+Guðrún Helgadóttir 1943-2022

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Guðrún Helgadóttir

1943-2022

Bálför frá Fossvogskapellu

mánudaginn 18. júlí kl. 13

Jarðsett verður í Sóllandi

Sálmaskráin er neðanmáls. Þú getur lesið og/eða hlustað á ræðuna hér fyrir neðan.

Ég vitjaði æskuslóða minna fyrr í þessum mánuði og það var ótrúleg upplifun. Tignarleg náttúran hefur fylgt mér allt frá bernsku og hún býr hér innra með mér, fjöll og dalir, firðir og víkur. Heimahagarnir kalla.

Við heyrðum flutt lagið Heima eftir Oddgeir Kristjánsson. Texti þess lags, eftir Ása í Bæ, er lofsöngur um Vestmannaeyjar. Þaðan kom Guðrún og Eyjarnar voru henni ætíð hugleiknar. Þar var hennar HEIMA og þar er sjálfur Heimaklettur sem vísar sjófarendum leiðina heim í trygga höfn með sínum litum sem ljósið varpar á bergið og birtir í skuggum í skorningum. Guðrún mundi þá daga er „sólin hló á sundum og sigldu himinfley.“

Heimaklettur.

Heimaey.

Hvar eigum við heima?

Hvar eru okkar tilvistarlegu heimkynni þegar dýpst er skoðað?

Páll postuli ritaði mikinn vonartexta til lítils hóps í bænum Filippí í Grikklandi, sem er fyrir botni Eyjahafsins og hljóðar svo:

„En föðurland vort er á himni og frá himni væntum vér frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama vorum og gjöra hann líkan dýrðarlíkama sínum. Því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.“ (Fil. 3.20-21)

Hér vísar Páll til Krists sem var Guð á jörðu og gaf fólki von um að lífið væri stærra og meira en það sem reynt er í forgengilegum líkama, sem hrörnar og deyr, líkama sem verður sjúkur og deyr og endar í jörðu þaðan sem við erum öll komin.

Við lifum af jörðinni, allt sem við nærumst af er jarðneskt, plöntur og dýr, vatn og súrefni. Allt.

Við erum mold og til moldar hverfum við. En von kristninnar nær út fyrir þann veruleika og hefur sömu trú og hveitikornið sem fellur í jörð og brýst uppúr úr moldinni á ný.

Guðrún Helgadóttir fæddist í Vestmannaeyjum 16. febrúar 1943.  Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 9. júlí 2022. 

Foreldrar Guðrúnar voru Guðrún Stefánsdóttir, fædd 1908, dáin 2009, og Helgi Benediktsson, fæddur 1899, dáinn 1971. Guðrún átti 7 bræður, þar af eru 4 látnir.

Guðrún giftist Finni A. Karlssyni 26. desember 1964, hann lést 2008.

Börn þeirra eru:  

1) Birgir, fæddur 1965, maki Elinborg Aðils, fædd 1965.  Börn þeirra eru 5 og barnabörn 3.  

2) Guðrún, fædd 1976.

Guðrún ólst upp í Vestmannaeyjum og þar lá hugur hennar ætíð þrátt fyrir áratuga búsetu í Reykjavík. Á yngri árum gekk hún í hin ýmsu störf við að aðstoða foreldra sína á stóru heimili og við rekstur fjölskyldufyrirtækis. 

Guðrún fór síðar í Húsmæðraskólann á Laugarvatni árið 1962 og starfaði svo við verslunar- og þjónustustörf út starfsaldurinn.

Árið 1960 fór hún í enskuskóla, þá 17 ára og naut þess að fá að mennta sig en hana langaði mjög í menntaskóla.

Guðrún flutti til Reykjavíkur árið 1969 og bjó lengi vel í Vesturbænum en síðustu áratugina bjó hún í Grafarvoginum.

Hún ólst upp við að þjóna fjölskyldunni og sýna öllum umhyggu. Ást hennar til fjölskyldunnar var stór. Hún átti auðveldara með að sýna væntumþykju í verk en orðum.

Hún heimsótti móður sína á hjúkrunarheimilið daglega í mörg ár og svo sinnti hún eiginmanni sínum af natni í veikindum hans áratugum saman. Eins sýndi hún barnabörnum sínum sínum mikla ást í verki. Hún fylgdist vel með þeim fyrst eftir að heilsu hennar sjálfrar hrakaði og hún fór á hjúkrunarheimilið og spurði mikið og var mjög stolt af þeim. Hún hefði án efa sýnt barna-barna-börnunum hið sama, hefði sjúkdómurinn ekki verið farinn að leika hana svo grátt að hún megnaði ekki lengur að fylgjast með þeim yngstu.

Eitt barnabarnanna býr ásamt fjölskyldu sinni á Bollastöðum í Blöndudal og þau eiga ekki heimangengt, en senda sínar bestu kveðjur til ástvina.

Alzheimers-sjúkdómurinn lék hana grátt, minnið fór þverrandi. Móðir hennar var á hjúkrunarheimilu Eiri í 11 ár. Sjálf átti hún eftir að liggja þar og seinasta hálfa árið var Guðrún í sama herbergi og móðir hennar hafði gist þar til hún kvaddi. Þar var hennar heimili til hinstu stundar. Og nú er hún horfin af þessu jarðlífi.

Vestmannaeyjar voru henni ætíð hugleiknar og tengslin við fegurð eyjanna voru sterk. „Ég bið að heilsa Heimakletti,“ sagði hún.

Heimaey.

Heimaklettur.

Heimur.

Heim.

Við erum af þessum heimi og komumst hvergi burt frá þessum sama heimi. Hann er eins og hafið sem umlykur allt líf í sjónum. Fiskurinn þekkir ekki það sem er utan hafsins. Hann hefur aldrei verið fiskur á þurru landi. Barnið í móðurkviði veit ekki hvað bíður þess en svo fæðist það inn í heim ljóssins. Og þegar það svo síðar hverfur úr þeirri tilveru þá veit það ekki hvað bíður. Við vitum ekki hvað tekur við fremur en fóstrið.

Lífið er undur og því verður aðeins lifað í trú og von. Hvað tekur við? Við vitum það ekki nema í ímyndun hugans en við erum alla ævina á leiðinni Heim!

Guð blessi Guðrúnu Helgadóttur og gefi henni góða heimför og sá sami blessi þig sem enn ert á lífsveginum á leiðinni heim.

Amen.

– – –

Bálför Guðrúnar var gerð frá Fossvogskapellu í Reykjavík í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.