilisfang, réttan áfangastað svo innihaldið skili sér.
Í heilagri skírn vorum við merkt Guði með heilögum krossi, ausin vatni og helguð himni Guðs, adressuð á himininn sjálfan og það í frumbernsku. Skírnin verður aldrei afmáð af Guði. Við mannfólkið getum snúið baki við sáttmála þeim sem skírnin er en Guð gengur aldrei á bak þeim sáttmála.
Við erum send út í heiminn sem börn, unglingar, fullvaxta fólk til að þjóna lífinu og Guði og við gerum það með því að inna okkar guðsþjónustu af hendi í daglegu lífi hvort sem við vinnum við hjúkrun, loftræstingarkerfi, endurskoðun, prestsskap eða hvað annað. Öll innum við haf hendi guðsþjónustu okkar í daglegu lífi hvort sem við hugsum um störfin okkar í því samhengi eður ei. Og svo erum við á leiðinni til hinna himnesku bústaða allt frá vöggu til grafar og verðum flutt þangað í fyllingu tímans af póstþjónustu himinsins með réttri utanáskrift þar sem Kristur tekur sjálfur á móti okkur.
Guð blessi minningu Jóns Helgasonar og blessi Guð einnig þig og leiði, sem enn ert á lífsveginum.
Amen.
Amen.
– – –
Athöfnin:
Forspil
Bæn
Kistulagning
Kallið er komið
Ritningarlestur
Í fjarlægð
Minning
Dagný
Bæn, Lofsöngur Símeons og Faðir vor
Ég trúi á ljós
Moldun
Allt eins og blómstrið – Ég lifi í Jesú nafni
Blessun
Eftirspil