+Birna Unnur Valdimarsdóttir 1936-2021

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Birna Unnur Valdimarsdóttir

1936-2021

húsmóðir og bankastarfsmaður

Bálför frá Grafarvogskirkju

miðvikudaginn 24. nóvember 2021 kl. 13:00

Jarðsett á Ísafirði

Þú getur hlustað á ræðuna og lesið hana um leið hér fyrir neðan. Smelltu fyrst á hljóðskrána.

Sálmaskráin er neðanmáls.

Þakka sönginn um Aðalvík.

Ég hitti hana Birnu hér í þessari kirkju 3. september s.l. er hún fylgdi góðum Ísfirðingi til grafar og nú hefur hún sjálf kvatt þetta jarðlíf.

Einhver spurði hana nýlega: „Ertu komin með krabbamein“ og hún svaraði á sinn hispurslausa og snögga hátt: „Já, úr einhverju verður maður að deyja.“

Hún var þá, eins og alltaf, með blik í augum, bros á vör og frá henni stafað birtu, gleði og senn ytri- og innri fegurð. Hún var falleg manneskja og í henni traustur kjarni enda komin af sterkum stofnum, breiðfirskum og vestfirskum. Þegar Valdimar kom með sitt breiðfirska konuefni norðu í Efri-Miðvík í Aðalvík var hún klædd eins og heimsdama í kjól og kápu og á rauðum skóm.

Það voru viðbrigði að koma úr Breiðafirðinum þar sem fólk hafði ætíð fæðu í því mikla matarbúri sem fjörðurinn allur er með sínum ótal eyjum og skerjum og Flatey sem „höfuðborg“ með tengsl við útlönd því þangað komu reglulega erlend skip á fyrri hluta liðinnar aldar með varning. En það var dansað á rauðum skóm í Efri-Miðvík þar sem Valdimar sneri brúði sinni í sveit sem kennd er við Aðalvík. Já, það var engin minnimáttarkennd í nafninu, Aðal-vík. En næsti kaupstaður sem hafði tengsl við umheiminn eins og Flatey, var Ísafjörður, nafli alheimsins í hugum okkar hverra rætur teygja sig þangað í mold og mar.

Þau Valdimar og Ingibjörg eignuðust 3 börn, tvo syni og eina dóttur. Ég man þau öll frá því ég ólst upp á Ísafirði og margt fólk hef ég hitt á lífsleiðinni sem á ættir sínar að rekja í Aðalvík og nyrstu víkur Vestfjarða. Samnefnari þessa fólks finnst mér vera, dugnaður og reisn. Lífsbaráttan, þarna við ysta haf, var hörð og óvægin og fólk upplifði jafnvel svo köld sumur að engin uppskera kom úr kartöflugörðum. Margur sjómaðurinn hlaut hvíld í votri gröf. Afabróðir minn, Elías í Nesi, handan við heiðina fyrir sunnan Aðalvík, synir hans og dætur björguðu 18 manns í 3 skipssköðum, og hlúðu að þeim ásamt konu hans Engilráð. Í 3ja skiptið voru engir karlmenn heima en dæturnar tóku til sinna ráða. Í Sjómannablaði Vestmanneyja 1957 segir svo:

„Þær settu fram lítinn bát, er þær sáu atburðinn á víkinni, enda enginn mannafli til að ráða við hinn stærri. Sigling var hættuleg á víkinni vegna sviptivindanna, sem gátu, ef ekki var vel að gáð, hvolft fleytunni, á sama hátt og fór um hinn bátinn. Þá var ennfremur hætta, að skipbrotsmenn misstu stjórn á sér, yrðu ofsahræddir eða töpuðu dómgreind sinni á annan hátt. En þá er mikil hætta á ferðum, í því veðri, sem þá var þarna, mátti ekki halla bátnum. Gripu þær systur þá til þess ráðs að láta skipbrotsmenn hanga á borðstokkunum, tvo hvoru megin. Réru þær þannig til lands og var þeim öllum borgið. Fengu þeir hinar hlýlegustu viðtökur heima í Nesi.“ . . . „Þær systur, Jónína og Elísa, voru sæmdar verðlaunum úr hetjusjóði Carnegies, að upphæð 300 krónum, sem að vísu var talsvert fé á árunum fyrir stríð, en að öðru leyti hefur þessari fjölskyldu ekki verið sýnd nein virðing af opinberri hálfu.“ (http://www.heimaslod.is/index.php/Sjómannadagsblað_Vestmannaeyja_1957/_Þau_björguðu_18_mannsl%C3%ADfum)

Þessi lýsing gæti eins átt við um fólkið í Aðalvík.

Þess má geta að Elísa var kona Símonar Helgasonar á Ísafirði sem ég tel, að mörg ykkar munið sem á mig hlýðið.

Liðin öld var öld breytinganna miklu. Vélar komu í báta í byrjun aldarinnar og sú fyrsta í ísfirskan bát. En tæknin varð að hluta til þess valdandi ásamt nýjum atvinnutækifærum í kaupstöðum landsins, að fólk yfirgaf harðbýlar víkur og voga á norðanverðum Vestfjörðum og freistaði gæfunnar á öðrum miðum.

Um aldir hefur fólk verið á ferð í leit að betri lífskjörum. Ein þekktasta slík saga er sagan um Ísraelsmenn er þeir yfirgáfu Egyptaland. Þeir flutningar eru oftast kallaðir Exódus, brottförin eða útgangan. Það þarf sterk bein til að fara, til að veðja á nýja tilveru. Fólkið sem flutti til Vesturheims fyrir rúmum hundrað árum freistaði gæfunnar og fór, lagði að baki land og umhverfi sem því var kært. Flóttamenn, sem flust hafa til Evrópu á liðnum áratugum og eru enn á leið til „fyrirheitnalandsins“ eins og Ísraelsmenn forðum, leitandi betri kjara, leitandi nýrra tækifæra. Þetta er saga mannkyns. Norsku víkingarnir, sem komu við á Bretlandseyjum og tóku með sér kvonfang, þræla og ambáttir og settust að á Íslandi, voru í sömu erindagjörðum og flóttamenn nútímans og ævintýrafólk yfirleitt. Við leitum út, lengra, hærra og þráum betra líf. Og sú þrá nær út yfir jörð og haf. Hún nær líka til himinsins því við sættum okkur ekki við að jarðlífi sé hið eina sem bíður okkar. Vonin um eilíft líf býr í brjóstum okkar. Hvað tekur við? er spurn í sérhverju mannsins hjarta.

Birna Unnur Valdimarsdóttir fæddist 28. febrúar 1936 í Efri-Miðvík í Aðalvík í Sléttuhreppi, Norður Ísafjarðarsýslu. Hún lést á Líknardeild Landsspítalans í Kópavogi eftir stutta baráttu við krabbamein. Hún sagði nokkrum dögum fyrir anlát sitt: „Ég ætla að deyja um helgina?“ Og það varð. Hún lést sunnudaginn 14. nóvember 2021 á fæðingardegi föður síns. Hún var vön að segja hlutina umbúðalaust og með hugrekki í hjarta.

Foreldrar hennar voru Valdimar Þorbergsson f. 1906 d. 2001 og Ingibjörg Guðrún Bjarnadóttir f.1908 d.2002. Þau náðu bæði háum aldri og áttu saman gott líf.

Birna var yngst þriggja systkina. Bræður hennar eru Héðinn Breiðfjörð f.1933 d.2008 og Birgir Breiðfjörð f.1934. Stutt var á milli þeirra systkina. Öll fædd á 4. áratugi liðinnar aldar. Valdimar var lengi sjómaður og öll fengu börnin millinafn tengt sjónum: synirnir Breiðfjörð og dóttirin Unnur.

Ekkert var sjónvarpið í þá daga og útvarpið kom ekki fyrr en 1930 og útvörpin voru með rafhlöðu sem varð að senda í kaupstaðinn eða alla leið til Reykjavíkur til að láta hlaða þau. Þá gilti máltækið: „Maður er manns gaman.“ Börnin í Efri-Miðvík urðu að hafa ofan af fyrir sér sjálf, syngja saman og segja sögur og oft voru draugasögur efst á vinsældalistanum.

„Það eru erfiðir tímar, það er atvinnuþref“, orti Nóblesskáldið síðar. Árið 1929 skall kreppan á á Íslandi og árið 1939 hófst seinni heimsstyrjöldin. Það voru róstur í Evrópu og blikur á lofti þennan 4. áratug aldarinnar þegar Birna og bræður hennar fæddust. En lífið heldur ætíð áfram. Fólk lifir og deyr á öllum tímum, verður ástfangið og eignast börn. Og svo kom friðartími og Ísland tækifæranna varð til á stríðsárunum og eftir þau.

Birna var mikill og stoltur Aðalvíkingur/Sléttuhreppingur og reyndi að komast í allar messuferðir sem farnar voru í kirkjuna á Stað á Sæbóli í júni/júlí hvert ár. Þar söng hún með Slættuhreppskórnum. Og ekki var gleðin minni eða fjörið þegar sami kór æfði fyrir hið árlega þorrablót.

Birna giftist Heiðari Guðmundssyni frá Bolungarvík 1956. Börn þeirra eru:

a) Guðmundur Rúnar, sagnfræðingur, f. 1955, giftur Birnu Björk Sigurðardóttur f. 1957. Þau eiga tvö börn og þrjú barnabörn;

b) Ingibjörg Guðrún, leikskólakennari, f.1957, gift Jóni G. Árnasyni f.1962. Hún á eitt barn og þrjú barnabörn;

c) Þórný María, hjúkrunarfræðingur, f.1961, gift Halldóri Þórólfssyni f.1957. Þau eiga fjögur börn og tvö barnabörn.

Birna ólst upp í Aðalvík til ársins 1947 þegar fjölskyldan fluttist til Ísafjarðar, þá 11 ára. Hún gekk í Barnaskóla og Gagnfræðaskóla Ísafjarðar. Hún vann ýmis störf, svo sem í fiskvinnslu, var kaupakona í sveit og við verslun. Lengst af starfaði hún sem gjaldkeri við útibú Landsbanka Íslands á Ísafirði og við Vesturbæjarútibúið í Reykjavík.

Þegar Birna var orðin unglingur kom pabbi eitt sinn úr siglingu og hafði með sér tvær kápur á dótturina. Einkadóttirin varð að vera fín og flott.

Það rifjaðist upp fyrir mér er börnin hennar sögðu mér frá því er hún starfaði í snyrtivörubúðinni Straumur í kjallara hússins hans Elíasar Pálssonar þar sem Flugfélagið var með afgreiðslu á jarðhæð. Í Straumi seldu þær Úffa Konn, Birna og fleiri, franskar snyrtivörur sem slógu í gegn á Íslandi uppúr 1960. Um var að ræða franskt vörumerki (kannski Orlane) og ísfirskar konur streymdu í búðina enda höfðu afgreiðslukonurnar fengið sérstaka þjálfun og tilsögn í sölumennsku þessarar undravöru.

Og konurnar keyptu og keyptu, fylltu snyrtiskápinn heima með öllum litum af meiki, varalitum og naglalakki. Og vinkonur dætra Birnu komu í heimsókn til að sjá allar prufurnar í snyrtiskápnum hennar. Ísfirskar konur áttu sumar meira litaval en málararnir gátu blandað í Málningavöruverslun Guðmundar Sæmundssonar. Bærin beinlínis breytti um lit þegar ísfirskar konur höfðu meikað sig að morgni. Og franskur ilmur sveif yfir og inni í húsum, yfir firði og fjöllum. Og þegar stúlkurnar við beinhreinsiborðin í frystuhúsunum tóku af sér gúmmíhanskana að loknum vinnudegi settust þær niður, völdu lit, og lökkuðu neglurnar áður en þær fóru á rúntinn eða helgarballið á Uppsölum að dansa við dynjandi tónlist Villa Valla eða BG. Haldin voru meik-námskeið í Gúttó og ein frúin sem tekin var upp á svið og snyrt til sýnis svaf svo með allt meikið og dreymdi fallega enda mikið fyrir allt sem var „smart og lekkert“.

Ég hringdi vestur í hana Geirþrúði Charlesdóttur til að rifja upp þessar minningar mínar og fá þær staðfestar. Hún og Birna voru tryggar vinkonur og sendir hún samúðarkveðju til fjölskyldunnar og þakkar Birnu áralanga vináttu.

Birna og Heiðar skildu árið 1995 eftir um það bil 40 ára hjónaband.

Snjóaveturinn 1994/95 var Birna mikið ein á Hjallaveginum og það var næstum fullt starf að moka snjó og komast um, veður voru hörð og skilnaðurinn mikið áfall. Snjóflóð féll í Súðavík í janúar 1995.

Um haustið settist hún uppí Volvóinn sinn og ók suður. Skömmu síðar féll annað mannskætt snjóflóð á Flateyri.

Hún kom sér fyrir í Vesturbænum og var þar um árabil og flutti svo í Hraunbæinn.

Fljótlega eftir flutning til borgarinnar kynntist hún Marís Gilsfjörð Maríssyni, fyrrverandi kaupmanni, sem reyndist henni traustur og góður vinur í blíðu og stríðu síðustu 25 árin. Þau áttu saman góða daga og ferðuðust víða saman og nutu lífsins.

Hún var hvers manns hugljúfi og jafnan hrókur alls fagnaðar, var glettin í tilsvörum og fljót að svara fyrir sig með sinni sérstöku kímni. Einu sinni var sagt við hana í veislu: “Af hverju er sonur ykkar svona ólíkur ykkur hjónunum” – og þá svaraði hún að bragði: “Það er vegna þess að hann er svo líkur föður sínum!”

Sem unglingur starfaði hún í skátahreyfingunni. Hún hafði yndi af söng og dansi, ferðalögum og lestri góðra bóka. Hún söng með Sunnukórnum og Kirkjukór Ísafjarðarkirkju til fjölda ára, var í kvennfélaginu Hlíf og var ein af stofnendum Oddfellowstúkunnar Þóreyjar á Ísafirði og starfaði einnig í stúkunni Soffíu í Reykjavík. Hún söng m.a. inn á plötu með Sunnukórnum og fór í söngferð til Noregs með Gullfossi.

Birna var glæsileg kona. Ég man hana á Ísafirði en kynntist henni svo betur hér syðra, í bankanum við Hagatorg, rétt hjá Neskirkju þar sem ég starfaði í 15 ár. Hún tók þátt í dagskrá safnaðarins einkum starfi eldri borgara eftir að hún lét af störfum. Hún kom í Ísfirðingamessurnar og söng gjarnan í kórnum sem leiddi messusöngin og svo var hún um hríð í Kór eldri borgara í Neskirkju og svo hitti ég hana oft er hún fylgdi Vestfirðingum til grafar hér syðra. Og alltaf var hún eins, með brosið blítt, hnarreist og frá henni stafaði kraftur og gleði. Hún var ætíð röggsöm og gekk hratt, „annars fæ ég í bakið!“ sagði hún. Fólkið úr Efri-Miðvík gekk alltaf hnarreist.

Enda þótt hún hafi verið svona snögg í tilsvörum og hreinskiptin, var hún hæversk á sínu heimili og þar var jafnan allt í röð og reglu. Hún vann fullan vinnudag en heimilið galt þess ekki. Hún var skipulögð og henni féll aldrei verk úr hendi. Hún hugsaði vel um börnin sín og kenndi þeim að lesa og lánaði þeim svo bókasafnskortið sitt hjá honum Dóra safnverði svo þau gætu sótt sér lesefni að vild.

Hún var traust og glaðlind, hrókur alls fagnaðar og hamhleypa til allra verka. Börnin minnast þess er hún vann í bankanum að hún var búin að undirbúa hádegismatinn næsta dag kvöldið áður og allt var tilbúið fyrir fjölskylduna. Sá eða sú sem fyrst kom heim í hádegi kveikti á eldavélinni og Bingó! heitur matur í hádeginu ilmaði í eldhúsinu. Heimili hennar var eins og 5-stjörnu hótel, sögðu börnin. Hún vann um hríð í snyrtivöruverslun eins og fyrr var getið, svo hjá Matthíasi Bjarnasyni, þá í Essó og loks í Landsbankanum.

Hún var alla tíð vakin og sofin yfir velferð barna sinna, barnabarna og ættingja.

Birna setti sinn standard, var elegant, og lagði ætíð uppúr því að taka vel á móti gestum. Ömmubarn Birnu sagði: „Því fleiri gestir, þeim mun betur leið ömmu!“

Ég flyt ykkur hlýjar kveðju frá ömmustelpu, Stefaníu Katrínu og Sharooz (sjaros) og sonum þeira, Benjamín Rúnari og Lúkasi Vali, með þökk fyrir allt. Stefanía Katrín náði að heimsækja ömmu sína á Líknardeildinni nýlega til að kveðja hana. Og amma sagði við hana: „Þú átt að njóta lífsins, mannsins þíns og barnanna.“ Það voru síðustu orð ömmu til hennar.

Gestrisni, elskulegheit, kærleiksríkt viðmót, að mæta samferðafólki sínu með gleði í hjarta og fordómalaust, ætti að vera aðalsmerki allra manna, karla og kvenna. Við erum eitt, sem mannkyn, og eigum okkur einn og sama uppruna. Og í okkur flestum býr vitund og von um að lífið sé stærra og meira en við upplifum hér í okkar jarðnesku tilveru. Handanveran er okkur að mestu ókunn en í hjarta okkar býr vitundin um hana. Hvað tekur við? Guðmundur sonur Birnu spurði mömmu sína í hálfkæringi: „Mamma, ætlarðu að taka á móti mér þegar ég kem yfir?“ Og hún svaraði að bragði: „Já, ef ég má vera að því!“

Biskup Íslands, sem náði vel til þjóðar sinnar á liðinni öld, var eitt sinn spurður í sjóvarpsviðtali: „Geturðu sagt okkur hvað tekur við eftir dauðann?“

„Nei,“ svaraði biskupinn vitri, „það get ég ekki sagt, en ég get sagt þér hver tekur við?“

Heili okkar skilur ekki allt og hugsunin eða skynjunin er víðar en í heilanum. Hjartað segir okkur ýmislegt, þessi vitund sem býr í brjósti okkar. Hjartað skilur kærleikann en heilinn ekki, elskan verður aldrei sett upp í Excel-skjali, en hjartað skynjar og skilur hið góða, fagra og fullkomna, hjartað skilur og skynjar Guð, sem er upphaf alls sem er og setti þetta undragangverk af stað sem hófst með Miklahvelli: „Þá sagði Guð: Verði ljós. Og það varð ljós.“

Ljósið er upphaf alls lífs. Lífið kviknaði á hafsbotni þar sem eldur spratt úr sprungu og mætti sjó og frumefnum.

Lífið er undur og það er í hendi Guðs. Hann er okkar „Efri-Miðvík“, efsta miðja, kjarni og uppspretta alls sem er. Hann vakir yfir kaldri vík og hlýnandi jörð og mun gefa okkur vit og kjark til að gera það sem í okkar valdi stendur til að bæta lífið hér á jörð. Og svo bíður eilífðin okkar í skjóli hans sem allt elskar og engum bregst.

Guð blessi minningu Birnu Unnar Valdimarsdóttur og Guð blessi þig á lífsins vegi.

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.