
Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Heiða Jóhannsdóttir
1972-2021
bókmennta-, kvikmynda- og menningarfræðingur, Bergsstaðastræti 43, Reykjavík.
Útför frá Dómkirkjunni í Reykjavík mánudaginn 1. nóvember 2021 kl. 13:00. Jarðsett í Gufunesi.
Sálmaskrá er neðanmáls.
Lífssaga þín og mín, hvernig mun hún rekja sig fram og henni ljúka? Hvernig verður okkar minnst þegar við verðum kvödd hinsta sinn? Við vitum það ekki, sem betur fer, en vonandi verður það jafnþakklátt fólk sem kveður mig og þig og í dag kveður Heiðu Jóhannsdóttur.
Hún fór allt of snemma, lífssaga hennar varð alltof stutt.
Hún var vel af Guði gerð, hæfileikarík og heillandi, vel menntuð á sviði bókmennta, kvikmynda og menningar, góðviljuð, greinandi og gagnrýnin þegar það átti við.
Á mörgum erlendum tungumálum er menningin kölluð kúltúr og vísar þar með í latneska orðið ræktun. En Íslendingar eru engum líkir og nota þess vegna orðið menning sem vísar til þess sem maðurinn, konur og karlar, setja saman innan ólíkra listgreina og gefa svo af sér svo aðrir njóti. Sá sem þetta hús er helgað og reist til dýrðar var kallaður Mannssonurinn, og menningin því að kristnum skilningi á rætur sínar í honum og þeirri ást á öllu lífi og mannfólki, sem hann sýndi á svo einstakan hátt meðan hann lifði og starfaði.
Hann naut þess að vera samvistum við fólk í gleði og sorg, naut þess að sitja veislur og taka þátt í gleðskap.
Líf Heiðu var allt of stutt en hún kom mörgu í verk og ef ég líki því við kvikmynd þá var líf hennar alls engin stuttmynd heldur mynd í fullri lengd sem hefði svo auðvitað getað orðið sería með yfirskriftinni, Heiða II og III.
Við lifum ekki án menningar. Mannkynið hefur um aldir elskað að heyra sögur og það virðist vera svo að mannfólkið haldi mest uppá sögur sem falla að tilteknu sniðmáti sem inniheldur þrjá liði í sinni einföldustu mynd sem lýsa mætti með þessum orðum:
–Upphaf þar sem allt leikur í lyndi.
–Flækjustig þar sem allt virðist við að fara í vaskinn.
–Lausnin sem söguhetjan og aðrir þáttakendur njóta eftir ævintýralega vegferð.
Til eru flóknari útlistanir á þessu sama ferli. Má í því sambandi nefna bókina The Hero’s Journey þar sem höfundurinn Joseph Campbell setur fram söguferli í 12 liðum sem rímar þó algjörlega við fyrrnefnda þrískiptingu.
Biblían sem við leitum til hér í dag eftir huggun og vísdómi var rituð á nokkrum öldum en hún geymir samt þessa þrískiptingu sem á máli guðfræðinnar heitir Sköpun, Fall og Endurlausn eða m.ö.o. Sköpun, Hrun og Upprisa.
Heiða var andlegar þenkjandi, var það sem kannsi mætti kalla spiritual. Hin andlegu gildi voru mikilvægur þáttur í menningarsýn hennar.
Ég hef nýlega hlustað á marga fyrirlestra með breskum prófessor og raunvísindamanni, Rupert Sheldrake, um það sem hann kallar pan psychism og vísar til þess að hið andlega finnst mun víðar en margur heldur. Er hugur okkar bara í höfðinu, í heilanum, eða getur hugur okkar haft áhrif utan líkamans? Við getum t.d. einnig hugsað með hjartanu, a.m.k. segjum við stundumt: Ég finna það í hjarta mínu. Þegar Jeús gekk um og fann til með fólki eða kenndi í brjósti um þá vísar orðið um þá tilfinningu í frumtexta Nýja testamentisins til magans, til kviðarins, eða þess sem á ensku mætti kalla gut feeling. Við erum ekki bara vélar, við erum andlegar verur með andlega hæfileika og skynjun sem kemur okkur oft á óvart og birtir nýjar víddir og aðrar hliðar á tilverunni sem voru okkar áður ókunnar. Við fæðumst, lifum og deyjum öll í fyllingu tímans. Hvað vita hvítvoðunar um lífið meðan þeir eru enn í móðurkviði og hvað vitum við um það sem tekur við eftir dauðann?
Heiða fæddist í Reykjavík 9. apríl 1972. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 18. október 2021. Faðir Heiðu var Jóhann Ragnarsson læknir, f. 10.07.1942, d. 17.12.2007. Móðir hennar er Hanna Gunnarsdóttir innanhússhönnuður og myndlistarmaður, f. 21.08.1942; maki Sigurður Steinþórsson.
Systkini Heiðu eru
1) Anna, f. 1969, eiginmaður Ástráður Eysteinsson;
2) Magnús, f. 1976.
Sonur Heiðu og fyrrverandi eiginmanns hennar, Björns Þórs Vilhjálmssonar, er Magnús Kolbjörn Björnsson, f. 23.10.2009.
Á öðru ári fluttist Heiða ásamt fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna þar sem þau bjuggu næstu fimm árin, lengst af í Cleveland, Ohio. 1978 fluttist fjölskyldan heim. Heiða gekk í Austurbæjarskóla, nam klassískan gítarleik við Tónskóla Sigursveins og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1992. Árið 1997 lauk Heiða BA-prófi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, með íslensku sem aukagrein. Árið 2004 lauk hún MA- gráðu í almennri bókmenntafræði frá sama skóla með sérhæfingu á sviði kvikmyndafræði og menningarfræði. Lokaritgerð hennar fjallaði um margvísleg tengsl nútímastórborgarinnar og kvikmynda. Á árunum 1998-2008 starfaði hún sem kvikmyndagagnrýnandi og menningarblaðamaður á Morgunblaðinu, en var auk þess stundakennari á háskólastigi.
Lífsreynsla hennar og víðssýni mótaðist af náms- og starfsdvölum erlendis m.a. í Þýskalandi, Danmörku og Noregi, en einnig bjuggu þau Björn um nokkurt skeið í Bandaríkjunum.
Árið 2006 hóf Heiða doktorsnám í kvikmyndafræði við University College London (UCL) í Lundúnum á doktorsnámsstyrk og Chevening-styrk, auk þess sem hún hlaut tveggja ára styrk UCL Graduate School til kvikmyndarannsókna við British Film Institute National Archive. Hún sinnti einnig stundakennslu við UCL meðfram náminu, hélt fyrirlestra á ráðstefnum og birti ýmsar fræðigreinar í tímaritum og bókum. Í náminu sérhæfði hún sig í kvikmyndarannsóknum með áherslu á menningarsagnfræðilega nálgun og safnarannsóknir. Í doktorsritgerðinni „Women, Work and Urban Space in British Silent Cinema“ fjallar hún um breska kvikmyndagerð á þriðja áratugnum, leiknar kvikmyndir sem og fræðslumyndir, og hvernig þær bregðast við togstreitu í tengslum við aukin umsvif kvenna í almannarýminu og í vinnu- og neyslumenningu nútímans. Doktorsritgerðin var langt komin en hafði þó ekki verið lögð fram til varnar þegar Heiða lést.
Á síðasta áratug, eftir að Heiða fluttist aftur til Íslands, kenndi hún ýmis námskeið um kvikmyndir, menningarfræði og menningarmiðlun við Háskóla Íslands, m.a. sem aðjúnkt 2015-2016. Árið 2013 greindist hún með brjóstakrabbamein. Hún tók veikindunum af æðruleysi og miklum andlegum styrk; bjó sér og syni sínum hlýlegt heimili við Bergstaðastræti í Reykjavík, naut þess að ferðast með fjölskyldu sinni og vinum, og sinnti ýmsum störfum eftir föngum. Auk kennslunnar og yfirferðar lokaritgerða má þar geta kvikmyndagagnrýni í Sjónvarpi og setu í dómnefnd fyrir alþjóðlega kvikmyndahátíð.
En svo var þessu frjóa og viðburðarríka lífi skyndileg lokið.
Það er ekki sanngjarnt að móðir deyi frá 12 ára syni sínum, að móðir kveðji dóttur, systkini systur. Nei, það er ekki sanngjarnt. Fólk ætti auðvitað að deyja í réttri röð en þannig er lífið því miður ekki nema í sumum tilfellum. Lífið er ekki alltaf réttlátt. Við fæddumst með harmkvælum og þrautum og mættum svo skæru ljósi dagsins þegar fæðingarveginum sleppti og hittum flest fyrir konu með starfsheitið LJÓSmóðir. Við lifum í heimi ljóssins og lífið kenndi okkur fljótt að þar eru líka skuggar og mótlæti.
Ég ræddi við Magnús Kolbjörn um móurmissinn og sorgina eftir að við höfðum átt stund yfir kistu mömmu hans í Fossvoginum ásamt pabba hans, ömmu og móðurbróður. Ég átti við hann einkasamtal til að kynnast honum betur og til að finna fleti á því með hvaða hætti ég gæti kannski undirbúið hann ögn undir framtíðina. Hann sýndi mikið hugrekki og æðruleysi og ég spurði hann um vini hans og félagslegt umhverfi og komst að því að hann á góða vini, hefur mörg áhugamál og svo veit hann að fjölskyldan stendur með honum.
Hann flytur nú til pabba og konu hans ásamt hundinum Dropa og kisurnar Brandur og Lana verða þar líka. Ég talaði um hve gott sé að eiga gæludýr til að knúsa og hjala við og tala um áhyggjur sínar og sorgir. Hann rifjaði upp skemmitlegar ferð með mömmu til útlanda og þegar þau voru saman úti í sveit fyrir 3 árum í 2 vikur og horfðu 5 sinnum á Abba-myndina Mamma Mia. Hann spurði mig varfærnislega hvort lög úr þeirri kvikmynd yrðu spiluð við athöfnina og ég sagðist mundu reyna að koma því í kring. Þess vegna fékk hann – og við öll – smá Abba-tónleika á undan athöfninni þegar Steingrímur lék syrpu af þessari fallegu tónlist á orgelið.
Ég ræddi við hann um að sorgin kæmi oft fyrirvaralaust. Hann gæti t.d. verið á gangi í hverfinu heima og lag úr Mamma Mia hljómaði út um glugga í næsta húsi og þá færu tárin allt í einu að trilla niður kinnarnar með ekkasogi í brjósti og hálsi.
Sorgin vitjar okkar oft í gegnum tónlist eða atvik sem minna á látinn ástvin og svo verða áhrifin af þessum upplifunum mildari með árunum því við lærum að lifa með sársaukanum. Sorgin hverfur aldrei, sárin kunna að gróa en örin sitja eftir. Sorgin ýfist upp á stórum stundum lífsins, á afmælum, um jól og páska, við útskriftir og merk tímamót. Þá verður mamma bara til staðar í minningunni. Eða kannski líka einhvern veginn í handanverunni, nálæg í farlægðinni. Ég veit það ekki. Einhvernveginn hérna inni og hérna við hliðina á mér og yfir og allt um kring.
Kæri Magnús Kolbjörn, þú átt góð áhugamál og framtíðardrauma. Megi þeir draumar rætast með Guðs hjálp og góðra manna.
Fjölskyldan öll er í sorg, vinir og vandamenn eru það líka. Dauðinn minnir á sig og segir: Memento mori, mundu að þú ert dauðleg, dauðlegur.
Ég bað fjölskylduna að rifja upp líf Heiðu er ég átti fund með henni. Ekki stóð á góðum einkunnum: Hún var skemmtileg, gefandi og klár, yfirveguð, ráðagóð – og fylgin sér. Hún var frjáls andi, fór sínar eigin leiðir og kom víða við. Hún vann t.d. í fiski á Flateyri, sótti sér fjör á Hróarskelduhátíðum, var jóga- og grasakona, fór í MH, pönkaðist í hljómsveitinni Dritvík, sem var talin bjartasta vonin eitt árið í DV. Heiða var söngvari og lék á bassa og svo var hún líka klassískur gítarleikari eins og fyrr er komið fram. Hún var náttúrutengd og lagði mikið upp úr náttúruvernd. Hún var skarpgreind, næmur lesandi og greinandi fræðimaður, hafði í það minnsta smá skammt af fullkomunaráráttu og kannski einmitt þess vegna var hún ekki búin að verja doktorsritgerðina sína en bæði BA-prófið og meistararitgerðina kláraði hún með miklum sóma.
Hún var fjölhæf, fór úr bókum yfir í sjónlistir og svo sveif tónlistin yfir öllu. Hún gaf öðrum rými í kringum sig og gaf Birni Þór svigrúm á sínum tíma til að ljúka sínu námi.
Fólki þótt gott að leita ráða hjá henni. Hún var lausnarmiðuð og hjálpsöm. Hún bar virðingu fyrir lífinu, var dýravinur og sýndi fóki umhyggju í stóru sem smáu og var náttúruverndarsinni.
Ég setti plötuna, Blues, blues, blues, í spilun meðan ég var að ljúka þessum minningarorðum, plötu sem fjölskyldan á Laufásveginum hefur mætur á, en Heiða var þó meira fyrir nýbylgjurokk en mamma og fjölskyldan. Dásamleg upplifun. Blúsinn er tregatónlist með ívafi bæði elsku og frygaðar. Merkilegt að allar stóru músikktegundirnar sem einkennt hafa 20. öldina og okkar öld, fyrir utan klassíkina, eru komnar frá Bandaríkjamönnum af afrískum uppruna: sálmahefð blökkumanna, blúsinn, jazzinn, swingið, rokkið – og rappið.
Við lifum ekki án menningar, tónlistar, sviðslista, kvikmynda, sjónvarps, ritlistar, frásagna og uppistands. Og rauði þráðurinn í mörgum þessara listgreina er fyrrnefnd þrískipting sem einkennir allar góðar frásagnir og tónlist. Og Punch-line verður alltaf að vera á réttum stað.
Kristin trú boðar upprisu, boðar að lífinu ljúki ekki við dauðann heldur sé hann aðeins áfangi. Og fyrrnefnd þrískipting kemur skýrt fram í orðunum þegar presturinn kastar rekum eða moldar og segir fyrst orðin úr Gamla tetamentinu: Af jörðu ertu klominn. Að jörðu skaltu aftur verða. En svo bætir Kristindómurinn við þriðju fullyrðingunni: Af jörðu skaltu aftur upp rísa. Síðustu orðin eru byggð á lífi, dauða og upprisu Krists. Hér er komin þrenningin: Sköpu, Fall og Endurlausn.
Þetta er lífið í sínu stóra samhengi. Þetta er vonin í dimmum dal sorgar, vonin í vonlausun aðstæðum, ljósið í mirkrinu, vatnslindin í eyðimörkinni, höndin sem grípur þann sem er að sökkva og reisir hann upp úr djúpinu, röddin sem huggar og styður á lífsveginum, augun sem gráta, faðmurinn sem umvefur og röddin sem segir við þig:
Lífið heldur áfram!
Kæra fjölskylda Heiðu:
Magnús Kolbjörn, Hanna og Sigurður, Anna og Ástráður, Magnús, vinir og vandamenn:
Guð blessi minningu Heiðu og varðveiti hana í eilífðinni og megi hinn sami blessa ykkur og leiða um lífsins veg. Amen.

