Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Valgerður Karlsdóttir
1941-2022

Fædd í Fáskrúðsfirði 23. mars 1941
Hún lést á hjúkrunarheimilinu
Skógarbæ 11. júlí 2022
Bálför frá Fossvogskapellu
fimmtudaginn 21. júlí 2022 kl. 15
Sálmaskráin með myndum er neðanmáls .
Lagið Yesterday eftir Paul McCartney, sem við heyrðum áðan, þekkja allir. Textinn er einskonar lofsöngur um gærdaginn, þegar öll vandræði virtust víðsfjaarri en samt vorur þau til staðar og viðfangsefni hans og vandræði halda einhvern veginn áfram daginn eftir. Fortíðarþrá og minningar um eitthvað sem virðist hafa verið vandræðalaust en var það aldrei í raun. Ögn mótsagnarkenndur texti sem vekur upp spuringar um hið liðna. Hvað munum við? Hvað flýtur upp á yfirborðið þegar úrvinnsla minninganna hefur tekið þær og flokkað?
Við minnumst Valgerðar Karlsdóttur hér í dag og kveðjum hana með virðingu og þökk. Útför er eðli máls samkvæmt sorgarathöfn en hún er jafnfram, a.m.k. í þessu tilfelli, þakkarhátíð. Við þökkum fyrir Gógó, eins og hún var oftast kölluð, af sínum nánustu og biðjum minningu hennar blessunar um alla eilífð.
Ég á fagra miningu sem nær langt aftur fyrir Yesterday, áður en lagið kom út. Minningin nær allt aftur til 1961.
Á bernskuheimili mínu á Ísafirði var frændfólk í heimsókn að sunnan og líklega hefur það verið á laugardagskvöldi sem haldið var boð hjá foreldrum mínum. Og svo kom hið óvænta. Ungt og glæsilegt par birtist í boðinu allt í einu og opinberaði trúlofun sína eins og það hét í þá daga. Gógó af austfirsku bergi brotin og Grétar af vestfirsku, lögðu upp í ferðalag saman og framtíðin blasti við þeim.
Ég man líka þegar Steinn Ólafur fæddist að ég, þá á þrettánda ári, keypti bók á bókamarkaði í Gúttó, handan við götuna, þar sem við bjuggum, og færði Gógó sem sængurgjöf, bók um barnauppeldi! Já, mágur hennar var ábyrgðarfullur drengur!
Og síðan hefur lífið lagt þeim á herðar verkefni eins og gengur og gerist með okkur öll. Lífið er aldrei kyrrstætt. En hvers vegna er það eins og það er? Það er nú gátan stóra. Af hverju gengur ekki allt upp hjá okkur mannfólkinu? Hvers vegna erum við stundum eins og fiskar á þurru landi, ráðvillt og ringluð, en njótum samt daganna?
Biblían geymir eina af mikilvægustu lykilsögum veraldar, skýringarfrásögn, sem skrifuð var til að hjálpa okkur að skilja lífið og tilveruna. Þetta er sagan af Adam og Evu í Paradís. Hún gerðist aldrei sem slík og engin var vídeóvélin eða hljóðneminn á staðnum. Hún er skáldsaga, smásaga, rituð af færum höfundi sem velti því fyrir sér hvers vegna hann og konan væru stundum að þrátta og þrasa? Hvers vegna börnin þeirra væru óhlýðin? Hvers vegna bróðir höfundarins væri fúll út í hann?
Höfundurinn glímdi við margar tilvistarspurningar. Hvers vegna bjagast allt í lífinu?
Og hann skáldar sögu sem á að hafa gerst löngu fyrir daga hans sjálfs. Sagan er um fólk í fögru og fullkomnu umhverfi, en svo kemur eitthvað, sem spillir gleðinni, hið illa varð til og það birtist í formi höggorms sem talar og tælir. Og eins og allir vita voru þau ekki lengi í Paradís, þau Adam og Eva. En sagan um þau lifir enn því hún er saga okkar, mín og þín. Tilgangur sögunnar er að útskýra hið neikvæða í heiminum og lýsa því jafnframt yfir að það sé ekki af völdum Guðs heldur manna. Höggormurinn hefur áhrif á allt hið góða og fagra sem manneskjan skapar. Ég bendi t.d. á Veraldarvefinn, þá frábæru uppfinningu og góðu, sem hið illa hefur líka tekið í þjónustu sína.
Við lifum öll í einni og sömu veröldinni og erum svo skyld og lík þegar öllu er á botninn hvolft. Við erum frábær en líka mistæk.
Ég spurði þau sem undirbjuggu þessa athöfn með mér um hana Gógó og hvaða hugtök kæmu fyrst upp í hugann, nú þegar hún væri látin. Svörin létu ekki á sér standa. Orðin sem komu fyrst voru,
æðruleysi,
gæska,
umburðarlyndi,
fórnfýsi,
elska,
jafnaðargeð.
Já, hún Gógó var vel af Guði gerð og af góðu fólki komin.
Valgerður fæddist á Fáskrúðsfirði 23. mars 1941 og ólst þar upp. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 11. júlí 2022.
Foreldrar hennar voru hjónin
Ásta Hallsdóttir (1902-1963) og Karl Jóhannsson (1893-1968)
Systkini Valgerðar:
Hulda (1922-2015)
Björg (1923-2015)
Jóhanna (1926-1927)
Lára f. 1929
Ágúst f. 1935
Aðalheiður (1939-2011) og
Svala f. 1944
Blessuð sé minning þeirra sem horfin eru.
Ung fór Valgerður í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði og nam þar veturinn 1958-59. Þar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum Grétari Guðmundi Steinssyni og giftu þau sig árið 1963. Þau skildu árið 1968 og Valgerður flutti til Reykjavíkur og bjó þar upp frá því.
Hún starfaði við ýmis þjónustustörf, við barnagæslu, rak verslun um tíma og vann við matseld í grunnskóla og í mötuneytum enda var hún snillingur í öllu sem laut að heimili, saumaskap og matargerð.
Börn Valgerðar og Grétars:
Steinn Ólafur Grétarsson (1962-2017). Blessuð sé minning hans.
Agnes Ásta Grétarsdóttir f. 1965
Vala Margrét Grétarsdóttir f. 1968
Börn Steins:
1. Ólafur Örn f. 1983
2. Ruth f. 1990. Maki: Jacob Mörk. Börn þeirra Felix og Luna
3. Ingi Sigurður f. 1996
Sonur Agnesar Ástu er Heiðar Steinn f. 1991
Börn Völu Margrétar eru tvö:
Sigurbjörn f. 1987, kvæntur Sonju Rut. Börn þeirra: Aron, Aníta og Antonía.
Magnús Grétar f. 1991. Dóttir hans er Klara Bríet.
Samtals 6 ömmubörn og 6 langömmubörn.
Öll voru þau Gógó kær og hún naut þess að fá þau í heimsókn og dekra við þau. Þegar Ingi Sigurður var í Fellaskóla, þar sem Gógó vann í mötuneytinu, kom hún oft að borði drengsins og vildi fá að skera matinn í bita fyrir hann. Það lýsti vel elsku ömmu til drengsins en gat um leið verið ögn vandræðalegt fyrir hann, sagði Ingi Sigurður kíminn. Þetta lýsir henni vel og þeir bræður, hann og Ólafur Örn, ásamt Sigurbirni, Magnúsi Grétrari og Heiðari Steini og barnabarnabörnunum, voru öll miklir aðdáendur ömmu. Hún var þeim oft sem sálfræðingur, hafði eyru sem nenntu að hlusta og gaf ráð eftir bestu getu. Þau þekktu hana vel á hennar heimavelli með hundrað bolta á lofti en líka með ilmandi læri í ofninum.
Börnin voru henni allt og hún var þeim og afkomendum sínum öllum sem besta móðir og amma.
Kveðja hefur borist frá Ruth, dóttur Steins Ólafs, en hún býr í Færeyjum og skrifaði á dönsku og ég sneri:
„Eftirlætis amma Gógó. Ætíð brosandi og í góðu skapi og tók mér alltaf opnum örmum þegar ég kom í heimsókn til Íslands.
Mér hefur ætíð þótt mjög vænt um að heimsækja þig jafnvel þótt við ættum ekki auðvelt með að skilja hvor aðra. Og þrátt fyrir að mörg ár liðu á milli funda okkar mun ég ávalt sakna þín – alltaf! Sofðu rótt.“
Valgerður dvaldi á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ s.l. 5 ár og naut þar einstakrar umhyggju og þjónustu sem hér er þakkað fyrir af heilu hjarta ástvina hennar. Hún átti það svo sannarlega skilið að njóta umhyggju í ljósi allrar þeirrar umhyggju og elsku sem hún sýndi ástvinum sínum og samferðafólki um ævina. Hún var ótrúlega þrautseig og dugleg kona sem barðist áfram af harðfylgi og með mikilli elsku.
Minningarnar eru margar. Ég minnist þess er ég var unglingur í skóla hér í Reykjavík og kom oft í heimsókn til Gógóar og Grétars á Bugðulækinn. Ég man þegar Sjónvarpið hóf útsendingar 30. september 1966 og þjóðin sat límd við skjáinn að hlusta á ávarp útvarpsstjóra og svo þáttinn um Dýrlinginn með Roger Moore. Fyrst um sinn var dagsskrá send út tvo daga í viku, á miðvikudögum og föstudögum.
Gógó var húsmæðraskólagengin og heimilið bar þess ríkulega vott. Hún kenndi mér að strauja skyrtur, pressa buxur, þvo eldhúsvaskinn og hafa rétt kerfi á borðstuskunum. Í handavinnu í Gaggó smíðaði ég lítið borð handa Gógó til að strauja á skyrtuermar. Enn bý ég að því sem hún kenndi mér og minningarnar frá þessum heimsóknum á Bugðulækinn eru allar góðar og bjartar.
Aldursmunur okkar var ekki nema 8 ár en hann var stór árið 1965 en er nú mun minni þegar ég horfi yfir farinn veg og finn hve lífið er í raun stutt. Ég þekkti hana í meir en 60 ár.
Við lok athafnarinnar verður leikið hið þekkta Júróvisjónlag sem söngkonan Dana söng svo fallega, All Kinds of Everything Remind Me of You – Margskonar atvik og hlutverk minna mig á þig.
Lífið er stutt. Ég hef spurt margt fólk á tíræðisaldri um ævina og öll hafa þau svarað að þeim finnist lífið stutt.
Geturðu sagt okkur hvað tekur við? spurði fréttamaður aldraðan biskup í sjónvarpsviðtali fyrir mörgum árum. Og hann svaraði: Ég veit ekki hvað tekur við en ég veit Hver tekur við.
Hann sem sagði: „Ég lifi og þér munuð lifa“ mun taka við. Jesús er hér og hann verður þar. Hann er allsstaðar.
Blessuð sé minning Valgerðar Karlsdóttur og megi hann blessa afkomendur hennar og ástvini alla og okkur öll sem enn erum á lífsveginum. Guð geymi hana og okkur öll.
Amen.
Kveðjur:
Frá Grétari Guðmundi Steinssyni, fv. eiginmanni Gógóar, með þökk fyrir allt hið góða sem hún sýndi honum á lífsleiðinni.
Frá frændfólki á Austfjörðum: Góa, Karen Erlu og Hans Óla.
Frá Erlu Erlendsdóttur í Vínarborg.
Kveðjur frá vinkonum Gógóar, Ellu Jóns og Mæju Haralds.
Frá Pálma Arthúrssyni sem er í Arizona.
Frá Ólöfu Eiríksdóttur, frænku Grétars.
Frá Helgu Margréti Guðmundsdóttur, frænku Grétars, með þökk fyrir áralanga vináttu og elskusemi Gógóar við sig og fjölskyldu sína.
Kveðja frá Heiðari Steini, syni Agnesar Ástu.
Erfidrykkja í Lækjargötuhúsinu í Árbæjarsafni að athöfn lokinni.
Ræðan verður birt á vefsíðu minni, bæði texti og hljóðupptaka. Upplýsingar þar um eru aftast í sálmaskránni.

