+Sigríður Þorláksdóttir Ottesen 1926-2022

Örn Bárður Jónsson

+Sigríður Þorláksdóttir Ottesen

Bálför í kyrrþey

frá Neskirkju

fimmtudaginn 17. nóvember kl. 15

Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan og hlusta á með því að smella á afspilunartakkann.

Sálmaskráin er neðanmáls.

Fögur tónlist hljómar hér í dag eins og vera ber við útför. Kirkjan hefur ætíð lagt upp úr tónlist í starfi sínu. Sálmasöngur er undursamlegt fyrirbrigði og vanmetið af allt of mörgum. Að lofa Guð í söng er í senn bæði heilandi og líknandi athöfn sem breytir sálarástandi og gleður hjartað.

Tónlist er undur. Hljóð er merkilegt fyrirbrigði í þessari veröld en sjaldgæft, afar sjaldgæft. Til þess að hljóð berist og heyrist þarf eitthvað sem inniheldur sameindir eða mólekúl á máli vísindanna. Hljóðið hér á jörðu ferðast að eyrum okkar með því að hreyfa við sameindum og láta þær titra.

Úti í geimnum, sem er svo ægistór að ógerlegt er að gera sér stærð hans í hugarlund – heilinn okkar ræður ekki við að taka utan um slíkt gímald – þar eru engar slíkar sameindir á milli stjarna sem eru í gríðarlegri fjarlægð hver frá annarri og því er ekkert hljóð í geimnum, ekki einn tónn, ekki eitt tíst, ekki einu sinni hvísl, hvað þá suð. Þar er steinhljóð, algjört hljóð, engin tónlist, ekkert fyrir mannleg eyru, ekkert! Nema til sé önnur pláneta, ein eða fleiri, með álíka skilyrði og hér á jörðu.

Þeim mun merkilegra er það að við skulum búa á plánetu sem er tónlistarhöll, með himinn yfir sér sem tónahvelfingu.

[Innskot á hljóðupptökunni.]

Í Davíðssálmunum í GT eru 150 sálmar og þar eru undursamlegir lofsöngvar um sköpunarverkið sem sungnir voru forðum daga og hafa ratað inn í sálmakveðskap þjóða með nýrri tónlist.

[Innskot um hebreskar kveðskap vs. íslenskan].

Þjóðkirkjan fagnar um þessar mundir útgáfu nýrrar sálmabókar. Hvern dag er ástæða til að syngja og æðst alls söngs er að lofsyngja honum sem gaf okkur þessa jörð og þetta líf.

Sigríður Þorláksdóttir Ottesen fæddist 29. ágúst 1926 og var því orðin 96 ára er hún lést södd lífdaga og því margt orðið brostið í hennar huga og líkama. Hún og Kristín voru tvíburar og systkin þeirra voru: Hulda, Ása, Sigurlaug og Friðrik, öll látin.

Hún ólst upp í Reykjavík þar sem foreldrar hennar létu um sig muna í umræðu daganna þar sem þau börðust bæði af atorku fyrir bættum hag almennings. Móðir hennar, Þuríður Friðriksdóttir, var ein af þvottakonunum í Reykjavík sem drógu á eftir sér handvagna eftir Laugaveginum og alla leið inn í Laugardal. Þar bogruðu þær í öllum veðrum yfir gufu og hrærðu í fatahrúgum í heitum hverum og undu hverja flík í höndum. Þá voru engar þvottavindur til með 1600 snúningum á mínútu. Þvottur var ekki vinna fyrir puntudúkkur með lakkaðar neglur og bylgjaða hárlokka. Þvottur var þrælavinna. Hún var meðal stofnenda hagsmunafélags þvottakvenna og hafði miklar meiningar um kaup og kjör, aðbúnað þeirra og velferð.

Faðir Sigríðar var Þorlákur Guðmundsson Ottesen (1894-1986) sem einnig lét um sig muna í réttindabaráttu verkafólks og almennings. Hann var meðal stofnenda KRON, Máls og menningar og Helgafells og svo var hann einnig forystumaður við stofnun hestamannafélagsins Fáks.

Sigríður hlaut í senn strangt uppeldi og frjálst. Hún var lífsglöð og kát. Ein af mörgum minningum hennar er um það þegar afabróðir hennar dó og líkið „stóð uppi“ eins og það hét forðum. Orðatiltækið er dálítið villandi því lík stóðu ekki heldur lágu í rúmi í húsinu eða í kistu. Heima hjá Sigríði var harmoníum sem stundum er kallað orgel en harmoníum voru víða í húsum og stíga þurfti pedala til að pumpa lofti sem mundaði hljóðið. Hún sat við hljóðfærið með bakið í líkið og spilaði. 

Tónlist var alla tíð hennar gleði og yndi. Hún ólst upp við rímnasöng og mér er sagt að þegar KK spilar rímnasöng af upptökum á RÚV þá heyrast þar mjög oft raddir mæðgnanna, Sigríðar og Þuríðar. Í portinu á Verkó þar sem fjölskyldan bjó um tíma söng Sigríður fyrir þau eyru sem vildu heyra og jafnvel líka hin sem höfðu ekki músikeyru. Hún bara söng með sinni tæru rödd. Hún lærði söng og var í mörgum kórum og kom víða fram sem einsöngvari.

Kornung kynntist hún Bandaríkjamanni, Lonne Ralph Baxter og flutti með honum til Bandaríkjanna og bjuggu þau saman í Texas í 4 ár en þá kom hún heim og þau skildu í kjölfarið. Börn þeirra eru: Þuríður og Þorlákur.

1. Þuríður Baxter er látin (f.12. maí 1945 – d. 19. ágúst 2012). Sonur hennar er Stefán sem á soninn Elvar Þór.

2. Þorlákur Baxter er kvæntur Margréti Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn: Katrínu, Arnar Þór og Sigríði Björk.

Katrín og hennar maður Trausti Hákonarson eiga Hákon og Daníel Frey.

Arnar Þór og kona hans Harpa Þórsdóttir eiga Margréti Gígju.

Börn Sigríðar Bjarkar og Þórarins Borgþórssonar, eru Þorlákur Breki, Jónatan Máni og Hrafnhildur Ylva.

Eftir skilnaðinn bjó hún fyrst um sinn í foreldrahúsum þar til hún tók upp sambúð með Kristjáni Guðbjartssyni og flutti með honum á Hjallaveg 1. Þar bjuggu þau saman í 6-7 ár og reyndist hann Þorláki vel og kom oft í heimsókn eftir að þau slitu samvistir.

Sigríður annaðist föður sinn í mörg ár eftir að hann varð ekkjumaður, eldaði fyrir hann, bauð honum í mat heima hjá sér, þreif hjá honum og þvoði þvotta og mátti enginn koma nálægt þeirri þjónustu að hans vilja nema hún.

Sigríður giftist seinna Atla Árnasyni. Dóttir þeirra er Kristín Amalía (f.1961) sem á tvö börn, Atla og Iðunni Snædísi, sem umgengust ömmu sína mjög mikið. Gagnkvæm væntumþykja ríkti milli þeirra og ömmu.

Sigríður kom víða við um ævina. Fyrr var þess getið að hún kynntist söng og hinni fornu kvæðahefð, móðir hennar var kvæðakona. Sigríður var í Kvæðamannafélaginu Iðunni. Hún söng víðar en bara heima í eldhúsinu eða í portinu í Verkó. Hún var um árabil í Þjóðleikhússkórnum og rödd hennar tær og sterk hljómaði víða.

Annar stór þáttur í lífi hennar var útivist og göngur. Hún var heiðursfélagi í Ferðafélagi Íslands. Kát og lífsglöð gekk hún á fjöll og söng, orkumikil kona, sem fór oft í útilegur um helgar og margar ferðir fór hún í Skaftafell og hljóp við fót er hún skrapp upp á Kristínartind. Náttúran, göngur og söngur voru hennar yndi. Áttræð gekk hún á Valahnjúk í Þórsmörk en svo missti hún af níræðisafmæli sínu þegar hún varð veðurteppt á Sprengisandi.

Já, hún Sigríður var kona sem fólk gleymir ekki. Hún vakti alls staðar athygli. Á hjúkrunarheimilinu hafði hún áhrif og þar mun hennar verða saknað. Hún var ljúf og góð en líka ákveðin í framkomu. Var hrjúf og blíð í senn. Hún var sönn baráttukona alla tíð. Gat verið erfið og stundum særandi en mýktist með aldrinum.

Margrét tengdadóttir talar um hve ljúf hún var henni sem tengdamóðir og lét sér annt um fólk og spurði því oft: ertu ekki svöng, þarftu ekki að borða, hvar ætlarðu að gista?

Hún hafði ríka málkennd og bjó yfir góðum orðaforða og var aðfinnslusöm um málfar fólks og ofbauð ambögurnar í fjölmiðlum og út um allt hin síðari árin. Talaði mikið alla tíð, var orðheppin til hinstu stundar. Talaði og mundi allt en svo andartaki síðar í samtalinu var hún kannski búin að gleyma öllu – og svo talaði hún ensku á dánarbeðinum

Hún trúði staðfast á líf eftir dauðann, var berdreymin og skynjaði ýmislegt.

Hún lifði gríðarlega miklar þjóðfélagsbreytingar á sinni ævi, fædd rétt fyrir kreppuna, svo komu stríðsárin, sem gjörbreyttu þjóðfélaginu með því að fólk átti allt í einu peninga og fékk laun sín greidd í seðlum. Það var ný reynsla fyrir marga. Setuliðið hafði mikil áhrif á vinnumarkaðinn og svo urðu einnig til mörg ástarsambönd milli íslenskra kvenna og hermanna. Slíkt var af mörgum litið hornauga og með miklum fordómum. Það að lenda í ástandinu, eins og það var kallað, var stimpill, sem erfitt var að afmá. Sigríður fann fyrir því á eigin skinni og sálarlífi. Almenningsálitið var grimmt og bjó til skömmina í hjörtum ófárra íslenskra kvenna, sem urðu ástfangnar af hermönnum, sem margir voru glæsilegir og kurteisir menn og sagðir afar ólíkir óhefluðum íslenskum körlum sem kunnu margir hverjir litla mannasiði á heimsvísu talað hvað þá fágaða framkomu við konur. Hennar örlög voru lituð þjáningu vegna þessarar skammar sem aðrir sköpuðu hjá henni og stallsystrum hennar.

Ástin hefur ætíð farið sínar leiðir. [Innskot á upptökunni um fordóma] Hún flæðir eins og lækurinn sem finnur sér farveg. Hvað erum við að hneykslast á fólki sem verður ástfangið af hvort öðru? Hver hefur rétt til að hafa fordóma gagnvart minni elsku eða þinni? Enginn. Skömm Sigríðar er hér með skilað til fordómafullra Íslendingum á öllum tímum. Og ég leyfi mér að segja við þessa fordómafullu Íslendinga í gegnum tíðina: Svei ykkur! fyrir hönd Sigríðar.

Og nú er söngurinn hennar horfinn. Andardráttur söngkonunnar hreyfir ekki lengur við sameindunum í andrúmsloftinu sem flytja tónana frá barka söngvarans að eyrum fólks, frá titrandi strengjum, hvellum og þýðum blásturshljóðfærum, trommum og pákum. Við lifum í heimi tónlistar og þeim eina sem fundist hefur í öllum alheimi. Röddin hennar Sigríðar var alltaf jafn björt og há. Hún var sögð besti sópraninn í eldriborgarakórnum í Kópavogi til 93 ára aldurs! Geri aðrir betur!

Útför hennar er tónlistarveisla þar sem hæfileikafólk spilar og syngur lög eftir einstök tónskáld við texta eftir höfuðskáld okkar.

Sigríður dansar ekki meir í þessum heimi en án efa er tónlist í himni Guðs sem er, Nota Bene, ekki úti í geimnum í hljóðlausu tómi, heldur í annarri tilveru, annarri vídd og óskapaðri, sem okkur er heitið í trúnni á Krist. Er það ekki dásamlegt að mega trúa á tilveru, sem tekur þessari jarðnesku vist fram í öllum greinum? Og þar verður mikil músík!

Góður Guð geymi og varðveiti Sigríði Þorláksdóttur Ottesen að eilífu og megi sá sami leiða okkur um lífsins veg meðan við enn lifum í heimi hljóðs og tónlistar og meðan öndin bærist í brjósti okkar.

Amen.

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.