+Karl Harry Sigurðsson 1944-2022

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Karl Harry Sigurðsson

1944-2022

fv. útibússtjóri

hjá Íslandsbanka

Útför frá Fossvogskirkju

fimmtudaginn 10. nóvember 2022 kl. 13

Sálmaskráin er neðanmáls. Og sérstakar kveðjur eru aftast í skjalinu, aftan við ræðuna og voru fluttar á eftir blessunarorðunum.

Viltu lesa ræðuna og hlusta á hana. Hún er hér fyrir neðan. Smelltu á þríhyrninginn. Ræðuna varð ég að lesa upp aftur að athöfn lokinni þar sem upptakan í kirkjunni mistóks og því heyrist ekki kliðurinn í kirkjunni eða hlátur á vissum stöðum. En njóttu samt!

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona,

sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“

Heb. 11.1

Hefurðu hugleitt hve miklu máli trúin og vonin skipta okkur öll í daglegu lífi?

Við göngum til náða í trú og von um að vakna að morgni. Við trúum og vonum á daginn, að hann færi okkur góða reynslu. Við setjumst ekki svo á stól að við trúum ekki og vonum að hann hrynji ekki undan okkur. Og Valsarar fara ekki á völlinn nema í brennandi trú og von til að styðja sína leikmenn af báðum kynjum, í trú og von um sigur. Minna má á að séra Friðrik, stofnandi Vals, lagði áherslu á að Kristur ætti að vera í fyrsta sæti og íþróttin í öðru. Eitt er víst að Valsarar fara með „bænir“ sínar þegar mikið liggur við og öskra þær jafnvel svo heyrist um allan völl og þar munaði ekki lítið um röddina hans Kalla. Bænirnar geta verið frómar þegar Valslið á í hlut en bænir fyrir andstæðingnum kunna að snúast upp í andhverju sína og stundum ganga sumir svo langt að öskra: „Úti af með dómarann!“ En slík bæn rætist nær aldrei – og ef við færum þetta yfir á stærra plan þá verður alheimsdómarinn aldrei rekinn út af. Allt líf hvílir á trú og von því slík er skikkan skaparans.

Hann fæddist í konungsríki en fjórum mánuðum síðar var hann orðinn að lýðveldisbarni. Þar með rættust bæði von og trú Íslendinga um frjálsa þjóð.

Karl Harry var fæddur 21. febrúar 1944. Hann lést 28. október sl. á 79. aldursári og er hér kvaddur af fjölmenni með þökk fyrir allt.

Karl Harry var ljúfur maður, fallegur innst sem innst, segir fólkið hans og fjöldi samferðafólks vitnar um hið sama. Minningargreinar dagsins bera honum fagurt vitni og hans er sárt saknað af ástvinum og samferðafólki.

Hann var svipsterkur og myndarlegur og sagður líkur föður sínum. Rómur hans var sterkur og karlmannlegur og röddin hans tók undir mörg góð mál í amstri daganna.

En svo taka dagarnir enda. Karl Harry varð bráðkvaddur á heimili sínu föstudaginn, 28. október sl.

Móðir Karls Harrys var Hanna Lillý Isaksen Kristjánsson, húsmóðir og hattagerðarmeistari, (f. 24. júní 1916 d. 20. september 2007).

Hún giftist Guðmundi Kristjánssyni, skipstjóra, (f. 25. mars 1917, d. 21. júlí 1980) og gekk hann Karli Harry í föðurstað.

Faðir Harrys var Sigurður Jóhannsson, skipstjóri, (f. 25. janúar 1914 d. 14. júní 1972). Kona hans var Hjördís Einarsdóttir, deildarstjóri, (f. 8. apríl 1923, d. 23. maí 2001).

Karl Harry átti sex systkini. Sammæðra eru:

-Ari Guðmundsson (f. 1949) maki Fríður Sigurðardóttir (f. 1953),

-Kristjana G. Guðmundsdóttir Motzfeldt (f. 1951) maki hennar var Jonathan Motzfeldt, sem er látinn (f. 1938 d. 2010) og

-Guðrún Guðmundsdóttir (f. 1956) maki Guðmundur Ebenezer Hallsteinsson (f.1956).

Samfeðra eru:

-Sigríður Sigurðardóttir (f. 1952),

-Ágústa Ísafold Sigurðardóttir (f. 1954), maki Theódór Bjarnason (f. 1952) og

Erla Sigurðardóttir (f. 1957).

Karl Harry ólst upp á Miklubrautinni og lauk gagnfræðaprófi frá Austurbæjarskóla. Hann starfaði í Útvegsbankanum, síðar Íslandsbanka, allt þar til hann hætti störfum sökum aldurs. Samhliða bankastarfinu tók hann að sér ýmis aukastörf þ.á m. í Laugardalshöllinni þar sem hann starfaði um áratugaskeið. Karl Harry var ástríðuvalsari og gallharður stuðningsmaður Manchester United.

Heima var hann ætíð kallaður Harry og af krökkum í Hlíðunum en þegar hann fór í Gaggó tók Kalli yfir.

Hann var virkur í Frímúrarareglunni áratugum saman og sinnti þar ýmsum störfum.

Hann sat í stjórn HSÍ um árabil og var fomaður Stjörnunnar í Garðabæ á uppgangstíma félagsins.

Þá var hann var virkur í starfi Alþýðuflokksins og gegndi þar trúnaðarstörfum á meðan hann bjó í Garðabænum.

[Innskot um þjálfun líkama, sálar og anda . . .]

Eiginkona hans var Helga Kristín Möller kennari og fyrrv. bæjarfulltrúi í Garðabæ f. 30. október 1942 d. 15. mars 1992. Dætur þeirra eru:

1) Helena Þuríður Karlsdóttir, lögfræðingur (f. 28. ágúst 1967) maki, Guðjón Jóel Björnsson, lögfræðingur (f. 10. febrúar 1959)

2) Hanna Lillý Karlsdóttir, lögfræðingur (f. 26. febrúar 1980) sambýlismaður, Oddur Björn Tryggvason, sérfræðingur (f. 7. febrúar 1978). Börn þeirra eru:

1) Björn Harry (f. 25. júlí 2012) og

2) Helena K. G. (f. 5. október 2015).

Lífið hans var skemmtilegt en það var líka erfitt. Að missa Helgu var mikið högg. Ástvinir hennar hittust nýlega til að minnast hennar daginn sem hún hefði orðið áttræð. Þar hefði Karl Harry án efa verið til staðar ef hann hefði ekki kvatt tveim dögum áður. Þau voru samhent og studdu hvert annað í lífi og leik og áttu saman gott líf.

Þekkt er það úr reynslu syrgjenda að þeir komast að því, þegar frá líður, að lífið heldur áfram, enda þótt sorgin hverfi aldrei að fullu. Nýjar dyr opnast, ný tækifæri skapast og ástin getur meira að segja kviknað á ný. Karl Harry og Hrönn Helgadóttir (f. 18. nóvember 1946) fundu hvort annað. Þau áttu saman gott líf í 28 ár.

Synir hennar og Hermanns Aðalsteinssonar, sem er látinn (f. 10. október 1945 d. 1. júlí 1988) eru:

-Helgi Hermannsson (f. 7. desember 1969) og

-Heimir Hermannsson (f. 4. júlí 1972) maki Hrafnhildur Ósk Sigurðardóttir (f. 19. september 1974). Dóttir þeirra er Emma Hrönn (f. 6. maí 2014). Fyrir á Heimir dótturina Þórönnu Bjartey Bergmann Vilborgardóttur (f. 8. júlí 1998), sambýlismaður hennar, Sigurjón Emil Ingólfsson, (f. 2. október 1998) og Hrafnhildur á soninn Kolbein Tuma Kristjánsson (f. 27. desember 1993).

Hér mætti telja upp tómstundir og ferðalög og margt fleira í lífi hans með fyrri konu og seinni, en þær minningar eiga fjölskyldurnar hver fyrir sig, vinir og vandamenn. Hann reyndist öllum vel og viðmót hans var opið og glaðlegt. Hlý og góð framkoma skipti miklu máli í þjónustörfum við almenning sem hann stundaði um áratuga skeið.

Karl Harry var einn af stofnendum FÍGP, þeim einstaka félagsskap eldri Valsmanna, sem hefur hist á hverjum virkum degi í hádeginu í tæp 60 ár og kallast Grjónapungarnir. Félagsskapurinn var stór hluti af lífi Karls Harrys. Hann sagði það gjörbreyta deginum að hitta félagana. Um tíma kvöddust þeir með faðmlagi á föstudögum, því enginn vissi morgundaginn. Í viðtali við þá sem birtist í Morgunblaðinu 2014, er hópurinn varð fimmtugur, kemur margt skondið fram m.a. það að Harry var eini kratinn í hópnum, hinir allir Sjálfstæðismenn. Það þurfti sem sagt í raun ekki nema einn krata til að vega upp á móti heilu liði af Sjöllum!

Léttleikinn, gleðin og húmorinn voru leiðarljós þessara hressu stráka og svo mun áfram verða þótt skörð komi í hópinn.

Karl Harry var afar stoltur af sínu fólki. Barnabörnin veittu honum ómælda gleði og voru eins og margar sólir samtímis á himni og þar skein sól nafna hans mjög hátt sem ég skírði fyrir 10 árum. Hann naut samvista með þeim öllum og gladdist yfir hnittnum tilsvörum þeirra og uppátækjum.

Karl Harry átti sína góðu daga en líka dimma. Lífið er oft eins og íslensk veðrátta í öllum sínum tilbrigðum, sumar, vetur vor og haust. Þannig er það með okkur öll. Okkur tekst dável í flestu en svo fylgja okkur mistök vegna þess að í okkur er geigun sem veldur því að við missum marks. Grunnmerking orðins synd í Biblíunni er geigun, þetta þráláta fótakefli sem veldur því að við náum ekki að lifa fullkomnu lífi. Íþróttirnar geta kennt okkur að skilja þessa brotalöm, sem er í okkur öllum. Menn missa t.d. stundum marks með því að brenna af í dauðafæri eða klúðra víti. Það er synd.

Ég lék stundum golf með Karli Harry. Golf er ekki auðveld íþrótt því fólki hættir mjög til að slæsa og húkka, sem merkir að slá sveigbolta til hægri eða vinstri, eða fara of stutt eða allt of langt. Það er synd. En til þess að jafna leikinn milli misflinkra spilara, í þessari kristilegustu íþrótt allra íþrótta, er til kerfi sem heitir forgjöf, sem er auðvitað algjört rangnefni því hvað er forgjöf annað en fyrirgefning á klaufaskap og þar með fyrirgefning synda. Ég hef þegar kynnt þessa golfguðfræði mína fyrir prófessor við Háskóla Íslands.

Yngsta barnabarnið, 7 ára hnáta, fór á golfnámskeið í sumar og kom heim í hálfgerðri fýlu og afi spurði: Af hverju ertu ekki ánægð með námskeiðiði? og hún svaraði: Ég fór ekki holu í höggi!

Við útför heilsumst við og kveðjum hvert annað. Það er lífsins saga. Engin veit morgundaginn. Útför er margslungin félagsleg athöfn. Við kveðjum samferðafólk okkar og skilum samúðinni til ástvina. Allar þjóðir, öll trúarbrögð, eiga sín ritúöl þegar að dauðanum kemur.

Við kveðjum Karl Harry Sigurðsson með virðingu og þökk. Útför er eðli máls samkvæmt sorgarathöfn en hún er líka þakkarhátíð. Við gleðjumst yfir Karli Harry, syrgjum hann en segjum líka sögur og hlægjum í erfinu á eftir.

Lífsleik hans er lokið og hann er horfinn af lífsvellinum og inn í tilvist sem við þekkjum ekki nema með augum trúar og vonar.

Til er hugmynd um konungsríki Guðs sem er í raun einskonar sýndarveruleiki eða á enskunni virtual reality, sem er handan þess veruleika sem við búum í.

Í liðinni viku sótti ég fyrirlestur um rafmyntir, til að reyna að skilja það fyrirbrigði og fékk þar staðfestan grun minn um að þær væru í raun einskonar sýndarveruleiki. Karl Harry var bankamaður og sinnti, ásamt fjölda annarra starfsmanna, þjónustu við almenning á sviði fjármála. Peningakerfi heimsins eru í raun sýndarveruleiki og innan þeirra taka menn ákvarðanir í trú og von. Við vonum öll á betri tíð, bætta afkomu, kaupum þetta eða hitt, veðjum á fyrirtæki eða verðbréf í von og trú og stundum eru teknar rangar ákvarðanir sem skapa áhættu og við sjáum eftir.

Hvern dag sem við vöknum lifum við í raun í von og trú og þegar dauðinn nálgast íhugum við spurninguna um það hvað taki við. Ég trúi því að í huga okkar allra búi vonin um framhald, einhverskonar eilífð í tímaleysi eða tilveru, sem er svo allt öðruvísi en sú sem við nú lifum. Innan allra trúarbragða býr von og trú, um eitthvað sem ögrar endanleikanum. Í allri Biblíunni, þeirri miklu trúarbók, er aðeins eitt einasta vers, ein setning, sem skilgreinir trú á einhverskonar heimspekilegan og guðfræðilegan máta. Þar segir:

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)

Trúin er m.ö.o. bjargföst skoðun um að eitthvað sé til ofar öllu. Sú hugmynd er sýndarveruleiki þar til við deyjum og rísum upp, en þá verður hinn dularfulli sýndarveruleiki þessa lífs, veruleiki trúar og vonar, að raunveruleika þess sem öðlast eilífðina í himni Guðs, í konungsríki hins almáttuga.

Gott er að íhuga einmitt þessa von og trú á kveðjustund.

Skáldið Páll Ólafsson orti um vonina og sagði:

Vonin styrkir veikan þrótt,

vonin kvíða hrindir,

vonin hverja vökunótt

vonarljósin kyndir.

Vonin mér í brjósti býr

bezti hjartans auður.

Vonin aldrei frá mér flýr

fyrr en ég er dauður.

(Páll Ólafsson)

Þegar dauðinn hefur tekið við verður vonin óþörf því sýndarveruleiki trúar og vonar um nýtt líf hefur þar með raungerst.

Orðin, sem höfð eru yfir við moldun í kirkju eða við gröf, tjá það sem var og allir þekkja, við erum af jörðu og hverum þangað aftur. En svo heyrist fyrirheitið um sýndarveruleikann, um upprisuna, sýndarveruleika sem raungerist fyrir mátt Guðs, byltingarkennd viðbót kristninnar sem slítur hlekki dauðans. Hvernig það gerist veit enginn lifandi manneskja – en Guð veit.

Í trú kveðjum við Karl Harry Sigurðsson og göngum svo út í hausið í von um að líf okkar sé í öruggum höndum þrátt fyrir allt sem hefur gerst og kann að gerast.

Guð blessi minningu Karls Harrys Sigurðssonar og Guð styrki þig sem enn ert á lífsveginum. Amen.

– – –

Kveðjur fluttar áður en kistan verður borin út.

-frá Kristjönu, systur Karls Harrys, sem þykir leitt að geta ekki fylgt bróður sínum en biður fyrir kærar kveðjur. Söknuður hennar er mikill.

-frá systursyni Karls, Guðmundi Erni Guðmundssyni í Danmörku.

-frá Erlu Sigurðardóttur, systur Karls Harrys og sonum hennar, Hákoni og Jóhanni, sem eru búsett í Kaupmannahöfn og biðja fyrir kærar kveðjur til frændfólks og vina

-þá biðja Einar Bollason og Sigrún Ingólfsdóttir fyrir kærar kveðjur til ástvina.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.