Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Þórður Höjgaard Jónsson

frá Höfnum og Keflavík
1944-2022
Útför (bálför) frá Fossvogskirkju
þriðjudaginn 23. ágúst 2022 kl. 13
Jarðsett í Sóllandi
Texti og hljóðskrá eru hér fyrir neðan.
Sálmaskráin með textum og myndum er neðanmáls.
Inngangsorð . . .
Páll postuli var kunnur mótlæti og þrengingum og var á endanum tekinn af lífi í Róm fyrir trú sína á Jesú Krist. Hann hafði áður skrifað Rómverjum bréf er hann var staddur í annarri borg í öðru landi og þar sagði hann m.a. þessi hughreystandi orð til fólks í þrengingum:
„Réttlætt af trú höfum við því frið við Guð sakir Drottins vors Jesú Krists. Hann hefur veitt okkur aðgang að þeirri náð sem við lifum í og við fögnum í voninni um dýrð Guðs. En ekki aðeins það: Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.“ (Bréf Páls postula til Rómverja 5.1-5)
Þórður þurfti alla ævi á þolgæði að halda í sínum þrengingum og trúin var honum afl til að lifa og vona.
Gefum honum sjálfum orðið um fæðingu sína og bernsku:
„Fyrsta búskaparár sitt áttu foreldrar mínir von á erfingja, og þegar tíminn kom var mamma flutt á fæðingardeild Landsspítalans. Þetta ver erfið fæðing. Hún gekk með tvíbura og börnin voru hreint ekkert á því að koma í heiminn. Þegar farið var að líða á fimmta sólahrigninn tók kandídatinn, sem var á vakt nóttina 13. september 1944, þá ákvörðun að nú skyldu börnin fæðast. Hann þrýsti okkur bókstaflega út úr kviði móður minnar.
Systir mín kom á undan og andaðist í fæðingunni. Ég lifði hins vegar af þessa harkalegu meðferð, en alblár og í heilan sólahring var mér vart hugað líf.
. . . Það var ekki fyrr en hálfu öðru ári seinna . . . að í ljós kom að mænan var skemmd og ég hafði farið úr öðrum mjaðmarliðnum í fæðingunni. . . . [og] fyrirsjáanlegt að ég myndi aldrei geta gengið . . . „
Með þessum orðum lýsti Þórður upphafi ævi sinnar í bókinni Sorry, Mister Boss, sem Róbert Brimdal skráði.
Ég kynntist Þórði er ég vann um tíma í Keflavík sem ungur maður, nálægt heimili Þórðar. Hann vildi gjarnan spjalla við fólk og sýna bílinn sinn og alltaf var hann hress og glettinn. Hreyfihömlunina yfirvann hann með tjáningu og gamansemi. Hann komst það sem hann vildi og mælti fyrir um.
Og nú er hann allur, þessi maður seiglu og dugnaðar, sem ekkert lét stöðva sig í þeirri viðleitni að njóta lífsins og láta um sig muna.
Þórður Höjgaard Jónsson fæddist á Fæðingardeild Landspítalans í Reykjavík þann 13. september 1944. Hann andaðist á Hrafnistu Sléttuvegi í Reykjavík, þann 9. ágúst síðastliðinn 77 ára að aldri.
Foreldrar hans voru Jón Höjgaard Magnússon, fæddur í Garðhúsum í Höfnum, f. 9. ágúst 1905, dáinn á afmælisdegi sínum, 9. ágúst 1968 og Kristín Arnfinnsdóttir frá Innri-Lambadal í Dýrafirði f. 17. júní 1908, d. 26. apríl 2006. Uppeldisbróðir Þórðar er Haraldur Guðmundsson, f. 24. október 1955.
Kristín náði háum aldri, varð tæplega 98 ára. Ég jarðsöng hana 17. maí 2006. Þórður og Jón faðir hans eiga sama dánardag, 9. ágúst með 54 ára millibili. Tilviljun?
Þann 30. desember 1978 kvæntist Þórður eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Ólafsdóttur Hjaltalín f. 25. apríl 1950 frá Seljum í Helgafellssveit. Foreldrar hennar voru Ólafur Ingibergur Torfason Hjaltalín og Vilborg Guðríður Jónsdóttir.
Dóttir Þórðar og Ingibjargar er Kristín Vilborg, f. 3. desember 1978. Eiginmaður hennar er Ingi Björn Ágústsson f. 17. mars 1978. Börn þeirra eru Ingibjörg Lilja f. 3. september 2007 og Jóel Freyr f. 9. mars 2009. Sonur Inga Björns og stjúpsonur Kristínar er Ágúst Örn f. 30. apríl 1996.
Faðir Þórðar ólst upp í Garðhúsum í Höfnum en þar bjuggu foreldrar hans, Magnús Gunnlaugsson, ættaður úr Landeyjum og Guðný Þórðardóttir frá Bjarghúsum í Höfnum. Þórður taldi sig ætíð Hafnamann að uppruna.
Foreldrarnir fluttu með soninn til Keflavíkur og bjuggu fyrst í kjallarraíbúð að Hafnargötu 47. Í nágrenninu var leikvöllur þar sem börnin hlupu um og príluðu en Þórður stóð við færanlegt, lítið grindverk, sem hann gat hangið á og fært sig í kringum. Hann gat ekki farið í rólurnar, vegasöltin eða sandkassann, en fylgdist grannt með krökkunum álengdar frá. En hann var gjaldgengur í hópnum þrátt fyrir fötlun sína og það segir mikið um börnin sem hann kynntist sem barn, um kærleika þeirra og virðingu hvert fyrir öðru.
Hann var mikið með pabba sínum sem ók vörubíl og þjónaði hernum á Vellinum. Hann tók fullnaðarpróf með góðri meðaleinkunn og svo kom að því að hann átti að fermast. Hann vildi ekki fermast í hjólastól og ákvað að fermast ekki.
„Þessi ákvörðum mín táknaði þó ekki að ég hefði glatað barnatrúnni, sem foreldrar mínir höfðu bygg upp hjá mér. Trú mín hefur aldrei bilað þótt stundum hafi komið upp efi. Mér kom aldrei til hugar að ásaka almættið fyrir fötlun mína; ég trúði því staðfastlega að þetta væri kross sem mér væri ætlað að bera. Og þótt ég spyrði sjálfan mig stundum hvers vegna, hvarflaði aldrei að mér að óska þess að krossinn hefði fremur verið lagði á einhvern annan.“ (s.25)
Þórður var með málin á hreinu, greindur og klár, alla tíð, en um leið gamansamur og stríðinn gagnvart vinum og samferðarfólki.
Þórður var með ólæknandi bíladellu, en varð að bíða lengur eftir að fá bílpróf en janfaldrar hans, en svo rann stóri dagurinn upp.
Gefum Þórði orðið:
„Þetta próf var ákaflega mikilvægt fyrir mig. Mér fanns frelsi mitt og tengsl við umheiminn velta á því hvort ég næði eða ekki. Bíll gat orðið eins og fætur fyrir mig og auðveldað mér að komast allra minna ferða án þess að vera upp á aðra kominn.“
Bílasögurnar eru margar og ég man glæsivagn sem hann átti er ég starfaði í Keflavík og man eftir bíltúrum með Þórði og skutli á ball.
Hann fór víða og ferðaðist meir en margur ófatlaður maðurinn. Þórður var ótrúlega seigur og fylginn sér. Hann lifði ævintýralegu lífi.
Bókina hans eignaðist ég fyrir mörgum árum og naut þess að lesa hana. Ég las hana aftur núna og heillaðist enn og aftur af þrautseigju Þórðar og lífskrafti, gleði hans og glettni, trú og trausti á forsjónina.
Að lesa um ævintýrið sem þau lifðu saman, Ingibjörg og Þórður, um ástina og ávöxtinn, sem þau eignuðust í Kristínu Vilborgu, kallaði fram gleðitár í augum mér við lesturinn. Hrífandi saga um líf tveggja einstaklinga sem risið hafa upp úr sársauka og mótlæti, fyrirstöðu og fordómum – og sigrað með Guðs hjálp!
Þórður var stoltur af því sem hann áorkaði hér heima og í fjarlægum löndum. Hann lét ekkert stöðva sig og ef hann ætlaði sér eitthvað, þá komst hann þangað. Hann var alla tíð ákveðinn og þrjóskur og það þurfti svo sannarlega slíka skapgerð til að forðast það að koðna niður og leggjast í kör.
Þórður var vinur vina sinna og sagði gjarnan sína meiningu og ef menn brugðust honum stóð ekki á því að þeir fengju að heyra það frá honum. Hann var hreinskiptin og rétt var rétt og annað ekki. Stundum fór hann framúr sér í ákafa og löngum til að gera eitthvað skemmtilegt eða mikilvægt.
Hann var maður orða sinna. Stóð við gefin loforð og lagði uppúr því að mæta ávallt á réttum tíma.
Hann var ófeiminn við að tala við hvern sem er og gera fólki greiða ef svo bar undir eins og t.d. þegar hann sendi norska kónginum íslenskt lýsi þegar hann var veikur og fékk þakkarbréf frá höllinni að góðverkinu loknu.
Í október s.l. dvaldi hann á spítala og ekki fyrr en einmitt þá fékk hann loks greiningu á því sem ætíð hafði hrjáð hann en það er kallað Cerebal Palsey sem vísar til truflana í hreyfigetu með stífum og veikum vöðvum og krömpum. Börn með þennan sjúkdóm eiga erfitt með að velta sér í frumbernsku og þroska með sér hreyfigetu.
Líf Þórðar er vitnisburður um að þrautseigja og þrjóska geta gert kraftaverk. Já, Þórður Jónsson var lifandi kraftaverk og afrekaði ótrúlega hluti og barðist til hinsta dags fyrir því að geta verið sjálf sín herra og sem allra minnst uppá þjóðfélagið kominn.
Við minnumst hans með virðingu og þökk. Útför hans er auðvitað sorgarstund en hún er líka sigurhátíð sem lofsyngur það að andinn sigrar efnið, hugurinn kemst lengar en líkaminn og lífið er stærra en það sem við augum blasir í daglegu lífi.
Lífið er gjöf Guðs og það er og verður ætíð í hendi hans. Þjáningar heimsins þekkti Guð í Kristi sem varð að ganga veg krossfestingar og dauða, þrátt fyrir að vera sonur Guðs. Segja má að Þórður hafi trúað á þá guðfræði er hann sættist við að bera sinn kross og ganga alla leið og sigra.
Heyrum aftur orð Páls postula:
„Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki.“
Í kristninni býr trúin um að þetta jarðneska líf eigi sér von um annað og betra, líf án sjúkdóma og fötlunar, von um eilíft líf í Guði, í veruleika sem er margfalt stærri og meiri en jarðlífið sem við þekkjum.
Fóstrið sem bíður þess í móðurlífi að fæðast veit ekki hvað bíður þess, veit ekkert um heim ljóssins en fær svo að reyna hann með þjáningu og tárum. Hvað veit deyjandi maður? Hann veit ekkert hvað tekur við en hann getur í trúnni á Krist og voninni um eilíft gert sér í hugarlund að eitthvað stórkostlegt taki við að þessu lífi loknu.
Við erum eins og reynslulítið fóstur í þessu lífi. Hvað tekur við? Við vitum það ekki en trúin segir okkur Hver tekur við, að það verður Jesús sjálfur, hinn upprisni frelsari mannanna.
Trúin gefur okkur hæfileikann til að sjá Þórð án fötlunar. Nú getum við séð hann í trú og von, frjálsan, þar sem hann hleypur um og brosir sínu sælasta í himni Guðs. Þar eru ekki notaðir gamlir varahlutir frá partasölum. Nei, þar fáum við nýjan líkama eða eins og Páll postuli ritaði í bréfi sínu til Filippimanna í Grikklandi:
„En föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.“ (Fil. 3.20-21)
Kristur hefur kraftinn til að breyta öllu jarðnesku lífi í himneskt.
Þórður þekkti þessi sannindi. Hann var helgaður Kristi í heilagri skírn og kirkjan segir þann mann, karl eða konu, kristinn sem skírður er í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda. Hann elskar okkur skilyrðislausum kærleika, tekur engar greiðslur, engin góðverk sem aðgangseyri, ekkert, því hann elskar okkur eins og við erum.
Þvílík fyrirmynd og hetja, sem hann Þórður var. Hann komst allt með Guðs hjálp.
Guð blessi minningu hans og Guð varðveiti þig á lífsveginum og leiði þig inn í sælu himinsins í fyllingu tímans, eins og fóstur sem fær að sjá ljósið í fyrsta sinn.
Amen.
– – –
Mér barst kveðja með þessu ávarpi til mín:
Sæll vertu elsku frændi.
Við myndum gjarnan vilja biðja þig fyrir kveðju við útför Þórðar.
Stína er vinkona mín og fyrrum vinnufélagi okkar hjóna.
En við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum að heilsa . . .
Dana, Gústi og fjölskylda
Knús frá okkur hér á Fjóni❤️❤️

