+Sigurður Oddsson 1944-2022

Sigurður Oddsson

1944-2022

byggingatæknifræðingur

frá Ísafirði

Útför frá Digraneskirkju

þriðjudaginn 21. júní 2020 kl. 13

Sálmaskráin er neðanmáls.

Um árabil hafði ég texta úr Gamla testamentinu sem einkunnarorð á heimasíðu minni. Þau eru úr spádómsbók Jesaja og eru talin rituð um 550 árum f.Kr. og hljóða svo:

„Leggið braut, leggið braut, gerið veginn greiðan,

ryðjið hindrunum úr vegi þjóðar minnar.“ (Jesaja 57.14)

Þegar Sigurður Oddsson og Hrefna voru að alast upp á Ísafirði var bærinn ekki í vegasambandi við aðra landshluta. Já, ég er ekki að ýkja. Suðurleiðin var ekki orðin til en unnt var að ferja bíl innst inn í Ísafjaðardjúp með Fagranesinu og skrönglast þaðan yfir krákustíga, yfir Vestfjarðakjálkann, um Barðaströnd, Dalina, Borgarfjörð og Hvalfjörð, suður til Reykjavíkur, sem tók allan daginn frá morgni til kvölds ef ekki sprakk á hjóli eða pústkerfið fór undan bílnum. Sumsstaðar, eins og á Þingmannaheiðinni, var ekið á berum klöppum og margar smærri ár voru óbrúaðar og mesta skemmtun mín sem drengs var að fá að fara út úr bílnum hjá pabba og mömmu af og til og opna sauðfjárveikivarnarhlið og loka aftur. Það var góð lækning við bílveiki en í þá daga fylltust bílar af ryki á þurrum vegum og vindlareykur pabba blandaðist í mökkinn. Þegar komið var efst í Ártúnsbrekkuna tók við malbikaður kafli og þá hljóðnaði malarvegaglamrið og allt varð eins og í dásamlegum, hljóðum draumi.

Mér komu þessi orð í hug þegar ég byrjaði að rita þessi minningarorð yfir sveitunga mínum, Sigurði Oddssyni, sem helgaði líf sitt vegagerð, að ryðja þjóðinni leið um erfitt land.

Sigurður Oddsson fæddist á Ísafirði 13. september 1944. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 4. júní 2022.

Foreldrar Sigurðar voru Oddur Oddsson bakari (fæddur 10.04.1913, dáinn 18.10.1998) og Sigrún Árnadóttir, húsfreyja (fædd 15.11.1914, dáin 21.06.2004).

Systir Sigurðar, rúmum tveimur árum eldri, er Árný Herborg Oddsdóttir, (f. 02.01.1942), eiginmaður hennar er Kristján Friðbjörnsson (f. 02.05.1942).

Oddur bakari var faðir hans jafnan kallaður en á mínum unglingsárum var hann Oddur lögga. Svo hleypti hann af og til inn í bíó og reif stofnana af miðunum hjá okkur. Vinur minn og nágranni Odds komst að því að Oddur tæmdi stofnana úr jakkavasanum í öskutunnuna heima. Hann náði í stofna, bæði bleika, bláa og hvíta og ef við áttum miða í sama lit þá var hægt að festa stofninn við gamlan miða og svindla sér aftur í bíó. En þetta var nú að mig minnir bara gert einu sinni og syndin sú er hér með játuð í húsi Drottins og í áheyrn ykkar!

Ísafjörður var þegar orðinn myndarlegur bær á 5. áratugi liðinnar aldar. Þar höfðu verið reistar byggingar sem enn standa sem merkir minnisvarðar um stórhug bæjarbúa, hús sem enn eru í notkun, má þar nefna Sjúkrahúsið fagra sem byggt var uppúr 1920, og nokkru síðar, Alþýðuhúsið og húsin þrjú við Austurveg: Sundhöllin og íþróttahúsið, Gagnfræðaskólinn og Húsmæðraskólinn Ósk sem nú hýsir Tónlistarskóla Ísafjarðar, þá merku stofnun. Bærinn skartaði verslunargötu og gerir enn, sem minnir á borgir og bæi í Danmörku og Þýskalandi millistríðsáranna.

Það var gaman að alast upp á Ísafirði – Í faðmi fjalla blárra. Árgangar barna í þessum bæ sem taldi rúmlega 2000 íbúa voru stórir í þá daga. Árgangurinn minn f. 1949 var rúm 60 börn. Pillan hafði nefnilega ekki verið fundin upp! Já, ástin dafnaði milli fjallanna fyrir vestan og börnin uxu úr grasi, urðu unglingar sem fundu ástina.

Árið 1964 þann 3. október kvæntist Sigurður, Hrefnu Kristínu Hrafnsdóttur Hagalín f. 21.05.1942. Þau voru nágrannar. Hún var tveimur árum eldri en hann, en Siggi var hár og myndarlegur og virtist eldri en hann var, beinn í baki, stór og stæðilegur strákur. Ég man hvað mér þótti þau fallegt par en ég var á fermingaraldri er þau voru að draga sig saman.

Börn þeirra eru:

1) Oddur f. 18.01.1965, eiginkona hans er Guðbjörg Brá Gísladóttir (f. 11.04.1978). Börn þeirra eru Alfa Brá, Hrafn og Yrsa. Áður átti Oddur börnin Sigurð, Rúnu og Maren. Sigurður er kvæntur Önnu Löllu Patay og synir þeirra eru Marinó og Leó.

2) Kristín f. 05.06.1968 eiginmaður hennar er Einar Garðar Hjaltason (f. 21.01.1955) þeirra börn eru Viktor Máni og Hrafnhildur Eva. Áður átti Einar börnin Hjalta, Eddu Katrínu og Kolbein sem er látinn.

3) Arna Sigrún f. 16.01.1970 eiginmaður hennar er Fjalar Sigurðarson (f. 27.01.1964). Börn þeirra eru Helga Rakel og Sigurður Patrik. Áður átti Arna dótturina Hrefnu Hagalín, sambýlismaður hennar er Ingi Lárusson, dætur þeirra eru Heiða Ísey og Milla Sóley. Áður átti Fjalar soninn Atla Óskar.

Sigurður ólst upp á Ísafirði. Eftir hefðbundna skólagöngu fór hann í Iðnskólann á Ísafirði og lærði netagerð hjá Netagerð Vestfjarða. Vann hann við það í nokkur ár.

Þá setti hann kúrsinn á að ryðja vegi um landið þó hann vissi það kannski ekki þá að námið framundan mundi einmitt leiða hann inn á þá vegu. Hann dreif sig til Noregs í tækniskóla og lærði byggingatæknifræði sem hann lauk við vorið 1971. Var hann þá búinn að ráða sig hjá Vegagerð ríkisins á Akureyri. Vann þar til ársins 2008. Var með sjálfstæðan rekstur eftir það, eða þar til hann veiktist í mars 2010.  

Mér þótti gaman að heyra að Sigurður og Hrefna ásamt börnum sínum hefðu búið á sama svæði í Noregi og ég þjónaði á síðar sem prestur innan norsku kirkjunnar um 5 ára skeið. Þau bjuggu í Gjövik og þangað kom ég oft.

Sigurður var kraftmikill einstaklingur og lét víða um sig muna. Hann var ötull í félagsmálum, var m.a. formaður íþróttafélagsins Þórs 1980-1984, var gerður að heiðursfélaga þar árið 2020 og ég sá flotta mynd af honum á netinu með heiðursmerkið. Sigurður gekk í Oddfellowregluna árið 1984 og gegndi þar fjölmörgum trúnaðarstörfum.

Þau kunnu vel við sig á Akureyri, höfuðstað Norðurlands og þeim var vel tekið þar.

Siggi Odds, eins og við kölluðum hann heima á Ísafirði, var flottur einstaklingur. Hann var fjölskyldumaður og unni börnum sínum og barnabörnum og varði mörgum stundum í leik með þeim. Farið var í gönguferðir, á skíði, snjósleða og fleira. Bílar voru áhugamál sem hann átti með afkomendum sínum. Hann var hjálpsamur og vakandi yfir velferð fjölskyldunnar. Hann var bæði pabbi og afi með stórum staf.

En svo varð þessi stóri og sterki maður fyrir áfalli fyrir rúmum 12 árum. Hann fékk heilablæðingu sem skerti getu hans til muna því hann missti svo mikið úr máli og tjáningu. Hann gat t.a.m. ekki notað nafnorð – nema nafnið á dóttursyni sínum, Viktori Mána sem ólst upp á Akureyri og var m.a. 2 ár hjá ömmu og afa.

Dóttur Örnu, Hrefna „litla“ Hagalín minnist þess þegar afi kenndi henni að hjóla án hjálpardekkja, að verða betri bílstjóri, hvort sem var á bíl, fjórhjóli eða snjósleða.

Afi Siggi hefur verið mér alltaf eins og pabbi, segir hún, helsta stoð og stytta í öllu, traustasti og klárasti maðurinn.

Afi reyndi að kenna okkur hvað hver einasti vegur, heiði, fjörður og fjall héti. Ég var eins og talandi landakort sem barn að keyra á milli Reykjavikur, Akureyrar og Ísafjarðar.

Afi var líka mikill smekkmaður, alltaf þegar mamma var að fara eitthvað þá fékk hún álit frá afa á klæðnaði og hafði hann alltaf sterkar skoðanir á fötum og útliti, enda alltaf mjög smart sjálfur.

En afi og amma hafa líka alltaf gert ALLT fyrir mig frá fyrsta degi og gera enn, ég veit ekki hvar ég væri án þeirra og eru þau bæði svo rosalega stór partur af mér og mínu lífi.

Þorláksmessa var uppáhaldsdagurinn minn á yngri árum því afi og amma voru þekkt fyrir skötuveislurnar sínar sem þau héldu í meira en 30 ár. Allir hjálpuðust að í undirbúningnum, húsið fylltist af fólki, og alltaf var samið ljóð, skötuljóðið, þarna byrjuðu jólin.

Við skreyttum jólatréð undir strangri leiðsögn afa, hann var afar nákvæmur, smámunasamur og með fullkomnunaráráttu. Það þurfti að gera þetta allt rétt og fara vel með hlutina, enda entust þeir mjög vel og notaði hann sömu jólaseríuna sem var notuð þegar hann var barn og ég held að hún virki meira að segja enn í dag. Svo fór hann út í bílskúr og fékk sér harðfisk úr frystikistunni.

Ég á endalausar minningar um afa, hann hefur alltaf verið svo stór partur af lífinu mínu. Hann var alltaf til staðar fyrir alla, alltaf að hjálpa öllum.

Kristín á sömu sögu að segja um hjálpsemi pabba síns og svo rifjar hún upp að hann hafi alltaf verið að flýta sér. Hann var mjög drífandi maður. Einu sinni voru hann og Viktor Máni að koma frá Ólafsfirði af snjósleðakeppni og þeir voru svangir og ætluðu að stoppa á Dalvík og fá sér pylsu en það var dýrasta pylsa í heimi. Löggann stoppaði Sigga fyrir of hraðan akstur inn í bæinn og það kostaði hann 25 þúsund kall! Oft hefur þessi saga verið sögð. Viktor rifjaði hana upp með afa sínum á súkrahúsinu um s.l. jól og Siggi hló mikið og mundi þetta vel.

Já, Hrefna og fjölskylda eiga góðar minningar um góðan eiginmann, pabba og afa. Þau tala um stuðning hans og áhuga á fjölskyldunni, einlæga vináttu hans og elsku til afkomenda sinna. Hann var þeim öllum stoð og stytta og ætíð var Siggi boðinn og búinn að hjálpa öllum skilyrðislaust.

Hann var réttsýnn og ákveðinn, virtur af þeim sem unnu með honum og voru í samstarfi við hann. Hann var drífandi og allt stóð sem stafur á bók. Siggi var stundvís og árrisul A-týpa. Hann var fljótur að taka ákvarðanir og gat stundum hlaupið á sig en kunni að biðjast afsökunar.

Nokkrar kveðjur hafa borist frá fjarstöddum og mun ég flytja þær síðar í athöfninni.

Það hlýtur að hafa verið Sigurði mikið áfall að verða svo heftur sem raun bar vitni eftir heilablæðinguna, en hann naut elsku og umhyggju barna sinna og barnabarna og ekki munaði nú lítið um elsku og umhyggu Hrefnu sem stóð sem hetja honum við hlið til hinstu stundar.

Guð blessi þá elsku alla.

Í fyrra fór Sigurður til Ísafjarðar og skynjaði að það yrði hans hinsta heimsókn. Hann talaði ætíð um að fara „heim“ til Ísafjarðar.

Heim!

Hvar eigum við heima? Hvar eru heimkynni okkar þegar dýpst er rýnt?

Páll postuli ritaði trúsystkinum sínum í Filippí sem er í Grikklandi, innst í Eyjahafi, en þar bjó lítill hópur kristins fólks sem átti undir högg að sækja á marga lund. Filippíbréfið hefur verið kallað „bréf gleðinnar“. Hann skrifaði það í fangelsi þar sem hann sat vegna trúar sinnar. Síðar varð hann píslarvottur í Róm. Hann þakkar vinafólki sínu í Filippí fyrir umhyggju þeirra og gjafir, hughreysti þau og segir m.a.:

„En föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.“ (Fil. 3.20-21)

Trúin bendir okkur upp til Krists, sem sigraði dauðann og alla sjúkdóma og fötlun, með upprisu sinni. Kristur ruddi veg og opnaði leið, byggði nýjan veg, yfir hæstu hindranir lífsins og upp úr dýpstu dölum örvæntingar og vonleysis.

Hann bíður okkar „heima“ og mun fagna komu okkar í fyllingu tímans.

Guð blessi minningu Sigurðar Oddssonar og Guð varðveiti þig á lífsins vegi. Amen.

Kveðjur:

Margir minnast hans hér í dag og svo hafa einnig borist kveðjur frá fjarstöddum ættingjum og vinum, frá Sigga Odds, yngri sem er Frakklandi og Rúnu Odds systur hans sem er í Danmörku, og frá Guðmundi mági hans og eiginkonu sem eru á Spáni.

og á blaði. . .

Innilegar samúðarkveðjur

– frá Sverri Jóhannessyni, skólabróður og vinnufélaga til nokkurra ára,

– frá Grími Erni Grímssyni frá Kópaskeri,

– frá Ásthildio og Rafni Helgasyni, Stokkahlöðum og

– frá Bjarna og Elsu á Akureyri sem ekki áttu heimangengt vegna veikinda.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.