Örn Bárður Jónsson
Minningarorð

+Gunnar I. Guðjónsson
1941-2022
Myndlistarmaður og grásleppukarl m.m.
Útför (bálför) frá Neskirkju,
fimmtudaginn 28. apríl 2022 kl. 15
Ritningarlestrar eru neðanmáls en eru ekki á upptökunni.
„Allt er sístritandi,
enginn maður fær því með orðum lýst,
augað verður aldrei satt af að sjá
og eyrað verður aldrei mett af að heyra.“ (Préd. 1.8)
Hvað sérðu og heyrir? Veistu að hvergi í veröldinni nema hér á jörðu heyrast hljóð. Hljóð þarf titrandi agnir til að berast og í geimnum er algjört tómarúm og því ekkert hljóð. En hér hljómar náttúran og tónlist berst til okkar og við heyrum flest okkar mannsins mál.
Svo er það sjónin. Við sjáum vegna þess að við búum í veröld ljóss og lita. Víða í geimnum eru svarthol og þar er ekkert að sjá.
Hvernig sérðu veröldina, umhverfi þitt?
Gunnar sá allt með sínum næmu augum. Hann skynjaði umhverfi sitt og var mjög tengdur því. Hann var náttúrubarn, hafði yndi af dýrum, hlustaði eftir hljóðum þeirra, fylgdist með atferli þeirra og naut vináttu við dýrin. Ólst upp hér við Ægisíðuna, lék sér í fjörunni sem strákur og fór ungur með Birni bróður sínum á grásleppu við Ægisíðu og síðar gerði hann út sjálfur á trillunni sinni Birtu.
Hann var flinkur að selja fiskinn eða skipta honum fyrir eitthvað annað. Ég fæ sjálfur vatn í munninn af tilhugsuninni um signa grásleppu. Þegar Gunnar stóð og seldi signa grásleppu hrópaði hann: „konfektgrásleppa“. Hann bjó til þetta orð sem hentaði fyrir fisk sem var kannski ögn meira sigin. Hann var orðheppinn og skemmtilegur.
Gunnar var gleðigjafi, brosmildur, sagði margar meinlausar sögur af sjálfum sér og öðru fólki af mikilli innlifun. Ég hef ætíð farið sparlega með orðið lífskúnstner en það orð get ég vel tekið mér í munn um Gunnar. Hann var náttúrubarn, listmálari og veiðimaður lungann úr ævi sinni.
„Augað verður aldrei satt af að sjá“. En augun allra sjá aldrei nákvæmlega það sama. Gunnar sá veröldina sínum augum og hafði næmt lita- og formskin. Hann tók vel eftir hlutunum.
Gunnar Ingibergur Guðjónsson hét hann fullu nafni og fæddist að Bjarnastöðum í Grímsstaðaholti 5. september 1941.
Foreldrar hans voru hjónin Guðjón Bjarnason, f. 28. ágúst 1888, d. 16. ágúst 1951, útvegsbóndi á Bjarnastöðum og Guðrún Valgerður Guðjónsdóttir, f. 24. júní 1896, d. 22. janúar 1988, húsmóðir og hænsnabóndi á Ægisíðu.
Systkini Gunnars voru:
Björn, f. 11. nóvember 1921, d. 2008, trilluútgerðarmaður við Ægisíðu,
Þorbjörg, f. 11. apríl 1923, d. 2017, húsmóðir og garðyrkjukona við gróðrarstöðina Grænuhlíð og
Bjarni, f. 17. ágúst 1927, barþjónn á Hótel Flugleiðum, d. 2015.
Gunnar var á 10. ári er faðir hans lést og því var hann mikið með Þorbjörgu systur sinni sem tók hann undir sinn verndarvæng en hún var 18 ára er Gunnar fæddist. Hún var honum ætíð hjálpleg.
Börn Gunnars eru:
Ólöf, f. 28. desember 1968,
Hlynur, f. 23. apríl 1973,
Ásdís Birta, f. 13. maí 1978,
Dagmar Evelyn, f. 31. mars 1986,
Alexandra Aníta, f. 20. desember 1988 og
Erik Bjarni, f. 21. júní 1991.
Gunnar skilur eftir sig stóran hóp afa- og langafabarna. Hann var afar stoltur af öllum sínum afkomendum.
Hann var kvennaljómi og átti margar kærustur um ævina og eignaðist 6 börn með 4 konum. Börnin brostu til mín undirleit þegar kom að þessu á upplýsingarfundi sem ég átti með þeim. Ég sagði þeim að eitt sinn hefði ég jarðsungið mann sem eignaðist 5 börn með 5 konum og sagðist hafa sagt í útför hans að hann hafi verið eins og vitur hagfræðingur sem setti ekki öll eggin sín í sömu körfu. Málið var leyst. Lífið er oft skemmtilegt einmitt í sínum bægslagangi og óþarfi að hneykslast á ástinni sem fer sínar leiðir í mannlífinu.
Margs er að minnast. Gunnar hafði auga fyrir fögrum hlutum og gjarnan antík. Hann sá notagildi í öllu. Hann var gjafmildur og sagði oft: „Aðrir hafa meira not fyrir þetta en ég“. Hann tók eitt sinn af sér skóna og gaf náunga nokkrum en fór sjálfur heim í rifnum skóræflum hans. Gunnar gaf oft til þeirra sem minna mega sín þrátt fyrir að oft hafi lítið verið í veskinu. Hann gat verið svona impúlsífur. Ef verðrið var leiðinlegt þá hélt hann sig heima og slakaði á með góða bók.
Hann fór víða. Þekkti landið sitt vel og var fróður um Ísland. Hann las alla tíð mikið og hafði áhuga á heimspeki og ein af hans uppáhdsbókum bókum var Bókin um veginn efti Lao Tse sem er yfir tvö þúsund ára gömul. Hann var sögumaður og sagði fólki sögur sem hann kallaði,Vesselsögur. Þær voru skáldaðar og tóku breytingum í hvert sinn sem hann dró þær fram.
Hann dvaldi oft í Grafningnum á skika sem hann átti í landi Króks við Þingvallavatn sem heitir, Hónef. Hann keypti smáhýsi sem var prímitíft og rafmagnslaust en hann gat eldað þar og sofið og notið tilverunnar. Hann átti dúfur mestan part ævi sinnar og eitt sinn kom hann með skrautdúfu frá útlöndum og faldi hana við brjóst sér.
Í sveitinni vissi hann að tófan hafði áhuga á dúfum og gætti þess að tófan kæmist ekki of nálægt. Hann stúderaði dýrin, vissi að tófan markaði sér óðal með því að míga á vissum stöðum og það gerði Gunnar á sínu landi og það virkaði á tófuna sem kom ekki nema að mörkum óðals Gunnars. Og þar sáu hún og krummi um uppvaskið fyrir hann en Gunnar lagði diskana með afgöngum niður þar og fékk þá hreina að morgni. Gunnar var hestamaður og vildi eiga fallega hesta og naut þeirra með dætrum sínum.
Þingvallavatn er rómuð náttúruperla og ekki spillti það ánægju Gunnars að vera þar á veiðum en önnur ættin hans á rætur á nokkrum stöðum í kringum vatnið. Hann las vatnið svo vel. Að veiða í vatninu var honum nautn. Hann dró margan vænan fiskinn þar og eldaði í Hónefi og naut þess að gefa fólki að borða. Stundum þegar hann fór í bæinn hafði hann með sér væna fiska og lagði þá stundum inn á góðum veitingastað og fékk að borða út á aflann. Fiskurinn var hans skiptimynt en hann gaf líka oft vinum í soðið.
En þrátt fyrir allt frelsið og furðulegheitin hélt hann í hefðir. Hann hafði gaman af afmælum og færði börnunum gjafir af því tilefni og svo einnig á degi Valentínusar. Á gamlárskvöldi vildi hann hafa alla saman. Á páskum kom hann með páskaliljur og hýacintur á jólum. Hann elskaði góðan mat, heimalagaðan. Hann drakk ekki kaffi einn en fór á kaffihús til að hitta fólk og það var einmitt á kaffihúsi sem ég kynntist honum fyrir aldamót. Við spjölluðum oft saman um hitt og þetta.
Hann hafði komið víða við. Var í Barcelona um tíma og líka í Hollandi, heimsótti England og fleiri lönd og kom til Dóminíska lýðveldisins í Karabíska hafinu.
Hann fór sínar eigin leiðir í lífinu og svo var hann trendsetter sem hafði sinn stíl. Þið munið eflaust eftir því að hann gekk oft í gúmmískóm og ullarsokkum en þegar einhverjir uppar fóru að herma eftir honum þá hætti hann og skipti um stíl. Hann var oft á undan öðrum og var því sá sem mótaði tízkuna.
Hann málaði víða úti í náttúrunni en var á mismunandi tímum með vinnustofu í Bolholti, Tryggvagötu, á Arnarstapa og í Svíþóð og þar kunni hann svo sannarlega að meta sumrin og eplatrén.
Hann kynnist fyrst málaralist þegar hann starfaði í gamla Málaranum í Bankastræti á unglingsárum sínum. Þar kynntist hann flestum af starfandi listamönnum þess tíma eins og Kjarval, Gunnlaugi Blöndal, Gunnlaugi Scheving og fleirum. Hjá þeim hlaut hann leiðsögn og vináttu, dýrmætt veganesti fyrir eigin myndlistarferil.
Um tíma starfaði Gunnar við Þjóðleikhúsið á árum 1964-1971 sem sviðsmaður og við önnur listræn störf. Hann talaði hressilega við alla sem hann vann með og veitti þeim stuðning.
Gunnar stundaði nám í og vann að myndlist bæði hér heima og erlendis. Hann lærði kúnstina á Spáni við Escuela Massana Barcelona og útskrifaðist þaðan 1975. Eftir heimkomuna frá Spáni sama ár hélt hann stóra sýningu á verkum sínum á Kjarvalsstöðum, 84 verk, og seldi þau öll. Þetta var hans fyrsta málverkasýning af ótal mörgum sem hann hélt um sína ævi, þar á meðal sýningu í boði Menningarstofnunar Bandaríkjanna 1981. Myndir Gunnars hafa dreifst víða um lönd.
Hann var eftirherma og er sagður hafa náð að stæla Stefán heitinn frá Möðrudal af mikilli snilld, en þeir voru vinir. Hann hafði svo gaman af Spaugstofunni að hann hreinlega grét af hlátri yfir bestu atriðunum sem voru ekki fá.
Í lífinu skiptast oft á hlátur og grátur. Seinustu árin voru honum erfið, því hann fékk heilablóðfall fyrir nokkrum árum. Hann hafði oft notað orð sem Kjarval var tamt á tungu: „Lífið er terpentína“ og það vísaði til þess að líf listamannsins væri basl. Lífið hans var terpentína hin síðari misserin og svo fjaraði það út.
Í bók Prédikarans sem fyrr var vitnað til segir um dauðann: „moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var og andinn til Guðs sem gaf hann.“ (Préd. 12.7)
Þetta er lífsins saga. Við erum af jörðu og hverfum þangað aftur en Guð geymir lífsandann.
Útför er kveðju- og sorgarstund, en hún er einnig í þessu tilfelli og flestra annarra látinna, þakkarhátíð fyrir það líf sem lifað var af ástríðu og gleði.
Blessuð sé minnin Gunnars Ingibergs Guðjónssonar og Guð blessi þig sem ert á lífsveginum og átt enn anda Guðs í vitum þér.
Amen.
– – –
Kveðja frá Inger, fv. eiginkonu og foreldrum hennar, Anítu og Erik Beckström og vinum í Svíþjóð.
Ekið verður með kistuna eftir Ægisíðunni að athöfn lokinni, Gunnari til heiðurs.
Boðið verður til erfidrykkju hér í safnaðarheimilinu strax að athöfn lokinni . . .
Ritningarlestrar í athöfninni:
Prédikarinn 1.1-11
Davíðssálmur 126.5
Guðspjall: Jóh. 14.1-6
Sálmaskráin:

