+Karitas Sölvadóttir Häsler 1926-2022

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Karitas Sölvadóttir Häsler

1926-2022

Útför (bálför) frá Fossvogskirkju

þriðjudaginn 15. mars 2022 kl. 13

Til að hlusta, smelltu á þríhyrninginn hér fyrir neðan. Sálmaskráin er neðanmáls.

Misserum saman höfum við glímt við vágestinn Covid-19, sem herjað hefur á heimsbyggðina. Umhleypingar í veðri hafa reynt á þolrif okkar sem byggjum Ísland og ofan á allt þetta er hafið stríð í miðri Evrópu, innrás gerð í sjálfstætt ríki, Úkraínu.

Á liðinni öld gekk Evrópa í gegnum tvær heimsstyrjaldir og róstur hafa verið víða um heim á liðnum áratugum. Seinni heimsstyrjöldin var Karitas í minni. Herskip sigldu umhverfis Ísland. „Frægasta og mannskæðasta sjóorusta seinni heimsstyrjaldarinnar var háð á Grænlandssundi [í maí 1941 þegar hún var 15 ára]. Þá var sökkt stærstu og frægustu herskipum beggja stríðsaðila, HMS Hood og Bismarck Þjóðverja eftir æsilegan eltingarleik suður Atlantshafið.“

Gríðarlegar sprengingar á báða bóga heyrðust til Vestfjarða og víða um Vesturland og einnig í höfuðborginni. Seinni heimsstyrjöldin var við bæjardyr Íslands og margur sjómaðurinn hlaut vota gröf þegar fiskiskipum var sökkt af kafbátum óvinahers.

En burtséð frá styrjöldum mundi Karitas líka lífsbaráttuna í Aðalvík sem er nú sem fyrr fyrir opnu hafi, nyrst á Íslandi. Það þurfti sterk bein til að lifa af á þeim slóðum áður fyrr og áður en nútíma lyf komu til sögunnar og læknisþjónusta var ekki innan seilingar. Hver dagur var barátta um að lifa af.

Mörg eru þau lífsins stríðin.

Fólkið lifði af landbúnaði og sjósókn, vetur voru harðir og sumrin stundum svo stutt að ekki tókst einu sinni að rækta kartöflur. En svo komu sumrin, með ilm úr grasi og mó, bláum berjabrekkum og sólsetur sem er engu líkt um Jónsmessuna.

Ég kynntist fólki á Ísafirði sem hafði flust úr víkum og fjörðum á norðanverðum Vestfjörðum og seinna kynntist ég einnig fólki af sömu slóðum á Suðurnesjum þegar ég þjónaði þar sem prestur. Þetta var upp til hópa duglegt og myndarlegt fólk.

Og nú er hún Kaja horfin af þessu lífi eftir langa ævi sem undir það síðasta var að hluta til hulin þoku gleymskunnar sem settist að í huga hennar. En ætíð var hún brosmild og falleg sama hver aldurinn var.

Karitas Sölvadóttir Häsler, fæddist í Efri-Miðvík í Aðalvík 23. maí 1926.

Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum 2. mars 2022. 

Foreldrar hennar voru Sölvi Þorbergsson, frá Efri-Miðvík í Aðalvík, f. 20.3.1895, d.11.11.1960, og Sigurlína Guðrún Guðmundsdóttir frá Nesi I, Grunnavík í Jökulfjörðum, f.9.12.1901 – d.24.11.1990. 

Karitas var þriðja í röð sex systkina, elstur var Guðmundur Fertram, f. 24.7. 1922 – d. 21.5.2012, hin eru, Guðrún Margrét, f. 21.7.1923 – d. 29.8.2013, Eiríkur Sigurður Hafsteinn, f. 12.4. 1928 –  d. 11.12.2020 öll látin en eftir lifa: Ásta María, f. 14.7.1930 og Hilmar Rafn, f. 26.12.1936. 

Karitas kynntist Gerald Häsler á Ísafirði, f. 28.9.1929 – d. 25.3.1995 og gengu þau í hjónaband 24.12.1953.  Foreldrar Geralds voru Hans Georg Häsler f. 5.9.1891 – d. 25.01.1971 og Gerthrud Henriette Häsler, f. 24.12.1893 – d. 10.9.1960. 

Eins og þið þekkið væntanlega öll fengu þau hjónin Hans og Gerthrud heldur betur að finna fyrir stríðinu ásamt fleiri Ísfirðingum. En lífið heldur áfram þrátt fyrir mótlæti og erfiðleika.

Fyriri átti Karitas, Sölva f.05.10.1948 maki Inga Árnadóttir f. 10.03.1948. Börn þeirra eru: Ásta, Hildur, og Stefán Örn. Barnabörnin eru 5. Faðir Sölva er Stefán Vilhelmsson f. 25.3.1927.

Börn Kaju og Geralds eru fjögur:  

1) Hans Gerald, f. 07.01.1951, maki Valgerður Sigurðardóttir f. 25.12.1953, dætur þeirra eru: Erna Björk og Inga Hrönn.

Barnabörn þeirra eru 5.  

2) Guðrún Margrét, f. 09.04.1952, börn hennar og fv. eiginmanns, Aðalsteins Guðmundssonar, eru: Gerald og Róbert.  Síðan eignaðist hún dótturina Alexöndru. 

Barbabörnin eru 9. 

3) Hafsteinn, f. 22.06.1953, sambýliskona er Helga Bjarnadóttir, f. 07.12.1959,  börn Hafsteins og Kristínar Guðjónsdóttur, eru: Berglind Dögg, og Guðjón Hafsteinn.

Barnanbörn eru 5.  

4) Ilse f. 17.06.1955, sambýlismaður Haukur Halldórsson, f. 29.05.1948. Dætur Ilse og Gunnars Þórs Ólafssonar, eru: Dagmar Árný, Sissý Harpa, Karítas Sóley. 

Barnabörn eru 5. 

Karitas ólst upp í foreldrahúsum í Efri-Miðvík, fór snemma að heiman en fór öll sumur heim til að hjálpa foreldrum sínum við búskapinn. Hún var mikill dýravinur og kunni lagið á honum Sörla ef hann strauk í stóðið með strokuhestum. Hún var dugleg, ósérhlýfin og gekk í öll störf. Hún var m.a. fanggæsla eins og það var kallað, sá um verbúðina í landi meðan sjómennirnir voru út á miðum, vann að fiskinum, gerði við sjóklæði og sinnti öllum almennum störfum fanggæslunnar. Upp úr tvítugu starfaði hjá Vinnufatagerð Íslands í Reykjavík þar til hún fór vestur aftur 1948, kynntist Gerald og hóf búskap með honum á Ísafirði.

Þau ráku saman greiðasölu á Ísafirði og stofnuðu síðar hótel Mánakaffi 1961 og ráku uns þau fluttu til Reykjavíkur og festu kaup á City Hótel sem þau ráku til 1981. Áður en Mánakaffi opnaði var Hjálpræðisherinn í Mánagötunni helsti gististaður ferðamanna og þeirra er áttu erindi á Ísafjörð og ekki gistu hjá ættingjum eða vinum. Mánakaffi stækkaði og þróaðist og þar byrjuðu börn þeirra hjóna að vinna kornung. Þau munda að hafa staðið á ölkössum til að ná upp í vaskinn við uppvaskið. Og svo kom ísvélin sem gerði bæjarbúum kleyft að fá ís úr vél. Í fyrstu var ísinn keyptur að sunnar en síðar framleiddu þau sjálf ísinn. Fólk spókaði sig á Hafnarstrætinu með ís í formi á sóskinsdögum. Ég man eftir að hafa borðað á Mánakaffi sem unglingur þegar foreldrar mínur skruppu af bæ. Þá lifði maður eins og kóngur.

Þau hjónin unnu alla tíð mikið. Þau bjuggu á Hlíðarveginum og hún var heimavinnandi en sinnti einnig störfum á veitinga- og danshúsinu Uppsölum en Gerald var rafvirki á daginn og svo slægði hann fisk á kvöldin í Íshúsfélaginu. Börnin muna eftir að hafa farið til pabba með nesti á kvöldin.

Þau fluttu til Reykjavíkur 1971, keyptu City Hótel og seldu Mánakaffi 1973.

Árið 1983 fóru þau til Þýskalands, þaðan sem Gerald var ættaður, ferðuðust í hálft ár á húsbíl um landið uns þau settust að í Bæjaralandi. Þar áttu þau fallegt heimili, voru gestrisin og höfðingjar heim að sækja. Vinir komu í heimsóknir og ferðuðust með þeim um Þýskaland og nágranna lönd. Þau ferðuðust mikið alla tíð.

Eftir andlát Geralds bjó hún áfram í Þýskalandi til ársins 2005 er hún flutti aftur heim og bjó á Skúlagötu 20 þar til hún flutti á Droplaugarstaði 2013 þar sem hún lést.

Þau stunduðu alla tíð menningarlíf. Hún hafi ágæta söngrödd og svo voru þau stuðningsaðilar Íslensku óperunnar um margra ára skeið. Þau ferðuðust mikið. Gerald var um árabil í stjórn Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda.

Þau hjónin voru dugnaðarforkar sem lögðu hart að sér en kunnu um leið að njóta lífsins. Þau áttu sumarhús í Dagverðardal, rétt fyrir neðan fossinn og nutu þess að vera þar. Þá áttu þau bústað í Grímsnesinu við Álftavatn frá 1973.

Börnin eiga margar góðar minningar um samheldni í amstri daganna. Allir hjálpuðust að. Þau muna að þegar jólin gengu í garð las pabbi um borðsiði úr matreiðslubók Helgu Sigurðardóttur. Hótelfólkið þurfti auðvitrað að kunna mannasiði!

Mánakaffi var vinsæll staður sem þjónaði mörgum. Þar voru kostgangarar fastagestir, klúbbarnir, Rótarý, Lions og fleiri héldu fundi þar og nutu veitinga, Frímúrarar fengu sendan mat á háaloftið í nýja Landsbankanum og svo mætti lengi telja. En að baki öllu þessu var gríðarleg vinna, ótal handtök bæði hinna yngri og eldri. Öll unnu þau hörðum höndum.

Við kveðjum Karitas hér í Fossvogskirkju. Kirkjusalir eru jafnan kallaðir skip, kirkjuskip. Kirkjan er táknmynd arkarinnar sem bjargaði Nóa og hans fólki ásamt dýrum frá flóðinu sem ógnaði mannlífinu. Ógnir mannlífsins eru margar og þá er gott að eiga skipsrúm og vera munstraður um borð í kirkjuskipið, sem flytur okkur yfir lífshafið og ratar í hina einu og sönnu höfn í Aðalvík himinsins. Þar verður lending góð og móttökur blíðar hjá Honum sem er uppspretta lífsins og kærleikans.

Guð blessi minningu Karitasar Sölvadóttur Häsler og góður Guð blessi þig sem enn ert á lífshafinu. Amen.

Eftir Blessun – (ekki á upptöku):

– Kveðjur hafa borist frá barnabörnum Kaju í Þýskalandi, Dagmar, Sissý og fjölskyldum þeirra.

– Kær kveðja er hér flutt frá Hildi Bæringsdóttur sem átti bókað far til útlanda og gat því ekki verið með frænd-og venslafólki sínu hér í dag.

– Bálför: Kistan verður ekki borin út en við kveðjum í kórnum og göngum réttsælis um kistuna og signum yfir höfðalagið sem er nær kórþrepum.

– Nánasta fjölskyldan mun taka á móti samúðaróskum ykkar í forkirkjunni að athöfn lokinni og væntir þess að sem flest ykkar hafið tíma til að þiggja veitingar í sal Golfklúbbs Garðabæjar- og Kópavogs, við Vífiilsstaði.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.