Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Þorsteinn Gíslason

1932-2022
Útför frá Grafarvogskirkju
fimmtudaginn 17. febrúar 2022 kl. 13
Jarðsett í Gufuneskirkjugarði
Þú getur lesið ræðuna hér fyrir neðan og einnig hlustað á hljóðupptökuna.
Sálmaskráin er fyrir neðan ræðutextann.
„Föðurland vort hálft er hafið“. Þau eru svo sönn, upphafsorðin í 2. versi sálmsins, sem sunginn verður eftir minningarorðin.
Við, Íslendingar, erum órjúfanlega tengdir hafinu, sem er eins og framlenging landsins. Áður fyrr stunduðu erlend skip veiðar alveg uppí harðaland. Árið 1904 var talið að 180 erlendir togarar og þar af 150 breskir hafi verið á Íslandsmiðum. Árið 1905 eignuðust Íslendingar sinn fyrsta togara og níu árum seinna voru þeir orðnir 20 talsins.
Landhelgin var færð út í áföngum, fyrst í 4 mílur árið 1952, 12 mílur 1958 og á 8. áratug liðinnar aldar í 50 mílur og svo 200.
„Föðurland vort hálft er hafið“.
Þorsteinn Gíslason fæddist árið 1932 á kreppuárunum og svo kom seinni heimsstyrjöldin sem lauk 1945. Árið 1947, þá 15 ára, var hann byrjaður á sjó. Margur sjómaðurinn á Íslandi á svipaða sögu: fór á sjóinn eftir fermingu og var þar með kominn í fullorðinna-manna-tölu. Hann hafði komið til Reykjavíkur með skipi sem unglingur en aldrei stigið þar á land en hafði þá þegar komið til Hamborgar og þegar næstelsti sonurinn var 6 ára fór hann með pabba í siglingu til Englands!
Þorsteinn Gíslason, matsveinn, fæddist 19. nóvember 1932 á Þorfinnsstöðum í Önundarfirði. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 6. febrúar 2022.
Foreldrar Þorsteins voru Guðrún Jónsdóttir f. 24. mars 1900, d. 3. júlí 1985, og Gísli Þorsteinsson f. 29. september 1895, d. 18. desember 1961.
Þegar Þorsteinn var 6 ára fór hann í fóstur til Bernharðs Guðmundssonar á Kirkjubóli í Valþjófsdal og mágkonu hans, Kristínar Eyjólfsdóttur og var þar á bæ þar til hann fór á Flateyri á unglingsárum.
Systkini Þorsteins eru:
Ísleifur (látinn),
Magnús (látinn),
Bjarni (látinn),
Guðbjörg (látin),
Gunnar (látinn), sem öll eru látin,
en eftir lifa Sólveig og Guðmundur Helgi.
Þorsteinn kvæntist 5. júní 1954, Borgrúnu Öldu Sigurðardóttur, frá Eskifirði, f. 25 apríl 1935, d. 4. mars 2012, þau skildu.
Börn þeirra:
1) Sigurður, f. 18. januar 1956, d. 26. október 1995, í snjóflóðinu á Flateyri, maki Sigrún Magnúsdóttir, f. 11. desember 1958.
Börn þeirra:
a) Þorsteinn, sem líka lést í snjóflóðinu,
b) Berglind Ósk,
c) Atli Már, maki Margrét Björnsdóttir, og
d) Borgrún Alda.
2) Ingimar, f. 8. maí 1957, fyrrverandi maki Anna María Ríkharðsdóttir, sonur þeirra
a) Heimir, sambýliskona Sunna Björk Skarphéðinsdóttir.
3) Kristín, f. 27. nóvember 1961.
4) Steinar, f. 7. október 1964.
Langafabörn Þorsteins eru, Sigurður Arnar, Rúrik Freyr, Sóley, Þorsteinn Úlfur og Loki.
Sambýliskona Þorsteins var Ólafía Guðrún Hagalínsdóttir f. 20. ágúst 1931, hófu þau sambúð 1982 á Flateyri, og bjuggu þar til 1995 en eftir snjóflóðið fluttu þau til Reykjavíkur.
Börn Ólafíu eru:
1) Hilmar Guðmundsson, maki Sigríður Brynja Sigurðardóttir. Börn þeirra eru:
a) Árný Hlín, maki Þorvarður Jóhann Jónsson, börn þeirra eru Hlín, Kolbrún Harpa og Hilmar.
b) Arndís Anna, maki Már Wardum, börn þeirra eru Viktor, Arnar Már og Brynja Margrét.
2) Eyrún Þóra Guðmundsdóttir, maki Matthías Berg Stefánsson. Börn þeirra eru:
a) Guðmunda Björk, maki Garðar Rafn Eyjólfsson, börn þeirra eru Þóra Dís og Eyjólfur Rafn.
b) Sigríður Guðný, maki Tryggvi Ölver Tryggvason, börn þeirra eru Matthías Már og Sara Björt.
Þorsteinn átti stóra fjölskyldu og var öllum afar kær, sem faðir, afi, stjúpfaðir, stjúpafi, frændi og vinur.
29. janúar 1955 strandaði togarinn Egill rauði við Grænuhlíð, yst og nyrst við Ísafjarðardjúp. Þorsteinn var veikur og komst ekki í túrinn en 5 skipverjar fórust en öðrum var bjargað fyrir ótrúleg afrek björgunarmanna, sem flestir voru sjómenn, óþjálfaðir til björgunarstarfa, því á þessum tíma voru ekki til neinar björgunarsveitir eins og við þekkjum þær í dag. Sjóslys voru algeng á þessum árum og mannfórnir miklar í sjávarútveginum. Það hefur sem betur fer breyst með betri skipum, tækni og aðbúnaði. Ég heyrði um strandið í bernsku og man eftir að um það var rætt, en ég var á 6. ári þegar það átti sér stað. Ég fann á netinu viðtal við nágranna minn á Ísafirði sem þá var rúmlega tvítugur og tók þátt í björguninni. Ég set hlekk á viðtalið fyrir aftan ræðuna sem þið getið skoðað síðar og hlustað. Það er fróðlegt og gefur innsýní lífið fyrir tæpum 70 árum.
Þorsteinn og Borgrún Alda fluttu frá Eskifirði til Reykjavíkur 1961 er hann fékk pláss á Narfa sem Guðmundur Jörundsson gerði út.
Árið 1976 flutti hann til Flateyrar þegar togarinn Gyllir kom nýr til hafnar og varð fyrst kokkur þar. Hann bjó að Unnarstíg 6 en það hús varð fyrir snjóflóðinu skæða að hluta til og varð fyrir smá skemmdum en enginn slasaðist heima. Þetta var árið 1995 og tók Þorsteinn m.a. þátt í leit að fólki. Það var erfið lífsreynsla.
Í flóðinu fórst Sigurður sonur hans og sonarsonur hans og nafni, Þorsteinn.
Flóðið hafði mikil áhrif á fólkið fyrir vestan og landið allt varð slegið yfir tveim snjóflóðum á Vestfjörðum á sama árinu. Segja má að líf Þorsteins hafi breyst í það sem var fyrir flóð og eftir flóð. Hann varð meyrari eftir þessa erfiðu lífsreynslu og margt breyttist í sálarlífi hans. Blessuð sé minnig þeirra sem fórust.
Þorsteinn hætti á sjó og sá um mötuneytið hjá Hjálmi á Flateyri um árabil. Hann hafði stigið ölduna við eldavélar í mörgum skipum og eldað ofan í svöng hraustmennni sem þurftu mikinn og góðan mat.
Hann hafi yndi af að bera fram mat og hann var veislumaður. Hann og Lóa sáu um mörg þorrablót og skötuveislur, tóku slátur og bökuðu vestfirskar hveitikökur í haugum. Þau voru höfðingjar heim að sækja og því var það ástvinum hans léttir að vegna afléttingar í sóttvörnum verður unnt að bjóða til erfidrykkju að lokinni athöfn. Þegar kistan verður borinn út verður henni stillt upp hér í ganginum. Við signum yfir og snúum svo við til veitingasalarins og njótum veitinga og skilum samúð og vinarþeli til ættingja, brosum og gleðjumst yfir lífinu. Nánasta fjölskyldan fylgir svo kistunni til grafar í Gufunesgarði þegar erfinu lýkur.
Þorsteinn var lítillátur og hreykti sér ekki upp, var ljúfur í viðmóti, fámáll en hlýr og hin síðari árin fannst honum bara gott að sitja hljóður og halda í hönd þeirra sem til hans komu. Heyrnin var orðin léleg svo nærveran og hlýjan voru hans helsta tjáning.
Þau Lóa undu hag sínum vel fyrir vestan, voru bæði með græna fingur og tóku virkan þátt í skógræktarfélaginu og svo var Þorsteinn í Lions. Börn Lóu sem urðu hans stjúpbörn bera hlýjan hug til hans eins og hans eigin börn og barnabörn gera sem kveðja hann með þökk.
Þorsteinn og Lóa fluttu suður árið 1995 og bjuggu í Miðleiti 3 til haustsins 2016 er hún flutti í Sóltún og hann skömmu síðar á Eir. Þau hittust meðan heilsa gaf færi. Hann hafði búið um skeið á Grenimelnum í Reykjavík og var alla tíð hrifinn af Vesturbænum.
Seinustu starfsárin sín starfaði hann sem kjötiðnaðarmaður hjá Gæðafæði og sá án efa til þess með sínu verkviti að fyrirtækið stæði undir nafni!
Þorsteinn hafði yndi af að spila á spil og leggja kapal. Hann las mikið og horfði á enska boltann og þar voru hans menn í Liverpool oft sterkir í glímunni við mótherja sína.
Lóa og hann ferðuðust víða bæði innanlands og utan. Þau heimsóttu Kristínu í Noregi, fóru m.a. til Finnlands, Grikklands, Madeira, Krítar og fleiri landa.
Kveðjur fjarstaddra hafa borist:
-Bróðir Þorsteins, Guðmundur Helgi og kona hans Kolbrún, senda hugheilar samúðarkveðjur frá Spáni.
– Guðmunda Björk Matthíasdóttir og Garðar Eyjólfsson eru í útlöndum og senda sínar bestu kveðjur.
-Árný Hlín Hilmarsdóttir og fjölskylda komust ekki vegna veikinda og senda sínar bestu kveðjur.
-Jón Friðgeir Jónsson og Hafdís Sigurðardóttir á Ísafirði biðja fyrir samúarkveðjur til „elsku Lóu, barna, systkina og barnabarna“.
-Kirstbjörg Sigurðardóttir og Eyberg á Akrenesi senda kveðjur með þökk fyrir allt.
-Ísleifur Muggur, guðssonur Þorsteins, biður fyrir kveðjur.
Komið er að leiðarlokum. Í sálminum góða sem fyrr var getið segir í 3. versi:
Þegar brotnar bylgjan þunga,
brimið heyrist yfir fjöll,
þegar hendir sorg við sjóinn,
syrgir, tregar þjóðin öll,
vertu ljós og leiðarstjarna,
lægðu storm og boðaföll,
líknargjafinn þjáðra þjóða,
þegar lokast sundin öll.
Þessi orð minna á náttúruöflin sem tekið hafa líf margra í aldanna rás, bæði í brotsjóum og holskeflum snjóflóða.
En hér er líka verið að tala um lífslok okkar allra sem líkt er við sjómennsku og þá er bent á það að ákallið til líknargjafans, til Guðs, er hið eina haldreipi okkar „þegar lokast sundin öll.“
Lífið er aldrei auðvelt. Þorsteinn glímdi við margt á lífsleiðinni, hann var heilsuveill á köflum og stundaði sjóinn um árabil og lifði fram yfir 89 ár. Það er vel af sér vikið. Og nú hefur hann hlotið hvíld.
Við kveðjum hann með þökk og trega og felum hann Guði og himni hans, sem alla elskar og allt líf geymir í faðmi sínum, bæði lífs og liðið.
Guð blessi minningu Þorsteins Gíslasonar og Guð geymi þig og varðveiti á lífsveginum. Amen.
Hlekkur á útvarpsþátt um strand Egils rauða:
https://podbay.fm/p/sogur-af-landi/e/1594998180

