
Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Þóra S Benediktsdóttir
1931-2022
Útför frá Neskirkju, Reykjavík
fimmtudaginn
27. janúar 2022 kl. 13
Þú getur hlustað á ræðuna og lesið hana hér fyrir neðan.
Sálmaskráin er neðst í færslunni.
Nú rofar til.
Við sjáum brátt út úr Kófinu (Covid-19) og sólin fikrar sig hærra og hærra á himinhvolfinu hvern dag.
Nú rofar til.
Þóra var fædd í Hnífsdal og bjó lengst af á Ísafirði. Hún fæddist annan vetrardag 1931 og fékk nafnið Þóra Sumarlína. Það er sumarvon í nafni hennar. Á Vestfjörðum skiptir sólin miklu máli – eins og reyndar hvarvetna í heiminum – enda á allt líf tilvist sína í ljósinu.
Fyrir tveim dögum fögnuðu Ísfirðingar sólarkaffi sem tekur mið af því þegar sólin hefur skinið á Eyrarfjallið og færst niður hlíðina í hænufetum. Þegar hún hefur lýst upp sjúkrahústúnið, kirkjuna og kirkjugarðinn, þá hefur hún lýst upp hálfa eyrina og skín þann 25. janúar í götu sem áður hét Steypuhússgata en fékk svo nafnið Sólgata. Þar fæddist ég og er stoltur af því að vera Sólgötupúki eins og það heitir á ísfirsku.
Þóra og mamma voru bræðradætur og ég og börnin hennar þar með þremenningar. Sem barn pældi maður lítið í ættfræði en hafði einhverja óljósa vitund um að margir bæjarbúar væru skyldir manni á einn eða annan hátt.
Og nú stend ég hér og tala yfir Þóru og leiði þessa útför sem um leið er þakkarhátíð. Við þökkum fyrir líf hennar og störf, fyrir elskusemi og dugnað, umhyggju og vináttu við margt fólk.
Þóra Sumarlína Benediktsdóttir hét hún fullu nafni. Hún fæddist í Hnífsdal 25. október 1931 og lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli 16. janúar 2022 á 91. aldursári.
Foreldrar hennar voru Benedikt Halldórsson verkamaður, f. 19.5. 1904, d. 2.9. 1980, og Þórunn Pálína B. Guðjónsdóttir, f. 5.10. 1900, d. 10.2. 1992.
Systkini Þóru:
Guðbjörg Kristjana Guðmundsdóttir, f. 23.12. 1921, d. 13.10. 2011.
Sigríður Þórdís Benediktsdóttir f. 4.10, 1928, d. 13.02 2015.
Halldór Guðmundur Benediktsson, f. 30.4. 1930, d. 21.1. 1967.
Óskar Benedikt Benediktsson, f. 11.2. 1935, d. 22.06 2018.
Öll látin en eftirlifandi eru:
Guðjón Kristján Benediktsson, f. 31.10. 1937. Fósturbróðir, þeirra systkina og systurssonur er, Jón Arinbjörn Ásgeirsson, f. 22.10. 1938.
Þóra gekk í barna- og unglingaskóla í Hnífsdal.
Síðar fór hún í Húsmæðraskóla á Löngumýri í Skagafirði 1951-1952.
Hún og Ísfirðingurinn, Jónatan Arnórsson, höfðu þá fellt hugi saman. Hún var í Skagafirði þann vetur en hann á vertíð í Eyjum og á þeim tíma þurfti að panta símtal milli landshluta í gegnum Landssímann, en annars skrifaði fólk ástarbréf sem bárust með póstinum yfir fannir og fjöll.
Þóra og Jónatan gengu í hjónaband árið 1955. Hann var f. 23.06. 1932, d. 11.06. 2018.
Foreldrar hans voru Kristjana Gísladóttir, f. 4.7. 1900, d. 13.10. 1970, og Arnór Magnússon, f. 17.10. 1897, d. 12.2. 1986, skipstjóri á Ísafirði.
Svo komu börnin eitt af öðru
1) Kristjana er elst, f. 1953, gift Guðmundi Bjarnasyni, f. 1952, Börn þeirra: Óttar, f. 1974, Þóra Dögg, f. 1976, Bjarni Freyr, f. 1982 og Víðir Örn, f. 1990.
2) Valur Benedikt, f. 1955, kvæntur Kristínu B. Aðalsteinsdóttur, f. 1972. Börn þeirra: Hlynur, f. 1986, Benedikt, f. 1988, móðir þeirra er Sigríður Brynjúlfsdóttir f. 1956, Hrafnhildur Vala, f. 2003, Gísli Hrafn, f. 2006.
3) Arnór, f. 1957, kvæntur Kristjönu Ósk Hauksdóttur, f. 1960. Börn þeirra: Esther Ósk, f. 1979, Arna Lind, f. 1984, Þóra Marý, f. 1989.
4) Þóra Jóna, f. 1961, sambýlismaður hennar er Erlingur Jón Valgarðsson, f. 1961. Börn þeirra: Jónatan, f. 1990, Kolbrún, f. 1991, faðir þeirra er Vignir Vignisson, f. 1961, d. 2000. Börn Erlings: Sif, f. 1983, Almarr, f. 1985, Styrmir, f. 1988.
5) Rúnar Már Jónatansson, f. 1966, kvæntur Maríu Níelsdóttur, f. 1966. Börn Þeirra: Magna Rún, f. 1991, Katla, f. 1996, móðir þeirra er Marta Hlín Magnadóttir, f. 1970. Börn Maríu eru Erna Guðríður, f. 1985, Anna Margrét, f. 1997, faðir þeirra er Benedikt Einarsson, f. 1963.
Efst í huga barnanna þegar þau líta yfir farinn veg og minnast móður sinnar er hvað hún var umhyggjusöm og félagslynd. Hún hafði yndi af að vera saman með góðu fólki. Hún var lengst af heimavinnandi en konur á Ísafirði unnu margar hverjar tímabundið í fiskvinnu og Þóra vann t.d. hjá Íshúsfélaginu og í rækjuverksmiðjunni hjá Dadda Jóh, sem svo var kallaður, en Tani var þar verkstjóri um tíma og svo vann hún við verslunarstörf hjá Einari og Kristjáni, klæðskerum þar sem við ungu mennirnir keyptum okkar fyrstu jakkaföt.
Jónatan gerði síðar út báta, með Júlla bróður sínum og lauk sinni starfsævi sem útsölustjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins eins og það var orðað hér áður fyrr en faðir minn hafði þann sama starfa um áratugaskeið fyrir og upp úr miðri síðustu öld. Börnin hans Jónatans og ég ólumst því öll upp að hluta til í vínbúðinni fyrir vestan!
Þóra var hrein og bein, sagði sína meiningu, en var jafnan ljúf og góð í samskiptum. Börnin segja hana hafa verið skemmtilega hreinskilna. Hún hugsaði vel um útlit sitt, stundaði morgunleikfimi á morgnan við útvarpstækið heima, svo þurfti að baka og elda mat og þegar hún var útivinnandi og hafði klukkutíma í matartíma var hlaupið við fót heim á Hlíðarveg, eldað og gengið frá með hröðum handtökum og allir fengu nægju sína af kjarngóðum mat. Þau hjónin voru mikið á gönguskíðum og fóru marga göngutúra í firðinum fagra.
Þegar hún bakaði pönnukökur, gerði hún það með 2 pönnum og sykraði og vafði um leið. Hún var eins og sjálfvirk vél í pönnukökubakstrinum. Kleinubakstur eða fiskbollugerð var framkvæmd með sama vinnulagi og afköstum.
Svo þurfti að sauma á börnin og Valur minnist þess er mamma saumaði á hann forláta skíðabúning. Jakkinn var hvítur og með rauðum bryddingum en þegar hún var að sauma merkið á hann stakk hún sig svo að lítill blóðdropi kom í hvítt efnið en Þóra sagði við hann að þetta væri nú bara happamerki og að honum myndi ganga vel á mótinu á Seyðisfirði. Sem gekk eftir. Hann kom heim með öll verðlaun sem hægt var að vinna í sínum flokki.
Börnin voru öll virk í íþróttum. Hlíðarvegspúkarnir áttu ekki langt að fara upp á Andrésar-tún eða í Stórurðina og urðu því margir góðir skíðamenn.
Það þurfti að kenna börnunum margt. Hún reyndi að kenna barnabörnum að prjóna og hekla en ekki fer miklum fréttum af afrekum þeirra á því sviði en dæturnar hafa hins vegar fetað í fótspor mömmu.
Mamma treysti okkur svo vel, segir Þóra Jóna og sagði aldrei nei. Hún vildi allt fyrir börnin sín gera. Þóra Jóna minnist þess t.d. að hún fékk hamstur, kött, hund og páfagauk sem þurftu sína umönnum en veittu um leið mikla gleði. Þóra gerði allt sem hún vissi að myndi gleðja börnin.
Með tímanum fluttu börnin öll suður nema Arnór sem búið hefur á Ísafirði alla sína daga og því nutu börnin hans þess að hafa afa og ömmu fyrir Vestan en svo varð lengra að fara í heimsókn eftir að þau fluttu líka suður og þá snerst þetta við og þau voru þá nær sínu fólki í Reykjavík.
Þóra var félagslynd og tók virkan þátt í starfi Slysavarnarfélags Ísafjarðar sem var og er mikilvægt félag. Það var dauðans alvara að vera sjómaður fyrir 50 árum og er reyndar enn, en sjóslys voru árlega í fjölmiðlum hér áður fyrr með myndum af sjómönnum sem hlutu vota gröf. Konur og karlar sem sinntu slysavörnum unnu af hugsjón með hag og heill sjómanna í fyrirrúmi.
Saumaklúbburinn hennar var samheldin og stelpurnar hlökkuðu ætíð til samfund, en eins og alþjóð veit er saumaklúbbur kannski ekki nafn sem lýsir að ölu leyti samkomum af því tagi sem kenndar eru við saumaskap, en snúast kannski meira um mat og kökur, skoðanaskipti og fréttamiðlun um lífið á heimaslóðum.
Þóra var elskuleg manneskja eins og systkini hennar sem ég hef kynnst og mörg ykkar þekkið.
Þóra var mikil fjölskyldukona og svo var hún einkar barngóð og því fór það henni vel a starfa við leikskólann á Hlíðarveginum.
Hér hefur aðeins verið stiklað á nokkrum atriðum í ævi Þóru. Hún lifiði langa ævi, fagnaði níræðisafmæli á nýbyrjuðum vetri, en er nú horfin að loknu góðu og gefandi lífi.
Ógerningur er að gera fólki tæmandi skil í stuttum minningarorðum. Þið sem næst henni stóðuð munið svo margt og eigið fjársjóð góðra minninga um yndislega systur, frænku, móður, ömmu, vinkonu. Þær minningar munu ylja ykkur um hjarta um ókomna framtíð.
Kveðjur hafa borist frá fjarstöddum ættingjum og vinum:
Valur og hans börn, Hrafnhildur og Gísli Hrafn, eru öll með veiruna og sendar sínar bestu kveðjur, einnig Heiða tengdadóttir Vals sem er líka með Covid.
Dætur Rúnars og Maríu, þær Katla, Erna og Anna Margrét eru erlendis við nám og störf og senda kveðjur.
Kolbrún dóttir Þóru Jónu er stödd erlendis og sendir kveðjur.
Smári og Páll Janus tengdasynir Adda senda kveðjur frá Ísafirði.
Fríða hans Maggútar sendir kveðju frá Ísafirði.
Já, þetta eru undarlegir tímar sem við lifum, mitt í heimsfaraldri.
Þegar við deyjum, lifum við áfram í minningum þeirra sem eftir lifa. En hver man okkur þegar allir verða dánir sem muna okkur nú? Þá man okkur sá hugur sem allt hefur skapað og allt elskar, hann sem kom og sagðist vera ljós heimsins. Hann er með okkur á lífsveginum og gleymir okkur aldrei.
Nú rofar til. Það birtir upp um síðir og þar vísa ég ekki bara til sólarinnar sem færir okkur sumar og yl, heldur til hans sem er ljós heimsins, hans sem gefið hefur mannkyni von og trú um aldir og árþúsund. Við lifum ekki án trúar og vonar.
Í Biblíunni, hinni miklu trúarbók kristninnar, er trúin aðeins skilgreind í einu einasta versi með þessum orðum:
„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb. 11.1)
Öll eigum við okkur drauma, vonir og þrár. Draumarnir rætast oft á ótrúlegan hátt og þegar öll sund virðast lokuð og dauðinn einn virðist taka völd, þá hljóma orð vonarinnar, sem höfð hafa verið yfir fermingarbörnum þessa lands um aldir: „Vertu trúr, allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu.“
Verum trú, verum heil og sönn, í samskiptum okkar við Guð og fólk og við munum öðlast frið og gleði í hjarta sem nær út fyrir gröf og dauða.
Í sterkum texta hljómsveitarinna Sálin hans Jóns míns, sungnum af Stefáni Hilmarssyni, segir m.a.:
Það rofar til inn´í mér
Og lífið tekur lit
Veit nú hvað gefur mér mest
Og tilverunni glit
Aldrei var sólin svo skær
Né fugla fegurri hljóð
Mér finnst ég skilja í dag
Öll heimsins ástarljóð.
Þú fullkomnar mig
Ég finn að ég er annar en ég var
Þú ert við spurnum mínum lokasvar
Lyftir mér upp, lýsir mér leið
Ég vegsama þig
Og vonir mínar bind ég aðeins þér
Í blíðu jafnt sem stríðu fylgdu mér
Í huga og hér, ævinnar skeið.
Ég skrifaði höfundinum stutta kveðju fyrir margt löngu og sagði að enda þótt þetta væri ástarljóð finndist mér það vera játning um elsku Guðs sem yfir öllu vakir og fullkomnar okkur. Kristin trú telst í raun ekki til trúarbragða heldur er hún vinátta við Guð í Jesú Kristi, trúin er ástarsamband við hann, sem alla elskar og varðveitir um alla eilífð.
Það rofar til.
Guð blessi minningu Þóru Sumarlínu Benediktsdóttur og Guð blessi þig á lífsveginum.
Amen.

