+Anna Theodóra Rögnvaldsdóttir 1953-2022

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Anna Theodóra Rögnvaldsdóttir

1953-2022

Bálför frá Neskirkju

7. október 2022 kl. 15

Ritningarlestrar:

Um kærleikann:

1. Korintubréf 13. kafli.

Matt. 5.5.1-12

Ræðan – þú getur lesið og hlustað á tenglinu hér fyrir neðan. Sálmaskráin er allra neðst.

„Allir litir hafsins eru kaldir“ heitir fyrsta íslenska sakamálaserían sem unnin var af Önnu og Ólafi bróður hennar fyrir Sjónvarpið árið 2003, „Allir litir hafsins eru kaldir.“

Og nú eru kaldir litir á sálarskjá okkar sem hér kveðjum Önnu í Neskirkju á svölum haustdegi. Sumarlitirnir eru hverfandi og litir haustsins, sem landið skartar brátt, eru ekki kaldir, þeir eru hlýir, en hverfa svo smátt og smátt. Veturinn tekur við, blár og kaldur, meðan náttúran reynir sitt besta til að lýsa upp með snæhvítum ábreiðum sínum, sem svo fjúka af okkur og hverfa en koma aftur og aftur með mismiklum gusti og hrolli. Litir vetrar eru kaldir eins og hafsins litaspjald, en við eigum okkar vopn gegn fábreyttu litavali vetrar og munum grípa til okkar ráða. Í myrkasta skammdeginu munum við skreyta „hús með greinum grænum“ – og með rauðu – já, miklu af rauðu, heitum lit blóðsins í æðum okkar og elskunnar sem bifast innra með okkur eins og hver sem safnar í sig krafti til að gjósa og verma.

Kærleikurinn er máttugust allra tilfinninga og ekki bara sem kennd í hjörtum, hulinn hið innra í brjósti okkar, heldur nær kærleikurinn út og vinnur sitt verk í köldum heimi. Hann er orkan sem nærir mannfólkið meðan brennheit sólin vermir allt sem lífsandann dregur og líka efnið dautt. Ljósið og ljómi elskunnar birtast í heitum litum. Samúð og samhyggð okkar er af sama, heita litaspjaldinu. Sækjum okkur orku í uppsprettu elskunnar og berum ljósið á milli okkar í heitum litum þess og umvefjum ástvini Önnu.

Hún bjó lengi við Laugaveginn og ég var nágranni hennar um tíma og sá hana stundum á gangi, hnarreista og glæsilega, en kynntist henni ekki fyrr en síðar og þá við sorglegar aðstæður í hjartaskerandi sársauka sonarmissis sem hún gekk í gegnum með ástvinum sínum.

Anna Theodóra Rögnvaldsdóttir, fæddist í Reykjavík 15. apríl 1953. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi þann 25. september síðastliðinn.

Hér verður aðeins stiklað á helstu atriðum ævi hennar en aukinn texti hefur þegar birzt í Morgunblaðinu og mun einnig verða birtur á heimasíðu minni í kvöld ásamt þessum minningarorðum á slóðinni sem um er getið aftast í sálmaskránni.

Foreldrar Önnu voru Rögnvaldur Ólafsson og Jórunn Steinunn Jónsdóttir, sem bæði eru látin. Hálfbróðir Önnu, sammæðra, var Gunnar Ægir Sverrisson, sem er látinn. Börn hans eru: Sverrir Ómar, sem er látinn, Victor, Selma Rut, Ólafur Björn og Ingunn Helga, en sú síðastnefnda er stödd á Spáni og biður fyrir samúðarkveðjur til allra heima.

Bróðir Önnu er Ólafur Rögnvaldsson, kvikmyndagerðarmaður, (fæddur 5.9. 1958). Kona hans er Ása Gunnlaugsdóttir, hönnuður, (f. 26.9. 1968). Ólafur á synina Arnar Stein og Ragnar Árna. Sonur Arnars Steins og Kolfinnu Kjartansdóttur er Úlfur Unnsteinn.

Sonur Önnu og jafnaldra hennar, Charles Dalton, (f. 22.10. 1953) var Úlfur Chaka Karlsson, f. 5.4. 1976, d. 9.9. 2007. Úlfur var myndlistarmaður, hönnuður og tónlistarmaður. Fátt er hræðilegra en að missa einkason þegar framtíðin brosti við honum ungum og hæfileikaríkum. Sorgin var djúp og köld eins og litir hafsins.

Amma Úlfs Chaka, Juanita sendir kveðju sína á ensku er ber yfirskriftina Tribute og hljóðar svo:

I am writing this with much sorrow that Anna is no longer with us yet it is with much gratitude for all that she did for her son and my grandson, Ulfur. To say that she was a good mother is an understatement. We all know the man he became, brilliant, talented, an accomplished musician, an artist who became a world traveler. His wry sense of humor helped him to cope with the many challenges he had to deal with in his later years. In all he was just a great human being.   

As his grandmother, I feared that growing up in a foreign country, known for its hostility toward people of color, he would feel isolated and eventually resented having felt abandoned by his family that looked like him.  Although I did not express my feelings with Anna, I did request that she find a way to help him learn to speak English so that we could communicate with him when he grew older. I also urged her to find a way to help him visit his father and me in spite of the distance between us.  Anna did more than agree, she met all of my requests and for years found creative ways to share him with us. Not only did she bring him to America when he was small, but allowed him to travel alone once he became old enough to visit his Dad who lived in the Pacific Northwest. This gave them both an opportunity to bond.  Of course, Anna had help from her family and ours as she navigated this most difficult task.  I found that I had underestimated the love and support that he received from his extended family, as well as the wonderful acceptance of me and my sons. 

I know the journey for both of them was not easy    She had to make many sacrifices along the way. I know that she achieved some successes and helped Ulfur to achieve his.  I now know that the enemy that Ulfur had to conquer was the disease that ravaged his body.  The fact that he succeeded to accomplish so much in spite of it is a tribute to him and his mothers’ relentless effort to secure the help he needed.  I am in awe of her strength, love, and respect.  May she rest in peace.  

All of my love.  Juanita  

Ég átti fund með ættingjum og vinum Önnu og þar voru meðal annarra, fulltrúar hins svo nefnda, Útstáelsishóps, sem stóð með henni í gegnum þykkt og þunnt, skipulagði sín á milli heimsóknir og kærleiksþjónustu við Önnu í veikindum hennar. Fyrir elsku vina í hópnum eru hér færðar innilegar þakkir ástvina.

Það var gaman að hlýða á fólkið sem undirbjó athöfnina með mér og talaði um Önnu. Hún var sögð fremur dul en jafnframt skapandi, í senn frjálslynd og klassísk. Hún lét verkin tala. Var örlát og gestrisin og hélt t.d. úti árlegri skötuveizlu sinni heima og lét minnkandi hlutdeild sína í fasteigninni í gegnum árin ekki ógna hefðinni, því þröngt mega sáttir sitja. Hún var næm á líðan annarra, en bar ekki tilfinningar sínar á torg. Hún var einnig hispurslaus en fór samt varlega í tali um veikindi sín og vísaði oftast til þeirra óbeint. Hún ætlaði svo sannarlega að lifa áfram og eitt af verkefnunum var að læra nýja tækni við laufabrauðsskurð hjá Ásu mágkonu sinni.

Hún var sannur listamaður, frumleg í sköpun sinni og kom fólki oft á óvart með ákveðnum athugasemdum. Hún var fróðleiksfús og kynnti sér allt í þaula. Þegar hún var skiptinemi í Ameríku skrifaði hún mörg bréf heim og í einu þeirra uppá 7 síður til Þóru Árnadóttur, lýsti hún dásemdum nýrrar uppfinningar handa konum sem kynna þyrfti á Íslandi, en það voru sokkabuxur! Já, hún braut allt til mergjar, fór alveg niður í kjölinn í hverju máli. Sjö síður um sokkabuxur!

Verkefnin voru mörg og hún hafði næmt, listrænt innsæi og greind til að vanda til verka. Má t.d. nefna vefsíðu um hinn fræga mann í sögu þjóðar okkar, Ólaf Thors. Hún breytti frumhugmyndum verkbeiðenda og lagði áherslu á að segja söguna með myndum fremur en orðum. Og hennar ráð breyttu öllu. Skipulagshæfileikar hennar voru ríkulegir, ekki hefðbundnir heldur frumlegir og svona – bóhem.

Anna lét verkin tala og tók á vandamálinu frá grunni. Sem dæmi má nefna að hún tók saman íslensk orð og skilgreiningar á störfum í kvikmyndagerð, íðorðabók, sem mikil þörf var á. Þar sem orð vantaði samdi hún þau sjálf af næmi og listfengi. Félag kvikmyndagerðarmanna  gaf bókina út 1992 og mætti endurútgefa hana því hún er löngu uppseld.  Aðra bók skrifaði Anna, sem varð jafn eftirsótt: Handbók í ritun kvikmyndahandrita, sem varð til upp úr kennslu hennar í því fagi.

Hún gat verið uppátækjasöm eins og t.d. þegar hún plottaði hvernig raða skyldi gestum til borðs í fermingarveizlu Óla bróður á stríðnislegan hátt til að skapa nýja vinkla í umræðum og samskiptum og koma fólki á óvart.

Hún var af hippakynslóðinni svonefndu og tilheyrði um tíma kommúnu í yfirgefnu húsi í Ölfusinu en vann stundum hjá Siggu á hótelinu í Hveragerði. Hún var sögð hafa farið fram í frjálslyndri formfestu. Mamma hennar hafði víst ekki mikla tiltrú eða virðingu fyrir þessum hippum og kallaði þau „yfirstéttarkommúnista“.

Anna nam heimspeki og var ætíð rökföst í sinni nálgun á málefni og sagði stundum eitthvað á þessa leið: „Nei, þetta er ekki gert svona“ og þá fór hún í fræðin og fann hið rétta samhengi og verklag. Þetta kom t.d. fram í því þegar hún kenndi Guðrúnu Pétursdóttur, vinkonu sinni, að bera fram tartalettur, sem ekki má gera af neinni léttúð, því fyrst á að hita þær í ofni, hita þær í gegn svo þær verði stökkar, og svo – og það er stórt SVO – á að setja meðlætið heitt í heitar og stökkar tartaletturnar og þá verður rétturinn ekki að lufsulegu og metamorfósísku jukki. Allt átti að vera vandað. Eitt sinn gaf hún vinum vöfflujárn og lét auðvitað fylgja góða uppskrift af eðalvöfflum.

Hún sýndi skyldleika við postulann Pál sem sagði eitt sinn: „Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir.“ (Fil 4.12). Í plássleysinu ein jólin hengdi hún jólatréð upp í loftið og þar hékk það og tók ekkert gólfpláss.

Hún beitti jafnan skapandi lausnum og var tiltölulega óháð dauðum hlutum, var minimalisti og hafnaði gjarnan aukaþörfum. Hún pakkaði gjöfum oft inn í dagblöð á sinn skapandi og frumlega hátt og teiknaði gjarnan eitthvað fallegt, með sinni sterku litasýn, enda hafði hún numið málaralist er hún var í Wisconsin veturinn eftir 1. bekk í MR og hélt svo áfram á námsstyrk í myndlist við háskólann í Oregon. Seinna vann hún sem grafíker hjá Sjónvarpinu, stundaði nám í kvikmyndagerð í London í 2 ár og í Róm stúderaði hún leikmyndagerð. Hún hafði drifkraftinn frá móður okkar en hið listræna frá föður, segir Óli bróðir.

Hún kunni að una glöð við sitt og einhvers staðar segir: Hina þakklátu skortir aldrei neitt. En hún hafði samt „kampavínssmekk“ á lífið sem merkir að hún keypti það besta og dýrasta ef svo bar undir, valdi bæði gæði og klassa þegar það átti við, svo fremi það væri gerlegt.

Guðrún vinkona reyndist henni aldeilis vel alla tíð og í veikindum Önnu tók hún hana inn á heimili sitt þegar stigarnir urðu henni ofviða heima og þar dvaldi hún í nokkra mánuði. Anna skynjaði og rýndi heimilið og gaf ráð á báða bóga og leitaðist við að kenna Guðrúnu ýmislegt og sagði t.d. að hún yrði að fá sér stærra sjónvarp, 55 tommur og ekkert minna og svo nefndi hún við Guðrúnu að hún hefði án efa gott af því að ráða sér einhvern til að skipuleggja sig. Svona gat hún verið stjórnsöm, hrein og bein, en allt var það vel meint og í kærleika sagt. Þakkir eru hér færðar Guðrúnu fyrir vinarbragð hennar og elsku.

Meðal sköpunarverka Önnu var fyrsta glæpaþáttaröðin sem framleidd var á Íslandi, Allir litir hafsins eru kaldir. Hún samdi handrit og leikstýrði þáttunum sem sýndir voru í Ríkissjónvarpinu árið 2006 og var hún séstaklega heiðruð fyrir framtakið.

Þar áður hafði hún skrifað og leikstýrt stuttmyndunum Hlaupári (1995) og Köldu borði (1998) og leiknu heimildarmyndunum Sögu húss: Aðalstræti 16 (1992) og Sögu húss: Austurstræti 22 (1994).

Anna var einnig leikmyndahönnuður myndanna Með allt á hreinu (1982) og Inguló (1992) og starfaði sem leikmyndahönnuður á RÚV og Stöð 2 á níunda áratugnum. Hún var meðstofnandi og meðeigandi kvikmyndafélagsins Gjólu sem framleiddi Inguló og Draumadísir (1996). Hún stofnaði kvikmyndafélagið Ax ehf. árið 1989 ásamt bróður sínum Ólafi og framleiddi félagið meðal annars áðurnefnd höfundarverk hennar.

Og nú er eins og síðasta filman hafi runnið sitt skeið á enda, en spólan snýst samt enn og endi filmunnar slæst utan í vélina með kunnuglegu hljóði sem stafræna kerfið hefur kæft, en við sem eldri erum munum svo vel, því hljóðið fylgdi tómleikanum sem kom í lok góðrar myndar þegar við vildum svo gjarnan fá framhald.

Er eitthvert framhald?

Anna er horfin af þessari jarðvist og kvödd af margmenni með söknuði og tárum, en hún mun áfram lifa í miningum ykkar sem henni voruð tengd vináttu- og ástúðarböndum. En hver man hana og okkur þegar við verðum öll horfin og þau líka horfin sem muna okkur nú og munu muna okkur til enda sinna ævidaga? Hver man okkur þá? Er til sá hugur sem engum gleymir? Er til tilvist í handanverunni? Er það þess virði að leita svara við þessum spurningum?

Fyrir 17 árum eða svo þýddi ég textabrot úr erlendri bók. Höfundurinn hugsar heim til bernskuslóðanna, finnur hvernig lífið hefur fjötrað hann og svo horfir hann til óræðrar handanveru í von. Og hann spyr hvað við vitum í raun um lífið, um fjötra þess, um dauða hluti og þau sem standa okkur næst og segir:

. . . steinn, laufblað, ófundnar dyr; um stein, laufblað, dyr. Og um öll hin gleymdu andlit.

Nakin og ein urðum við útlæg. Í myrku móðurlífi þekktum við eigi andlit móður okkar; úr fangelsi holds hennar erum við komin inn í óumræðilega og ótjáanlega fjötra jarðar.

Hvert okkar hefur þekkt bróður sinn? Hvert okkar hefur horft inn í hjarta föður síns? Hvert okkar er ekki fjötrað að eilífu? Hvert okkar er ekki að eilífu ókunnugt og eitt?

Ó, gegndarlausa sóun, í brennheitum völundarhúsum, týnd, meðal skærra stjarna á þessum leiða, ljósvana gjallmola, týnd! Munandi, mállaus, leitum við hins mikla, horfna tungumáls, týndrar heimreiðar til himins, steins, laufblaðs, ófundinna dyra: Hvar! Hvenær!

Ó, týndi andi, sem vindurinn viknar yfir, komdu aftur.

(Thomas Wolfe: Look Homeward, Angel. Þýðing ÖBJ)

Þannig hljóða orð bandarísks stórskálds sem átti í tilvistarglímu á liðinni öld. Mynd hans er langt frá því að vera björt. Hún er  fremur bölsýn og grimm en hann talar samt um von, hann talar um minningu, hugboð um heimreið sem liggur – til himinsins heim.

Segja má að þetta hugboð, þessi þrá, búi í hverri sál, sem byggir þessa jörð og hafi búið þar um aldir. Sagan um Adam og Evu er saga þeirra sem eiga slíka minningu um eitthvað sem var, eitthvað horfið og týnt, sem enginn getur fengið til baka af eigin rammleik og um leið von sem horfir fram á veginn og til handanverunnar. Minning, kveikja að von um nýjan áningar- og hvíldarstað, endurheimta veröld hins horfna og góða, framtíðarland sem er handan alls sem er.

Saga Adams og Evu, er táknsaga um okkur og hana, sem við kveðjum hér í dag, saga um fólk sem stefnt er fram á við í leit að hinu horfna sem aldrei kemur til baka, en býr endurskapað í handanverandi heimi framtíðar, þar sem ljósið mun lýsa og ríkja að eilífu, ljósið sem hefur frá sköpun heimsins, allt í frá Miklahvelli, fært okkur alla liti veraldar. Í ljósinu búa nefnilega allir litir sem fyrirfinnast í sköpunarverkingu, bæði hinir köldu litir hafsins og einnig hinir heitu sem efla í okkur von og trú og ennfremur hreina ást og ólgandi bríma.

Við felum Önnu Theodóru Rögnvaldsdóttur ljósinu þar sem litirnir búa og elskan er tær. Blessun fylgi henni og megi ljósið eina einnig lýsa okkur sem enn erum á lífsveginum. Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.