+Guðrún Helga Agnarsdóttir

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Guðrún Helga Agnarsdóttir

1948-2022

Vatnsstíg 19, Reykjavík

Útför (bálför) frá

Dómkirkjunni í Reykjavík

fimmtudaginn 28. apríl 2022, kl. 13

Ritningarlestrar eru neðanmáls en ekki á hljóðupptökunni.S

Sálmaskráin er neðanmáls.

Upptakan er á næstu smellu:

Ræðan:

„Á hendur fel þú honum, sem himna stýrir borg“ var sungið hér í dag, sálmurinn góði, sem þýddur var af séra Birni í Laufási í Eyjafirði, langalangafa Guðrúnar Helgu Agnarsdóttur. Hann á 20 sálma í núverandi sálmabók þjóðkirkjunnar. Fleiri kennimenn eru úr hennar ætt en hún nam þó ekki guðfræði heldur mun yngri háskólagrein, þjóðfélagsfræði, en þar á bæ er einkum fengist við; að skoða þjóðfélagið, félagslegar breytur, félagslegar orsakir og afleiðingar mannlegrar hegðunar. Margt í guðfræði skarast þó á við ýmislegt í þjóðfélagsfræði og öfugt.

Við eigum hið fagra íslenska orðtak: „Mennt er máttur“ sem hljómar svo vel á okkar ástkæra ylhýra, en ef maður snýr því yfir á ensku og þá með orðunum: „Education is Power“ þá gætir agnar af uggi í brjósti við að heyra orðið Power eða vald, því valdið er svo vandmeðfarið eins og dæmin sanna í samtíð okkar bæði hér heima og á erlendri grund. Íslenskan stuðlar þetta svo fagurlega og nær mun betri blæbrigðum en enskan, þykir mér.

Menntun og rýni í allt milli himins og jarðar – og reynda líka í það sem tilheyrir transcendensinum eða handanverunni – er mikilvægt að iðkað sé í sérhverju þjóðfélagi svo að það haldi góðri heilsu og fólk geti lifað í friði og sátt. Menntirnar bæta hver aðra upp.

Einn frægasti þjóðfélagsfræðingur sögunnar er Max Weber og hann tengdi trú við hagfræði og þjóðfélagsfræði með útgáfu rits síns, Die Protestantische Ethik und Der Geist Des Kapitalismus – Siðfræði mótmælenda og andi kapitalismans, sem kom út árið 1905.

Og þar hitti hann svo sannarlega naglann á höfuðið, því vinnusiðfræði mótmælenda, hefur mótað margar þjóðir. Í kjölfar kenninga hans hefur verið á það bent, að þær þjóðir sem jafnan mælast með hæstu gildin á lífsgæðaskalanum þegar litið er til mannréttinda, efnahags, afkomu, heilbrigðisþjónustu, menntakerfis, langlífis o.s.frv. eru einmitt lönd Mótmælenda. Þau sem hæst hafa skorað í heiminum á liðnum árum eru Norðurlöndin. Áhrifaþættir eru margir svo sem lýðræði, virkni stjórnmálaflokka og launþegahreyfinga, listir og menning, menntakerfi, heilbrigðisþjónusta, lútherskar þjóðkirkjur af meiði Mótmælenda í öllum þessum löndum og svo almenn viðleitni fólks til að vera ábyrgir þjóðfélagsþegnar með því að sýna ráðdeild og ábyrgð. Einn faktor er þó enn ónefndur og hann er lýðskólahefðin sem rakin er til danska prestsins, Grundtvigs sem starfaði mest á 19. öldinni (1783-1872), en lýðskólahefðin kenndi þessum þjóðum samræðulist og næma hlustun til að skilja þjóðfélagið og leysa úr verkefnum þess og þörfum. Sú list hefur t.d. gert það mögulegt í sumum þessara landa að búa við minnihlutastjórn. Það þarf þjóðfélagslegan þroska til slíks.

Lýðskólahefðin hafði því miður ekki jafn mikil áhrif á Íslandi eins og meðal frændþjóða okkar og leiða má líkum að því að þar liggi hundurinn einmitt grafinn, þegar horft er til samærðuhefðar og málflutnings í áranna rás, í húsinu sem blasa mun við okkur þegar við yfirgefum Dómkirkjuna að lokinni athöfn.

Kristin trú hefur mótað fjölda þjóða um aldir og allur heimurinn horfir í raun til hinna kristnu Vesturlanda í leit að fyrirmyndum og viðmiðum á sviði stjórnmála, mannréttinda og þjóðfélagsuppbyggingar. En hvað verður um þessi góðu, vestrænu þjóðfélög þegar trúin verður ekki lengur talin til mikilvægra þátta, til að stuðla að heilbrigðu þjóðfélagi og allur almenningur verður gjörsamlega horfinn inn í farsímaskjáinn og guðinn sem þar ræður og öllu stýrir?

Margar eru spurningar lífsins og víst er að okkur endist ekki ævin til að skilja allt.

Í bók Prédikarans (2.12-13) í GT eru margir skemmtilegir og fróðlegir textar, t.d. þessi:

„Ég tók því að virða fyrir mér speki og flónsku og heimsku . . . Þá sá ég að spekin ber af heimskunni eins og ljósið ber af myrkrinu.“

Guðrún Helga Agnarsdóttir fæddist í Reykjavík 15.ágúst 1948. Hún lést 10. apríl 2022 á Landspítalanum.

Foreldrar Guðrúnar Helgu voru Anna Kristjana Kristinsdóttir, f. 1927, d. 1984 og Agnar Tryggvason, f. 1919, d. 2012.

Systkini Guðrúnar Helgu sammæðra eru: Unnur, f. 1963, Kristinn, f. 1964 og Jóhann, f. 1965.

Systkini Guðrúnar Helgu samfeðra eru:

Anna, f. 1949, Björn, f. 1951, Sigríður, f. 1952 og Tryggvi, f. 1954.

GH ólst upp hjá móður sinni og ömmu og afa á Vesturgötunni, Guðrúnu Ottadóttur og Kristni Péturssyni og átti hamingjusama bernsku. Að alast upp hjá ömmu og afa, svona almennt talað, er án efa ígildi a.m.k. einnar háskólagráðu.

Helga móðursystir GH var henni og fjölskyldunni mjög kær og kölluð dætur GH hana ætíð ömmu Helgu. Mikill vinskapur var með GH og börnum Helgu alla tíð. 

Föður sínum kynntist hún ekki fyrr en hún var kominn í MR en hann hafði m.a. dvalið langdvölum við störf erlendis. Upp frá því óx samband þeirra feðgina og sambandið við systkini hennar föðurmegin og fór ætíð vel á með þeim öllum. GH hafði gott samband við ömmu sína í Laufási, frú Önnu eins og hún var jafnan nefnd og Laufásfólkið allt var henni afar kært.

Móðir hennar var ein um árabil en giftist seinna Björgvini Gíslasyni, eignaðist með honum 3 börn sem glöddu Guðrúnu Helgu mjög og lýsti hún þeirri stund þegar Unnur, sú elsta fæddist, sem einni af gleðilegri stundum í æsku sinni. Sú gleði óx enn að vexti þegar þessi systkini eignuðust sín börn sem henni þótti einstaklega vænt um og var stolt af.

Guðrún Helga giftist Jóni Kristjánssyni 21.12.1974, f. 24.9.1944. Foreldrar Jóns voru Ingunn Jónsdóttir Gíslason, f. 1917, d. 2005 og Kristján G. Gíslason, f. 1909, d. 1993.

Samband GH við tengdafólk sitt var ætíð afar gott og henni þótti mjög vænt um fólkið hans Jóns.

Þau bjuggu lengst af að Sóleyjargötu 3, í fjölskylduhúsinu, en fluttu nýlega að Vatnsstíg 19.

Ég hitti þau Jón og Guðrúnu skömmu eftir að þau fluttu inn á hæðina fyrir ofan mig og þau sögðust vera ljómandi ánægð á staðnum. Ég nefndi að ekki spillti nú útsýnið yfir Sundin blá og þá varð Guðrún fljót að bregðast við: Já, útsýnið er fagurt – og gott að sjá Engey. Ég er nefnilega ættuð þaðan, sagði húm með stolti. En dvölin á Vatnsstígnum var alltof stutt hjá henni. „Enginn ræður sínum næturstað“, segir í málshætti einum.

Dætur Guðrúnar Helgu og Jóns eru:

1) Ingunn, f. 1976, tónlistarkennari. Eiginmaður hennar er Árni Stefán Leifsson, læknir. Dætur þeirra eru Guðrún Helga, f. 2007 og Ingibjörg, f. 2009.

2) Anna Helga, f. 1979, tölfræðingur. Eiginmaður hennar er Baldur Héðinsson, stærðfræðingur. Börn þeirra eru Jón Styrmir, f. 2018 og Hildur Salka, f. 2021.

Fjölskyldan tók fram að GH hafi verið mjög ánægð með tengdasyni sína og þeirra fjölskyldur.

Hún gekk í Melaskóla, Hagaskóla, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1969 og BA prófi í félagsvísindum frá Háskóla Íslands 1993. Hún starfaði sem flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands og kenndi við Kvennaskólann í Reykjavík. 1994 réðst hún til starfa á skrifstofu Verkfræði- og raunvísindadeildar. Síðustu árin var Guðrún Helga kennslustjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og í því starfi sinnti hún bæði nemendum og kennurum. Hún lét af störfum fyrir aldurs sakir 2018.

Árið 2006 fékk hún viðurkenningu frá HÍ fyrir lofsvert framlag til góðra starfshátta og fyrir stuðning við nemendur sem hún hlúði að „af móðurlegri umhyggju og strangleika.“ Hún hringdi t.a.m. í nemendur sem voru að gefast upp og talaði í þá kjark og von. Hún stuðlaði að góðum anda meðal starfsmanna með sínu hressilega fasi og með sínum góða hug. Hún hafði gott lag á fólki. Hún bar hag nemenda fyrir brjósti og þótti afar vænt um samstarfólk sitt.

Ég spurði ástvini á fyrsta fundi okkar um hana og ekki létu hrósyrðin á sér standa yfir þessari einstöku konu.

Hún er sögð hafa verið glaðleg, lífsglöð, sama á hverju gekk, hressileg, greind, jákvæð og þrautseig.

GH var heimavinnandi með dæturnar fram að fermingu þeirra. Hún var myndarleg húsmóðir og var alltaf til staðar heima fyrir stelpurnar og sumum vinkvenna þeirra var hún sem önnur mamma.

Hún var listakokkur og bakari. Brauðbollurnar hennar voru víðkunnar fyrir gæði og stelpurnar notuðu þær gjarnan sem skiptimynt í Melaskóla og Hagaskóla og líka í MH. Það mátti t.d. láta af hendi bollur í skiptum fyrir lakkrís og fleira nammi.

Hún skutlaði stelpunum í tónlistartíma og ballett, greiddi hár þeirra fyrir hvern tíma og hugsaði fyrir öllum smáatriðum.

Guðrún Helga hafði ríka réttlætiskennd og var einlæg kvenréttindakona og svo var hún sannur vinur vina sinna.

Þau hjónin nutu saman menningarviðburða, fóru oft á tónleika og í leikhús.

Hún gekk í gegnum erfið veikindi hin síðari árin, fékk krabbamein um aldamótin. Hún naut aðstoðar lækna og hjúkrunarfólks á mörgum deildum og var þeim öllum afar þakklát og sama á við um fjölskylduna. Hún mætti oft til vinnu þótt veik væri enda brann hjarta hennar fyrir velferð nemenda og samstarfsfólks.

Hún var mikil amma og börnin voru þeim hjónum miklir gleðigjafar. Henni þótti gaman að fara út fyrir landsteinana og fór ekki svo til útlanda að hún færi ekki í búðir til að kaupa kjóla á ömmustelpurnar. Sú yngsta sem er eins árs á nú þegar sparikjóla fyrir næstu 15 árin, 2-4 kjóla í hverri stærð!

GH var ætíð fín og þegar hún fór í sjúkraþjálfun var hún ætíð í pilsi. Og ekki mátti gleyma varalitnum.

Hún hafði yndi af garðrækt og stundaði hana af áhuga á Sóleyjargötunni, var græn á öllum fingrum, sagði Jón við mig og naut svo hins villta gróðurs í Brekkubæ á Þingvöllum þegar þar var dvalið. Hún hlakkaði ætíð til vorsins, að komast út í garð og róta í moldinni og setti niður lauka s.l. haust sem nú minna á að lífið rís upp og sigrar.

Þau Jón voru einkar elsk að hvort öðru og áttu fagurt samband. Stuðningur Jóns í veikindum hennar er vel metinn af öllum sem til þekkja.

Þau fóru margar ferðir um landið og skoðuðu þá gjarnan kirkjur og svo voru borgarferðir eftirsóttar og London í miklu uppáhaldi. Hún fór gjarnan einu sinni á ári ein til útlanda í hvíldarferð meðan dæturnar voru litlar. Það segir nú eitthvað um fjörið í stelpunum! Ég las á einum vefmiðlinum um daginn ráðleggingar til para og hjóna um að þau ættu að gefa hvort öðru frí af og til!

Saumaklúbburinn var mikilvægur félagsskapur og kærleiksríkt samband var meðal vinkvennanna og fjölskyldna þeirra. Hún kynntist þessum vinkonum sínum í MR og þær hafa haldið hópinn síðan.

Hún var afar ættfróð og stálminnug og mundi allt frá æsku sinni. Hún rifjaði t.a.m. oft upp gestakomur á bernskuheimili sitt.

Margs er að minnast. Ég vitnaði fyrr í ræðunni í Prédikarann í GT en fleygustu orð úr þeirri bók eru orðin um tímann sem hljómsveitin, The Byrds, frá tíma 68-kynslóðarinnar, gerði fleyg, með söng sínum á orðréttum texta Biblíunnar:

„To everything, turn, turn, turn,

there is a season, turn, turn, turn“ eða á íslensku:

„1 Öllu er afmörkuð stund

og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.

2 Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,

að gróðursetja hefur sinn tíma

[. . .]

4 að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,

að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma . . . „

(Préd.3.1-2,4)

Í gamalli þjóðvísu sem hefst á orðunum „Góða veislu gjöra skal“ koma þessi orð fram sem minna á biblíutextann:

Stígum fastar á fjöl

Spörum ei vorn skó

Guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól.

Lífið heldur áfram og enginn ræður sínum næturstað.

Séra Björn Halldórsson í Laufási orti páskasálm sem gott er að rifja upp við útför afkomanda hans:

Sjá, gröfin hefur látið laust

til lífsins aftur herfang sitt,

og grátur snýst í gleðiraust.

Ó, Guð, ég prísa nafnið þitt.

Nú yfir lífs og liðnum mér

skal ljóma sæl og eilíf von.

Þú vekur mig, þess vís ég er,

fyrst vaktir upp af gröf þinn son.

Á hann í trúnni horfi ég,

og himneskt ljós í myrkri skín,

með honum geng ég grafarveg

sem götu lífsins heim til þín.

(Sb 154)

Við kveðjum Guðrúnu Helgu Agnarsdóttur með djúpri virðingu og þökk og felum hana „honum, sem himna stýrir borg“.

Mættum við öll vera hinum sama falin þá lífsdaga sem við eigum eftir, því;

„Hann mun þig miskunn krýna.

Þú mæðist litla hríð.

Þér innan skamms mun skína

úr skýjum sólin blíð.“

Amen.

– – –

Ritningarlestur: Prédikarinn 3.1-15

„Öllu er afmörkuð stund.“

Guðspjall: Markús 16-1-6 Páskaguðspjallið

Kveðjur frá fjarstöddum ættingjum voru fluttar síðar í athöfninni: Kveðjur frá Lilju fv. samstarfskonu, kveðjur frá dóttur Sigríðar Agnarsdóttur, Sigrúnu Páls og Sóleyju dóttur hennar og Aroni sem eru á Jótlandi og brá barnabarni Sigríðar, Tristan Karel Helgasyni sem er í Kaupmannahöfn.

Mynd af sálmaskránni er í vinnslu.

Úr umsöng HÍ 2006 er hún var heiðruð.

„Stúdenta og kennara umgengst hún af móðurlegri umhyggju og strangleika. Alltaf fús að liðsinna þeim en vandar um við þá sem þess þurfa. Hún fylgist vel með stúdentum og ekki síst þeim sem standa höllum fæti, til dæmis vegna sjúkdóma eða annarra erfiðleika. Ekki skirrist hún við að hringja heim til þeirra sem hún veit að hafa misst móðinn og tala í þá kjark og eru mörg dæmi um stúdenta sem Guðrúnu hefur tekist að drífa í próf.

Guðrún hefur mikinn metnað fyrir hönd sinna deilda og Háskólans í heild. Hún hefur vakandi auga með kerfum og verkferlum og er óþreytandi að koma á framfæri ábendingum um hvar mætti bæta eða hagræða. Öll framganga Guðrúnar í starfi einkennist af hreinskiptni, hjartanleika, góðum hug og hressileika í fasi.

Sé starfsmaður heiðraður fyrir störf sín hlýtur það að vera fyrir að gera meira og betur en að sinna skyldu sinni. Guðrún Helga Agnarsdóttir er sannarlega vel að slíkum heiðri komin.“

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.