+Reynald Þráinn Jónsson 1938-2022

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Reynald Þráinn Jónsson

1938-2022

Bálför í kyrrþey frá Fossvogskirkju

miðvikudaginn 5. október 2022 kl. 13

Sálmaskráin er neðanmáls.

Ræðuna er hægt að lesa og/eða hlusta með því að smella á tengilinn.

Hann var kenndur við Sigurhæðir á Dalvík. Nafnið er fagurt og bjart og húsið á frægt systkin á Akureyri er ber sama nafn, Sigurhæðir, og kennt við hið mikla skáld séra Matthías Jochumsson, sem háði marga glímuna í lífinu við Guð sinn og orti margt undurfagurt eins og t.a.m. ljóðið – Lofsöngur – sem er þjóðsöngur Íslendinga og hann samdi með hliðsjón af 90. Davíðssálmi sem við heyrðum úr nokkur vers hér fyrr í athöfninni.

Sigurhæðir eru án efa margar í heiminum en sú sem gnæfir yfir allt, ekki sökum hæðar sinnar, heldur atburðar, sem þar átti sér stað fyrir um 2000 árum er hæð sem heitir Golgata og hefur verið kölluð hauskúpuhæð vegna lögunar sinnar.

Á þeirri hæð vann Jesús Kristur mesta sigur mannkynssögunnar er hann sigraði dauðann og staðfesti með upprisu sinni þrem dögum síðar. Sú sigurhæð hefur eflt mannkyni von og trú í tvö árþúsund. Og ef við lítum yfir heiminn og skoðum þau lönd sem skora hæst í öllum gildakönnunum sem gerðar hafa verið og mæla m.a. lífsgæði svo sem mannréttindi, réttlæti, heilbrigðiskerfi, menntakerfi o.s.frv., þá blasir það við að hin kristnu lönd Evrópu eru þar efst á blaði ásamt öðrum kristnum löndum í Ameríku, einkum Kanada og í Eyjaálfu, Ástralía og Nýja-Sjáland. Stjórnarfar í þessum löndum hvílir í raun á kristnum gildum sem í deiglu samtals milli stjórnmálaflokka, launþegahreyfinga, háskólafræða, kirkju og fleiri hreyfinga hafa skilað þeirri góðu niðurstöðu heilbrigðra samræðna og samskipta sem birtist í góðum ávöxtum lýðræðis og samhjálpar í blönduðum hagkerfum þar sem net samhjálpar er vel og vandlega riðið.

Á heimasíðunni Svarfdælasýsl er viðtal við Reynald og þar segir m.a.:

Reynald er sonur Jóns smiðs og Fríðu á Sigurhæðum, fæddur og alinn upp á einu af goðsagnakenndum heimilum Dalvíkur. Á Sigurhæðum á Akureyri orti séra Matthías himneska lofsöngva en á Sigurhæðum á Dalvík smíðaði Jonni líkkistur. Þannig sögðu gárungar í það minnsta frá og Jonna leiddist það ekki. . . .

Reynald brást við atvinnuleysi á Dalvík forðum með því að sækja í vinnu suður á Keflavíkurflugvöll, á vertíð í Vestmannaeyjum og víðar. Svo fór hann í tækninám í Danmörku og eftir það var ekki aftur til Dalvíkur snúið nema í hlutverki brottflutts ættingja og sveitunga.

Eftir heimkomu úr námi gerðist hann bæjartæknifræðingur á Húsavík 1965 og fór þaðan til Landsvirkjunar. Leiðin lá síðan meðal annars í virkjun vatnsafls á hálendinu syðra, fyrst við Sigöldu og síðan Hrauneyjarfoss.

Frá árinu 1982 starfaði Reynald á eigin vegum. Hann stofnaði teiknistofu, vann eftir það sem hönnuður og verktaki og á tímabili rak hann líka verslun við Grensásveg í Reykjavík.

Gefum honum sjálfum orðið:

„Ég var í mörgum stórum og smáum verkefnum í Garðabæ, stofan mín annaðist til að byrja með alla verkfræðihönnun í Ásbúð og bæði hönnun og byggingar nánast í heilum hverfum hér. Síðar stóð ég að miklum framkvæmdum í Borgarnesi, bæði nýjum fjölbýlishúsum og breytti gamla kaupfélagshúsinu þar í 25 íbúðir.

Á Akureyri keypti ég brunarústir skemmtistaðarins H-100 við Hafnarstræti og þá þótti víst ýmsum að komið væri að því að hann Reynald þyrfti að leita sér andlegrar aðstoðar. Uppátækið þótti svo galið. Vissulega var „eignin“ ekki álitleg í upphafi en þarna hannaði ég, byggði og innréttaði 15 íbúða fjölbýlishús í hjarta bæjarins á skömmum tíma. Húsið stendur enn og stendur fyrir sínu!“

Reynald Þráinn Jónsson, hét hann fullu nafni og fæddist á Dalvík 3. febrúar 1938, hann lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 24. september 2022. 

Jón faðir hans var Sigurðsson og var húsasmíðameistari, f. 16.12.1897, d. 16.11.1980 og móðir hans var Hólmfríður Magnúsdóttir, húsfreyja, f. 26.05.1910, d. 10.09.1995.

Dalvík var ævintýraheimur fyrir strák með marga hæfileika og drauma. Ástin vitjar ungs fólk og hann kynntist Sesselju Guðmundsdóttur sem fædd var 8. ágúst 1940 í Landlyst í Vestmannaeyjum, dóttir hjónanna Þórhildar Guðnadóttur, húsfreyju og Guðmundar Hróbjartssonar, skósmiðs. Guðmundur lést árið 1975 en Þórhildur 1993. Sella var fimmta í hópi sjö systkina.

Reynald og hún gengu í hjónaband 5.4.1959 og áttu saman góð ár upp frá því en Sesselja lést í sviplegu bílslysi 9. janúar 1987.

Vinkona hennar, Iðunn Steinsdóttir, lýsir henni í minningarorðum með þessum orðum:

„Í vöggugjöf hafði Sella hlotið einstakan hæfileika til að sjá broslegu hliðarnar á hlutunum. Við það bættist rík frásagnargáfa sem gerði það að verkum að frásagnir hennar vörpuðu ljóma langt fram á veginn.

En Sella hafði fleiri góða eiginleika til að bera. Hún var ábyrg í orði og gjörðum, það sem hún tók að sér var í öruggum höndum. Heimili sitt annaðist hún óaðfinnanlega og af eðlislægri smekkvísi. Hún var hreinskiptin og hispurslaus og öll yfirborðsmennska fjarri henni. Þó er mér efst í huga hve traustur vinur og hve raungóð hún var. Ég minnist þess ekki að nokkurn tímann stæði svo illa á hjá henni að hún sparaði tíma og fyrirhöfn til að hjálpa ef í nauðirnar rak. Slíkir vinir eru fágætir en hver sem verður þeirra aðnjótandi er ekki einn á ferð.“

Sesselja og Reynald eignuðust þrjú börn, Sigríði Ósk (1959), Sigurð (1966) og Guðmund Þór (1968). Tengdabörnin eru Hinrik Hjörleifsson, Hafdís Björgvinsdóttir og Þórunn Erla Einarsdóttir. Barnabörnin eru Reynald, Silja, Birgitta, Kristófer, Einar Kári, Guðni Þór og Jón Gauti.

Reynald lærði húsasmíði hjá föður sínum, lauk sveinsprófi 1960 og lauk BS prófi í byggingartæknifræði frá Odense Teknikum í Danmörku 1965. 

Sesselja var stoð hans og stytta alla ævi og studdi hann t.d. þegar hann var við nám í Odense og vann fyrir honum og frumburðinum. Hún var glaðlynd og hress kona og studdi mann sinn í öllu sem hann gerði. Þau voru góðir vinir og samheldin hjón sem bættu hvort annað upp.  

Reynald var bæjartæknifræðingur og byggingarfulltrúi á Húsavík 1966-71, sinnti jafnframt stundakennslu við Iðnskólann á Húsavík.  Þá vann hann hjá Landsvirkjun við undirbúning og eftirlit með Sigölduvirkjun og Hrauneyjafossvirkjun 1971-79.  Á þessu tímabili var hann fjarri fjölskyldunni yfir vetrarmánuðina en svo flutti Silla með börnin upp á hálendið til hans yfir sumartímann. Börnin fá blik í augun við að rifja upp dásemdir hálendisins og að fá að vera nærri pabba á sumrin og upplifa fegurð landsins.

Reynald starfrækti síðar eigin teiknistofu, rak verslunina Alno eldhús og þar unnu þau hjónin saman og endaði sinn feril svo í byggingarframkvæmdum víða um land eins og fyrr var greint frá.

Sambýliskona Reynalds frá 1987 var Katrín Árnadóttir fiðlukennari f. 30.5.1942, sonur Katrínar og stjúpsonur Reynalds er Árni Jón Eggertsson, eiginkona hans er Kristín Halla Hannesdóttir.

Reynald er fyrstur til að kveðja úr stórum systkinahóp, eftirlifandi eru: Ósk, Sigurður, María, Sigríður, Filippía og Kristín Jóna.

Reynald hafði yndi af tónlist, einkum jazz-músík. Hann var listrænn í sér, teiknaði og málaði myndir. Hann var nákvæmur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og naut þess að slaka á með vindil og Whiský-tár í glasi eða ískaldan á kantinum, eins og sagt er. Reynald var orðvar, talaði ekki af sér, leið vel í þögn en oftar en ekki greindu menn glettni og kæti í svip hans.

Hann var góður við fólk og dýr. Hann unni tækni og var dálítill tækjakarl og hafði unun af flottum bílum sem hann lánaði börnunum að vild. Hann bjó yfir jafnaðargeði og æðruleysi.

Og nú er hann horfinn af þessari jarðvist og hans er sárt saknað af ástvinum.

Innilegar samúðarkveðjur hafa borist frá Ósk eða Diddu stórusystur Reynalds, dóttur hennar Sólrúnu og ömmustelpunni, Silfá Sól;

frá Birgittu, Gunnari og Ásdísi Ingu langafastelpu;

frá sonarsyni Reynalds, Einari Kára Guðmundssyni, sem er í Lundi í Svíþjóð;

frá systursyni Reynalds, Hilmari Guðmundssyni, konu hans, Kristínu og fjölskyldu þeirra;

frá Birgittu Sigurðardóttur og fjölskyldu í Kaupmannahöfn og

frá vinum á Spáni, Magna Guðmundssyni og Halldóru Þorvarðardóttur.

Reynald hafði jafnan mörg járn í eldinum á sama tíma og margt gekk vel en annað ekki. Svona er lífið. Eftir hrunið dró hann saman seglin.

Katrín hætti að vinna um svipað leyti. Hún lék í Sinfóníuhljómsveit Íslands um árabil og kenndi fiðluleik í Barnamúsíkskóla Reykjavíkur, Tónmenntaskóla Reykjavíkur, Nýja tónlistarskólanum og síðast í Tónlistarskólanum í Hafnarfirði. Svo var hún reyndar á sjónvarpsskjám landsmanna sem dagskrárþulur Sjónvarpsins í fimm ár. . . Við Reynald komum úr gjörólíkum áttum en eigum samt tónlistaráhugann sameiginlegan. Hann hefur mjög gaman af músík og syngur sjálfur, enda með ágætis söngrödd. Á sínum tíma dreif hann sig í Frímúrarakórinn og ég stuðlaði að því að hann sækti kennslu í Hafnarfirði hjá Eiði Ágústi Gunnarssyni, óperusöngvara og tónlistarmanni.“

. . . Þar með er komin í ljós ný og óvænt hlið á Reynald: söngvari. Og meira til, hann er tómstundamálari líka.

Á trönum í stofunni í Garðabæ blasti við eitt málverka hans og mótívið augljóslega ættað frá Spáni. Þegar hann málar á Íslandi birtist Spánn í myndunum hans en þegar hann málar á Spáni birtist Stóllinn í Svarfaðardal oftar en ekki á léreftinu.

Þannig ferðast sonur Sigurhæða álfa á milli en er í raun alltaf á sama stað.

Og nú er hann kvaddur í húsi Guðs og þess Drottins sem opnaði okkur leið til himinsins heima á hinni miklu Sigurhæð, Golgata.

Við þjóðveginn sem liggur milli Akureyrar og Dalvíkur, á milli tveggja Sigurhæða, stendur bærinn Fagriskógur á Galmaströnd. Þar fæddist eitt af ástsælustu skáldum þjóðarinnar sem þýddi lofsöng um Krist sem ber heitið Uppi á hæðinni miklu.

Uppi’ á hæðinni miklu stóð heilagur kross,
sem er hæddur af þúsundum enn.
Sjá ég elska þann kross, þar sem fórnin var færð,
sem að frelsaði synduga menn.

Hann er litaður blóði hins lifanda Guðs,
og hann ljómar af fegurð og skín.
Því hann minnir á Krist, sem var krossfestur þar,
sem að kvaldist og dó vegna mín.

Ég hef heitið að taka’ á mig krossberans kvöl,
og sú köllun er fögur og glæst.
Er ég smáður af öðrum til Golgata geng,
er ég Guði og himninum næst.

Ég vil taka’ á mig krossberans kvöl.
Ég vil krjúpa og biðja um grið,
svo ég hljóti hinn eilífa auð,
svo ég öðlist þann himneska frið.

Vonin um eilíft líf býr innra með fólki af öllum trúarbrögðum og jafnvel meðal trúlausra í einhverri mynd eins og t.d. góðum orðstír eins og segir í Hávamálum:

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.

Fólk sér fyrir sér einhvers konar framhald. Sumir kalla það sumarlandið, aðrir nota orðið sólför um ferðina til handanverunnar, kristnir tala um himininn eða eilífðina og í eftirspilinu sem leikið verður síðast í þessari athöfn kemur fyrir vonin um fegurð lífsins handan regnbogans: Somwhere Over the Rainbow.

Skáldin eru sífellt að fást við þessa von mannskyns og hafa notað margar myndir í því sambandi og nýlega hlýddi ég á lestur bókarinnar Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren sem er heillandi saga um sorg og sársauka, líf og dauða og síðast en ekki síst um eilífðina og vonina sem býr í brjósti okkar allra í einni eða annarri mynd.

Guð blessi minningu Reynalds Þráins Jónssonar og megi Guð leiða þig og blessa á lífsveginum og glæða vonina í hjörtum okkar. Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.