Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Ingibjörg Jóna Gunnlaugsdóttir
1934-2022

Útför (bálför) frá Neskirkju
miðvikudaginn 24. ágúst 2022 kl. 15
Sálmaskráin er neðanmáls, svo og Biblíutextar sem lesnir voru.
Ræðan ásamt hljóðupptöku er hér fyrir neðan
Við komum hér saman til að kveðja Ingibjörgu Jónu Gunnlaugsdóttur. Útför er eðli samkvæmt sorgarathöfn en hún er líka gerð í þökk fyrir það líf sem lifað var og ekki síst þegar útför ber uppá fæðingardag hinnar látnu er ástæða til að fagna. Við kveðjum hana með söknuði og höldum þakkarhátíð.
Mikið þakkarefni er það að hafa þegið lífið að gjöf. Við erum öll einstök og fengum þennan eina möguleika á að fæðast. Fruma fann egg og þú varst til. Ef fruman hefði synt framhjá því eggi hefði orðið til önnur manneskja og þinn möguleiki aldrei komið aftur. Lífið er undur og það er mikið þakkarefni að vera á lífi og svo erum við eina kynslóð allrar veraldarsögunnar sem ekki er dáin. Allar aðrar kynslóðir eru horfnar og svo kemur að því að ég og þú hverfum líka af þessu jarðlífi.
Um tíma er látinna minnst af þeim sem eftir lifa en svo deyja allir sem muna mig og þig. Hver man okkur þá? Hann sem man alla menn, konur og karla, elskar allt líf mun aldrei gleyma þér eða mér né nokkurri annarri manneskju. Er það ekki fögur hugsun að til sé eilíf elska og umhyggja, óbrigðult minni og velvild? Mér finnst það. Ég vil trúa á kærleikann, að hann skipti mestu í lífinu og ennfremur trúa á eilífa elsku Guðs og umhyggju.
Æviágrip
Ingibjörg Jóna fæddist á Akureyri 24. ágúst 1934. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 27. júlí 2022.
Foreldrar Ingibjargar voru Gunnlaugur Sigurjónsson, trésmiður f. 2. nóv. 1887, d. 29. nóv. 1969 og Sigríður Jónsdóttir húsmóðir f. 13. janúar 1904, d. 18. febr. 1988.
Unnusti Ingibjargar, Óli Hrafn Ólafsson, lést 1960 þegar dóttir þeirra, Elísabet Óladóttir, var aðeins tveggja ára. Hún lést 6. júlí 2013.
Ekkill Elísabetar er Jónas Sigurðsson f. 1958. Þeirra börn eru: Arndís Jónasdóttir f. 1979 d. 2019, Árný f. 1982, Óli Hrafn f. 1989, Andri f. 1994 og Brynjar f. 1994. Arndís eignaðist soninn Jónas Bjarka f. 1999.
Ingibjörg kynntist síðar, Jóhanni Jóni Jónssyni og áttu þau saman þrjú börn,
Baldur Þór Jóhannsson f. 6. desember 1962 d. 18. október 1984,
Karl Jóhann Jóhannsson f. 1967 og
Guðrúnu Jóhannsdóttur f. 1970.
Jóhann lést 3. október 2002. Fyrir átti Jóhann dótturina Þórunni Jóhannsdóttur. Þórunn á þrjú börn, Huga Sævarsson f. 1971, Rósu Sævarsdóttur f. 1977 og Karen Gylfadóttur f. 1985.
Karl Jóhann er kvæntur Guðbjörgu Kr. Ingvarsdóttur og eiga þau þrjár dætur, Ásgerði Diljá f. 1996, Karlottu Köru f. 2003 og Ingibjörgu Æsu f. 2012.
Guðrún á tvö börn, Baldur Þór f. 1993 og Kristján f. 2011.
Ingibjörg átti eina systur, Guðrún Öglu Gunnlaugsdóttur f. 13. ágúst 1930, d. 16. ágúst 2002. Agla og maður hennan Jón Helgason eignuðust 3 börn, Gunnlaug Jónsson, f. 1958, Sigríði Helgu Jónsdóttur f. 1959 og Ingibjörgu Guðrúnu Jónsdóttur f. 1961.
Ingibjörg ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur á Marargötu 5.
Eftir að Ingibjörg missti Óla Hrafn, kynnist hún Jóhanni Jónssyni kaupmanni í Reykjavík og þau gengu í hjónaband og fluttu til Ólafsvíkur. Þar áttu þau saman farsælan verslunarrekstur í 40 ár. Árið 1997 skildu leiðir og Ingibjörg flutti til Kópavogs. Þar kynnist hún vini sínum Birni Stefánssyni og bjuggu þau saman í Kópavogi þar til þau fluttu bæði á Sunnuhlíð. Björn lést 2020.
Persónan og aðrir þankar
Ég spurði Karl og Guðrúnu hvað kæmi þeim fyrst í hug þegar þau litu til baka og minntust mömmu. Orðin komu fljótt.
Hún var glöð og brosandi. Heimili hennar var opið og vinir barnanna voru ætíð velkomnir og svo komu vinir mömmu og pabba líka, þeir komu fyrir og eftir ballið í sveitinni og það var gaman.
Inga fagurkeri en var látlaus hvað sjálfa sig varðaði og um leið var hún hógvær og yfirveguð.
Fólki leið vel á heimili hennar og hún hafði yndi af því að gera vel við fólk. Í húsinu var oft brauð- og kökuilmur og á sunnudögum ilmaði steikt læri eða hryggur í ofninum.
Tengdadóttir hennar segir að Ingibjörg hafi verið skemmtilega kona, hjartalhlý og kærleiksrík. Hún hafði skemmtilega kímnigáfu og hlátur einkenndi samskiptin í gegnum tíðina. Inga var mikil mamma og húsmóðir, dekraði við börnn sín og heimilið var ætíð opið gestum og gangandi. Þegar sonurinn og tengdadóttirin komu í heimsókn í Ólafsvík voru 5-rétta máltíðir og 5-stjörnu þjónusta í boði alla daga. Auðvelt var að gleðja hana og þegar Gugga og Kalli fóru með hana á tónleika með Ragga Bjarna, söng hún og hló allan tímann. Svo var hún blómakona og nældi sér í afleggjara svo lítið bæri á hvar sem hún fór. Inga var dýravinur og mikil kisukona. Ferð hennar með þeim til Parísar var eftirminnileg og ekki spillti nú flottur málsverður á Ritz hótelinu heimsfræga.
Hún var hlý og góð og átti margar vinkonur sem flestar eru nú horfnar en oft hittust þær yfir kaffibolla heima hjá hver annarri. Fólki þótti gott að leita til hennar. Hún sagði oftar en einu sinni við börnin sín: „Ég held að kærleikurinn skipti mestu í þessu lífi.“
En lífið var ekki bara dans á rósum. Hún missti mikið, missti Óla, Baldur Þór, Jóhann, Elísabetu og Arndísi. Og svo missti hún Bjössa sem flutti með henni í Sunnuhlíðina en lést á undan henni.
Nýlega barst mér texti á norsku sem ég sneri yfir á íslensku og hljóðar svo:
Ósigrar eru hluti af lífinu,
sem við ráðum ekki við.
Við komumst að því fyrirvaralaust
að við erum máttvana andspænis
atvikum sem við héldum okkur ráða við.
En þar með er ekki allt sagt,
því sérhvert mótlæti
býður uppá nýtt upphaf.
(úr Norsku – Stephanie Ericson)
Sorgin fylgir mannlífinu. Við missum öll ástvini á lífsleiðinni og sú stund kemur að fólk kemur saman til þess að kveðja þig og mig. Það er lífsins gangur.
Og svo eru það gæludýrin sem fylgja sumum fjölskyldum. Hundurinn Mollý kvaddi fyrir nokkrum dögum en hann var gleðigjafi í lífi fjölskyldu Karls og Guðbjargar og mikill vinur dætranna þriggja. Þau sögðu í gamansömum tóni að þær hefðu verið jafngamlar því eitt ár hunds er víst á við mörg mannár! Inga gætti hennar oft þegar fjölskyldan fór af bæ. Söknuðurinn er mikill og maður spyr sig auðvitað hvað verði um dýrin og alla sköpunina í hinu stóra samhengi lífsins? Gætir Guð ekki alls sem við elskum? Og elskar hann ekki allt líf? Mér finnst liggja í augum uppi að svarið við báðum spurningunum sé: Já!
Inga var næm og andlega þenkjandi. Hún var berdreymin og skynjaði gjarnan ef fólki leið illa.
Mamma stóð alltaf með okkur, sögðu systkinin við mig. Hún vildi að þeim liði vel og setti þeim skynsamleg mörk með góðum og hollum ráðum. Guðrún talar um móður sína sem Rótina. Hún var rótin sem þau systkinin uxu af.
Öll eigum við okkur rætur og máli skiptir að þekkja ræturnar og þora að horfast í augu við rætur sínar og einnig lífið sem af þeim hefur sprottið meðan við höfum lifað og valið leiðir á lífsveginum með sigrum og ósigrum í bland.
Inga sagði kærleikann skipta mestu. Jesús sagði okkur að elska og hann sagði: Elska skaltu náungann eins og sjálfa/n þig.
Elska skaltu! Já, hann sagði það í boðhætti því elskan er á okkar valdi. Hann sagði ekki: Elskaðu náungann þegar þú ert í stuði til þess eða tilfinningar þínar beina þér í þá átt. Nei, hann sagði elskaðu í boðhætti vegna þess að það að elska eða gera öðrum gott er ákvörðun en ekki tilfinning. Við veljum að elska náungann og erum kölluð til þess að lifa í kærleika, að elska aðra. Hann útskýrði þetta með hinni ódauðlegu sögu um Miskunnsama Samherjann sem var einskonar „útlendingur“ í Ísrael forðum daga, eða einstaklingur af öðrum uppruna og annarri trú. Samverjinn hjálpaði manninum sem lá lemstraður eftir árás í vegkantinum, en ekki fyrirmenn samfélagsins, sem allir voru að flýta sér á mikilvægan fund eða þannig. Þetta leiðir hugann að samstöðu í samfélagi nútímans að við sem betur megum okkar stöndum með þeim sem standa höllum fæti.
Lokaorð
Kærleikurinn skiptir mestu, sagði Inga og víst er að þau orð eru sönn og hér er hún kvödd með kærleika, söknuði, djúpri virðingu og þökk.
Blessuð sé minning Ingibjargar Jónu Gunnlaugsdóttur og Guð blessi þig sem enn ert á lífsveginum. Megi okkur öllum auðnast að láta kærleikann vera leiðandi afl í lífi okkar.
Amen.


Kærleikurinn mestur I. Korintubréf 13:1-8
1Þótt ég talaði tungum manna og engla
en hefði ekki kærleika
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
2Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.
3Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum
og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur
en hefði ekki kærleika,
væri ég engu bættari.
4Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
5Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
6Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
7Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
8Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
Vegurinn, sannleikurinn, lífið –
Jóhannesarguðspjall 14.1-6
1 „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2 Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3 Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4 Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5 Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6 Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.