+Gunnlaugur B. Geirsson

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Gunnlaugur Björn Geirsson

fv. læknir og prófessor

1940-2022

Öldugötu 5, Reykjavík

Útför (bálför) frá Dómkirkjunni í Reykjavík

föstudaginn 4. febrúar 2022, kl. 13

Hér fyrir neðan er tengill á hljóðupptökuna. Mynd af sálmaskránni er neðst, fyrir aftan ræðuna.

Mannkynið leitar hærra og lengra með hverju árinu sem líður. Geimvísindin rýna í rúnir alheimsins og leita svara. Á sama tíma er sjónum beint í öfuga átt, ef svo má að orði komast, innávið, í frumur og litninga og þar er leitast við að komast í hið allra smæsta til að finna svör við ótal spurningum.

Gunnlaugur horfði innávið í sínum vísindum, leitaði svara.

Við eigum langt í land – með að skilja alheiminn og mannslíkaminn er enn undir smásjá vísindanna og langt verður þess að bíða, að öll kurl verði komin til grafar í þeim efnum.

Við lifum nú ótrúlega tíma, þegar örsmá veira hefur lamað alla heimsbyggðina.

En nú rofar loksins til með vaxandi ónæmi og hækkandi sól.

Páll heitinn Skúlason, rektor HÍ, sagði m.a. við útskrift kandidata árið 1998:

„Hver einasta manneskja er undraverk, einstök í sinni röð. Hún býr yfir mætti til afreksverka sem enginn veit hver verða. Flest slík verk eru unnin í kyrrþey, án þess að vera blásin út á opinberum vettvangi. Tilviljun og tíska ráða trúlega mestu um það hvaða afrek verða á allra vitorði. En afreksverk unnin í leynum kunna að skipta meira máli. Lífið – þetta vitum við öll – er óútreiknanlegt ævintýri. Enginn hefur heildarsýn yfir sviðið – að minnsta kosti ekki á okkar mannlega vettvangi. Vera má að alsjáandi auga Guðs fylgist með öllu, en vitneskju okkar þar að lútandi eru takmörk sett. Þaðan af síður eru vísindi okkar alsjáandi; þau eru hverful eins og öll mannanna verk.“

Þessir þankar leituðu á huga minn, er ég hóf að rita þessi minningarorð, hugsunin um spennuna milli hins stærsta og smæsta, um leitina að svörum í hinu stóra jafnt sem hinu smáa.

Gunnlaugur var vísindamaður að upplagi, hann hafði áhuga á að rannsaka og skoða allt í kringum sig, leita svara, spyrja nýrra spurninga. Hann ætlaði sér ekki að verða bóndi, eins og pabbi, og einsetti sér að verða efstur á landsprófi til losna úr búskapnum og stefna á borgina. Hann ólst upp í sveit í borg. Sveitin og borgin kallast á í mörgum skáldverkum liðinnar aldar og lýsa spennunni, sem þá var milli sveitar og þéttbýlis, þegar landsbyggðin sogaðist á SV-hornið og heilu byggðirnar í dreifbýli lögðust af.

Og hér erum við nú saman komin í hjarta höfuðborgarinnar, þar sem Dómkirkjan fagra hefur verið rammi utan um mannlífið um aldir.

Við komum hér saman til að syrgja Gunnlaug, en um leið til að þakka fyrir líf hans og störf, elskusemi hans og elju, vináttu og vilja til að láta gott af sér leiða.

Gunnlaugur Björn Geirsson fæddist í Reykjavík, 30. janúar 1940. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Grund, 21. janúar 2022.

Foreldrar hans voru hjónin, Hallfríður Kristín Björnsdóttir, húsmóðir, f. 14. febrúar 1900, d. 1978, og Geir Gunnar Gunnlaugsson, bóndi í Eskihlíð og síðar í Lundi í Kópavogi, f. 28. mars 1902, d. 1995.

Systkini Gunnlaugs eru:

Friðrika Gunnlaug fædd 18. júlí 1935 og

Geir Gunnar fæddur 7. ágúst 1945.

Gunnlaugur giftist Rósu Magnúsdóttur, 28. des. 1963, fædd 12. nóvember 1940, d. 8. janúar 1983. Blessuð sé minning hennar. Foreldrar hennar voru Gunnhildur Davíðsdóttir (1922-1995) og Magnús Aðalsteinsson (1918-1997).

Um hana ritaði vinkona hennar, Margrét Örnólfsdóttir, minningargrein og sagði m.a.:

„Rósa var vinur, Rósa var fyrirmynd, hún var sannkölluð mannkostavera, gædd flestum þeim eiginleikum sem prýða mega. Trygglynd, greind, bráðfalleg og glæsileg, glaðlynd og góð. Ekki reyndi ég hana af öðru. Lengst og best trúi ég þó að ég muni hláturinn hennar, svo óumræðilega fagnandi. – Ég sakna hennar.“

Gunnlaugur sýndi dugnað, úthald og elsku í sorg sinni og annaðist uppeldi drengjanna af alúð, sem höfðu orðið fyrir sárum missi.

Börn Gunnlaugs og Rósu eru:

1) Geir Gunnar f. 1966, synir hans eru Gunnlaugur f. 1994 og Benedikt f. 2003.

2) Björn f. 1968, dætur hans eru Rósa f. 1992, Anna María f. 2000 og Amalía f. 2005. Sonur Rósu er Dagur Björn f. 2020.

3) Magnús Gylfi f. 1969.

4) Aðalsteinn f. 1973, dætur hans eru Emilía f. 1997, Sigrún f. 2003 og Rósa f. 2005.

Sambýliskona Gunnlaugs frá 1989 til dánardægurs er Malín Örlygsdóttir, fædd 17. apríl 1950. Hún er dóttir Örlygs Sigurðssonar, listmálara og Unnar Eiríksdóttur, kaupkonu. Börn Malínar og stjúpbörn Gunnlaugs eru:

1) Örlygur Smári, f. 1971, hans börn eru Malín, f. 1998, Gunnar Berg, f. 2002 og Jakob Þór, f. 2002. Dóttir Malínar er Emma, fædd 2020.

2) Bergþór Smári, f. 1974, hans dætur eru Heba, f. 2000 og Hrönn, f. 2009.

3) Unnur Smári, f. 1980, hennar börn eru Tómas, f. 2005, Davíð, f. 2008 og Freyja Malín, f. 2011.

Gunnlaugur ólst upp við sveitastörf í Eskihlíð í Reykjavík, þar sem faðir hans var bóndi, en um 1960 var heimilið og býlið flutt í Lund í Kópavogi. Í MR kynntist Gunnlaugur Rósu, sem varð konan hans og fluttu þau til að byrja með að Laufásvegi 65, þar sem tengdaforeldrar hans bjuggu. Síðan fluttu þau að Nýja Lundi í Kópavogi, sem varð heimili þeirra á Íslandi.

Haustið 1984 kynntust Gunnlaugur og Malín. Þau áttu það m.a. sameiginlegt að hafa bæði vaxið úr grasi í sveit í borg, hann í Eskihlíð og hún í Laugardalnum. Þau bjuggu fyrst saman að Öldugötu 5 í Reykjavík, fluttu síðan að Bjarkargötu 2, þar sem þau bjuggu í 12 ár, þá í Hvassaleiti 31 og að lokum aftur að Öldugötu 5 árið 2010, þar sem þau hafa búið síðan.

Gunnlaugur gekk í Grænuborg, Skóla Ísaks Jónssonar, Austurbæjarskóla og þaðan í Menntaskólann í Reykjavík, þar sem hann lauk stúdentsprófi árið 1960. Þá hóf hann nám í læknadeild Háskóla Íslands og lauk embættisprófi frá læknadeild árið 1967. Starfaði kandídatsárið og næstu ár á Íslandi sem unglæknir.

Árið 1970 flutti fjölskyldan til Bandaríkjanna, þar sem Gunnlaugur hóf sérnám í líffærameinafræði og dvaldi fjölskyldan þar allt til ársins 1974, þar sem Gunnlaugur hafði stöður á þremur spítölum:

Medical Collage of Virginia Hospitals í Richmond Virginia,

New England Deaconess Hospital í Boston Massachusetts og

Strong Memorial Hospital, Rochester New York.

Þegar til Íslands var komið hóf Gunnlaugur störf við Rannsóknarstofu Háskólans á sviði frumurannsókna, auk þess að starfa fyrir Krabbameinsfélag Íslands, þar sem hann tók við starfi yfirlæknis árið 1976. Þar starfaði Gunnlaugur til ársins 1987, en sama ár stóð hann að stofnun rannsóknarstofu í frumumeinafræði og að rannsóknarstofu í vefjameinafræði árið 1991. Árið 1986 tók Gunnlaugur við embætti sem prófessor í réttarlæknisfræði við Háskóla Íslands, sem hann gegndi til starfsloka, er hann fór á eftirlaun. Meðal annarra verkefna sem Gunnlaugur tók að sér var ráðgjöf á vegum WHO á Filippseyjum og störf í Kosovo á vegum stríðsglæpadómstólsins í Haag. Gunnlaugur sinnti ýmsum trúnaðarstörfum, þ.á.m. sem fulltrúi í læknaráði og sem formaður Félags norrænna réttarlækna.

Í kveðju frá HÍ þar sem Gunnlaugi eru þökkuð störf í þágu skólans segir m.a.:

„Gunnlaugur var brautryðjandi í frumumeinafræðirannsóknum á Íslandi, auk þess sem hann sinnti í starfi sínu sem réttarmeinafræðingur við Landspítalann margvíslegum verkefnum fyrir lögregluna í landinu og var virkur í norrænu samstarfi réttarmeinafræðinga. Hann var helsti sérfræðingur landsins á sínu sviði í tæplega 20 ár, á þeim tíma þegar réttarmeinafræðin þróaðist frá því að vera hliðargrein við almenna meinafræði yfir í að vera sjálfstæð grein innan læknisfræðinnar. Hann vann að þróun starfsgreinarinnar innanlands og átti þátt í samningu laga og reglugerða á sviði réttarmeinafræði.“ (Jón Gunnlaugur Jónasson)

Horfinn er eftirminnilegur maður.

Gunnlaugur var myndarlegur, afar kurteis og hæglátur, talaði fagurt mál. Stundum fannst stjúpbörnum hans hann hátíðlegur í tali, en um leið var hann glettinn og gamansamur. Hann var bæði ljóð- og tónelskur. Hann vitnaði oft í ljóð sem hann kunni utanbókar og var ágætur hagyrðingur eins og faðir hans hafði verið. Sonur Gunnlaugs sagði um pabba sinn að hann hefði verið „skrúðmæltur og átt Íslandsmet í kurteisi!“

Börnum Malínar var afar hlýtt til hans og þeim lynti vel saman. Þegar strákarnir hennar Malínar sátu og bulluðu saman, hafði Gunnlaugur gaman að og skellti oft upp úr og grét stundum af hlátri.

Hann eldaði góðan mat og gaf sér góðan tíma, var glerfínn í tauinu í eldhúsinu, skyrtan mjallahvít undir svuntunni, en bindinu var varpað uppá aðra öxlina. Og þegar maturinn var tilbúinn, bauð hann til borðs og þá gjarnan með orðunum: „Hver og hver og vill!“ eða „Maturinn, músin steikt!“ Hann kallaði matinn stundum „krims og krams“ og bauð uppá allskonar gos sem hann kallaði Mixmax og í hans huga var bara til ein útvarpsstöð í landinu, RÚV, hitt kallaði hann Rásbylgjustöðvar.

Svo var hann hundaunnandi og átti Tótu, Lubba og Sunnu. Þau Malín fóru víða með hundana í kringum Reykjavík og nutu útivista saman.

Hann tranaði sér ekki fram, var fremur hlédrægur, en gat farið á kostum sem ræðumaður ef svo bar undir, hafði fagra söngrödd, „en söng alltof lítið“ að sögn sonar hans. Hann hafði yndi af óperutónlist og klassík.

Hann kunni sig í samskiptum og hafði þann hæfileika í ríkum mæli að hlusta á fólk.

Hann var tungumálamaður, varð stúdent úr máladeild MR, tók námskeið í ítölsku á fullorðinsárum, talaði reiprennandi ensku og hafði ríkan orðaforða á þeirri tungu, enda lærður í Ameríku, þá talaði hann dönsku og þýsku en franskan kom helst fram á varir hans, ef hann hafði fengið sér rautt í aðra tána!

Þegar þeir hittust, Örlygur Sigurðsson, heitinn og Gunnlaugur, sagði sá fyrrnefndi, er hann ávarpaði háskólakennarann: „il professore“.

Margir nemenda Gunnlaugs í HÍ rómuðu hans góðu kennslu. Hann var mikill fagmaður og í það minnsta eitt sinn valinn vinsælasti kennarinn.

Ég hef átt fundi með Malínu og tveimur börnum hennar, sonum hans tveimur, Birni og Magnúsi, sem búa hér á landi og syskinum hans, þeim Friðriku og Geir Gunnari. Öll luku þau upp einum rómi, um kosti hans og einstakan karakter og töluðu um að hann hafi verið „fallegur og vel innréttaður.“

Friðrika minnist þess er hann kom heiminn í byrjum Seinni heimstyrjaldarinnar og var sem ljósgeisli á heimilinu, sem birti upp stríðsárin. Hún fann til ábyrgðar gagnvart honum og gekkst upp í því að vera stóra systir. „Hann var yndislegt barn,“ segir hún. Geir Gunnar leit upp til stóra bróður, en þegar maður er undir 10 ára aldri, er 5 ára aldursmunur, sem heil eilífð.

Fjölskyldan í Eskihlíð A átti góða nágranna og systkinin minnast heimasætanna í Eskihlíð C, sem voru í senn laglegar og áhugasamar um Gunnlaug. „Öllum þótti vænt um hann,“ heyrði ég sagt í samtölunum.

Hann var ætíð spurull og athugull, rólegur og íbygginn, fór vel með gullin sín, var mikið jólabarn og hafði yndi af að gefa öðrum gjafir og var sjálfur svo stilltur, að hann gat beðið eftir að fá að opna pakkana, meðan sumir rifu þá í sig.

Heimilið var stórt og fjölmennt og búreksturinn krafðist mikillar vinnu af öllum. Gunnlaugur keyrði mjólkina út sem drengur á hestakerru og kunni til verka í öllum bústörfum. Enda þótt hann hafi viljað komast út úr búskapnum hafði hann yndi af líkamlegri vinnu, eins og t.d. þegar hann byggði hús. Hér áður fyrr var það algengt að ungir menn leggðu mikið á sig til að komast í gegnum þann skafl, að byggja sitt eigið hús. Einn prófessora minna við HÍ kallaði það „manndómsvígslu í steinsteypu.“ Gunnlaugur gat þess vegna haft gaman af að grafa skurð og hafði áhuga á garðyrkju.

Gunnlaugur átti gott líf, en mjög sárt var auðvitað að missa eiginkonuna ungu, frá 4 sonum á barnsaldri.

En lífið heldur áfram.

Hann kynntist Malínu og þau áttu farsælt líf saman.

En síðar meir fóru veikindin að gera vart við sig og drógu úr honum mátt. Þau voru skilgreind, annars vegar sem Parkinson sjúkdómur og hins vegar það sem á ensku nefnist Lewy Body Disease.

Hann tók veikindum sínum af æðruleysi og naut umhyggju Malínar og ástvina sinna.

Nokkrar kveðjur hafa borist mér og mun ég flytja þær á undan moldun.

Alheimurinn ógnarstór, en fruman í mannslíkamanum agnarsmá.

Þar á milli eru gríðarlegar vegalengdir og margt óþekkt.

Vísindin halda leit sinni áfram.

Páll Skúlason varpaði fram tilgátu og sagði:

„Vera má að alsjáandi auga Guðs fylgist með öllu, en vitneskju okkar þar að lútandi eru takmörk sett.“ (Páll Skúlason)

Ég get svo vel tekið undir þessi orð heimspekingsins og fv. rektors HÍ, um að vitneskja okkar og þekking sé enn í molun. Við erum enn að rannska tilfinningalíf mannsins og svo er það spurningin um Guð, sem meiri hluti mannkyns, virðist hafa einhverja vitund um.

Hvert er hið stóra samhengi alls sem er?

Þetta hús, Dómkirkjan, er reist til dýrðar Kristi, sem hefur mótað heiminn meir en nokkur önnur persóna – og mótar enn.

Hann er sagður hafa verið gerandi í hinni helgu þrenningu við sköpun heimsins, sem lýst er í ljóði því, sem við köllum sköpunarsögu í 1. Mósebók.

Ljóðskáldið, sem setti textann saman, öldum fyrir upphaf okkar tímatals, gerði sér grein fyrir því, að allt hlyti að eiga uppruna sinn í ljósinu – og því lét hann Guð segja í ljóði sínu: „“Verði ljós.“ Og það varð ljós.““ (1. Mós. 3). Þennan atburð kalla vísindin Miklahvell og frá honum er allt ljós komið sem lýsir í alheiminum. Og ljósið ferðast með ljóshraða og enn þenst alheimurinn út. Í raun, er enginn munur á afstöðu vísindanna og ljóðskáldsins í 1. Mósebók, um upphaf alls. Um ljósið.

Hvað vitum við, hvað vita vísindin?

Við sem mannkyn erum rétt að byrja í stöfunardeild, eins og það var kallað þegar ég byrjaði að læra að lesa.

Páll postuli skynjaði skort sinn á þekkingu, og skort allra manna, er hann ritaði sinn fagra óð um kærleikann. Þar segir m.a.:

„Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu,

en þá munum vér sjá augliti til auglitis.

Nú er þekking mín í molum

en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.

En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,

en þeirra er kærleikurinn mestur.“ (1. Kor. 13.12-13)

Sorgin er systir kærleikans, þökkin sömuleiðis. Maður saknar bara þess, sem maður hefur elskað. Við erum hér til að syrgja og þakka, gleðjast yfir góðu lífi hins látna – og sakna hans um leið.

Andstæðurnar kallast á í lífinu, þekkingin er enn í molum, en leitin að sannleikanum – og hinu stóra samhengi – heldur áfram.

Og munum í því sambandi, að „kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“

Við erum sem pílagrímar á leið til hins sanna, til hins stærsta, með því að íhuga í senn, hið agnarsmáa og hið ógnarstóra.

Guð blessi minningu Gunnlaugs Björns Geirssonar og Guð blessi þig á lífsveginum, í leitinni að ljósi og sannleika.

Amen.

– – –

Kveðjur fluttar síðar í athöfninni:

Gunnlaugur tók þátt í félagsstarfinu í Múlabæ og fólkið þar á bæ sendir kveðju með þessum orðum:

„Kær kveðja frá samferðafólki í Múlabæ sem minnist Gunnlaugs með hlýhug og þakklæti.“

Einnig barst innileg samúðarkveðja, persónulega, frá Hjördísi Björnsdóttur, í Múlabæ, stjúpu Rósu heitinnar, með þakklæti fyrir kynni af góðum dreng.

Kveðjur frá Skandinavíu, frá Vilborgu, tengdadóttur Gunnlaugs og sonardætrum, Emilíu, Sigrúnu og Rósu Aðalsteinsdætrum og frá Önnu Maríu Björnsdóttur og Benedikt Gerissyni en þau gátu ekki verið með okkur í dag.

Jakob Smári og Malín börn Örlygs Smára senda kveðju, hann er við nám í Danmörku og hún í sóttkví hér heima.

Einnig senda Oddur Björnsson og Guðlaugu Sverrisdóttur samúðarkveðjur.

Bríet Birgisdóttir, tengdadóttir og Amalía Björnsdóttir senda kveðjur en þær eru í sóttkví.

Þá hafa borist kveðjur frá Máa, vini Magnúsar sem býr í Dubai og frá Eyjó, sem fór til útlanda fyrr í dag og senda þeir sínar samúðarkveðjur.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.