Minningarorð
+Guðlaugur Björgvinsson
1946-2021
fv. forstjóri Mjólkursamsölunnar
Útför/bálför frá Hallgrímskirkju
föstudaginn 14. maí 2021 kl. 13

„Allt er í heiminum hverfult“, kvað þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson um landið sitt, menningu og forna frægð.
Kynslóðin sem fæddist uppúr seinni heimsstyrjöldinni hefur heldur betur fengið að reyna hver margt í heiminum er hverfult og breytingum undirorpið. Lífið í landinu hefur tekið ótrúlegum breytingum á s.l. 75 árum. Félags- og þjóðfélagslegar breytingar hafa orðið gríðarlegar, lífskjör eru allt önnur í dag en á 5. áratugi liðinnar aldar. Samgöngur eru breyttar, tæknin ný og stóra byltingin sem kennd er við Netið hefur gjörbreytt heiminum.
Þegar Guðlaugur fæddist hér handan götunnar að Frakkastíg 26a var Skólavörðuholtið lítið byggt, engin var þar kirkja, enda þótt Hallgrímsprestakall hafði verið stofnað 6 árum fyrir fæðingu hans. En þar átti eftir að rísa stærsta kirkja landsins sem var umdeild framkvæmd á sínum tíma en er nú orðin þekkt um veröld víða, en þá var byggingin bara framtíðardraumur, stór draumur um veglegt hús, musteri í minningu sálmaskáldsins mikla, séra Hallgríms Péturssonar. Kirkjan var þá bara hugarsýn til framtíðar, bara draumur, en þykir nú vera meðla athyglisverðustu kirkjubygginga veraldar.
Öll eigum við okkur drauma um eitthvað sem er ekki enn orðið að veruleika. Trúin er eins og framtíðardraumur og í þeirri merku bók Biblíunni er aðeins eitt vers sem tjáir og túlkar hugtakið trú. Það er í Bréfinu til Hebrea í Nýja testamentinu og hljóðar svo:
„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)
Að trúa felst í því að treysta á hið ókomna, á drauma sína, vonir og þrár.
Guðlaugur fæddist 16. júní 1946 inn í trausta og góða fjölskyldu og naut ástúðar og góðs atlætis.
Hann lést á Landspítalanum 4. maí s.l. tæplega 75 ára að aldri.
Foreldrar Guðlaugs voru Ásta Margrét Guðlaugsdóttir, kjólameistari, f. 12. júlí 1916, d. 20. ágúst 1983 og Björgvin Kristinn Grímsson, stórkaupmaður, f. 14. september 1914, d. 5. janúar 1992.
Bróðir Guðlaugs var Jóhann Sigurður, verslunarmaður, f. 20. janúar 1936, d. 22. apríl 2007. Eftirlifandi eiginkona hans er, Klara Sjöfn Kristjánsdóttir.
Systir Guðlaugs er, Guðrún Erla Björgvinsdóttir, kennari, f. 1. nóvember 1943. Maður hennar var Jón Böðvarsson, skólameistari og ritstjóri.
Þegar ég hóf nám í 1. bekk Verzlunarskóla Íslands haustið 1965 horfði maður með aðdáun upp til nemenda í efri bekkjum skólans, einkum þeirra sem voru í 5. og 6. bekk sem hét lærdómsdeild. Ég man eftir glæsilegum manni, Guðlaugi og fleiri bekkjarsystkinum hans. Þar í hópi var Þórunn Hafstein og þau farin að draga sig saman. Þau voru bæði glæsileg og í raun eins og stjörnur í útliti, fáguð og flott. Þau útskrifuðust 15. júní 1967 og daginn eftir gengu þau í hjónaband á tuttuguogeinsársafmæli Guðlaugs, 16. júní. Þórunn, sem varð kennari, var f. 13. desember 1946, d. 12. apríl 2012. Foreldrar hennar voru Sigrún E. Hafstein, f. 18. júlí 1920, d. 18. mars 1982 og Eyjólfur Jónsson Hafstein, f. 25. september 1911, d. 18. febrúar 1959. Blessuð sé minning hennar.
Dætur Guðlaugs og Þórunnar eru:
1) Ásta Margrét, flugfreyja, f. 8. september 1965. Maður hennar er Einar Ingi Ágústsson tölvunarfræðingur og eiga þau þrjú börn, Guðlaug Þór, Ingibjörgu Evu og Einar Ágúst. Dóttir Einars Inga er Sóley.
2) Hildigunnur Sigrún, hjúkrunarfræðingur, f. 22. júlí 1972 og á hún tvo syni, Rafn Atla og Erni Atla Hermannssyni.
3) Þórunn Björk, flugfreyja og kennari, f. 3. ágúst 1974. Dætur hennar eru: Rebekka Rún Jóhannesdóttir og Thelma Rún Hjartardóttir.
4) Erna, bráða- og lyflæknir, f. 19. maí 1980. Maður hennar er Guðmundur Gunnarsson, slysa- og bráðalæknir. Synir þeirra eru Daníel og Gunnar Emil. Dóttir Guðmundar er Magdalena.
Guðlaugur gekk í Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Verslunarskólann. Hann nam viðskiptafræði við Háskóla Íslands og lauk því námi 1971. Hann fæddist hér á Holtinu en bjó svo við Miklubraut og þau Þórunn hófu sambúð á þeirri sömu braut, skammt frá bernskuheimili Guðlaugs. Seinna fluttu þau í Grænuhlíð, svo í Vesturberg og loks flutti Guðlaugur í Árskóga eftir að Þórunn féll frá.
Með námi starfaði hann hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, fyrst sem skrifstofustjóri og síðan framkvæmdastjóri. Eftir að hann lauk námi í viðskiptafræði vann hann hjá Útflutningsmiðstöð iðnaðarins, en fór til Mjólkursamsölunnar 1974. Þar starfaði hann fyrst við hlið Stefáns Björnssonar forstjóra og tók síðan við forstjórastöðu af honum 1976 og gegndi henni til starfsloka. Guðlaugur sat í stjórn Knattspyrnufélagsins Vals. Hann var í Rótarýklúbbi Reykjavík/Breiðholt og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, var m.a. forseti klúbbsins.
Guðlaugur átti glæstan atvinnuferil og naut hvarvetna trausts. Hann var samviskusamur og nákvæmur, stundvís og vinnusamur.
Hvað kenndi hann ykkur? spurði ég dæturnar. Á hvaða gildi lagði hann áherslu? Það stóð ekki á svörum þeirra:
-Gera allt strax.
-Gera allt með góðu.
-Ástunda dugnað og vinnusemi.
-Vera sjálfstæðar.
-Vera heiðarlegar.
-Eiga fyrir hlutunum og skulda sem allra minnst.
Hann var alinn upp í klassískum, kristnum gildum, fór í sunnudagaskóla með systkinum sínum í bernsku, fermdist og trúði á Guð og hið góða í lífinu. Og hann lifði farsælu lífi enda þótt engin sé tryggingin fyrir velgengni þótt fólk hugsi fallega og ræki sína trú. Lífið er flóknara en svo og breyturnar svo margvíslegar að enginn getur í raun séð allt fyrir. Lífið er og verður ávallt áhættusamt en það hjálpar vissulega í lífsglímunni að eiga góðan og traustan lífsgrunn og leitast við að vera sjálfum sér samkvæmur og lifa á grunni góðra gilda.
Guðlaugur var fylginn sér, „hörkutól og þrjóskur“ sögðu stelpurnar. Hann var líka hress og skemmtilegur, klár og fróður. Þær gátu flett upp í pabba sem var eins og alfræðibók áður en Google varð til. Hann hjálpaði þeim við nám og ritgerðasmíð, fræddi og studdi í hvívetna, kenndi þeim stærðfræði og bókhald, sem hann kunni hundrað prósent.
Hann var greiðvikinn og mættur strax ef greiða var óskað. Ávalt viðbúinn og aldrei mínútu of seinn. Hann var nákvæmur og vildi aldrei skulda neinum neitt.
Þá var hann snyrtimenni enda kominn af fólki sem fékkst við saumaskap og sölu á vönduðum fatnaði.
Borgardrengurinn af Skólavöðruholtinu, sem síðar bjó á Miklubrautinni, þekkti líka landið utan höfuðborgarinnar því hann var sjö sumur í sveit í Borgarfirði.
Hann tók meirapróf og ók strætó um tíma og fór í söluferðir um landið með föður sínum. Svo eignaðist hann marga flotta bíla á lífsleiðinni og lengi vel báru þeir númerið R775.
Hann fór oft með fjölskylduna í bíltúr um helgar og gjarnan var komið við í ísbúð og eftir að hann hjóf störf hjá Mjólkursamsölunni var auðvitað bara borðaður MS ís. Þegar ungur frændi Guðlaugs var eitt sinn á ferð með fólki sem fór í ísbúð og bauð honum uppá Kjörís, sagði sá stutti: Nei, takk, ég borða bara MS-ís, því Gulli frændi minn er nefnilega forstjóri þar!
Hláturinn lengir lífið, segir máltækið. Guðlaugur var glaðsinna og með góðan húmor og gat auðveldlega gert grín að sjálfum sér eins og þegar hann hafði verið vikum saman á sjúkrahúsi nú í sumar og heimsóknir takmarkaðar þá ræddu þeir saman í síma, Halldór Vilhjálmsson, vinur hans og hann. Þá sagði Gulli: „Dóri, ég held að þeir hljóti að fara að setja upp mynd af mér hér á spítalanum því þeir hafa örugglega aldrei tekið eins mörg sýni úr nokkrum manni eins og mér. Það gæti verið gott fyrir læknanema að fá að kynnast minni sögu.“
Halldór sagði við mig: „Í veikindum og erfiðleikum gafst hann aldrei upp en beitti gjarnan húmor.“
Þannig tók hann á áföllum og mótlæti sem hann varð fyrir og ekki síst síðasta árið sem var markað áföllum.
Þrátt fyrir fjöldatakmarkanir erum við mörg sem kveðjum Guðlaug hér í dag og enn fleiri fylgjast með athöfninni á Vefnum.
Hingað hafa borist samúðaróskir frá Ingunni og Agli sem búa í Nuuk á Grænlandi og frá Pétri mági Guðlaugs sem er á Madeira með bestu kveðjum til ástvina.
Guðlaugur var Valsari og stóð oft í markinu í fótbolta en Valur fagnaði 110 ára afmæli s.l. miðvikudag.
Til er saga frá því fyrir meira en öld en Valur var stofnaður árið 1911. Þá var séra Friðrik að fylgjast með strákum og sá að einn stóð afsíðis milli tveggja grjóthrúga og fann til með honum og hélt að hann væri hafður útundan enda vissi séra Friðrik í raun lítið um þennan leik sem er orðinn svo vinsæll í dag sem raun ber vitni.
Þá sagði Séra Friðrik:
Þeir voru byrjaðir á leik sínum í stórri þyrpingu, og sá ég þar mikil þot og hlaup fram og aftur […]. Svo gekk ég nokkuð þar suður eftir, og sá ég einn dreng standa þar einmana, og voru tvær steinhrúgur sitt á hvora hlið hans. Ég hafði lagt ríkt á við þá að sýna félagslyndi og vera góðir hvorir við aðra. Gekk ég því til hans og spurði í meðaumkunarrómi: Hafa þeir verið vondir við þig og rekið þig úr leiknum?
Hann leit forviða á mig og sagði: Nei!
Af hverju ertu þá ekki í leiknum?
Hann svaraði:
Ég er í leiknum, ég er markmaður og stend hér í gulli (goal).
Og séra Friðrik bætti við og sagði:
Ég sá, að ég skildi ekki, sagði samt ekki meira, en sá ekkert gull.
„Allt er í heiminum hverfult“. Gull er engin trygging fyrir velgengni og að skora mark ekki heldur, en það er þó skemmtilegra fyrir markmann að verja mark en ekki og skemmtilegra fyrir útherja að skora en brenna af.
Það er synd að brenna af í lífinu en orðið synd á grísku, frummáli Nýja testamentisins, er hamartia, sem merkir einmitt að missa marks, að geiga.
Við missum oft marks og við geigum en við eigum ætíð möguleika á betri tíð, nýrri framtíð, fyrirgefningu og náð.
Kristin trú horfir fram á veginn í trú og á sér von, drauma og þrár. Fólkið sem lagði grunn að þessum helgidómi sá hann fyrir sér í draumsýn, sem nánast óyfirstíganlegt verkefni, sem mundi taka áratuga baráttu og strit. En draumurinn rættist!
Hver er draumur þinn? Hvað þráir þú innst inni? Á hvað trúir þú í lífinu? Seturðu mark þitt á stóra drauma, betri tíð, betra líf – eilíft líf?
Trúin horfir til himins eins og lærisveinar Jesú gerðu er hann var uppnuminn að þeim ásjáandi á uppstigningardag, 40 dögum eftir páska, en páskarnir eru sjálf upprisuhátíðin og næstu 40 dagar nefndir gleðidagarnir.
Við minnumst áfanga á vegi trúarinnar, höldum jól og páska og eigum frí á öðrum kirkjulegum helgidögum. Við stöndum eins og drengurinn í sögunni um séra Friðrik, „í gulli“ – í markinu. Þar er enginn útundan því með okkur fylgist sá sem allt elskar og engum gleymir.
Í dag kveðjum við Guðlaug Björgvinsson með virðingu og djúpri þökk fyrir allt hið góða sem í honum bjó og hann sýndi sínum nánustu og samferðafólki sínu.
Hann er horfinn frá okkur á vit þess Guðs sem stendur í marki himinsins og grípur hann traustum höndum og kærleiksríkum í sumarlandinu fagra, landi endurfundanna.
Guð blessi minningu Guðlaugs Björgvinssonar og Guð blessi þig á lífsveginum, þig sem stendur enn „í gulli“ – í marki lífsins.
Gríptu boltann, gríptu tækifærið, eða eins og postulinn orðaði það í bréfi sínu til vinar síns Tómóteusar: „Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið sem þú varst kallaður til“ (I. Tím 6.12).
Amen.
– – –




Streymt verður frá útförinni á: