+Björg Ragnheiður Árnadóttir 1931-2021

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

Björg Ragnheiður Árnadóttir

1931-2021

Ármann Lárusson og Björg Ragnheiður Árnadóttir á góðri stund

Stofnandi trúfélagsins Kefas

Útför frá Fríkirkjunni Kefas

1. desember 2021 kl.13:00

Þú getur opnað hljóðskrána með því að virkja þríhyrninginn hér fyrir neðan og svo fylgst með textanum jafnóðum ef svo ber undir.S

Sálmaskráin er neðanmáls.

Inngangur – óskrifaður – í ræðunni eru nokkur innskot sem ekki eru í textanum.

Aðventan er gengin í garð og borgin skartar hvítu í dag þegar við minnumst Bjargar Árnadóttur og þökkum fyrir líf hennar. Hvíti liturinn er litur birtu og gleði í okkar heimshluta en t.d. í Kína er hann sorgarlitur. Oftar en ekki hvíla látnir undir hvítri sæng og yfir andlitið er lagður hvítur dúkur. Hann er tákn skírnarinnar, skírnarklúturinn var hér áður fyrr varðveittur og lagður yfir andlit látins fólks við ævilok. Þannig tengjast skírnin og dauðinn, jarðlífið og himininn, tíminn og eilífðin.

Útför konu sem lifði langa ævi og fékk drauma sína uppfyllta í trúnni á Drottinn er þakkarhátíð, í senn stund gleði og þakklætis, saknaðar og tára.

Ég kynntist Björgu og foreldrum hennar og börnum er ég starfaði sem djákni í Grensáskirkju fyrir og uppúr 1979. Það voru ævintýraleg ár þar sem margir vöknuðu til nýrrar trúarvitundar og mörg undur gerðust í sálu og jafnvel einnig á líkama fólks.

Kraftaverk gerast hvern dag, málið er að taka eftir þeim og læra að þakka fyrir þau. Það er kraftaverk að vera á lífi og hafa fengið að draga lífsandann árum saman, njóta fegurðar lífs og heims, vera til og hafa möguleikann til að elska náungann og svo einnig að fá að tengjast annarri persónu í annarri vídd elskunnar. Lífi er undur! Lífið er gjöf Guðs og margir upplifa í trúnni á Guð að undur gerast í smáu sem stóru. Guð er að verki í veröldinni.

Þetta vissi Björg og skynjaði alla tíð. Hún setti upp guðsþjónustur á Brimilsvöllum á Snæfellsnesi sem barn og lék öll hlutverk sem þar þurfti til, m.a. prestinn.

„Hún þarf stýri fyri bátinn sinn þessi,“ sagði afi hennar er hann hossaði henni á hné sér og skynjaði í henni bæði stjórnsemi og kraft.

Hún hafi ætíð sterka réttlætiskennd og var dugnaðarstelpa. Hún lék sér með strákunum og ærslaðist úti í öllum veðrum eins og börn gerðu almennt á þeim dögum. Þá var ekki hægt að liggja á meltunni með spjaldtölvu, en unnt var að lesa bækur og það var gert. Hún átti góðar minningar frá uppeldi sínu í foreldrahúsum þar sem afi og amma komu að með sína elsku og lífsvisku.

Ung lærði hún á orgel eða harmóníum og hafði strangan kennara. Hún æfði sig af kappi til þess að verða ekki slegin á fingurnar með priki.

Björg og systur hennar mynduðu sönghópinn Árnadætur, sem segja má að hafi verið tilbrigði við hinar frægu, amerísku, Andrews-systur. Þær fóru víða og skemmtu með rödduðum söng og hljóðfæraleik.

Alla tíð var tónlist henni mikilvægur gleðigjafi og hún er kvödd hinstu kveðju á Fullveldisdegi Íslands og sem í seinni tíð hefur einnig verið haldinn hátíðlegur sem dagur íslenskrar tónlistar.

Innskot . . .

Tónlist og söngur við þessa athöfn tekur mið af hennar óskum. Hér eru sungin hennar dýrmætustu lög og sálmar sem opnuðu himininn sjálfan fyrir henni í lofgjörð til Guðs.

Foreldrar hennar fluttu frá Ólafsvík í Kópavoginn þegar hún var 16 ára. Hún fór í Héraðsskólann á Laugavatni.

Lítu nú á helstu æviágrip Bjargar:

Björg Ragnheiður fæddist 24. júlí 1931 í bænum Hjallabúð í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi. Hún lést 18. nóvember á Hrafnistu í Kópavogi.

Foreldrar hennar voru Árni Kr. Hansson, húsasmíðameistari, f. 5. desember 1907, d. 24. ágúst 2006 og Helga Kristín Tómasdóttir, húsmóðir, f. 24. september 1908, d. 15. júní 1990.

Systur hennar voru Ingibjörg, f. 26. september, d. 6. maí 2018 og Ragnheiður Dóróthea, f. 1. september 1939, d. 23. maí 2013.

Björg ólst upp í Fróðárhreppi til sex ára aldurs. Hún flutti með foreldrum sínum og systur, Ingibjörgu, til Reykjavíkur 1937 og svo til Ólafsvíkur 1940 en þá hafði þriðja systirin, Ragnheiður Dóróthea, bæst í hópinn. Þar bjó fjölskyldan til ársins 1947 en þá fluttu þau til Kópavogs og voru meðal frumbyggja bæjarins. Björg bjó síðan alla tíð í Kópavogi og lengst af á Digranesvegi 64, síðar á sama vegi í húsi nr. 20, þá hjá syni sínum, Sverri, og lauk svo ævidögum sínum á Hrafnistu í Kópavogi.

Björg stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni og gerðist síðan verslunarstjóri fram til ársins 1969. Árið 1971 fékk hún löggildingu sem fiskimatsmaður og hóf störf hjá Útgerðarfélaginu Barðanum í Kópavogi og vann þar sem slík og sem verkstjóri í 18 ár.

Björg giftist Ármanni J. Lárussyni, glímukappa og byggingaverkamanni, f. 15. mars 1932, d. 14. nóvember 2012. Foreldrar hans voru Lárus Salómonsson, f. 11. september 1905, d. 24. mars 1987 og Kristín Gísladóttir, f. 18. júní 1908, d. 20. apríl 1983.

Börn Bjargar og Ármanns eru:

Sverrir Gaukur, f. 9. febrúar 1952

og

Helga Ragna Ármannsdóttir, f. 9. apríl 1955.

Eiginmaður Helgu var Páll Eyvindsson, f. 4. Júlí 1951, d. 29. Maí 2015. Börn þeirra eru:

1) Björg Ragnheiður, f. 17. Mars 1977. Eiginmaður hennar var Benjamín Ingi Böðvarsson og þeirra börn eru Lúkas Páll og Elías Logi

2) Ármann Jakob, f. 28. Febrúar 1980. Eiginkona hans er Áslaug Guðmundsdóttir og þeirra börn eru Jakob Dagur, Arney Helga og Rakel Birta.

3) Sverrir Gaukur, f. 5. apríl 1981, d. 5. nóv. 2018.

Ömmubarn og nafna Bjargar rifjar upp ævi ömmu og segir:

„Þegar ég var unglingur og við mörg hver á ungdómsárunum voru amma og afi einmitt í fararbroddi fyrir því að Kefas, sem var þá á Dalveginum í Kópavogi, leigði líka neðri hæðina í húsinu sem við vorum í til að búa til aðstöðu fyrir okkur. Þetta varð svo samkomustaður ungs fólks víða að úr fríkirkjunum og þarna voru alls konar teiti og uppákomur. Hún gerði þetta, – skapaði aðstæður fyrir fólk til að dafna. Gerði þetta með tónlistarstarfið í kirkjunni líka og margt fleira.“

Hún staraði um tíma sem verkstjóri í Barðanum í Kópavogi sem var fiskvinnsla og svo var hún einnig verkstjóri í unglingavinnunni í bænum. Hún skipulagði vinnu unga fólksins og tók við pöntunum fólks sem vildi fá þau til að snyrta garðinn hjá sér. Sjálf var hún með stóran garð og hafði yndi af ræktun en var auðvitað í fullri vinnu. Eitt sinn spurði einn unglingurinn hvort hún gæti tekið einn garð í viðbót þann daginn og hún svaraði: „Ætli það ekki.“ Svo mætti hópurinn heim til hennar og snyrti allt og prýddi!

Björg og Ármann unnu oft saman í síld og tóku þeim störfum sem í boði voru til að sjá sér og sínum farborða. Þau voru ólík en þroskuðust saman og þetta hús, þar sem við kveðjun hana í dag, er vitnisburður um kærleika þeirra til hvors annars og til lífsins og samferðafólksins.

Innskot . . . um Ármann og kirkjubygginguna . . .

Tónlistin í þessari athöfn tekur öll mið af uppáhaldslögum Bjargar.

Lagið „Hér á ég heima“ eða Kópavogslagið var henni kært. Þegar Björg flutti til Kópavogs grét hún því hana langaði ekki frá Ólafsvík og leist ekkert á Kópavog. Sannari Kópavgsbúa var síðar erfitt að finna þó alltaf hugsaði hún hlýlega vestur. Í textanum segir í fyrsta erindinu: „Þar sem grasið græna breiðir sína slæðu yfir fold. Þar sem rætur spinna þræði og hjarta tengist mold. Þar sem bærinn skartar fögrum hópi drengja´og fljóða, – hér á ég heima, í voginum góða“. Svo er talað síðar um góða granna sem glaðir heilsa hver öðrum og tónlistin hljómar. Það á algjörlega við Björgu. Hún vildi náunganum hjartanlega vel og tónlistin ómaði í kringum hana og í hjarta hennar alla daga.

Nafna hennar og barnabarn minnist jólahúsanna sem eru til staðar hér á sviðinu. Amma hennar notaði þau til að skreyta fyrir jólin heima hjá sér en svo þegar hún minnkaði við sig gaf hún kirkjunni litla safnið sitt sem sett er upp hver jól. Börnin hafa gaman af því að skoða þennan undraheim sem minnir á komu Jesú í þennan heim en það er einmitt merking orðins „aðventa“ – koma, koma Drottins.

Jólahúsin lýsa því hvernig Björg hugsaði til kirkjunnar og barna. Hún og Ármann voru miklir stuðningsmenn sunnudagaskólans sem var í kirkjunni í mörg ár. Guðrún Hlín frænka, og fyrrverandi eiginmaður hennar, fóru fyrir honum og stóðu sig virkilega vel. Sunnudagaskólinn var annálaður fyrir gæði og gaman.

Eins og gengur og gerist gátu ekki allir verið hér í dag sem vildu fylgja Björgu til grafar en hafa þess í stað sent kveðjur sínar.

Kveðja er hér frá Einari Atla Júlíussyni sem er að störfum norður í landi og Kristínu Öldu Júlíusdóttur, sem er í útlöndum og frá mági Bjargar, Júlíusi Einarssyni, sem ekki gátu verið hér í dag með hjartans þakklæti fyrir allt og fyrir hlýjar og góðar minningar um einstaka konu.

Ennfremur kær kveðja frá Kanada. Ármann Jakob Pálsson, Áslaug Guðmundsdóttir, Jakob Dagur Ármannsson, Arney Helga Ármannsdóttir og Rakel Birta Ármannsdóttir, biðja öll kærlega að heilsa. Amma Björg var einstök kona sem verður sárt saknað en á sama tíma þá viljum við gleðjast yfir fallegu lífi sem var vel lifað.

Kveðja hefur borist frá Rúnari Bragasyni sem gat því miður ekki verið viðstaddur.

Björg Árnadóttir er hér kvödd af mörgum sem minnast hennar með þakklæti og af hlýju. Hún var væn manneskja og átti einlæga trú á Guð og hið stóra samhengi alls sem er.

Björg yngri skrifaði mér um prédikunarstólinn hér og tónlistina og ég deili því með ykkur:

Prédikunarstólinn hér í kirkjunni lét Björg smíða á sínum tíma þegar fyrsti vísirinn að Kefas var kominn en hópurinn var þá farinn að hittast heima hjá Björgu og Ármanni. Björg fékk Ármann til að bera hann upp og niður milli hæða, niður í stofu þegar hópurinn hittist og svo aftur upp að því loknu. Henni fannst Guð tala til sín um að hún ætti að láta smíða stólinn og hann yrði tákn um nærveru Guðs. Einhvers staðar myndi þessi prédikunarstóll standa að lokum. Hún valdi ritningarversið sem letrað er framan á stólinn.

Hún hélt uppá Jólalög frá Eyfa – sem er giftur frænku Ármanns. Fjölskyldunni þykir notalegt að heyra gömul og góð jólalög

Syrpa af samkomulögum úr Kefas – Björg hélt upp á öll þessi lög. Hún kenndi okkur þessi lög „Ég vil syngja þér gleðisöng“ fyrir rúmlega 30 árum og gerði fallegar hreyfingar með laginu. Við sjáum hana í anda syngja með okkur og gera þessar hreyfingar. „Aðeins í þér fæ ég lifað“ var nokkurs konar einkunnarlag hennar. „Mín heitasta bæn er að smækka svo Kristur þú stækkir í mér“ Hún vildi bara lifa Kristi og vera þjónn hans. Í gömlu Kefas hljómsveitinni eru: Björg yngri, Guðrún Hlín (systurdóttir Bjargar eldri), Steinunn (dóttir Ludýar og Steina frá Ólafsvík og úr Ungu fólki) og svo Lovísa sem kom ásamt fjölskyldu sinni í Kefas þegar hún var stelpa. Svo voru fleiri í hljómsveitinni (m.a. Ármann Jakob sem er í Kanada, Palli sem er fallinn frá, Benni sem er að mixa í dag og fleiri)

„Til konungsins“ er fysta lagið á samnefndum geisladiski sem tónlistarhópur Kefas gaf út árið 2000. Björg var algjör bakhjarl þessa hóps og frumkvöðull. Hún kom tónlistinni í Kefas af stað. Spilaði sjálf á gítar og fékk aðra til að spila með. Svo bakkaði hún sjálf út en fann fólki stað í hljómsveitinni, hvatti það til að spila ef það kunni eitthvað, hvatti það til að læra á viss hljóðfæri. Hún keypti píanó, – seldi sitt eigið til að kaupa píanó fyrir kirkjuna. Svo keypti kirkjan að hennar frumkvæði öll hljóðfæri sem þurfti, hljóðkerfi og annað sem þörf var fyrir. Hún skapaði algjörlega þær aðstæður sem þurfti fyrir tónlistina til að dafna. Síðar lét hún tónlistarstafið í hendur Bjargar yngri.

Diskurinn frá árinu 2000 hljómaði sí og æ í íbúð hennar á Hrafnistu. Síðustu dagana hennar var hann á sísnúningi. Starfsfólki var farið að þykja nóg um. Þegar búið var um hana hljómaði hann og hjúkrunarfræðingar höfðu orð á því við Steinunni og Guðrúnu Hlín, sem hér spila í dag, að þessi diskur hefði ekki stoppað, -en þær Steinunn og Guðrún buðust til að hjálpa til við að búa um Björgu að lokum – og þær brostu við og sögðu: „Þetta erum við“

„Þannig týnist tíminn“ Emilíana er ein af elstu og bestu vinkonum Bjargar yngri úr vesturbæ Kópavogs. Hún var oft með Björgu með ömmu Björgu. Björg eldri fór með þær hingað og þangað að syngja þegar þær voru litlar. T.d. á skemmtanir sem hún stjórnaði í Sunnuhlíð, á samkomur og uppákomur hjá Ungu fólki með hlutverki þar sem þær sungu og víðar. Síðasta leiksýningin sem Björg fór á var sýningin um EllýnVilhjálms í Borgarleikhúsinu. Sverrir bauð henni og Helgu systur sinni með sér og í för voru líka Björg yngri og Áslaug, kona Ármanns. Björg eldri naut sín virkilega, klappaði með og söng enda mjög hrifin af Ragga Bjarna, Ellýju og Villa.

„Hreðavatnsvalsinn“ – var lag Ármanns og Bjargar.

„Fram í heiðanna ró“ – bara gamalt og gott lag sem öllum þykir vænt um og var Björgu og Ármanni kært.

„Alparós“ – Björg hélt mikið upp á Söngvasveig og Björg yngri horfði oft á myndina með henni þegar hún var lítil. Henni þótti vænt um þetta fallega lag og þetta er eitt af síðustu lögunum sem hún söng með Björgu yngri.

Björg kom víða við og var ætíði virk svo lengi sem kraftar hennar leyfðu:

Hún gætti barna, prjónaði lopapeysur og sendi til Ameríku. Týndi maðka, oft með Ármanni og stundum barnabörnunum og seldi veiðimönnum. Mjög mikil atorka var í henni. Vildi alltaf bjarga sér sjálf.

Í aðdraganda jóla skipulagði hún jólabasarar í Kefas í anda ungmennafélaganna forðum, bjó til jólaskreytingar og gaf mörgum. Þá útbjó hún greinar og skreytingar á leiði og seldi.

Margs er að minnast og margt er hér að þakka.

Ástvinir Bjargar vilja þakka öllum sem komu að útförinni, – tónlistarfólki, tæknimanni, þeim sem hjálpuðu til við undirbúning og hvers konar verkefni. Fólk hefur sýnt mikinn hlýhug. Guð blessi ykkur öll fyrir það.

Stjórn kirkjunnar vill einnig fá að senda þakklætisorð með virðingu og vegsemd til Bjargar.

Björg Árnadóttir átti marga góða vini. Hún naut elsku og virðingar fyrir störf sín og frumkvöðulshlutverk á mörgum sviðum. Hún var dugnaðarkona sem átti sína drauma og þrár sem hún lagði fram fyrir Drottinn í bæn og Hann svaraði bænum hennar á margvíslegan hátt. Þannig er lífið sem lifað er í trú á Guð.

Í Davíðssálmum segir m.a.: Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá. (37:5)

Við kveðjum Björgu í dag hér í kirkjunni sem kennd er við Kefas, klettinn, en Jesús gaf Símoni lærisveini sínum nafnið Kefas, klettur, Pétur.

Að byggja lífs sitt á bjargi er eitt af mörgum góðum ráðum sem Jesús gaf okkur, að lifa á góðri undirstöðu – á kletti, kefasi, bjargi, pétri – er gæfa.

Aðventan minnir okkur á Jesú sem kom á jólum og kemur alla daga þegar við leitum til hans. Hann er kletturinn sjálfur eða eins og segir í fögrum lofgjörðarsálmi:

Jesús er bjargið sem byggja má á,
bjargið sem byggja má á,
borgin sem óvinir sigrað ei fá,
óvinir sigrað ei fá.
Hann er frelsarinn, hann er frelsarinn,
hann er frelsarinn,
frelsari minn og þinn.

(Matt 7.24-25, lag: Birgir Sveinsson)

Björg átti sína björg í Kristi, sína björgun og framtíðarvon, eilífðarvon. Við þökkum líf hennar og störf og felum hana himni Guðs, elsku hans og eilífð.

Guð blessi Björgu Ragnheiði Árnadóttur um alla eilífð, hann gæti hennar og varðveiti hana og megi hann líka blessa þig sem enn ert á lífsveginum og gefa þér góða heimkomu í himinn sinn, í fyllingu tímans. Guð blessi okkur öll.

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.