+Pétur Geir Helgason 1932-2021

Minningarorð

+Pétur Geir Helgason

1932-2021

fv. skipstjóri og útgerðarmaður

frá Ísafirði

Ég horfi út á Sundin blá úti fyrir höfuðborginni úr gluggunum heima. Sjór hefur verið sléttur og kyrr síðustu daga en fyrir helgina hvítnaði í báru og sægrænir litaflákar skreyttu yfirborðið. Fiskibátar og seglskútur sigldu út eins og sjómenn hafa gert um aldir hér á landi. „Föðurland vort hálft er hafið“ segir í fögrum sjómannasálmi, helmingur föðurldands okkar liggur í sædjúpinu.

„Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar“, sagði Jesús við Símon Pétur. Og hann fór eftir orðum hans og fyllti bátinn.

Pétur Geir Helgason lagði oft út á djúpið, bæði Ísafjaðardjúpið og önnur djúp og fyllti bátinn sinn. Hann var sjómaður stærstan hluta starfsævi sinnar, seigur og sækinn, fundvís á fisk og rækju. Þegar menn byrjuðu að leita rækju í Ísafjarðardjúpi á liðinni öld höfðu margir lítinn skilning á sjómönnum sem eltust við „marflær“ inn um allt Djúp. Nú eru rækjur á borðum okkar allra og við metum þær mikils sem gómsæta fæðu og dýrmæta útflutningsvöru.

Djúpið er þekkt hugtak innan heimspeki og guðfræði og vísar oft til þess óþekkta, til hyldýpis, jafnvel notað um tómið, sem var til áður en allt var skapað, einskonar ginnungagap.

Djúpið!

Innra með okkur sjálfum er djúp, ómælisdjúp, huldir heimar, sálarkimar og dýpi sem við skiljum varla sjálf, hvað þá aðrir. Margt er það sem við ekki þekkjum eða skiljum en höfum samt einhverjar hugmyndir um. Þannig er trúin einskonar djúp sem er bæði utan mannsins og innra með honum. Trú má líkja við vitund um eitthvað æðra og stærra en hugurinn getur náð utanum eða skilið til fulls.

Biblían er mikil trúarbók sem fjallar um trú og leit manneskjunnar að æðra tilgangi, glímu hennar við Guð og leitina að skilningi á tilgangi lífsins. En aðeins á einum stað, í einu versi, er trúin skilgreind í þeirri miklu bók:

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)

Að trúa er að treysta því að draumar rætist, vonir verði að veruleika, að upp renni betri tíð, að allt fari vel þegar upp verður staðið, að meira að segja dauðinn muni ekki eiga síðasta orðið.

Pétur Geir var trúaður maður. Ég kom að beiðni ástvina að dánarbeði hans þar sem hann lá meðvitundarlaus. Ég talaði til hans, söng sálminn, Ó, Jesú, bróðir besti, og fór svo með bæn, signdi yfir hann og blessaði. Þá lyfti hann hönd sinni úr djúpi meðvitundarleysinsins, tók í hönd mína og þakkaði fyrir sig.

Í djúpi vitundar hans bjuggu bæði trúin og vonin, sem hann eignaðist sem drengur hjá trúuðum ástvinum. Trúin fylgdi honum alla tíð í öllum veðrabrigðum lífsins.

Og nú er þessi hetja er horfin frá okkur, maður sterkra en ólíkra eiginleika, eins og reipi ofið úr ótal þráðum og mörgum þáttum. Það trosnaði seint og gaf sig ekki auðveldlega.

Æviágrip

Pétur Geir Helgason fæddist í Álftafirði við Ísafjarðardjúp hinn 15. nóvember 1932 og lést í Reykjavík 21. maí 2021, sonur hjónanna Helga Bendiktssonar (f. 29. okt 1893 d. 12. des 1975) og Jónínu Pétursdóttur (f. 11. jún 1905 d. 31. mar 1985).

Systkini Péturs Geirs voru: Benedikt Helgason (f. 1923, látinn), Guðmundur Helgason (f. 1925, látinn), Birna Benjamínsdóttir (f. 1927), Guðmundur Helgason (f. 1929, látinn), Lúðvíg Helgason(f. 1936, látinn) og Sigríður Helgadóttir (f. 1941, látin).

Guðmunda Jóna Pétursdóttir (f. 5. apr 1901 d. 23. jan 1993) móðursystir Péturs Geirs tók hann í fóstur þegar hann var fjögurra mánaða gamall og ól hún hann upp, fyrst með Pétri Janusi Oddsyni (f. 10. jan 1902 d. 27. okt 1976) en ein eftir að þau skildu. Fyrir átti Guðmunda Jóna dótturina Fanneyju Halldórsdóttur (f. 26. feb 1924 d. 5. okt 2008) og leit Pétur Geir alla tíð á hana sem systur sína.

Pétur Geir kvæntist Ósk Norðfjörð Óskarsdóttur frá Hrísey árið 1952 (f. 9. júní 1934 d. 30. jan 2008). Þau eignuðust fjögur börn. Þau eru: Óskar Geir (f. 1. sept 1952), Rúnar Þór (f. 21. sept 1953), Guðmunda Jóna (f. 13. sept 1958) og Heimir Már (f. 20. maí 1962). Pétur Geir og Ósk ólu einnig upp að mestu dótturdóttur sína Ósk Norðfjörð yngri.

Barnabörn Péturs Geirs og Óskar eru sextán talsins, barnabarnabörn eru tuttugu og níu og barnabarnabarnabörn eru þrjú.

Ósk kom til Ísafjarðar til að stunda nám í Húsmæðraskólanum Ósk sem var mikilvægur skóli og ungu mennirnir í bænunm horfðu með tilhlökkun til stúlknahópsins sem birtist í bænum hvert haust. Þeir voru að leita sér kvonfangs og stundum var skólinn kallaður Vetrarhjálpin í gamansömum tóni! Margar stúlkur giftust Ísfirðingum og fluttu þá með sér til heimahaganna eða settust að á Ísafirði í Faðmi fjalla blárra. Þannig lagði skólinn til blöndun erfðaefna í landinu og farsælt og fagurt heimilishald með velskóluðum og útskrifðum glæsimeyjum.

Pétur Geir og Ósk bjuggu fyrstu tuttugu og þrjú búskapar ár sín á Ísafirði, lengst af á Seljalandsvegi 30 sem þau byggðu og fluttu inn í árið 1961. Árið 1976 fluttu þau til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu í eitt ár áður en þau fluttu til Kópaskers þar sem þau bjuggu í þrjú ár áður en þau fluttu aftur til Ísafjarðar. Þar voru þau fram til ársins 1988 þegar þau fluttu á Árskógsströnd í eitt ár en bjuggu eftir það jöfnum höndum á Akureyri og Kópaskeri til ársins 2007.

Á Kópaskeri var þeim tekið með kostum og kynjum. Pétur Geir hafði verið ráðinn þangað til að vera verkstjóri í rækjuverksmiðju þorpsins. Hann og Ósk voru bæði vel liðin og á Kópaskeri eignuðust þau marga og góða vini til lífstíðar og tóku ástfóstri við þorpið. Ekki síst myndaðist góð og ævilöng vinátta við hjónin Kristján og Guðbjörgu en það var Kristján sem réð Pétur Geir norður á Melrakkasléttu. Guðbjörg er fallin frá en Kristján er með okkur hér í dag. Hann sá um bókhald og fleira fyrir Pétur Geir allt fram á síðasta dag. Þar var allt í röð og reglu eins og þeir báðir vildu hafa það.

Það var vinnan sem réði flutningum þeirra. Pétur Geir var lengst af sjómaður og útgerðarmaður á Ísafirði, var bæði með vélstjórapróf og skipstjórnarpróf og þá lærði hann niðursuðu ungur að árum í París. Í nokkur ár var hann yfirfiskmatsmaður hjá Fiskmati ríkisins. Hann var verkstjóri í rækjuverksmiðju á Kópaskeri í þrjú ár og forstjóri rækjuverksmiðju á Árskógsströnd í um þrjú ár. Eftir það stundaði hann trylluútgerð á sumrin frá Kópaskeri fram til ársins 2002 þegar hann og Ósk seldu sumarhús sitt þar.

Haustið 2007 fluttu Pétur Geir og Ósk til Reykjavíkur þar sem hún lést síðan hinn 30. janúar 2008. Eftir það bjó Pétur Geir einn en síðustu mánuðina var hann á Landakoti, Vífilstöðum og loks Droplaugastöðum þar sem hann lést.

Mynd mín af Pétri Geir, en móðir mín og hann voru fjórmenningar, er mynd af glaðbeittum manni. Ég þekkti hann bara sem hressan sjómann og tónlistarmann, man hann í hópi lúðraþeytara í fínum búningum á hátíðisdögum í bænum okkar fagra, Ísafirði. Myndin sem ég á í huga mér er af brosandi manni, kankvísum með greindarleg augu og svip og hvella rödd. Hann var hress og fór ekki með löndum í sínu daglega lífi og börnin hans af Seljalandsveginum voru fjörmikil og virk – og þá er ég ekki að tala í lágstigi! Þegar ég jarðsöng nágranna konu þeirra til margra ára, í vetur sem leið, Birnu, konu Bússa, sagði ég frá barnahópnum á Seljalandsveginum og Engjaveginum þar sem m.a. bjó náið frændfólk mitt í föðurætt, svonefndir Grímsarar, og velti því fyrir mér hvað hafi verið í vatninu sem „púkarnir“ drukku. Krakkar voru kallaðir púkar á Ísafirði.

Kraftur býr í börnum Péturs Geirs og þar sem slíkt afl er fyrir hendi er ólga og sköpunarkraftur sem brýst út með ýmsum hætti.

Pétur Geir lét um sig muna á mörgum sviðum og gefa má honum margskonar einkunnir. Hann var rækjukóngur, fundvís á mið og torfur og gaf sig ekki fyrr en hann hafði fundið rækju í Jökulfjörðum sem fáir höfðu trú á. Hann var um árabil formaður Hugins, félags smábátasjómanna á Ísafirði; formaður ÍBÍ og kom knattspyrnumönnum bæjarin upp úr 2. deild og alla leið í 1. deild og var sæmdur gullmerki ÍSÍ. Minnisstæður er leikurinn sem Ísfirðingar léku við Keflvíkinga á þessum árum. Tveir Fokkerar fullir af hálfum Ísfirðingum flugu suður til að styðja sína menn en ekki leit það vel út á fyrstu mínútum leiks en þá höfðu Keflvíkingar skorað 2 mörk. Þá byrjuðu Ísfirðingarnir að hrópa í trú og von: 7/2!, 7/2!, 7/2! og gáfust ekki upp fyrr en þau úrslit voru í höfn!

Pétur Geir var félagsmaður sem gaf sig 100% í allt sem hann tók sér fyrir hendur.

Í pólitík lét Pétu Geir hjartað ráða og grunngildin. Hann var strangheiðarlegur og gaf hvorki afslátt af lögum né siðareglum.

Hann var yfirmatsmaður hjá Fiskmati ríkisins og sýndi þar festu og fyrirhyggju og enga fyrirgreiðslupólitík og gaf enga afslætti. Þegar ráðherrann vildi gefa leyfi fyrir að flytja út fisk sem ekki stóðs gæðamat, sagði Pétur Geir við hann: „Ef þú vilt að þessi útgerð flytji út úldinn fisk, þá gefur þú út leyfið, ekki ég!“

Pétur Geir var fastur fyrir og byggði líf sitt á föstum grunni traustra gilda.

Hann var húmoristi, skemmtilegur bæði í daglegu lífi og á gleðistundum með vinum og ættingjum.

Síðustu árin átti Pétur Geir við töluverð veikindi að stríða. Það er á engan hallað þótt syni hans Rúnari Þór og dótturdótturinni Ósk Norðfjörð, Sveini Elíasi manni hennar og börnum, sé hér þakkað sérstaklega fyrir þeirra aðhlynningu og endalausu þolinmæði. Þau voru til taks allan sólarhringinn undir það síðasta og fyrir það var Pétur Geir þakklátur enda gerði það honum kleift að halda heimili sínu fram í andlátið.

Kveðjur hafa borist frá fjarstöddum ættingjum og vinum.

Guðmunda Jóna Norðfjörð og sambýlismaður hennar Hinrik H. Friðbertsson og þeirra afkomendur, sem ekki gátu verið hér í dag, senda sínar bestu kveðjur og biðja föður og afa blessunar.

Pétur Geir Óskarsson gat ekki verið með okkur hér í dag. Hann biður um góðar kveðjur til fjölskyldunnar. Hann minnist afa síns og nafna með mikilli hlýju og þakklæti fyrir órjúfanlegan vinskap hans og góð ráð í gegnum árin.

Dalla kemst því miður ekki vegna veikinda. Hún og dætur hennar og Óskars Geirs, þær Hjördís og Hafdís Ýr, biðja fyrir kveðjur.

Heiða vinkona Péturs og Óskar og fjölskylda hennar biðja fyrir innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar og þakka einlæga vináttu við þau hjónin um áratuga skeið.

Börn Signu frænku Óskar og Gulla Búa á Akureyri senda hugheilar kveðjur og þakka góð og náin kynni við Pétur, Ósk heitina og fjölskyldu þeirra.

Adda Hermannsdóttir og fjölskylda Ísafirði senda innilegar samúðarkveðjur og þakkar áralanga vináttu.

Frá Erlingi Tryggvasyni, Braga Magnússyni, Benna Överby og Óla Thorarensen sem allir eru á Ísafirði og fylgjast með athöfninni á Vefnum.

Gerður frænka Péturs og Gulli maður hennar senda góðar kveðjur.

Tónlistin var Pétri Geir í blóð borin og margir ættingja hans eru listfengnir og margir þeirra búa yfir ríkri tónlistargáfu.

Hann hafði eyra fyrir skáldskap og gaf út ljóðabókina Sólrúnir. Í ljóðinu Leiðarlok eru honum sjórinn hugstæður.

Út við sæinn sit

einn sumar dag

glæsilegt er glit

glórautt sólarlag.

Bárur brotna á sandi

bærist þararót

bera boð að landi

bæði hal og snót.

Sólin gyllir sæinn

sigla skip á braut.

Bjarma slær á bæinn

bæði dal og laut.

Með ásýnd ægifagra

upp úr sjónum rís

Sunna sína geisla

sendir lof og prís.

Eins og fyrr hefur komið fram var Pétur Geir trúaður maður. Hann elskaði mikið, sögðu börnin, en var auðsæranlegur, réttsýnn og trúði á jafnræði og hið sammannlega í lífinu.

Og nú er hann horfinn frá okkur, þessi kempa.

Pétur Geir hefur lagt út á djúpið í hinsta sinn og er kvaddur hér í Neskirkju í Reykjavík. Kirkjubyggingum er jafnan líkt við skip. Við sitjum hér í kirkjuskipi. Á ensku er talað um „church nave“ kirkjuskip en „nave“ er stofninn í orðinu „navy“. Flest okkar vorum munstruðu á þetta skip Krists í heilagri skírn, vígð til að tilheyra því fleyi sem færir okkur alla leið, í himininn heim, gegnum brotsjói lífsins og yfir djúpið mikla.

Lokaversin í ljóðinu Leiðarlok hljóða svo:

Lífi brátt er lokið

leið er hafin ströng.

Í skjólin flest er fokið

farin ævin löng.

Sólin gyllir sæinn

sigli ég á braut.

Hvísla blítt í blæinn

bið um líkn í þraut.

Við kveðjum Pétur Geir Helgason með virðingu og þökk.

Megi hann lifa í himni Guðs með ástvinum sínum sem horfnir eru og megir þú sem hér kveður með þökk, með góðum minningum og sárum í bland, sigla áfram á yfirborði lífsdjúpsins og rata í friðarhöfn þegar kallið kemur.

Guð blessi minningu Péturs Geirs Helgasonar og Guð blessi þig.

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.